Staðan 1970

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Fjölskyldan»  Staðan 1970

KSS63_A49_022Konurnar sem stofnuðu Rauðsokkahreyfinguna árið 1970 lifðu á miklum umbrotatímum í sögu kvenna um miðbik 20. aldarinnar. Þær lifðu tímana tvenna, ef svo má segja, með annan fótinn í þeirri veröld sem þær hlutu uppeldi til, en stigu fullorðnar inn í annan og ólíkan heim. Flestar voru aldar upp til að verða húsmæður og mæður í samræmi við hefðbundið hlutverk kvenna í fjölskyldunni og að eiginmaðurinn yrði fyrirvinnan og þar með höfuð fjölskyldunnar.KSS63_A1_055_starfshopur11_a

Faðirinn var fyrirvinnan, ók fjölskyldubílnum ef til var, og aðeins nafn hans var í símaskránni og á dyrabjöllunni. Sá tími var reyndar kominn að sumar fengu hvatningu til mennta, en ekki var endilega búist við því að þær nýttu menntun sína til vinnu utan heimilis. Á sjötta áratugnum söng Doris Day: „I asked my mother, what will I be. Will I be pretty? Will I be rich?“ Það er: Eignast ég ríkan mann? Þetta var líka veröldin sem blasti við þessum konum í sögubókum, lestrar- og reikningsbókum og öðrum kennslubókum. En komin voru skörð í þessa mynd þegar hér var komið. Því fylgdi umrót og órói og þar inn stigu Rauðsokkarnir.

Ekki er ólíklegt að foreldrar og aðrir uppalendur hafi verið „einu skrefi á eftir nútímanum í uppeldi barna sinna“, eins og sagði í ályktun starfshóps á Kvennaársráðstefnunni 1975. Því má segja að Rauðsokkarnir hafi verið nokkurs konar tengiliður á milli kynslóða. Þær vildu vera „góðar húsmæður" eins og þær voru aldar upp til en um leið mennta sig og vera virkir þátttakendur í atvinnulífi og samfélagi, eins og reyndar margar konur voru þegar á þessum tíma; í fullu starfi, hlutastarfi, tímabundnum störfum eða unnu með eiginmönnum sínum í fjölskyldufyrirtæki. Árið 1960 voru um 22% allra kvenna á Íslandi virkar í atvinnulífinu, ógiftar konur voru 74% þeirra en giftar konur 26%. Árið 1963 var hlutfall giftra kvenna af útivinnandi konum komið upp í um 37% og 1970 var hlutfallið orðið 52%, eða aukning um hundrað prósent. Því er ekki að undra að staða konunnar í fjölskyldunni væri í brennidepli baráttunnar.

En hvað var fjölskylda? Ein Rauðsokkanna, Hildur Hákonardóttir, orðaði það svo að ef tveir eða fleiri deildu eldhúsi saman væri það fjölskylda og þannig væru fjölskyldur margvíslegar að gerð og stærð. Aðrir sáu fyrir sér „hina hefðbundnu fjölskyldu“ – foreldra og börn.

 

Sjá nánar: Menntun, Vinnumarkaður

 

Fyrri síða Fjölskyldan

Næsta síða Flest baráttumálin tengd fjölskyldunni