Kvennaáratugurinn 1975−1985

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Kvennaárið 1975»  Kvennaáratugurinn 1975–1985

plagat kvennaráðstefna mexicoHaustið eftir kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Mexíkó 1975 samþykkti Allsherjarþingið að næsti áratugur skyldi helgaður málefnum kvenna og markmið hans yrðu jafnrétti, framþróun og friður. Ríkisstjórnin sendi þrjá fulltrúa á Mexíkó ráðstefnuna, þær Auði Auðuns lögfræðing, sem var formaður, Sigríði Thorlacius ritstjóra Húsfreyjunnar og Vilborgu Harðardóttur blaðamann frá Rauðsokkahreyfingunni. Undirbúningur var enginn eða eins og Vilborg nefndi í viðtali seinna: „Við fengum þingskjölin daginn áður en við lögðum af stað, og við höfðum ekkert til að fara eftir, enga aðstoð á ráðstefnunni og ekkert í fórum okkar annað en bókina Jafnrétti kynjanna sem var í poka í farangrinum.“ Rauðsokkar voru þó byrjaðir að undirbúa sig fyrir þetta átak Sameinuðu þjóðanna, eins og sést á bréfi sem sent var út vegna ráðstefnu sem halda átti í Neskaupstað fyrstu dagana í janúar 1975. Þrátt fyrir gott starf kvennasamtaka á kvennaárinu gerðist í fyrstu lítið eins og Guðrún Hallgrímsdóttir benti á þegar kvennaáratugurinn var hálfnaður.

Betur var staðið að undirbúningi næstu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Kaupmannahöfn 1980 og þá gátu íslensku fulltrúarnir líka bent á að frá því í Mexíkó hefði verið hér kvennafríið fræga, jafnréttislög sett  og kona kosin forseti. Kvennaáratugnum lauk svo 1985 með ráðstefnu í Nairobi. Fjórum árum fyrr samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna „Sáttmála um afnám allrar mismununar gegn konum“ þótt Alþingi staðfesti hann ekki fyrr en þetta lokaár. En þegar kvennaáratugnum lauk var búið að leggja Rauðsokkahreyfinguna niður.

Fyrri síða Kvennaárið 1975

Næsta síða Kvennaárið 1975