Hindranir

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Vinnumarkaðurinn»  Hindranir

Vinnuaðstæður og laun mótuðu að sjálfsögðu stöðu kvenna á vinnumarkaði, en aðrir þættir vógu einnig mjög þungt.

Fyrirvinnuhugtakið

KSS63_A28_096

Hugmyndum um karla sem fyrirvinnur fjölskyldna og heimila var haldið sterklega á loft á þessum tíma til að réttlæta lægri laun kvenna og ráðningar karla fram yfir konur – svo og ábyrgðarleysi karla á heimilishaldi og uppeldi barna sem leiddi af sér tvöfalt vinnuálag útivinnandi kvenna. Rauðsokkahreyfingin hélt fund í Norræna húsinu í október 1973 um fyrirvinnuhugtakið og það óréttlæti sem af því leiddi á öllum sviðum þjóðfélagsins. Þar fjallaði Auður Þorbergsdóttir borgardómari um fyrirvinnuhugtakið í löggjöf landsins. Svava Jakobsdóttir alþingismaður flutti þar erindið „Lág laun kvenna undirrót misréttis“ og ræddi tillögur Norðurlandaráðs frá 1972 um breytingar á löggjöf landanna, einkum hjúskapar- og skattalögum, og tryggingakerfi til að útrýma þessu úrelta hugtaki.

 

Leshringur Rauðsokkahreyfingarinnar, „Hvers vegna“, sem stofnaður var árinu 1979 leitaði meðal annars svara við spurningunni: „Hvers vegna vinnum við tvöfalt?

Fæðingarorlof og dagvistun barna

KSS63_A50_045Mæðrum ungra barna var haldið heima þar sem ekki var dagvistun að fá fyrir börn og engin frístundaheimili fyrir eldri börnin. Fæðingarorlof, ef það var yfirleitt í boði, var örstutt, en krafa Rauðsokka var aftur á móti um sex mánaða fæðingarorlof fyrir allar konur.

Á upphafsárum Rauðsokkahreyfingarinnar áttu konur sem voru opinberir starfsmenn eða bankastarfsmenn kost á þriggja mánaða fæðingarorlofi á launum, en konur í verkalýðsfélögum aftur á móti aðeins tveimur til þremur vikum. Frá 1975 var til viðbótar möguleiki á greiðslu úr atvinnuleysistryggingasjóði verkalýðsfélaganna (þeirra eigin sjóðum) í þrjá mánuði og miðað við 70% af næstlægsta taxta Dagsbrúnar, en 80% launa til „aðalfyrirvinnu“ eða konu sem átti fyrir óvinnufærum manni að sjá, en gilti ekki um einstæða móður. Flugfreyjur höfðu samið um þriggja mánaða fæðingarorlof í kjarasamningum árið 1973. Loks voru samþykkt lög um fæðingar- og foreldraorlof árið 1980, sem tryggði mæðrum á vinnumarkaði sex mánaða fæðingarorlof á launum úr Fæðingarorlofssjóði, en upphæðin var reyndar bundin við fjölda dagvinnustunda síðustu 12 mánuði.

Skortur á leikskólum var ein stærsta hindrunin í vegi mæðra til að stunda vinnu utan heimilis. Rauðsokkar héldu opinn fund um dagvistunarmál í Norræna húsinu strax í febrúar 1971, þann fyrsta af mörgum. Með ítarlegri könnun í Kópavogi, sem kynnt var í maí 1971, drógu Rauðsokkar fram í dagsljósið gríðarlega þörf fyrir dagvistun barna. Þar kom meðal annars fram að 30% svarenda höfðu áhuga á starfi utan heimilis, væri kostur á öruggri vistun fyrir börnin. Í kjölfarið gerði félagsmálaráð Reykjavíkur könnun á dagvistunarþörf í borginni. Niðurstöður leiddu í ljós risavaxna þörf, en á þessum tíma var stefna borgarinnar að svara aðeins þörf forgangsflokka. Dagvistun barna var auk þess til umræðu tengt ýmsum málefnum á fjölda funda Rauðsokka, til dæmis á fundi á Varmalandi í febrúar 1972 og á fundum og ráðstefnum tengdum öðrum umfjöllunarefnum.

Skattalög

Samsköttun hjóna sem gilti í raun fram að lagabreytingum á árunum 1978 og 1981 hélt við fyrrnefndum viðhorfum til þátttöku kvenna í atvinnulífinu, hugmyndum um fyrirvinnuhugtakið og stöðu kvenna á heimilinu. Breytingar á fyrirkomulagi skattheimtu var eitt af fyrstu baráttumálum Rauðsokka með kröfu um að allar konur væru sjálfstæðir skattþegnar. Giftar konur voru ekki sjálfstæðir skattgreiðendur samkvæmt skattalögum frá 1958, helmingur launa þeirra var skattfrjáls en hinum helmingnum skeytt við tekjur eiginmannsins sem síðan greiddi skattinn. En andstaða við breytingar var víða.

Allt frá árinu 1971 og fram til ársins 1978 börðust Rauðsokkar harðlega gegn breytingartillögum á skattalögum sem lagðar voru ítrekað fram á Alþingi og gagnrýndu að þær fælu ekki í sér sérsköttun hjóna. Meðal annars sendi Rauðsokkahreyfingin bréf til fjármálaráðherra árið 1974 þar sem þess var krafist að giftar konur hefðu fullan rétt og fullar skyldur í skattalögum. Nokkru síðar, samkvæmt beiðni, sendu Rauðsokkar nánari lýsingu á kröfum sínum. Á kvennaárinu boðaði ríkistjórnin skattalagabreytingar í átt til sérsköttunar en sýnt var fram á að þar var áfram um samsköttun að ræða. Skattahópur Rauðsokkahreyfingarinnar sendi inn athugasemdir í febrúar 1977 við frumvarp sem þá lá fyrir, ásamt tillögum um fyrirkomulag þar sem hver maður væri sjálfstæður skattþegn. Umsögnin var fjölrituð í 100 eintökum og dreift til þingmanna, fjölmiðla og félagasamtaka. Svava Jakobsdóttir alþingismaður skrifaði grein í Þjóðviljann í febrúar 1977 undir heitinu Skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar er hlaðið kvenfyrirlitningu og Morgunblaðið birti greinargerð Rauðsokka í heild nokkru síðar. Veruleg breyting varð loks á skattlagningu hjóna með lögum um tekjuskatt og eignaskatt frá 1978 þegar takmörkuð sérsköttun hjóna var loks tekin upp.

 

Sjá nánar: Fjölskyldan og Dagvistun.

 

Fyrri síða Ráðstefnur um kjör láglaunakvenna

Næsta síða Arfleifð