Efnisyfirlit
Árið 1970 voru konur farnar að sækja sér menntun á framhalds- og háskólastigi, en í talsvert minna mæli en karlar og ekki voru allir skólar opnir konum. Húsmæðraskólar víða um land höfðu áratugina á undan verið eina tækifæri fjölda kvenna til að mennta sig. Þeir voru hugsaðir sem undirbúningur fyrir húsmóðurstarfið og buðu upp á eins til tveggja ára nám. Um miðja 20. öldina jukust möguleikar á gagnfræðanámi og námi við héraðsskóla. Þær fáu konur sem sóttu sér starfsmenntun stunduðu gjarnan ljósmæðranám eða nám í hjúkrun, kennslu, matreiðslu, fatasaumi og skrifstofustörfum. Um 10% af árgangi tvítugra kvenna lauk stúdentsprófi árið 1970, en 17% sama árgangs karla. Konur höfðu verið rúmlega þriðjungur nemenda í menntaskólum árin á undan, en sáust vart í iðngreinum nema hefðbundnum kvennagreinum, svo sem hárgreiðslu og kjólasaumi. Á þessum árum voru konur um 15% þeirra sem luku prófi frá Háskóla Íslands. Þeim hafði fjölgað hratt áratugina á undan frá því að ein kona útskrifaðist á móti 30 körlum á árunum 1950−1955. Fyrsta konan var skipuð prófessor við Háskóla Íslands árið 1969 og var lengi sú eina. Engin kona hafði verið vígð sem prestur, það varð ekki fyrr en árið 1974, og örfáar höfðu lokið til dæmis lögfræðiprófi eða námi í verkfræði.
Kynin fengu mjög ólíka hvatningu til mennta. Stúlkur á þessum tíma voru enn þá aldar upp til þess að verða húsmæður og að framtíðarhlutverk þeirra væri að sinna þjónustustörfum á heimilinu – og einhver sæi síðan fyrir þeim. Strákum var ætlað að verða fyrirvinnur og því skipti máli fyrir þá að mennta sig. Þessi viðhorf voru engu að síður langt frá því að vera í samræmi við raunveruleika fjölda fólks. Ekki var óalgengt að konur ynnu fyrir námi eiginmanna sinna, hérlendis eða erlendis. Þeir fordómar voru furðu lífseigir að lærdómurinn gerði konur ókvenlegar og menntaðar konur væru bæði ógirnilegar og ómögulegar eiginkonur.
Í barna- og unglingaskólum voru stúlkur og drengir aðgreind í verklegu námi. Stúlkurnar skyldu stunda hannyrðir (með heimavinnu) og matreiðslu, en piltarnir smíði en ekki matreiðslu, samkvæmt námskrá fyrir nemendur á fræðsluskyldualdri frá 1960. Í námsefni barna og unglinga blasti við hefðbundin verkaskipting kynjanna.
Rauðsokkar lögðu áherslu á að vekja konur til vitundar um að notfæra sér réttindi sín, uppræta aldagamlan hugsunarhátt og fordóma varðandi kynbundna verkaskiptingu í þjóðfélaginu og að kynferði kæmi í veg fyrir að einstaklingur gæti valið sér nám og störf í samræmi við áhugamál og hæfileika, eins og fram kemur í markmiðum hreyfingarinnar frá 1970. Þessari hvatningu var haldið á lofti í blaða- og tímaritsgreinum, fyrirlestrum og ávörpum á ráðstefnum og fundum hjá fjölda félagasamtaka um allt land og einnig síðdegisþáttum í Ríkisútvarpinu vorið 1972, „Ég er forvitin rauð“, en einn þeirra fjallaði um menntamál og annar um uppeldi.
Sjá nánar: Fjölskyldan.
Fyrri síða Menntun
Næsta síða Aðgangur að námi