Efnisyfirlit
Það er eðli sjálfsprottinna grasrótarhreyfinga að þær rísa og hníga. Í byrjun níunda áratugarins var farið að fjara undan hreyfingunni. Virkni hennar var að mestu borin uppi af miðstöð, en í henni voru um það bil átta til tíu konur sem gátu virkjað tvisvar til þrisvar
sinnum fleiri félaga til starfa kringum ákveðnar baráttuaðgerðir. Þó að enn væri virkni í hreyfingunni, eins og sjá má á tímaásnum, og nokkrar ungar konur kæmu enn til starfa og stofnuðu fjöruga grunnhópa, voru fjármál erfið. Það tókst að blása nýju lífi í Forvitna rauða 1980−1982, en eins og svo oft áður voru fáar sem drógu vagninn.
Vaxandi hópur innan Rauðsokkahreyfingarinnar var í grundvallaratriðum orðinn ósáttur við marxíska stefnu hennar og skírskotun til kvenna og hafði gagnrýnt hvort tveggja innan frá. Jafnframt hafnaði hópurinn hefðbundnu stjórnmálaflokkunum og taldi nýjar áherslur í kvennabaráttunni farsælli til uppbyggingar kvennahreyfingar. Þetta voru áherslur á kvennamenningu og kvennasögu. Þær vildu hreyfingu sem væri ekki anarkísk og bæri ekki vantraust til þingræðisins, en það einkenndi róttækasta hluta Rauðsokkahreyfingarinnar í byrjun níunda áratugarins, heldur væri valdeflandi fyrir konur sem væru tilbúnar að berjast fyrir hugmyndum sínum eftir lýðræðis- og þingræðislegum leiðum.
Hópurinn taldi Rauðsokkahreyfinguna hafa runnið sitt skeið og marxískur málflutningur hennar ætti ekki lengur hljómgrunn.
Lögð var fram tillaga þann 15. desember 1981 um að Rauðsokkahreyfingin yrði lögð niður en sú tillaga var felld. Rauðsokkar sem vildu halda hreyfingunni óbreyttri tóku til mótmæla, meðal annars á vettvangi Forvitinnar rauðrar. Hópurinn sem að tillögunni stóð, gekk síðan úr hreyfingunni og stofnaði hina nýju kvennahreyfingu, Kvennaframboðið, sem síðar varð Kvennalistinn. Sú hreyfing átti sér skörulegan kvennabaráttuferil næsta áratuginn. Rauðsokkahreyfingin var lögð niður árið 1982.
Fyrri síða Gagnrýni frá vinstri
Næsta síða Skjöl