Ártöl og áfangar

Bókin Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna sem Kvennasögusafn gaf út árið 1998 er aðgengileg á vefnum bækur.is. 

1850 Dætrum veittur sami erfðaréttur og sonum. (Áður erfðu dætur einn þriðja hluta en synir tvo þriðju)

1851 Ágústa Johnsen (1821-1878) stofnaði stúlknaskóla í Reykjavík 1851, hinn fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Ári síðar kom Þóra, systir hennar, (síðar Melsteð) og kenndi þar með henni. Skólinn starfaði til ársins 1854 í svonefndu Dillonshúsi, við Suðurgötu 2 í Reykjavík. Stúlkurnar lærðu að sauma, prjóna, lesa, reikna, skrifa og einnig dönsku, þýsku og kristinfræði.

1861 Ógiftar konur, 25 ára og eldri, urðu myndugar (sjálfráða og fjárráða). Giftar konur voru áfram ómyndugar (til ársins 1900)

1863 Vilhelmína Lever „verslunarborgarinna“ á Akureyri kaus í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri árið 1863 og aftur 1866. Kosningarétt höfðu samkvæmt lögum allir fullmyndugir menn

1869 Skagfirskar húsmæður í Rípurhreppi komu saman á fund að Ási í Hegranesi þar sem þær ræddu mál er einkum snertu verkahring kvenna. Samkoman að Ási er fyrsta kvenfélag sem sögur fara af. Kvenfélag Rípurhrepps var formlega stofnað árið 1871

1870 Páll Melsteð (1812-1910) birti greinina „Hvað verður hjer gjört fyrir kvennfólkið?" í Norðanfara 19. mars 1870. Þar fjallaði hann um nauðsyn þess að stofna kvennaskóla. Greinina skrifaði hann að beiðni Þóru, eiginkonu sinnar.

1872 Nicoline Weywadt (1848–1921) lærði ljósmyndun í Kaupmannahöfn 1871-1872, fyrst kvenna á Íslandi. Hún stundaði ljósmyndun í um þrjátíu ár á Djúpavogi og kom sér upp vinnuaðstöðu á Teigarhorni

1874 Kvennaskólinn í Reykjavík stofnaður af Þóru Melsteð og eiginmanni hennar Páli Melsteð, með fjárstuðningi íslenskra og erlendra aðila. Skólinn var fyrsta menntastofnunin sem bauð konum upp á formlega menntun. Fleiri kvennaskólar voru stofnaðir næstu árin

1874 Steinunn Jónsdóttir (1820-1878) og Ingibjörg Pálsdóttir (1829-?) ekkjur í Mosvallahreppi í Önundarfirði kusu í sveitarstjórnarkosningum árið 1874. Konur höfðu þó ekki fengið kosningarétt til sveitarstjórna, en kosningarétt í hreppnum hafði „hver búandi maður"

1875 Thorvaldsensfélagið stofnað, fyrsta kvenfélagið í Reykjavík. Frumkvæði að stofnun félagsins áttu Þóra Pétursdóttir (síðar Thoroddsen), Jarþrúður Jónsdóttir og Þórunn Jónassen, sem var formaður félagsins frá 1875 til dauðadags árið 1922. Félagið starfar enn

1876 Júlíana Jónsdóttir (1838–1917) gaf fyrst kvenna út skáldrit hér á landi. Það var ljóðabókin Stúlka sem hún gaf út á eigin kostnað

1879 Í tímaritinu Framfara sem út kom í Kanada birtist í fyrsta sinn smásaga eftir konu. Höfundur var Torfhildur Hólm (1845–1918) sem fyrst Íslendinga gerðist atvinnurithöfundur

1880 Ásta Hallgrímsson (1857-1942) söng fyrst kvenna einsöng opinberlega er hún söng við útför Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur [1]

1882 Ekkjur og aðrar ógiftar konur sem stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar á annan hátt, fengu kosningarétt þegar kjósa átti í hreppsnefnd, sýslunefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum á sömu forsendum og karlmenn. Þær þurftu að vera orðnar 25 ára, hafa fast aðsetur í hreppnum/bænum og hafa goldið skatt. Þær máttu ekki skulda sveitastyrk eða vera öðrum háðar sem hjú (þ.e. vinnukonur) og urðu að vera fjár síns ráðandi. Kjörgengi fylgdi ekki þessum réttindum, sem náði til lítils hóps kvenna.

1884 Andrea Guðmundsdóttir (1845-?) saumakona á Ísafirði varð fyrst kvenna, svo vitað sé, til að nýta sér kosningarétt kvenna til sveitarstjórna frá 1882 er hún kaus í bæjarstjórnarkosningum 1884

1885 Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940) fékk birta grein um kvenréttindi í Fjallkonunni, 5. júní og 22. júní og varð þar með fyrst kvenna til að fá birta grein eftir sig í blaði hér á landi

1885 Páll Briem (1856-1904) hélt fyrirlestur á vegum Thorvaldsensfélagsins á sal Lærða skólans í júlímánuði 1885. Erindi sitt nefndi hann „Um frelsi og menntun kvenna". Um 120 konur og karlar sóttu fyrirlesturinn sem fjallaði einkum um kvenréttindabaráttuna úti í heimi. Fyrirlesturinn var gefinn út sama ár

1886 Stelpur fá rétt til að stunda nám og taka próf í Lærða skólanum, eina menntaskóla landsins

1886 Konur fá kosningarétt við prestskosningar, með sömu skilyrðum og 1882

1887 Ágústa Svendsen (1835-1924) hóf verslunarrekstur, fyrst kvenna í Reykjavík, er hún opnaði hannyrðaverslun

1887 Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940) hélt opinberan fyrirlestur 30. desember, fyrst kvenna, í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík

1889 Camilla Torfason (1864-1927) lauk stúdentsprófi fyrst kvenna, eftir því sem næst verður komist, frá Trier-menntaskólanum í Kaupmannahöfn

1889 Bók Elínar Briem (1856-1937), Kvennafræðarinn, kemur út

1891 Torfhildur Hólm (1845-1918) hlýtur skáldastyrk frá Alþingi, fyrst kvenna

1897 Ólafur Ólafsson (1855-1937) hélt fyrirlesturinn Olnbogabarnið. Um frelsi, menntun og rjettindi kvenna í Reykjavík sumarið 1891. Fyrirlesturinn var gefinn út árið 1892

1892 Ingibjörg H. Bjarnason (1868-1941) lauk leikfimiprófi, fyrst Íslendinga, frá Poul Petersens Institut í Kaupmannahöfn. Ári síðar hóf hún dans- og leikfimikennslu í Reykjavík fyrir börn og ungar stúlkur

1894 Hið íslenska kvenfélag stofnað í Reykjavík 26. janúar. Félagið var fyrsta kvenfélagið sem hafði kvenréttindi á stefnuskrá sinni. Helsta baráttumál kvenfélagsins var stofnun háskóla á Íslandi

1895 Í janúar hófst útgáfa kvennablaðsins Framsóknar (1895-1901) á Seyðisfirði. Útgefendur og ritstýrur voru Sigríður Þorsteinsdóttir og Ingibjörg Skaftadóttir. Í Reykjavík hófst útgáfa Kvennablaðsins (1895-1919) í febrúar. Útgefandi og ritstýra var Bríet Bjarnhéðinsdóttir

1897 Elínborg Jacobsen (1871-1929) lýkur stúdentsprófi fyrst kvenna frá Lærða skólanum utanskóla

1898 Guðný Guðmundsdóttir (1859–1948) og Kristín Ingibjörg Hallgrímsdóttir (1863-1941) fyrstu lærðu, íslensku hjúkrunarkonurnar sem vitað er um. Þær útskrifuðust frá Den Danske Diakonissestiftelse í Kaupmannahöfn 1898 eftir 10 mánaða nám. Þær sneru þá heim til Islands og hófu störf á Laugarnesspítalanum í Reykjavík er hann tók til starfa í október

1900 Sett lög um fjármál hjóna. Með þeim fékk gift kona yfirráð yfir eigin tekjum og eignum

1902 Konur fá kjörgengi til bæjarstjórna, með sömu skilyrðum og 1882

1904 Ný reglugerð fyrir Menntaskólann í Reykjavík (Lærða skólann) heimilaði stúlkum aðgang að skólanum og nutu þær þar með sömu réttinda og piltar til náms við skólann

1907 Kvenréttindafélag Íslands var stofnað af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og fleiri baráttukonum 27. janúar

1907 Sumarið 1907 fóru hafnfirskar verkakonur, sem unnu við fiskbreiðslu, í verkfall. Verkfallið stóð stutt yfir, dagsstund eða svo, og uppskáru konurnar launahækkun. Þetta er eftir því sem best er vitað, í fyrsta skipti sem konur fóru í verkfall hér á landi.  Árið 1912 fóru hafnfirskar fiskverkunarkonur í verkfall á ný og stóð það yfir í um mánuð. Bríet Bjarnhéðinsdóttir taldi það vera fyrsta verkfall kvenna þegar hún sagði frá því í Kvennablaðinu

1907 Kosningaréttur og kjörgengi til bæjarstjórna í Reykjavík og Hafnarfirði nær til fleiri kvenna en áður. Hann nær nú einnig til giftra kvenna, auk þess sem krafan um greiðslu í bæjarsjóð var lækkuð

1908 Kvenréttindafélag Íslands og önnur kvenfélög í Reykjavík stóðu saman að kvennalista til framboðs við bæjarstjórnarkosningarnar. Víðtæk samstaða náðist um framboð kvenna og náðu allar fjórar konurnar á listanum kjöri í bæjarstjórn. Þetta voru Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Guðrún Björnsdóttir, Katrín Magnússon og Þórunn Jónassen

1909 Giftar konur í öllum sveitarfélögum fá kosningarétt og kjörgengi til jafns við ekkjur og ógiftar konur. Hjú fá kosningarétt en ekki kjörgengi 

1910 Ásta Kristín Árnadóttir (1883-1955) lauk iðnmeistaraprófi í Kaupmannahöfn, fyrst Íslendinga. Ásta var jafnfram fyrsta íslenska konan sem lauk iðnnámi

1910 Laufey Valdimarsdóttir (1890-1945) varð stúdent fyrst kvenna sem sat í bekk í Lærða skólanum

1910 Solveig Jónsdóttir (1884-1962) frá Múla hlaut kosningu í bæjarstjórn Seyðisfjarðar. Hún hafði boðið fram á lista ásamt Margréti Björnsdóttur og hlaut listi þeirra rúm 36% atkvæða

1911 Konur bjóða fram á sérlista í annað sinn á Akureyri og fá einn kjörinn fulltrúa, Kristínu Eggertsdóttur sjúkrahússtýru

1911 Lög um menntun kvenna og rétt til embætta samþykkt á Alþingi. Konur fengu fullan rétt til menntunar og embætta með þessum lögum

1913 Kristólína Guðmundsdóttir Kragh (1883–1973) opnaði fyrstu hárgreiðslu- og snyrtistofuna hér á landi og rak hana til ársins 1946. Kristólína var fyrst kvenna til að læra hárgreiðslu, hárkollugerð, og hand- og fótsnyrtingu

1914 Knattspyrnufélagið Hvöt var stofnað á Ísafirði. Félagar voru flestar unglingsstúlkur í bænum og æfðu þær og léku knattspyrnu í tvö til þrjú ár

1915 Ný stjórnarskrá fyrir Ísland staðfest af konungi 19. júní. Þar með fengu konur, 40 ára og eldri, kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Aldurstakmarkið skyldi lækka um eitt ár næstu fimmtán árin þar til 25 ára aldri væri náð, en það var aldurstakmark kosningabærra karlmanna. Þetta ákvæði var fellt úr gildi árið 1920. Eftir það hafa konur og karlar notið sama réttar við kosningar til Alþingis

1917 Útgáfa hófst á ársriti Sambands norðlenskra kvenna, Hlín, sem var ritstýrt af Halldóru Bjarnadóttur (1873–1971) frá upphafi til 1961 (og 1967)

1917 Kristín Ólafsdóttir (1889–1971) lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands, fyrst kvenna. Hún var jafnframt fyrsta konan til að ljúka prófi frá Háskóla Íslands

1917-1924 Hjú fá kjörgengi í Reykjavík, á Akureyri og á Ísafirði

1920 Með stjórnarskrá konungsríkisins Ísland, fá íslenskar konur og hjú full pólitísk réttindi 25 ára

1921 Elín Eggertsdóttir Briem (1856-1937) og Þórunn Jónassen (1850-1922) hlutu fyrstar kvenna riddarakrossa Hinnar íslensku fálkaorðu 1. desember 1921

1922 Ingibjörg H. Bjarnason (1867-1941) kosin á Alþingi, fyrst kvenna, af sérstökum kvennalista

1924 Katrín Thoroddsen (1896-1970) skipaður héraðslæknir, fyrst kvenna á Íslandi

1925 Þetta ár kom út sjálfsævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur og var það í fyrsta sinn sem sjálfsævisaga konu var gefin út hér á landi

1926 Hjú fá kjörgengi í öllum bæjar- og sveitarfélögum. Samræmd löggjöf um land allt. Ákvæði um að konum sé heimilt að skorast undan kosningu er fellt niður

1926 Björg Caritas Þorlákson (1874-1934) varði doktorsritgerð sína við Sorbonneháskóla í París. Björg var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi og jafnframt fyrst Norðurlandabúa til að ljúka slíku prófi frá Sorbonneháskóla. Hún lauk doktorsnámi í lífeðlisfræði

1930 Landspítalinn tekur til starfa. Íslenskar konur áttu drjúgan þátt í því að spítalinn komst upp, en þær hófu fjársöfnun 1916 til byggingar hans í tilefni stjórnmálaréttinda sinna 19. júní 1915. Dagurinn varð árlegur hátíðar- og fjáröflunardagur kvenna fyrir Landspítalasjóðinn

1933 Ásta Magnúsdóttir (1888-1962) var skipuð ríkisféhirðir, fyrst kvenna

1935 Sett lög um getnaðarvarnir og fóstureyðingar. Fóstureyðingar voru heimilaðar í sérstökum tilfellum og máttu læknar veita konum upplýsingar um þungunarvarnir. Læknar einir höfðu heimild til að hafa slíkar upplýsingar undir höndum

1935 Auður Auðuns (1911-1999) lýkur prófi í lögfræði fyrst íslenskra kvenna. Sama ár er hún settur skiptadómari, í stað hins reglulega dómara, í skiptaréttarmáli á Ísafirði, það var í fyrsta sinn sem kona gegndi dómarastarfi

1935 Halldóra Briem Ek (1913-1993, síðar arkitekt) og Ingibjörg Böðvarsdóttir (1915-1996, síðar lyfjafræðingur) urðu fyrstar kvenna á Íslandi til að ljúka stúdentsprófi af stærðfræðibraut

1939 Konur kepptu í fyrsta sinn um Íslandsmeistaratitil í skíðaíþróttum. Aðeins var keppt í svigi og varð Martha Árnadóttir Íslandsmeistari

1940 Halldóra Briem Ek (1913-1993) lýkur prófi sem arkitekt í Svíþjóð fyrst íslenskra kvenna

1941 Jóhanna Knudsen (1897-1950) var fyrsta kvenlögreglan hér á landi og starfaði í Reykjavík frá 1941-1943

1942 Elísabet Finsen (f. 1920) tók sveinspróf í múraraiðn, fyrst kvenna, í Esjberg í Danmörku

1944 Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind) (1881-1946) skáldkona hlaut 1. verðlaun fyrir ljóðið „Hver á sér fegra föðurland", ásamt „íslendingaljóði" Jóhannesar úr Kötlum, í samkeppni um hátíðarljóð á stofndegi íslenska lýðveldisins

1945 Lög nr. 60 um laun starfsmanna ríkisins sett: Við skipun í starfsflokka og flutning milli launaflokka skulu konur að öðru jöfnu hafa sama rétt og karlar

1945 Jórunn Viðar (1918-2017) lauk prófi í tónsmíðum, fyrst kvenna, frá The Juilliard School of Music í New York

1945 Geirþrúður Hildur Bernhöft (1921-1987) lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands, fyrst kvenna. Hún lét ekki vígjast til prests

1945 Jórunn Viðar (1918-2017) lauk prófi í tónsmíðum, fyrst kvenna, frá The Juilliard School of Music í New York

1946 Auður Proppé (f. 1921) og Elísabet Guðmundsdóttir (f. 1927) fyrstar kvenna til að taka próf frá Loftskeytaskóla Íslands 

1946 Valgerður G. Þorsteinsdóttir (f. 1927) tók sólópróf í flugi, fyrst kvenna

1946 Teresía Guðmundsson (1901-1983) tók við stöðu veðurstofustjóra, fyrst kvenna

1948 Ólafía Jóhannesdóttir (1924-2017) lauk prófi varð þar með fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn

1949 Tvær konur voru kosnar á Alþingi 23. - 24. október 1949 og var það í fyrsta skipti sem fleiri en ein kona sat á Alþingi á sama tíma. Þetta voru þær Kristín L. Sigurðardóttir (1898-1971), 9. landskjörinn þingmaður, og Rannveig Þorsteinsdóttir (1904-1987), 8. þingmaður Reykvíkinga

1952 Ragnheiður Guðmundsdóttir (1915-2012), læknir, ráðin kennari við Háskóla Íslands, fyrst kvenna. Hún kenndi lífeðlisfræði við tannlæknadeild til ársins 1961

1954 Lög nr. 38 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sett: Konur og karlar hafa jafnan rétt til opinberra starfa og sömu laun fyrir sömu störf

1954 Jakobína Valdís Jakobsdóttir (f. 1932) keppti fyrst íslenskra kvenna á heimsmeistaramóti á skíðum í Áre í Svíþjóð

1957 Hulda Jakobsdóttir (1911-1998) varð bæjarstjóri í Kópavogi og gegndi því embætti til 1962. Hún var fyrst kvenna til að gegna bæjarstjóraembætti á Íslandi

1958 Sett jafnlaunalög. Sérstakir kvennataxtar skyldu hverfa úr samningum verkalýðsfélaga næstu 6 árin

1959 Auður Auðuns (1911-1999) verður borgarstjóri í Reykjavík, fyrst kvenna

1959 Rannveig Þorsteinsdóttir (1904-1987) fékk leyfi til málflutnings fyrir hæstarétti, fyrst kvenna

1959 Geir Friðbergsson (1932-1997) útskrifast sem hjúkrunarfræðingur fyrstur karlmanna á Íslandi

1960 Lög nr. 60 um launajöfnuð karla og kvenna sett: Á árunum 1962-1967 skulu laun kvenna hækka til jafns við laun karla fyrir sömu störf í almennri verkakvennavinnu, verksmiðjuvinnu og verslunar- og skrifstofuvinnu

1960 Kristín E. Jónsdóttir (f. 1927) hlaut sérfræðingsleyfi í lyflækningum, fyrst kvenna. Varð einnig dósent við læknadeild Háskóla Íslands fyrst kvenna 1976

1960 Selma Jónsdóttir (1917–1987) listfræðingur, varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands, fyrst kvenna

1961 Ragnhildur Helgadóttir (1930–2016) var kosin forseti alþingis, fyrst kvenna

1963 Sigrún Helgadóttir (f. 1937) lýkur fyrri hluta prófi í verkfræði fyrst íslenskra kvenna

1963 Vigdís Björnsdóttir (1921-2005) var fyrsti lærði forvörðurinn sem hér á landi þegar hún hóf störf við handritaviðgerðir fyrir Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn og Handritastofnun

1964 Sigríður Sigurðardóttir (f. 1942) handboltakona var fyrst kvenna til að vinna titilinn Íþróttamaður ársins sem Samtök íþróttafréttamanna hafa veitt frá árinu 1956 (sjá fleiri kven-titlahafa hér)

1967 Kvennaheimilið Hallveigarstaði við Túngötu í Reykjavík var vígt 19. júní 1967. Hugmyndin að slíku kvennaheimili kom upp á fyrsta stjórnarfundi Bandalags kvenna árið 1917. Hallveigarstaðir eru í eigu Kvenréttindafélags Íslands, Bandalags kvenna og Kvenfélagasambands Íslands

1969 Margrét G. Guðnadóttir (1929-2018) skipuð prófessor við læknadeild Háskóla Íslands. Margrét varð þar með fyrst kvenna til að gegna embætti prófessors við háskólann

1970 Auður Auðuns (1911-1999) lögfræðingur varð fyrst kvenna ráðherra í ríkisstjórn Íslands þegar hún tók við embætti dóms- og kirkjumálaráðherra

1970 Fyrsti opinberi leikurinn í knattspyrnu kvenna fór fram árið 1970 þegar lið frá Keflavík og Reykjavík mættust í forleik að karlalandsleik Íslands og Noregs

1970 Rauðsokkahreyfingin stofnuð 19. október. Rauðsokkar tóku þátt í 1. maí göngu verkalýðsins þetta ár og vöktu mikla athygli

1970 Helga Kress (f. 1939) var sett lektor, fyrst kvenna, við heimspekideild Háskóla Íslands

1970 Margrét Ólöf Björnsdóttir (f. 1945) lauk B.S.-prófi í verkfræði- og raunvísindadeild, fyrst kvenna 

1972 Auður Þorbergsdóttir (f. 1933) skipuð borgardómari í Reykjavík, fyrst kvenna

1973 Dóra Hlín Ingólfsdóttir (f. 1949) og Katrín Þorkelsdóttir voru fyrstu konurnar sem klæddust einkennisbúningi lögreglumanna og gegndu almennum lögreglustörfum. Kvenlögregludeild hafði verið stofnuð innan lögreglunnar árið 1953 en þar var að mestu unnið að sérverkefnum í unglinga- og kvennamálum

1973 Jafnlaunaráð tók til starfa. Svava Jakobsdóttir var upphafsmaður þess og fyrsti flutningsmaður að frumvarpi til laga. Lögin tóku gildi 24. apríl sama ár: konum og körlum skulu greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og að öðru leyti sambærileg störf og atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði.

1974 Auður Eir Vilhjálmsdóttir (f. 1937) vígð til prests, fyrst kvenna á Íslandi

1974 Guðný Guðmundsdóttir (1948) varð konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fyrst kvenna

1975 Kvennaár Sameinuðu þjóðanna. Ýmislegt var gert til að vekja athygli á árinu; haldnir voru fundir um málefni kvenna, gefnar út bækur og skrifað í blöð og tímarit. Mesta athygli vakti þó 24. október 1975, þegar íslenskar konur lögðu niður vinnu og flykktust á baráttufundi víðsvegar um landið. Í Reykjavík komu konur saman á Lækjartorgi þar sem haldnar voru ræður og fluttir baráttusöngvar. Talið er að 25-30.000 manns hafi verið þar samankomin, aðallega konur

1975 Kvennasögusafn Íslands stofnað á heimili Önnu Sigurðardóttur í Reykjavík við upphaf kvennaársins [árið 1996 opnaði það á Þjóðarbókhlöðu]

1975 Sett ný lög um getnaðarvarnir og fóstureyðingar. Heimild til fóstureyðingar var rýmkuð verulega og aðgangur að getnaðarvörnum auðveldaður. Skólum var gert skylt að veita nemendum kynfræðslu

1975 Samþykkt lög um þriggja mánaða fæðingarorlof fyrir allar konur

1975 Kvennafrídagurinn haldinn í fyrsta sinn

1976 Lög nr. 78 um jafnrétti kvenna og karla sett. Lögin áttu að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu karla og kvenna. Jafnréttisráð stofnað

1977 Ásta Hallgrímsdóttir (f. 1951) var fyrsta konan sem var ráðin sem flugmaður til flugfélags, Eyjaflugs Bjarna Jónssonar í Vestmannaeyjum

1978 Guðrún Ólafsdóttir (f. 1956) lauk sveinsprófi í rafvirkjun, fyrst kvenna

1980 Sigurrós Karlsdóttir (f. 1965), hlaut fyrst íslendinga gullverðlaun á Ólympíuleikum fatlaðra þegar hún sigraði í 50 m bringusundi og setti bæði ólympíumet og heimsmet í greininni [1, 2, 3]

1980 Hjördís Björk Hákonardóttir (f. 1944), sýslumaður fyrst kvenna

1980 Vigdís Finnbogadóttir (f. 1930) kjörin forseti Íslands. Hún varð fyrst kvenna í heiminum til að gegna embætti þjóðkjörins forseta. Vigdís gegndi embætti til ársins 1996

1981 Hljómsveitin Grýlurnar var fyrsta kvennahljómsveitin sem kom fram opinberlega hér á landi þegar þær tróðu upp í fyrsta sinn 10. apríl 1981

1982 Kvennaframboðið í Reykjavík fékk tvær konur kjörnar í borgarstjórn og sömuleiðis voru tvær konur kjörnar af lista kvennaframboðs í bæjarstjórn á Akureyri

1982 Samtök um kvennaathvarf stofnuð; kvennaathvarf opnaði í Reykjavík

1982 Guðrún Erlendsdóttir (f. 1936) settur dómari við hæstarétt fyrst íslenskra kvenna. Árið 1986 var hún skipuð dómari. Árið 1978 var hún skipuð lektor við lagadeild Háskóla Íslands, fyrst kvenna

1983 Kvennalistinn var stofnaður og bauð fram í þremur kjördæmum við alþingiskosningarnar. Þrjár konur voru kjörnar á þing fyrir Kvennalistann, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir og Kristín Halldórsdóttir

1985 Kvennafrídagurinn haldinn í annað sinn

1986 Anna Sigurðardóttir (1908-1996), stofnandi og þáverandi forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands, hlaut heiðursdoktorsnafnbót við heimspekideild Háskóla Íslands, fyrst íslenskra kvenna. Við sama tækifæri var Margrét Þórhildur Danadrottning gerð að heiðursdoktor við háskólann. Fyrst kvenna til að hljóta heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands var Anne Holtsmark, norrænufræðingur, árið 1961

1987 Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (f. 1972) keppti á heimsmeistaramóti í skák, fyrst íslenskra kvenna

1988 Berglind Ásgeirsdóttir (f. 1955) varð fyrst kvenna til að gegna embætti ráðuneytisstjóra er hún tók við því starfi í félagsmálaráðuneytinu

1988 Guðrún Helgadóttir (f. 1935) varð forseti sameinaðs þings, fyrst kvenna

1988 Banni við þátttöku kvenna í glímu aflétt

1990 Stígamót stofnuð

1991 Rannsóknastofa í kvennafræðum tók formlega til starfa við Háskóla Íslands

1991 Sigríður Á. Snævarr (f. 1952) tók við embætti sendiherra Íslands, fyrst kvenna, í Stokkhólmi

1991 Salóme Þorkelsdóttir (f. 1927) verður forseti Alþingis, fyrst kvenna

1993 Kvennakirkjan stofnuð

1993 Neyðarmóttaka vegna nauðgana stofnuð

1995 Stjórnskipunarlög nr. 97 um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 frá 1944 með síðari breytingum. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna

1995 Margrét Sæunn Frímannsdóttir (f. 1954) var kjörin formaður Alþýðubandalagsins árið 1995. Var það í fyrsta sinn sem kona er kjörin formaður stjórnmálaflokks beggja kynja af þeim sem teljast til fjórflokkana. Jóhanna Sigurðardóttir (f. 1942) hafði stuttu áður verið kjörin formaður stjórnmálaflokksins Þjóðvaka

1996 Rannveig Rist (f. 1961) ráðin forstjóri Íslenska álfélagsins hf. árið 1996 og tók hún við starfinu árið 1997. Það mun vera í fyrsta skipti sem kona gegnir starfi forstjóra hjá iðnfyrirtæki af þessari stærðargráðu á Íslandi

1996 Nám í kvennafræðum (kynjafræði frá 1998) hófst við Háskóla Íslands

1997 Feður fá launaðan, tveggja vikna fæðingarorlofsrétt

1997 Helga Kress (f. 1939) skipuð forseti heimspekideildar við Háskóla Íslands, fyrst kvenna til að gegna embætti deildarforseta við háskólann

1997 Sigríður Þorgeirsdóttir (f. 1958) heimspekingur ráðin lektor í heimspeki við Háskóla íslands fyrst kvenna til að hljóta fasta ráðningu í heimspeki

1997 Dagný Kristjánsdóttir (f. 1949) varði doktorsritgerð sína „Kona verður til" við Háskóla Íslands, fyrsta doktorsritgerðin sem samin er á íslensku og varin við Háskóla íslands á því sviði sem nefndist kvennafræði, eða femínisk fræði

1998 Bríet, félag ungra femínista stofnað

1998 Guðfinna S. Bjarnadóttir (f. 1957) ráðin rektor Háskólans í Reykjavík, fyrst kvenna til að bera titil rektors

2000 Feður fá sjálfstæðan, launaðan, þriggja mánaða fæðingarorlofsrétt

2002 Sigrún Klara Hannesdóttir (f. 1943), skipuð í embætti Landsbókavörður, fyrst kvenna

2003 Feministafélag Íslands stofnað

2005 Kvennafrídagurinn haldinn í þriðja sinn

2005 Kristín Ingólfsdóttir (f. 1954) skipuð rektor Háskóla Íslands, fyrst kvenna við Háskóla Íslands

2008 Elín Sigfúsdóttir (f. 1955) verður bankastjóri, fyrst kvenna

2008 Margrét Frímannsdóttir (f. 1954) varð fyrst kvenna til að gegna starfi forstöðumanns við fangelsi á Íslandi

2008 Sigríður Th. Erlendsdóttir (f. 1930), brautryðjandi í rannsóknum á sögu íslenskra kvenna var gerð að heiðursfélaga Sögufélagsins, fyrst kvenna

2009 Ásta Dís Óladóttir (f. 1972) er fyrst ís­lenskra kvenna til að gegna stöðu deild­ar­for­seta viðskipta­deild­ar við há­skóla á Íslandi

2009 Jóhanna Sigurðardóttir (f. 1942) varð forsætisráðherra, fyrst íslenskra kvenna. Ríkisstjórn skipuð jafnt konum og körlum í fyrsta sinn

2010 Kvennafrídagurinn haldinn í fjórða sinn

2010 Lög um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja samþykkt í hlutfallinu 40/60

2010 Ein hjúskaparlög. Breytingar á hjúskaparlögum tóku gildi þar sem einstaklingum er gert frjálst að giftast einstaklingi af sama kyni

2011 Fyrsta Druslugangan haldin á Íslandi

2012 Agnes Sigurðardóttir (f. 1954) kjörin biskup Íslands, fyrst íslenskra kvenna

2014 Sig­ríður Björk Guðjóns­dótt­ir tekur við embætti lög­reglu­stjóra á höfuðborg­ar­svæðinu, fyrst kvenna

2015 100 ára kosningarétti kvenna fagnað

2016 Kvennafrídagurinn haldinn í fimmta sinn

2018 Alma Dagbjört Möller (f. 1961) skipuð Landlæknir, fyrst kvenna í 258 ára sögu embættisins

2018 Kvennafrídagurinn haldinn í sjötta sinn

2019 Hrefna Róbertsdóttir (f. 1961) skipuð í embætti þjóðskjalavarðar, fyrst kvenna

2019 Ný lög um þungunarrof tóku gildi sem færðu konum sjálfsákvörðunarrétt í eigin þungun og rýmkuðu tímaramma þungunarrofs til 22. viku

2020 Hildur Guðnadóttir, (f. 1982), tónlistarmaður og tónskáld, fyrst Íslendinga til að vinna Óskarsverðlaun

 

*síðast uppfært 10. ágúst 2022