Kynbundinn launamunur

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Vinnumarkaðurinn»  Kynbundinn launamunur

Þrátt fyrir lögin um launajöfnuð frá 1961 þar sem kveðið var á um að jöfnun launa yrði náð árið 1967 virtust atvinnurekendur frekar leggja kynferði starfsfólks til grundvallar launa en önnur atriði; menntun, hæfni og reynsla kvenna var gjarnan lítt metin til launa.

Menntun og laun

Ein ástæða launamunar kynja var minni menntun kvenna en ekki síður viðhorf til náms- og starfsvals. Stúlkum var beint í ákveðnar greinar og körlum í aðrar. Iðnskólinn leiðbeindi konu sem leitaði eftir ábendingu um iðnám með því svari að stúlkur færu í hárgreiðslu og gullsmíði og svo gætu þær farið í tækniteiknun. Húsmæðraskólarnir voru meðal fárra kosta sem stúlkum í dreifbýli buðust en þeir veittu hvorki starfsmenntun né aðgang að framhaldsskólanámi. Konur með litla menntun höfnuðu í lægstu flokkum. Karlar með hliðstæða menntun höfðu aftur á móti talsverða möguleika á að komast upp eftir launastiganum, jafnvel í hæstu flokka þar sem laun voru samningsatriði milli viðkomandi starfsmanna og vinnuveitenda.

Launakannanir

KSS63_A49_016Rauðsokkar gengust fyrir margvíslegum launakönunum. Árið 1971 gerði starfshópur Rauðsokka athugun á röðun í launaflokka hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og benti á að konurnar röðuðust í neðri flokkana, en karlarnir í þá efri. Hópurinn gerði á sama tíma einnig athugun í tveimur opinberum fyrirtækjum. Mikill munur kom fram á röðun karla og kvenna í launaflokka. Þótt jafnframt væri tekið tillit til menntunar kom fram að konur dreifðust fyrst og fremst á 5.−14. launaflokk, en karlar á 12.−27. launaflokk. Sama ár gerðu starfskonur í banka könnun á kjörum bankastarfsmanna. Niðurstöður voru að í öllum bönkum landsins þar sem störfuðu þá tæplega 1.000 manns, yfir 500 konur og um 450 karlar, reyndust konur i yfirgnæfandi meirihluta í fimm kauplægstu flokkunum, en í efri flokkunum voru karlar í því meiri meirihluta sem ofar dró og einir í þeim efsta. Rauðsokkar skoðuðu einnig launakjör hjá Vinnuskólanum í Kópavogi, hjá Tollstjóra og RÚV með svipuðum niðurstöðum.

Afkastahvetjandi launakerfi

Tímakaup fiskvinnslufólks var með því lægsta sem verkalýðshreyfingin samdi um, en það vann síðan í bónus undir miklu álagi. Afkastahvetjandi launakerfi fóru að festa sig í sessi í byrjun áttunda áratugarins, en jafnframt fór mikil umræða fram um áhrif þeirra. Bent var á að flóknir útreikningar gerðu launþegum ókleift að átta sig á launagreiðslum, sem byggðu á hugtökum eins og staðaltíma, afköstum og nýtingu. Mikil umræða var uppi um heilsufarsleg jafnt sem félagsleg áhrif ákvæðislaunakerfa. Bent var á að afkastamestu fiskvinnslukonurnar, bónusdrottningarnar, væru ungar og brýnt væri að kanna fjölda þeirra sem ynni eftir kerfunum og áhrif þeirra á heilsu, aldurssamsetningu og samstarf á vinnustöðunum

LR 365 sjavarutvegur 20

Formaður kvennadeildar í verkalýðsfélagi orðaði það svona: „Bónusvinnan er þrefaldur þrælapískur á verkakonurnar; vinnudagurinn er alltof langur, konurnar búa við sálræna spennu vegna vinnuhraðans og kapphlaups við vinnufélaga sína, og þar að auki verða þær að vera mjög vandvirkar því þær eiga yfir höfði sér refsiaðgerðir ef gallar finnast á vörunni.“ Til viðbótar bjuggu þær við tvöfalt vinnuálag því heima biðu heimilisstörfin. Könnun frá árinu 1985 sýndi að 70% starfsfólks í fiskvinnslu sýndi einkenni atvinnusjúkdóma og það alvarlegra. Staða erlendra farandverkakvenna í fiskvinnslu var jafnvel enn verri. Ein þeirra lýsti erfiðu verbúðarlífi og vinnuaðstæðum í grein í Forvitinni rauðri árið 1980.

Opinberar samþykktir um laun

Á Alþingi barðist Svava Jakobsdóttir alþingismaður fyrir launajöfnuði kynja og lagði fyrst fram frumvarp um jafnlaunadóm árið 1972 sem Rauðsokkahreyfingin studdi heils hugar. Frumvarpið breyttist í meðferð þingsins í Jafnlaunaráð og voru lög um það samþykkt árið 1973, þar sem kveðið var á um að konum og körlum skyldu greidd jöfn laun fyrir jafn verðmæt og að öðru leyti sambærileg störf. Rauðsokkahreyfingin gaf jákvæða umsögn um frumvarpið sem reyndar allir umsagnaraðilar gerðu, að Vinnuveitendasambandinu einu undanskildu. Fyrstu lög um jafnrétti kvenna og karla voru síðan samþykkt árið 1976 og jafnréttisráð stofnað samkvæmt þeim. Til nýstofnaðs Jafnréttisráðs kom til dæmis erindi frá konum sem fengu 10 þúsund krónum lægri mánaðarlaun en karlar í öðru stéttarfélagi við sömu störf. Þrátt fyrir tilkomu ráðsins reyndist konum örðugt að ná fram leiðréttingum á kjörum sínum og var þingritaramálið 1977 gott dæmi þar um, en konur í hópi þingritara voru mun lægra launaðar en karlar með sama starfstitil.

Verkalýðsmálahópur Rauðsokkahreyfingarinnar gagnrýndi nýja vinnumálalöggjöf í Staglinu, fréttabréfi hreyfingarinnar, árið 1976 þar sem skerðing á samnings- og verkfallsrétti verkafólks var talin koma fram í löggjöfinni. Hópurinn sendi áskorun um mótmæli til verkalýðsfélaga. Samþykkt var í borgarstjórn Reykjavíkur árið 1975 að jafnréttissjónarmið skyldu ríkja jafnt um laun sem önnur mál starfsmanna. Tveimur árum síðar eða 1977 reyndust 56 konur og tveir karlar vera í lægstu launaflokkunum. Svipaðar niðurstöður birtust um starfsmenn Kópavogs sama ár.

 

Sjá nánar: Menntun.

Fyrri síða Kynskipting starfa

Næsta síða Ráðstefnur um kjör láglaunakvenna