Nýja kvennahreyfingin

Sjöundi áratugur síðustu aldar var róstusamur víða um Evrópu og í Bandaríkjunum. Stúdentar létu víða til sín taka og urðu jafnvel sérstakt þjóðfélagsafl. Andstaða við stefnu stjórnvalda jókst með hverju árinu, einkum við stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Víetnam og hernaðaruppbyggingu í Evrópu. Sumstaðar kom til mikilla mótmælaaðgerða og lögregla kölluð á vettvang og jafnvel her. Árið 1968 hefur orðið táknmynd þessarar ólgu og sú kynslóð sem þá var í kringum tvítugt er jafnvel stundum kölluð 68-kynslóðin.

Nýja kvennahreyfingin spratt úr þessum jarðvegi. Ungar konur sem tóku þátt í stúdentaaðgerðum og ýmsu stjórnmála- og félagastarfi fundu margar hverjar fyrir því að kynferðið var talið þeim til trafala. Aukin menntun kvenna og atvinnuþátttaka ásamt jafnrétti í orði hafði ýtt undir sjálfvitund þeirra og sjálfstraust. Getnaðarvarnarpillan var komin á vettvang og hún gerði konum kleift í fyrsta sinn í sögu þeirra að skipuleggja barneignir og þar með eigin tíma. En þegar á hólminn var komið töldu margar ungar konur sig hins vegar hvarvetna verða varar við kynjamisrétti. Í stað þess að ganga í gömlu kvenréttindafélögin kusu þær að stofna eigin samtök. Þau spruttu upp eins og gorkúlur í Bandaríkjunum og breiddust þaðan til Evrópu. Þessi samtök tileinkuðu sér ýmsar nýjungar í starfi, því hið gamla félagaform var gjarnan talin táknbirting þess sem bylta þurfti.

Gamla kvennahreyfingin var hvergi nærri útdauð á sjöunda áratugnum og vann að mörgum þjóðþrifamálum, þótt víða hefði saxast á félagafjöldann. Gömlu félögin höfðu mörg hver góðan aðgang að stjórnvöldum, einkum varðandi frumvörp og lagasetningu sem talin var koma konum og börnum að gagni eða snerta konur og börn. Nýju kvennahreyfingarnar kusu hins vegar að starfa án þess að sækjast eftir samvinnu við stjórnvöld. Þær voru andófshreyfingar.

Skilin á milli „gömlu“ og „nýju“ kvennahreyfinganna snúast fyrst og fremst um form þeirra en síður um innihald. Báðar hreyfingar lifðu hlið við hlið og raunar hefur „gamla“ kvennahreyfingin orðið langlífari, a.m.k. eru flest hin gömlu kvenréttindafélög sem stofnuð voru á 19. öld enn við lýði. Báðar hreyfingarnar börðust fyrir jafnrétti kynjanna og báðar hafa lagt sitt af mörkum í þeirri baráttu.

Hér á landi komu fram tvær nýjar og áberandi kvennahreyfingar um 1970. Úur voru ungar konur í æskunefnd Kvenréttindafélags Íslands sem komið var á fót árið 1968. Rauðsokkahreyfingin var stofnuð árið 1970 að erlendri fyrirmynd.

Úur

Kvenréttindafélag Íslands hafði gengið í Alþjóðasamtök kvenréttindafélaga (International Alliance of Women) árið 1911. Æskunefnd var stofnuð hjá alþjóðasamtökunum 1967 og var lagt til að hún beindi sjónum einkum að menntun telpna og ungra stúlkna. Á fyrri hluta árs 1968 kom Kvenréttindafélag Íslands upp æskunefnd vegna tilmæla alþjóðasamtakanna um að aðildarfélög stofnuðu slíka nefnd í sínum heimalöndum. Kvenréttindafélagið kaus nefndinni einnig formann, Hlédísi Guðmundsdóttur. Í nefndina máttu ganga allar félagskonur 35 ára og yngri. Í nóvember 1969 voru 18 ungar konur skráðar í nefndina svo ekki var hún fjölmenn. Rauðsokkahreyfingin kom fram síðla árs 1970 en ungu konurnar hjá KRFÍ kusu flestar að starfa þar áfram. Þær sendu frá sér yfirlýsingu frá fundi sínum 18. nóvember 1970 þess efnis að hér eftir kæmu þær fram undir starfsheitinu Úur, en hugmyndina að nafninu átti Steinunn Finnbogadóttir, ein félagskvenna KRFÍ. Nafnið er sótt til persónu í bók Halldórs Laxness Kristnihald undir Jökli sem kom út 1968.

Úurnar voru margar hverjar kennarar og kynntust bæði launamisrétti á vinnustöðum sínum og blöskraði þá sýn á konur sem íslenskar kennslubækur veittu. Fyrstu opinberu afskipti þeirra voru af ,,Kvennaskólamálinu" árið 1970. Þær tóku þátt í að skipuleggja undirskriftasöfnun með mótmælum við frumvarpi þess efnis að Kvennaskólinn mætti útskrifa stúdenta. Mörgum þótti sem andi frumvarpsins væri sá að stefnt væri að stofnun einhvers konar stúlknamenntaskóla sem yrði þá lægra metinn. Málið varð mikið hitamál og lyktaði með því að frumvarpið var dregið til baka. Piltar fengu hins vegar aðgang að skólanum árið 1971 og árið 1979 varð Kvennaskólinn að almennum menntaskóla.

Nokkrar Úanna tóku hluta af lestrar- og reikningsbókum sem kenndar voru í skólum landsins og gerðu könnun á því hvernig staða kynjanna birtist í þeim. Sömuleiðis gerðu Úur úttekt á handavinnu drengja og stúlkna, sem þá var mjög kynjaskipt, og könnun á boðskap barnabóka. Niðurstöðurnar vöktu mikla athygli og vöktu marga til vitundar um þá kynjainnrætingu sem átti sér stað í skólum landsins og í öllu uppeldisstarfi. Úur höfðu erindi sem erfiði. Í nýjum grunnskólalögum árið 1973 var tekið á þessum málum, m.a. þannig að handavinnukennsla varð ókynbundin og kennslubókahöfundar gæta framsetningar.

Þegar Úur tóku til starfa hafði Rauðsokkahreyfingin ekki verið stofnuð, en þegar það varð buðu Úur Vilborgu Dagbjartsdóttur, valinkunnri Rauðsokku, að kynna hreyfinguna á fundi sínum. Þótt viðurkennt væri að báðir hópar ættu margt sameiginlegt kusu Úur að starfa áfram eins og þær höfðu áður gert. Þótt starf Rauðsokkahreyfingarinnar hafi orðið meira áberandi má ekki gleyma hinu að Úur starfa enn, hver á sínum vettvangi.

Getnaðarvarnarpillan (Pillan, p-pillan)

Á árinu 1951 unnu rannsóknarmenn hjá efnafræðifyrirtækinu Syntex í Mexíkóborg að því að þróa lyf við tíðaverkjum. Úr þessum tilraunum varð til efni sem bæði hindraði egglos og hæfði til inntöku. Fyrsta skrefið að getnaðarvarnarpillu var stigið, en hún kom þó ekki á markað fyrr en upp úr 1960. Á Íslandi var pillan tekin á lyfjaskrá árið 1967. Stöku kvensjúkdómalæknar höfðu þó ávísað henni áður en þá eingöngu til giftra kvenna.

Rauðsokkahreyfingin

Í lok apríl 1970 kom saman hópur ungra kvenna í kjallara Norræna hússins til að ræða stöðu kvenna á Íslandi og aðgerðir til að vekja almenning. Fyrr í apríl hafði danskur kvennahópur er kallaði sig Rødstrømperne þrammað eftir Strikinu í Kaupmannahöfn, skrýddur risabrjóstum, gríðarlegum höttum, gerviaugnahárum og rauðum sokkum. Þessi aðgerð vakti gífurlega athygli fjölmiðla, einnig hinna íslensku. Fréttir höfðu einnig borist af aðgerðum kvenna prýddum rauðum sokkum í New York, en sá hópur kallaði sig New York Redstockings og tók til starfa 1968. Hinn óhefðbundni hollenski hópur Dolle Mina sem kom fram á sjónarsviðið í byrjun árs 1970, vakti einnig mikla athygli.

Þann 1. maí hvatti hópurinn sem hittist í kjallara Norræna hússins konur til að mæta í göngu verkalýðsfélaganna í Reykjavík og auglýstu í útvarpinu: „Konur á rauðum sokkum! Komið í 1. maí gönguna.“ Konur báru risastóra styttu af konu í göngunni með stórum borða strengdan yfir bumbuna. Á honum stóð: Manneskja - ekki markaðsvara. Þar var kynnt til sögunnar eitt helsta baráttumál Rauðsokkahreyfingarinnar sem stofnuð var með fjölsóttum kynningarfundi 19. október 1970 í Norræna húsinu.

Rauðsokkur stefndu að því að vekja með öllum ráðum athygli á bæði augljósu og földu misrétti kynjanna, svo og kúgun sem ætti sér rætur í þjóðfélagsgerð og fjölskylduhefðum. 1972 fluttu rauðsokkur 10 þætti í útvarpið sem fjölluðu m.a. um barneignir, getnaðarvarnir og fóstureyðingar, barnaheimili og barnauppeldi og heimahúsmæður og mat á heimilisstörfum. Sumir þáttanna vöktu heitar umræður og hneykslan, enda um mikil hitamál að ræða.

Þættirnir voru fluttir undir nafninu ,,Ég er forvitin -rauð", en Forvitin rauð varð nafn á blaði sem hreyfingin hóf að gefa út árið 1972, það fyrsta fyrir greiðsluna fyrir útvarpsþættina. Þættirnir voru allir unnir í hópvinnu , eins og venja var hjá rauðsokkum. Skipulag rauðsokka stríddi framan af gegn hefðbundnu félagaformi, enda töldu meðlimir það vera form sem hefti umræður og skoðanaskipti. Hreyfingin kaus enga/nn (karlmenn gátu líka verið meðlimir) formann, hélt engar fundargerðarbækur og þeir hópar sem upp spruttu gerðu það af sjálfdáðum.

Það mál sem mest braut á rauðsokkum var fóstureyðingarmálið. Eitt af hjartans málum rauðsokka var opin umræða og fræðsla um kynferðismál. Áhersla var lögð á að konan ætti ein að ákveða hvort fóstri yrði eytt. Ein rauðsokka átti sæti í nefnd þeirri er samdi frumvarp til nýrra laga um fóstureyðingar og getnaðarvarnir sem lagt var fram á þingi haustið 1973. Þar var réttur konunnar viðurkenndur. Málið varð strax mikið hitamál og fóru leikar svo að frumvarpið var ekki samþykkt. Þau lög sem voru samþykkt árið 1975 giltu til ársins 2019 og þar var réttur konunnar ekki viðurkenndur, ólíkt því sem hugur rauðsokka stefndi til, og ólíkt því sem varð ofan á í langflestum nágrannalöndum okkar.

Rauðsokkur beittu stundum óhefðbundnum aðferðum til að vekja athygli á misréttinu. Ein þeirra var mótmæli við fegurðarsamkeppnum þar sem þess var krafist að hætt yrði að nota kvenlíkamann í auðgunarskyni og í auglýsingum. Fyrstu, en ekki síðustu, mótmælin urðu í desember 1970. Fegurðarsamkeppnir lögðust af hér á landi á tímabili, einkum vegna mótmælanna.

Árið 1974 urðu vatnaskil í starfi rauðsokka. Á ráðstefnu sem haldin var það ár var samþykkt róttæk stefnuyfirlýsing og gengu þá nokkrar úr Rauðsokkahreyfingunni í mótmælaskyni. En þar var einnig varpað fram þeirri hugmynd að konur gerðu verkfall einn dag á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Hugmyndin að kvennafrídeginum var fædd.

Rauðsokkahreyfingin starfaði til ársins 1982 þegar ný samtök kvenna í Reykjavík og á Akureyri komu fram og buðu fram sérlista til sveitarstjórnarkosninga. Margar rauðsokkur kusu að starfa með hinum nýju samtökum og Rauðsokkahreyfingin hætti störfum.

Einkaskjalasafn Rauðsokkahreyfingarinnar er varðveitt á Kvennasögusafni: KSS 63. Rauðsokkahreyfingin. Einkaskjalasafn.

Ítarefni um Rauðsokkahreyfinguna.

*Fyrst birt í pörtum á árunum 2003-2005
*Síðast uppfært 12. febrúar 2020