Dreifbýlishópur Rauðsokkahreyfingarinnar

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Rauðsokkaandi um landið»  Dreifbýlishópur Rauðsokkahreyfingarinnar

 

Forvitin rauð 5. árg 1. tbl bls 11

Dreifbýlishópur Rauðsokkahreyfingarinnar var stofnaður vorið 1976 „vegna sívaxandi áhuga fólks úti á landi á að ræða um jafnréttismál“ og starfaði um tveggja ára skeið. Tilgangurinn var að mynda tengsl við áhugasama hópa um landið. Verkefni hópsins fólust meðal annars í að hvetja konur til þátttöku, safna fréttum af kvennahópum á landsbyggðinni og senda þeim hugmyndir að umræðuefnum. Hópurinn var í tengslum við um 70 konur víða um land og sendi um tug kvenna efni um jafnréttismál og tillögu að starfsáætlun fyrir leshringi. Í blaðinu Forvitinni rauðri í maí 1976 voru konur í dreifbýlinu hvattar til að taka þátt í kvennabaráttunni og sagt frá starfshópnum og efni fyrir leshringi um jafnréttismál. Hópnum bárust bréf frá konum víða að af landinu, svo sem Akureyri, Akranesi og Seyðisfirði, og hann fékk heimsóknir frá konum af landsbyggðinni, til dæmis frá Akureyri, Neskaupstað, Ytri Njarðvík, Keflavík og Vopnafirði. Íslenskar konur í Kaupmannahöfn voru að auki í tengslum við hópinn. En róðurinn var þungur. Á ársfjórðungsfundi Rauðsokka sem haldinn var í Sokkholti í apríl 1977 kvartaði dreifbýlishópurinn yfir því að „vinnuþrælkun hér á landi [stæði] tímafreku hópstarfi ... mjög fyrir þrifum.“ Rauðsokkasíða Þjóðviljans, sem stýrt var af Rauðsokkum á árunum 1974 til 1980, var einnig tengiliður milli hreyfingarinnar í Reykjavík og Rauðsokka annars staðar á landinu. Þar voru birt viðtöl við Rauðsokka á landsbyggðinni og sagðar fréttir af starfi þeirra.

Árangur af hvatningu dreifbýlishópsins til stofnunar leshringja mátti, sem dæmi, sjá í Neskaupstað. Á vorönn 1976 buðu Námsflokkar Neskaupstaðar upp á námshóp um jafnréttismál. Þátttakendur voru um tíu að tölu og fengu í upphafi afhenta möppu með áætlun um 12 fundi, lesefni og verkefnum. Í möppunni var meðal annars efni frá dreifbýlishópnum. Um mitt námskeiði eða í mars 1976 stóð ein þátttakenda, sem var nemandi í Gagnfræðaskólanum í Neskaupstað, að málfundi um jafnréttismál á vegum nemendafélags skólans. Þar var lagður fyrir spurningalisti um jafnrétti kynjanna.

Fyrri síða Kvennaár í Neskaupstað

Næsta síða Jafnréttisnefnd Neskaupstaðar