8. mars - Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Uppruni 8. mars


Zetkin_luxemburg1910-litilAlþjóðlegur baráttudagur kvenna var fyrst haldinn hátíðlegur meðal sósíalískra kvenna í Danmörku, Þýskalandi, Austurríki og Sviss þann 19. mars árið 1911. Svíþjóð, Frakkland og Holland bættust síðan við árið 1912 og árið 1913 var alþjóðlegs baráttudags kvenna einnig minnst í Tékkóslóvakíu og Rússlandi. Árið 1914 söfnuðust konur þúsundum saman í Þýskalandi 8. mars og var það upphafið að stórum mótmælafundum og kröfugöngum verkamanna og –kvenna sem stóðu í heila viku. Árið 1917 gerðu konur í Pétursborg verkfall til að krefjast betri kjara og friðar. Allir pólitískir leiðtogar lögðust gegn verkfallinu en konurnar héldu sínu striki. Þennan dag bar upp á 8. mars samkvæmt okkar tímatali. Fjórum dögum síðar sagði keisarinn af sér og bráðabirgðastjórn veitti konum kosningarétt. Rússneska byltingin var hafin. Hugmyndina að sérstökum baráttudegi kvenna átti Clara Zetkin, þýsk kvenréttindakona og sósíalisti, sem bar hana fyrst upp á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 1910. Þann fund sóttu 130 konur frá 16 löndum. Ekki var ákveðin dagsetning fastsett, en mikilvægt var að velja sunnudag þar sem það var eini frídagur verkakvenna í þá daga. Þess vegna voru dagsetningar nokkuð á reiki fyrstu árin en þó ætíð í marsmánuði. Fyrstu árin voru baráttumál kvennadagsins kosningaréttur kvenna og samstaða verkakvenna.

Árið 1921 ákvað Alþjóðasamband kommúnista að samþykkja tillögu Clöru Zetkin um að 8. mars yrði þaðan í frá baráttudagur kvenna. Vísað var til rússnesku byltingarinnar og þeirrar skriðu sem verkfall verkakvenna hafði hrundið af stað árið 1917.

Mjög var misjafnt eftir löndum hvernig og hvort baráttudags kvenna var minnst. Minna fór fyrir honum eftir því sem tímar liðu og þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi árið 1933 voru öll samtök kvenna bönnuð og 8. mars gerður að mæðradegi. Alþjóðasamband lýðræðissinnaðra kvenna var stofnað í París árið 1945. Þau samtök ákváðu að dagurinn 8. mars yrði baráttudagur kvenna fyrir friði. Þann fund sat ein íslensk kona, Laufey Valdimarsdóttir, fulltrúi Kvenréttindafélags Íslands.

Með tilkomu nýju kvennahreyfingarinnar um 1970 gekk 8. mars í endurnýjun lífdaga. Sameinuðu þjóðirnar lýstu árið 1975 alþjóðlegt kvennaár og ákváðu 1977 að 8. mars skyldi vera alþjóðlegur kvennadagur Sameinuðu þjóðanna.

Saga 8. mars á Íslandi


Hér á landi var dagsins sennilega fyrst minnst árið 1932 á fundi Kvennanefndar Kommúnistaflokks Íslands, og síðan árlega eftir það af þeim samtökum og A.S.V. (Alþjóðasamhjálp verkalýðsins). Síðan tók Kvenfélag sósíalista upp þráðinn, en það var stofnað 30. mars 1939. Félagið tengdi saman afmælisdag sinn og 8. mars og minntist dagsins með ýmsum hætti. Á árshátíð Kvenfélags Sósíalistaflokksins 8. mars 1948 flutti t.d. Dýrleif Árnadóttir ræðu um 8. mars og baráttu kvenna gegn stríði og fasisma og Petrína Jakobsdóttir flutti erindi um Alþjóðasamband lýðræðissinnaðra kvenna og baráttu þess gegn stríði og fasisma. Ljóð voru flutt og Guðmunda Elíasdóttir söng við undirleik Fritz Weishappels. Kaffi var drukkið og dans stiginn. Árin 1951 og 1952 gekkst Kvenfélag Sósíalistaflokksins fyrir almennum kvennafundum þann 8. mars þar sem m.a. voru samþykktar ályktanir um að Ísland gengi úr Atlantshafsbandalaginu.

Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, MFÍK, voru stofnuð árið 1951 og urðu strax deild í Alþjóðasambandi lýðræðissinnaðra kvenna. Þau stóðu fyrir opnum fundi í Stjörnubíó 8. mars 1953 og var fundarefnið kirkjan og friðarmálin. MFÍK hafa síðan minnst dagsins með fundi þar sem ávarp Alþjóðasambandsins hefur verið lesið upp og samþykktar ályktanir í tilefni dagsins. Á þessum fundum hefur fjöldi þjóðkunnra kvenna og karla komið fram og listamenn hafa lagt sitt af mörkum. Þannig flutti Vigdís Finnbogadóttir ræðu um starf hernámsandstæðinga árið 1961 og Þuríður Pálsdóttir söng með aðstoð Jórunnar Viðar á píanó Árið 1966 var haldinn fundur í Lindarbæ og þar flutti Hörður Ágústsson listmálari erindi um þróun íslenskrar byggingalistar frá söguöld til vorra daga og sýndi skuggamyndir.

Baráttan gegn bandarísku herstöðinni og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var fyrirferðarmikil á dagskrám MFÍK lengi vel, enda samtökin beinlínis stofnuð til að berjast fyrir friði í heiminum. Andófið gegn Víetnamstríðinu setti nokkurn svip á dagskrána á 7. og 8. áratugunum.

Árið 1978 stóðu MFÍK, Rauðsokkahreyfingin og Kvenfélag sósíalista fyrir dagskrá 8. mars sem bar heitið „Kjör verkakvenna fyrr og nú.“ Þessi dagskrá var síðar tekin saman í fjölritað hefti og selt. Árið 1984 efndu 8 kvennasamtök til sameiginlegrar dagskrár 8. mars með MFÍK auk þess sem Kvennalistakonur efndu til aðgerða fyrir utan matvöruverslun í Austurstræti og vildu borga 2/3 af uppsettu verði matvara sem þær keyptu. Það sögðu þær vera í samræmi við launamun kynjanna í íslensku samfélagi.

Frá árinu 1984 hefur MFÍK staðið fyrir almennum fundi 8. mars ásamt fjölda annarra samtaka og stéttarfélaga. Fleiri samtök hófu að minnast 8. mars á 10. áratugnum með sérstökum hætti. Samtökin Stígamót voru stofnuð 8. mars 1990. Unifem á Íslandi hefur verið með fundi og á Akureyri hafa samtök minnst dagsins frá árinu 1992.

Heimildir og ítarefni:
- Evans, Richard J. 1987. Comrades and Sisters. Feminism, Socialism and Pacifism in Europe 1870-1945. Brighton, Sussex: Wheatsheaf Books: St. Martin's Press. 
- Slaughter, Jane & Robert Kern (ritstj.), 1981. European Women on the Left. Socialism, Feminism and the Problems Faced by Political Women, 1880 to the Present. Westport, Conn.: Greenwood Press.
- 8. mars! Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Rauðsokkahreyfingin, Kvenfélag sósíalista og MFÍK, 1978.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Kvennasögusafn Íslands:
KSS 17. Kvenfélag Sósíalista. Fundargerðabækur Kvenfélags socialista og Sósíalistaflokksins. 
KSS 31. Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna. Fundargerðabækur.
KSS 32. Alþjóðlegur baráttudagur kvenna 8. mars. 
KSS 63. Rauðsokkahreyfingin.
KSS 75. Elín Guðmundsdóttir. „Nokkur orð um 8. mars“ eftir Elínu Guðmundsdóttur (1912-2003).
Blaðaúrklippur um 8. mars í fórum Kvennasögusafns Íslands

*Auður Styrkársdóttir tók saman 2011-2012
*Síðast uppfært 2. mars 2021