Efnisyfirlit
Það var stutt í óvildina í garð Rauðsokka, sem lýsir sér glöggt í reiðinni sem braust út í kringum Fjölskylduhátíð Rauðsokka, Frá morgni til kvölds, í Tónabæ í nóvember 1978.
Þann 9. nóvember 1978 birtist grein í Dagblaðinu undir yfirskriftinni „Vettvangur svalls kommaklíku”, undirritað „Fyrrverandi fastagestur í Tónabæ”. Bréfritari lýsir skelfilegri aðkomu að Tónabæ þegar hann mætti á staðinn, þar hafi tómar brennivínsflöskur „legið eins og hráviði um allt hús”. Kjarni gagnrýninnar birtist svo í lok greinar þegar höfundur segir að „valkyrjur borgarstjórnarmeirihlutans” hljóti að hafa verið ánægðar með hátíðina því Tónabær hafi verið skrýddur fallegum byltingarfánum“ og æskulýðnum hefði verið úthýst á meðan klíka sértrúarfólks hafi notað skemmtistað hans undir svallveizslu.“
Rauðsokkar svöruðu þessari grein í Þjóðviljanum strax 15. nóvember undir yfirskriftinni „Dansleikurinn var til fyrirmyndar” og leiðréttu þar rangfærslur, en málinu var ekki lokið.
Æskulýðsráð samþykkti vítur á Rauðsokkahreyfinguna mánudaginn 18. desember og hélt því fram að hreyfingin hefði blekkt ráðið með því að fjölskylduhátíð ætti að fara fram og brotið bann við vínveitingum í húsinu. Davíð Oddsson lét bóka harðorða yfirlýsingu um blekkingar og svik Rauðsokka og taldi af og frá að ráðið ætti samskipti við þennan félagsskap í framtíðinni.
Rauðsokkahreyfingin svaraði hinum harkalegu ályktunum og aðgerðum Æskulýðsráðs og benti á að hreyfingin hefði ekki verið látin vita um þessa skilmála, samið hefði verið munnlega um ákveðið gjald og góðan frágang á húsnæðinu og bæði skilyrðin hefðu verið uppfyllt. Vínveitingaleyfi hafði verið fengið hjá Lögreglunni í Reykjavík, stílað á Tónabæ en húsið hafði þá staðið autt og ónotað í marga mánuði. Nokkrum mínútum fyrir dansleikinn um kvöldið komu boð um að ekki mætti veita vín en það hefði verið of seint fram komið.
Margrét S. Björnsdóttir, fulltrúi í Æskulýðsráði, tók málstað Rauðsokka fyrir í greininni „Óvanaleg vinnubrögð” í Þjóðviljanum 23. desember og benti á að Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur hefðu augljóslega verið að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Það ætti ekki að koma fyrir aftur að leigjendum hússins væru ekki kynntir leiguskilmálar. „Valkyrjur borgarstjórnarmeirihlutans“ (Adda Bára, Guðrún Helgadóttir og Sjöfn Sigbjörnsdóttir) gátu þá andað léttar.
Fyrri síða Stuðningur og gagnrýni
Næsta síða Rauðsokkasíðan