Arfleifð

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Þungunarrof»  Arfleifð

Greinargerð jafnréttisráðs skýrsla forsætisráðherra um jafnréttismál 2018-2019

Fóstureyðingalögin frá 1975 giltu nær óbreytt þar til ný löggjöf um þungunarrof var samþykkt á Alþingi í maí 2019 eða í um 44 ár. Jafnframt voru þá sett lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir sem eru í raun gömlu lögin frá 1975, en mikið breytt (samanber 13. grein nýju laganna frá 2019).

Í tilefni af nýrri löggjöf um þungunarrof veitti Jafnréttisráð Rauðsokkahreyfingunni jafnréttisviðurkenningu á árinu 2019 við hátíðlega athöfn. Í viðurkenningarskjalinu, sem er undirritað af forsætisráðherra og formanni Jafnréttisráðs, segir: „Barátta Rauðsokkanna gerði heiminn betri og ruddi brautina fyrir komandi kynslóðir. Rauðsokkurnar eru okkur innblástur til að halda áfram baráttunni fyrir kvenfrelsi og jafnrétti.“ Ellefu Rauðsokkar úr hópi stofnenda hreyfingarinnar tóku á móti skjalinu. Ein þeirra flutti þakkarávarp þar sem hún sagði að samstaðan í blíðu og stríðu hefði fleytt hópnum áfram í þessari erfiðu baráttu og minntist jafnframt Vilborgar heitinnar Harðardóttur sem hafði verið í forystu í þessu máli og dregið vagninn.

Í greinargerð Jafnréttisráðs segir meðal annars: „Frumvarp Rauðsokkanna um frjálsar fóstureyðingar náði ekki fram að ganga en útvatnað frumvarp varð að lögum árið 1975. Þau lög voru engu að síður mikið framfaraskref og óhætt að fullyrða að ef Rauðsokkurnar hefðu ekki sett kyn- og frjósemisréttindi á dagskrá værum við komin skemur á veg. Barátta þeirra var mikið átakamál og þeim var stillt upp í fjölmiðlum sem lauslátum, siðspilltum og vondum mæðrum. Baráttan tók á og fólk jafnvel hvæsti á þær af hatri. Það þarf ekki bara kjark og staðfestu til að berjast fyrir kvenfrelsi við þessar aðstæður, það þarf líka brennandi ástríðu til að breyta heiminum til betri vegar.“

Fyrri síða Breytt frumvarp og lög 1975

Næsta síða Skjöl