Hvatningaraðgerðir

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Dagvistun»  Hvatningaraðgerðir

Rauðsokkar efndu til almenns umræðufundar um dagheimilismál í Norræna húsinu 17. febrúar, 1971 í samvinnu við Stúdentafélag Háskóla Íslands. Á útbreiðslu- og kynningarfundi í Norræna húsinu rúmu ári síðar var einnig fjallað um málið. Fyrsta ráðstefna Rauðsokka og Fóstrufélagsins um dagvistun barna var svo haldin 12.−13. mars 1974. Rauðsokkahreyfingin og Fóstrufélagið héldu því næst á annað hundrað manna ráðstefnu um dagvistunarmál og forskólafræðslu í Lindabæ 23. febrúar 1975. Markmiðið var að koma af stað umræðu um uppeldi og uppeldisskilyrði ungra barna og nauðsyn þess að samfélagið lagaði sig að breyttum aðstæðum. Skorað var á ríki og sveitarfélög að hraða sem mest uppbyggingu dagvistarheimila í landinu. Ráðstefna um dagvistarmál var síðan haldin á vegum menntamálaráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga 25.−26. maí 1976. Þar flutti Svandís Skúladóttir, fulltrúi ráðuneytisins, ítarlegt erindi um stöðu og þörf á sviði dagvistarmála.

Erindi og dreifibréf

KSS63_A18_021

Rauðsokkahreyfingin var ötul við að senda frá sér erindi um þörfina fyrir dagvistun barna. Rauðsokkar sendu til að mynda bréf til borgarstjórnar Reykjavíkur árið 1974 með kröfu um úrbætur í dagvistarmálum. Þeirri venju var andmælt að skipta dagvistarstofnunum í leikskóla (hálfur dagur) og dagheimili (heill dagur), lögð áhersla á uppeldishlutverk þeirra og lagt til að dvölin yrði ókeypis. Í dreifibréfi um dagvistarmál í Reykjavík á barnaári var boðuð undirskriftasöfnun, kröfuganga og útifundur 24. mars 1979 á vegum starfshóps fjölda aðila. Þar kom fram að um 8.000 börn væru í borginni á aldrinum 0−5 ára, en aðeins í boði 866 dagheimilispláss og 1.700 leikskólapláss. Miðstjórn og aðildarfélög Alþýðusambands Íslands (ASÍ) voru hvött í bréfum árið 1976 til að taka í þessu brýna hagsmunamáli íslenskra alþýðuheimila og áhersla sett á að tekið yrði inn í kjarasamninga ákvæði um stofnun byggingasjóðs dagvistarstofnana sem atvinnurekendur greiddu í til að flýta fyrir framkvæmdum. Almennt virtist samkomulag innan ASÍ um að verkalýðshreyfingin ætti að berjast fyrir auknu dagvistarplássi fyrir börn. 

Kynning í fjölmiðlum

Stofnaður var starfshópur um dagvistun barna á ráðstefnu um kjör íslenskra láglaunakvenna sem haldin var í samstarfi Rauðsokkahreyfingarinnar og átta verkalýðsfélaga í maí 1976. Meginverkefni hópsins var að kynna starfsemi dagvistarheimila og uppeldisgildi þeirra í fjölmiðlum dagana 17.−29. nóvember 1976. Hópurinn sendi erindi til allra dagblaðanna með fréttatilkynningu og tillögum um efni og viðmælendur. Jafnframt sendi hópurinn útvarpsráði bréf með tillögu um að sjónvarpið sýndi erlendar kvikmyndir um uppeldisstarf á dagvistarheimilum barna. Kynningarherferðin hófst 17. nóvember með útvarpserindi Guðnýjar Guðbjörnsdóttur uppeldisfræðings. Í viðtali í einu dagblaðanna af þessu tilefni kom fram að Félag einstæðra foreldra styddi viðhorf Rauðsokka. Fyrr á árinu hafði Svandís Skúladóttir, fulltrúi í menntamálaráðuneytinu og menntuð fóstra, kallað eftir stefnumörkun um dagvistarmálin í ítarlegu viðtali í Þjóðviljanum.

 

Fyrri síða Kannanir á dagvistunarþörf

Næsta síða Lagasetning í dagvistunarmálum