Stóra kvennaráðstefnan - verkfall verður frí

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Kvennaárið 1975»  Stóra kvennaráðstefnan - verkfall verður frí

Í júní 1975 var svo haldin tveggja daga ráðstefna á Hótel Loftleiðum sem samstarfsnefndin stóð fyrir. Hana sátu um 300 manns víðs vegar af landinu. Sótt var um 700 þúsund króna styrk til að halda ráðstefnuna en aðeins 350 þúsund fengust. Þrettán framsöguerindi voru flutt og síðan völdu gestir á milli jafnmargra umræðuhópa. Ekki var laust við að þetta minnti á þær ráðstefnur sem á undan komu. Af umræðuhópunum „áttu“ Rauðsokkar tvo hópa, það er framsögumaður, umræðustjóri og ritari voru úr þeirra röðum. Þetta voru hóparnir um „Jafnréttisbaráttuna“ og „Jafnrétti – jafnstöðu“. Einnig áttu konur í Rauðsokkahreyfingunni sterk ítök í hópnum þar sem rætt var um „Verkakonur fyrr og nú“. Þótt hópunum væri skipt eftir málaflokkum, ræddu og ályktuðu margir þeirra um sömu atriðin. Einkum voru þetta fæðingarorlof og ábyrgðin á uppeldi barna, verkaskipting á heimilum, kynbundin hvatning til náms og kynbundin menntun, launamisrétti og svo hvort konur yrðu að ganga inn í karlasamfélagið til að ná frama eða jafnvel til að komast af. Því síðastnefnda var alls staðar hafnað. Eins voru stéttasamtök harðlega gagnrýnd fyrir að hamla framgangi kvenna og málefnum þeirra. Tveir af fimmtán í miðstjórn ASÍ voru konur en 43% félaga, og var þessu beint bæði að verkalýðsfélögunum og bændasamtökunum, en engin kona var í stjórn Búnaðarfélagsins hvorki vara- né aðalmaður.

365 KVE 021 05

Eins voru stjórnmálaflokkarnir ávítaðir fyrir að koma í veg fyrir að konur gætu haft áhrif í æðstu valdastöðum. Báðir „Rauðsokkahóparnir“ tóku kvennaverkfallið fyrir og voru því fylgjandi. Í almennum umræðum í lok ráðstefnunnar voru ályktanir hópanna bornar undir atkvæði og undir lok þeirrar atkvæðagreiðslu komst kvennaverkfallið á dagskrá en þó ekki fyrr en átta konur tóku sig saman og báru tillöguna fram formlega. Raðað var vandlega í þennan hóp til að sýna fram á að hugmyndin ætti sér fjölbreytilegt fylgi, bæði hvað varðaði aldur og stöðu. Konurnar í hópnum voru Bessí Jóhannsdóttir, Björg Einarsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Lilja Ólafsdóttir, Sigríður Friðriksdóttir, Valborg Bentsdóttir og Þorbjörg Jónsdóttir.

Tillagan sem borin var upp var líklega svona: „Kvennaráðstefnan, haldin dagana 20. og 21. júní 1975, skorar á konur að leggja niður störf á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október næstkomandi til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns.“ Stóð nú í stappi og konur tóku jafnvel að tínast burtu en þá snaraðist Valborg Bentsdóttir í pontu og spurði hvort það væri „verkfall“ sem konur væru hræddar við og hvort ekki mætti þá bara kalla þetta „frí". Kvennafríið var samþykkt með 72 atkvæðum gegn 18. Rauðsokkum þótti aðgerðin mikilvægari en orðið og samþykktu, þótt ekki væru allar sáttar við niðurstöðuna.

Kvennafrídagurinn 24. október 1975

KSS2021.11_A1_124Eftir þetta óx hugmyndinni um kvennafrí mjög fylgi, Rauðsokkar voru bjartsýnir eins og sést á ummælum Vilborgar Harðardóttur um miðjan ágúst og Þuríðar Magnúsdóttur mánuði seinna. Málið var einnig tekið fyrir á ráðstefnu ASÍ og BSRB í Munaðarnesi í september, en þar voru nokkrir Rauðsokkar þátttakendur. Konurnar sem fluttu tillöguna á stóru ráðstefnunni boðuðu til fundar í Hamragörðum í september þar sem saman komu konur frá mörgum samtökum og var undirbúningshópnum falið að koma með skýrar tillögur á næsta fundi fjórum dögum seinna. Framkvæmdanefnd kvennafrídagsins hóf svo strax undirbúning enda ekki nema sex vikur til stefnu. Líkt og með hópinn sem bar fram tillöguna um verkfallið á stóru ráðstefnunni voru valdar í hana konur frá ýmsum samtökum, með ólíkar stjórnmálaskoðanir og á ýmsum aldri. Upphaflega var gert ráð fyrir aðal- og varamanni en þegar til kom unnu allar saman. Í nefndinni voru Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Bessí Jóhannsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir (Rauðsokka), Erna Ragnarsdóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Margrét S. Einarsdóttir, Stella Stefánsdóttir, Þorbjörg Jónsdóttir og Þuríður Magnúsdóttir (Rauðsokka), en ritari var ráðin Björg Einarsdóttir (Rauðsokka). Þetta var sundurleitur hópur en ekki sundurlyndur. Vinnunni var skipt niður á fimm starfshópa: dagskrárhóp, fjáröflunarhóp, fjölmiðlahóp, kynningarhóp og landsbyggðarhóp en tvær framkvæmdanefndarkonur voru í hverjum hópi. Landssamtök, svo sem kvenfélög stjórnmálaflokka, notuðu sín sambönd til að ná til kvenna og Kvenfélagasambandið tók þátt í undirbúningi af miklum myndarskap, en það hafði þéttriðið tengslanet sem náði til alls landsins. Nefndin fékk aðstöðu á Hallveigarstöðum og húsráðendur þar létu stundum færa nefndarkonum mat ef unnið var lengi fram eftir. Fjárstuðningur barst líka frá nokkrum samtökum, svo sem Sókn, og vinnustöðum, en aðrir voru ekki jafn sáttir og nokkrir atvinnurekendur hótuðu þeim uppsögnum sem ekki mættu til vinnu. Ríkisvaldið vildi vita hvernig starfsmenn þess höguðu sér, að minnsta kosti lét menntamálaráðuneytið senda sér upplýsingar um hvernig konur mættu verkfallsdaginn.

KSS63_A13_127

Í mörgu þurfti að snúast varðandi undirbúning og alltaf þurfti að hafa í huga að allar upplýsingar hefðu sem víðasta skírskotun. Til dæmis þurfti að velja mynd á veggspjald og varð Vatnsberi Ásmundar Sveinssonar fyrir valinu og sex þúsund eintök prentuð. Eins voru prentuð 25.000 eintök af merki dagsins sem selt var til að afla fjár. Semja þurfti dreifibréf á nokkrum tungumálum (47.000 eintök) og dagskrár fyrir fundi og samkomur. Einnig þurfti að semja alls konar bréf, skrifa utan á þau, hringja um allt og senda svo flest af gögnunum í pósti vítt og breitt um landið, því engar voru tölvurnar. Þetta krafðist því mikillar vinnu og gott að fá til liðs konur sem kunnu til verka. Konur á hverjum stað sáu um að skipuleggja dagskrár og til þess þurfti meðal annars sönghópa og einsöngvara, hljómsveitir skipaðar konum og myndlistarkonur, til dæmis nemendur og kennara Myndlistar- og handíðaskólans í Reykjavík sem komu saman og gerðu borða og spjöld. Leikkonur, söngkonur og aðrar tónlistarkonur lögðu fram sérþekkingu sína, æfðu söngva og önnur atriði og söngvarnir voru svo gefnir út á plötu sem varð mjög vinsæl. Áfram stelpur! Eins var mikil jafnvægiskúnst að velja ræðumenn því þar mátti ekki halla á neinn. Í Reykjavík og víðar var dagskráin á hverjum stað sett í blöðin, auk þess sem hvatningarbréf voru borin í hús. Nokkur stéttarfélög sendu stuðningsyfirlýsingar. Þegar dagurinn rann loksins upp kom ýmislegt í ljós: Fyrirtæki stór og smá lokuðu eða störfuðu ekki nema að hluta, forstjórar sóru af sér að þeir ætluðu að standa í vegi fyrir verkfallsaðgerðunum, ekki var hægt að prenta öll laugardagsblöðin og því birtust frásagnir af atburðum ekki fyrr en á sunnudag eða eftir helgina.

 

Á föstudagsmorguninn var útvarpið tekið yfir. Þetta var vel undirbúin aðgerð þar sem Jón Múli Árnason þulur vék fúslega fyrir Vilborgunum þremur: Dagbjartsdóttur, Harðardóttur og Sigurðardóttur, öllum úr Rauðsokkahreyfingunni. Spiluð var viðeigandi tónlist og málin rædd. Hvað gerðist í dag, 24. október 1975. Ríkisútvarpið.

 

Í Reykjavík var í uppsiglingu fjölmennasti fundur Íslandssögunnar og konur komu saman á að minnsta kosti tuttugu öðrum stöðum víðs vegar um landið. Reykjavíkurfundurinn vakti auðvitað mesta athygli, konur voru glaðar, upphafnar og undrandi. Fyrirsagnir eins og „Glæsilegur vitnisburður um baráttuhug“ einkenndu íslensku blöðin og ræðurnar voru birtar í blöðunum. Minnstu munaði þó að hin snjalla ræða Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur færi forgörðum því hún var flutt blaðalaust og ekki tekin upp. Sem betur fer áttuðu tvær konur úr Rauðsokkahreyfingunni sig á þessu í tæka tíð, fóru heim til Aðalheiðar og hún endurflutti ræðuna fyrir þær heima í eldhúsi en þær stöllurnar Lilja Ólafsdóttir og Þuríður Magnúsdóttir voru vanir ritarar. Þá voru líka birt viðbrögð erlendra blaða við aðgerðunum og þótt til dæmis sænska blaðið Dagens Nyheter hafi spurt „Vet dom vad dom ställer til med?” nokkrum dögum fyrir fundinn þá leyndi undrun og aðdáun ýmissa erlendra fjölmiðla sér ekki eftir hann. Ekki þótti Íslendingum þetta verra.

Fyrri síða Láglaunaráðstefnan

Næsta síða Áfram stelpur