Arfleifð

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Vinnumarkaðurinn»  Arfleifð

Á síðustu árum Rauðsokkahreyfingarinnar unnu um 70% giftra kvenna utan heimilis samkvæmt upplýsingum Jafnréttisráðs og úti á vinnumarkaðnum voru að auki einstæðar mæður og einhleypar konur. Konur fóru smám saman í meiri mæli en áður að hasla sér völl í starfsgreinum sem áður voru nær eingöngu í höndum karla; fyrsta konan varð aðstoðarmaður ráðherra árið 1971, fyrsta konan var vígður sóknarprestur árið 1974, fyrsta konan varð konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands sama ár, fyrsta konan var skipuð sýslumaður 1979, fyrsta konan var skipuð skólameistari framhaldsskóla árið 1982 og fyrsta konan var skipuð hæstaréttardómari árið 1986 (hafði verið sett frá 1982). Kjör Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta Íslands árið 1980 vakti einnig heimsathygli þegar hún varð fyrst kvenna í heiminum til að gegna embætti þjóðkjörins forseta.

Umtalsverðar breytingar hafa orðið á aðstæðum kvenna á vinnumarkaði frá því á tímum Rauðsokkahreyfingarinnar og sumum hindrunum hefur verið rutt úr vegi. Um 20 árum eftir að Rauðsokkahreyfingin var lögð niður var loks völ á heilsdags leikskóladvöl fyrir börn frá unga aldri og frístundaheimili komin við grunnskóla. Menntun kvenna stórjókst og tók breytingum á sama tíma. Engu að síður er misrétti enn til staðar sem og margar hindranir sem Rauðsokkar börðust við. Konur eru með lægri laun en karlar og enn virðist kyn skipta máli við ráðningar í störf. Það hefur einnig gerst að tölvubyltingin hefur haft áhrif á störf og útrýmt sumum, ekki síst í atvinnugreinum þar sem konur voru fjölmennar, eins og í frystihúsum, verksmiðjum, bönkum, á skrifstofum og í ýmsum öðrum þjónustustörfum. En vitundarvakningin sem Rauðsokkar efldu lifir enn góðu lífi.

Fyrri síða Hindranir

Næsta síða Skjöl