Merki Kvennasögusafns

Kvendoktorar

Íslenskir kvendoktorar

1926-2015

Hvað viltu vita?

Spurt og svarað

Hvenær gerðist það?

Ártöl og áfangar í kvennasögu

Kvennasöguslóðir

Gönguferðir um

Reykjavík

Nýja kvennahreyfingin

Sjöundi áratugur síðustu aldar var róstusamur víða um Evrópu og í Bandaríkjunum. Stúdentar létu víða til sín taka og urðu jafnvel sérstakt þjóðfélagsafl. Andstaða við stefnu stjórnvalda jókst með hverju árinu, einkum við stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Víetnam og hernaðaruppbyggingu í Evrópu. Sumstaðar kom til mikilla mótmælaaðgerða og lögregla kölluð á vettvang og jafnvel her. Árið 1968 hefur orðið táknmynd þessarar ólgu og sú kynslóð sem þá var í kringum tvítugt er jafnvel stundum kölluð 68-kynslóðin.

Nýja kvennahreyfingin spratt úr þessum jarðvegi. Ungar konur sem tóku þátt í stúdentaaðgerðum og ýmsu stjórnmála- og félagastarfi fundu margar hverjar fyrir því að kynferðið var talið þeim til trafala. Aukin menntun kvenna og atvinnuþátttaka ásamt jafnrétti í orði hafði ýtt undir sjálfvitund þeirra og sjálfstraust. Getnaðarvarnarpillan var komin á vettvang og hún gerði konum kleift í fyrsta sinn í sögu þeirra að skipuleggja barneignir og þar með eigin tíma. En þegar á hólminn var komið töldu margar ungar konur sig hins vegar hvarvetna verða varar við kynjamisrétti. Í stað þess að ganga í gömlu kvenréttindafélögin kusu þær að stofna eigin samtök. Þau spruttu upp eins og gorkúlur í Bandaríkjunum og breiddust þaðan til Evrópu. Þessi samtök tileinkuðu sér ýmsar nýjungar í starfi, því hið gamla félagaform var gjarnan talin táknbirting þess sem bylta þurfti.

Gamla kvennahreyfingin var hvergi nærri útdauð á sjöunda áratugnum og vann að mörgum þjóðþrifamálum, þótt víða hefði saxast á félagafjöldann. Gömlu félögin höfðu mörg hver góðan aðgang að stjórnvöldum, einkum varðandi frumvörp og lagasetningu sem talin var koma konum og börnum að gagni eða snerta konur og börn. Nýju kvennahreyfingarnar kusu hins vegar að starfa án þess að sækjast eftir samvinnu við stjórnvöld. Þær voru andófshreyfingar.

Skilin á milli „gömlu“ og „nýju“ kvennahreyfinganna snúast fyrst og fremst um form þeirra en síður um innihald. Báðar hreyfingar lifðu hlið við hlið og raunar hefur „gamla“ kvennahreyfingin orðið langlífari, a.m.k. eru flest hin gömlu kvenréttindafélög sem stofnuð voru á 19. öld enn við lýði. Báðar hreyfingarnar börðust fyrir jafnrétti kynjanna og báðar hafa lagt sitt af mörkum í þeirri baráttu.

Hér á landi komu fram tvær nýjar og áberandi kvennahreyfingar um 1970. Úur voru ungar konur í æskunefnd Kvenréttindafélags Íslands sem komið var á fót árið 1968. Rauðsokkahreyfingin var stofnuð árið 1970 að erlendri fyrirmynd.