Kveikja að kvennafríi

Grein eftir Björgu Einarsdóttur sem birtist í tímaritinu Húsfreyjan, 1.tbl. 37. árg. 1986, bls. 9-18

Mér hafa borist tilmæli frá Húsfreyjunni að greina frá hver hafi verið kveikjan að Kvennafrídeginum 24. október 1975. Þetta varð mér að vísu kærkomið tilefni til að rifja upp liðna atburði og fara í gegnum ýmis plögg og minnisblöð í fórum mínum, en eigi að síður ætla ég mér ekki þá dul að slíkt sé á mínu færi. Hins vegar get ég eftir bestu vitund, stutt þeim heimildum sem mér eru tiltækar, skýrt frá því sem að mér veit varðandi kvennafríið.
     Alkunna er og oft haft á orði að fátt sé jafn óstöðvandi og hugmynd sem kviknar á kjörtíma hjá fólki sem hefur kjark og hin æskilegustu skilyrði til að hrinda henni í framkvæmd. Hvort þessi kenning á við um kvennafríið skal ósagt látið en víst er að mikill kraftur var þar á ferð. Á fundi í Hamragörðum í Reykjavík hinn 11. september 1975, sem sóttur var af fulltrúum ýmissa félagasamtaka til að kynna þeim hugmyndina um kvennafríið kom það í minn hlut að rekja aðdraganda atburða til þess dags. Ég minnist þess ekki nú að athugasemdir hafi verið gerðar við málflutning minn þá og mun því styðjast við hann hér.

Alheimsverkfall 
Hugmyndin um að konur sameinuðust um að leggja niður vinnu samtímis barst hingað erlendis frá. Hér á landi tók hún breytingum og aðlagaðist aðstæðum. Á fundi í Norræna húsinu í ársbyrjun 1973 sem Rauðsokkahreyfingin hélt til kynningar á starfsemi hreyfingarinnar, var í almennum umræðum sagt frá nýstárlegri hugmynd. Frásögumaður, ein þeirra kvenna sem frá upphafi hafði verið virk í Rauðsokkahreyfingunni, hafði á ferðum sínum erlendis heyrt um það rætt að allar konur í heiminum ættu að taka sig til og leggja niður vinnu samtímis í einn dag og sýna þannig í eitt skipti fyrir öll hver hlutur þeirra væri á heimsbyggðinni. Raunar mun sömu hugmynd hafa verið komið á framfæri hjá hreyfingunni 1970. Tölur úr skýrslum frá stofnunum Sameinuðu þjóðanna (S. Þ.) sýndu að konur inntu af hendi stóran hluta verka í þjóðlöndunum og sumsstaðar þau erfiðustu. Hins vegar báru þær úr býtum aðeins lítinn hluta þess sem karlar uppskáru fyrir sína vinnu, og jafnframt að eignarhald kvenna á þeim verðmætum sem sköpuðust var aðeins lítið brotabrot af heildareign mannkyns.
     Þessi stórkostlega humynd var heillandi og myndrænt að setja sér þvílíka aðgerð fyrir sjónir. Helmingur jarðarbúa gerði sig gildandi — ekki með því að ganga til verka sinna heldur með því að láta það ógert og sanna þannig hlutdeild sína. Hugmyndin kom nokkrum sinnum til umræðu í þrengri hópi, en þó skemmtilegt væri að leika sér með hana var flestum ljóst að hún var í reynd óframkvæmanleg og líkari loftkastala.

Kvennaverkfall tengist kvennaári
Mál skipuðust svo sumarið 1973 að mér var ásamt nokkrum öðrum löndum mínum boðin þátttaka í Eystrasaltsvikunni sem var að venju haldin í Rostock í júlímánuði. Var mér falið að vera með innlegg af Íslands hálfu í umræðuhópi um jafnrétti karla og kvenna og fjalla um stöðu kvenna hér með tilliti til lagalegs jafnréttis, menntunar og aðstöðu á vinnumarkaðinum. Af því tilefni tók ég saman stutta greinargerð í þá veru en þegar á staðinn kom upplýstist að umræðuefnið væri tvíþætt. Skyldi nú einnig segja frá undirbúningi á Íslandi fyrir Alþjóðlegt kvennaár S. Þ. 1975. 
     Skemmst er frá því að segja að Ísland var á þeim hjara veraldar sem lítil sem engin umræða var komin í gang um þetta mikilvæga átak S. Þ. fyrir bættum hag kvenna í heiminum, eða þá að sú umræða sem kann að hafa verið hafði gjörsamlega fokið fram hjá mínum eyrum. Gerðust nú góð ráð dýr því halda varð uppi sóma lands og þjóðar. Minntist ég þá hugmyndarinnar góðu frá vetrinum og prjónaði nokkrar setningar aftan við áður ritað ávarp þar að lútandi. Orðrétt segir þar: „Á Íslandi hefur lítt verið talað um Alþjóðlega kvennaárið 1975 og þarf af leiðandi ekki mikill undirbúningur. Ein hugmynd hefur verið til umræðu, en hún mun komin erlendis frá. Ég vil koma henni á framfæri hér, ef viðstaddir hafa ekki kynnst henni: Að allar konur veldu sér einn dag árið 1975 — með nógu löngum fyrirvara og á þeim degi færu allar konur í verkfall ... hefðu staðinn sinn auðan og sýndu þannig bæði sér sjálfum og öðrum hversu stór þáttur kvenna er í atvinnulífinu og öðluðust það sjálfstraust sem vitneskjan um eigið gildi gefur fólki.“ 
     Hafi ég búist við fagnaðarlátum við þessum vanburðuga málflutningi þá brást sú von enda ekki neinni málafylgu fyrir að fara af minni hálfu. Tilheyrendur, sem flestir voru frá milljóna þjóðum, hristu aðeins höfuðin og sögðu blátt áfram: „Ómögulegt“ — og síðan var að mig minnir farið í kaffi. Löngu seinna þegar Kvennafríið var orðið að veruleika, og fregnin um það flaug á öldum ljósvakans víða um heim, hefði ég viljað sjá framan í einhverjar af þessum konum og vitað viðbrögð þeirra þá.

Undirbúningur kvennaárs hefst
Veturinn 1973-1974 var líflegt starf í mörgum hópum hjá Rauðsokkahreyfingunni og í einum þeirra var alloft rætt um þetta kvennaverkfall eins og það var þá nefnt. Snemma á árinu 1974 tóku ýmis samtök kvenna hér á landi við sér varðandi undirbúning kvennaársins og stofnuðu nefndir í því skyni. Af því spratt síðan samstarfsnefnd um kvennaárið 1975 og vil ég til fróðleiks geta þeirra samtaka sem þá nefnd skipuðu: Félag Sameinuðu þjoðanna, Félag háskólakvenna, Kvenfélagasamband íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna og Rauðsokkahreyfingin. Fulltrúi hinna síðasttöldu lagði meðal annars í hugmyndabanka nefndarinnar um aðgerðir á árinu 1975 „að íslenskar konur sýndu með einhverjum raunhæfum hætti hver hlutur þeirra í samfélaginu væri.“ Var hér á ferðinni hugmyndin um kvennaverfallið í þessum búningi. 
     Ekki skapaðist neitt veður um aðgerðina á þessu stigi enda margt í borði svo sem áform um sýningar, ráðstefnur, fundi, þætti í fjölmiðum og fleira til áréttingar á kjörorðum kvennaársins: Jafnrétti – Framþróun – Friður. Í blaðafregn af störfum nefndarinnar 19. júní 1974 minnist ég ekki að þetta atriði kæmi fram, en ég hef ekki heimildir við hendina til að taka af um það. Á ráðstefnu Rauðsokkahreyfingarinnar að Skógum í júní þetta sama ár kom kvennaverkfalllið til umræðu og var getið við fréttamann ríkisútvarps sem leitaði fregna af gangi mála á ráðstefnunni. Ekki veit ég hvort sá lét það koma fram í fréttaflutningi frá ráðstefnunni því við sem vorum að Skógum þessa júnídaga 1974, höfðum öðru að sinna en ríkisfjölmiðlunum.
     Til þess að fara fljótt yfir sögu má geta þess að á ráðstefnu um kjör láglauna kvenna í Lindarbæ í janúar 1975 var kvennaverkfall sérstaklega nefnt af einum ræðumanna og viðkomandi lagði það til sem aðgerð í tilefni kvennaársins. Í blaðaviðtölum sem Elín Pálmadóttir tók fyrir Morgunblaðið í janúar þetta ár leitaði hún meðal annars svara hjá mér varðandi kvennaárið og tilgang þess fyrir íslenkar konur. Nefndi ég þar auk annars að konur hér á landi ættu að fella niður störf dagsstund og súna með því hvaða hjól atvinnulífsins hættu að snúast þegar þær létu daglegan vinnustað sinn auðan. Spurnir eru af nokkrum stöðum öðrum þar sem ræðumenn á fundum í tilefni kvennaárs orðuðu kvennaverkfall.

Tillaga á Loftleiðaráðstefnu
Á árinu 1975 skipuðu stjórnvöld sérstaka kvennaársnefnd og hún ásamt áðurnefndri samstarfsnefnd kvennasamtaka stóðu fyrir ráðstefnu að Hótel Loftleiðum í júnímánuði það ár. Margir ræðumenn og starfshópar fjölluðu þar um markmið S.Þ. með alþjóðlegu kvennaári og voru um þrjú hundruð manns á ráðstefnunni þegar flest var. Sú hugmynd að konur sönnuðu hlut sinn í þjóðarbúinu með einhverju raunhæfu móti var stöðugt áleitin en hafði hvergi hlotið formlega meðhöndlun. 
     Undir lok ráðstefnunnar á Loftleiðum vorum við nokkrar konur staddar á ganginum framan við ráðstefnusalinn og ræddum að nú væri að hrökkva eða stökkva með þetta mál. Gripið var pappírsblað og upp við vegginn hripuð niður svohljóðandi tillaga: „Kvennaráðstefnan, haldin dagana 20. og 21. júní 1975, skorar á konur að taka sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október næstkomandi til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns.“ Í flýti var hóað saman flutningsmönnum, átta talsins, sem höfðu það meðal annars sér til ágætis að mynda til samans þverpólitíska heild. Skulu nöfn þeirra talin hér og geta þeir sem hnútum eru kunnugir séð í hendi sér hina pólitísku breidd: Bessí Jóhannsdóttir, Björg Einarsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Lilja Ólafsdóttir, Sigríður Friðriksdóttir, Valborg Bentsdóttir og Þorbjörg Jónsdóttir. 
     Tillögunni var komið til fundarstjóra og var fundarmönnum farið að fækka þegar hún kom til afgreiðslu. Eitt hundrað manns greiddu atkvæði og voru 72 með og 28 á móti. Man ég enn konu sem stóð og greiddi atkvæði gegn tillögunni en varð síðar ein aðaldriffjöður kvennafrísins í Reykjavík. Enginn málatilbúnaður var þarna að öðru leyti um tillöguna og til dæmis voru engir settir til framkvæmda. Það var svo ekki fyrr en ágústmánuður var byrjaður að líða að upplaukst fyrir flutningsmönnunum átta að ef þeir tækju ekki málið í sínar hendur og huguðu að framkvæmd yrði kvennaverkfallið heldur smátt í sniðum.

Flutningsmennirnir taka frumkvæðið
Flutningsmennirnir voru dreifður hópur en náðu þó saman til skrafs og ráðagerða að Hamragörðum 6. ágúst. Samþykkt var að láta reyna á hvort vilji væri hjá konum til aðgerða í samræmi við efni tillögunnar sem eðli máls samkvæmt var orðið hið beina tilefni kvennafrís. Afráðið var að senda bréf til nokkurra félagasamtaka og kynna málið. 
     Áttmenningarnir hittust aftur 14. ágúst og voru þá tilbúin drög að bréfi þar sem meðal annars segir svo: „Flutningsmenn tillögunnar hafa myndað bráðabirgðastarfshóp til að vinna að framgangi hennar og afráðið að leita til kvennasamtaka, launþega og annarra, er áhuga hefðu á málinu, um þátttöku í víðtækri samstarfsnefnd.“ Þá er farið nokkrum orðum um fríið og tímalengd þess en framan af var á reiki hvort konur ættu að taka sér frí heilan dag eða hluta úr degi. Síðan segir: „Samhliða því mætti efna til útisamkomu, þar sem komið yrði á framfæri með einhverjum hætti þeim atriðum um stöðu kvenna, er samstarfsnefndin teldi að leggja bæri áherslu á.“ Þarna er komin kveikjan að hinum glæsilega útifundi á Lækjartorgi á kvennafrídaginn og raunar fundum víða um land. 
     Bréfið er dagsett 19. ágúst og undir því eru nöfn sjö flutningsmanna, sem þaðan í frá kölluðust bráðabirgðahópur. Þorbjörg Jónsdóttir var erlendis þegar þetta var og í hennar stað kom til starfa í hópnum Þuríður Magnúsdóttir frá Rauðsokkahreyfingunni og er hennar nafn því það áttunda undir bréfinu. Hópurinn myndaði dálítinn sjóð til að standa straum af fjölföldun bréfsins og burðargjaldi. Alls var bréf sent 76 félagasamtökum og óskað eftir að þau sendu fulltrúa til sameiginlegs fundar um málið. Hafa varð hraðann á því tími til stefnu var naumur. Á þessu stigi var ekkert vitað um undirtektir og meðan starfshópurinn beið spenntur eftir viðbrögðum var málið rætt enn frekar. Ég sé af minnisblöðum mínum að hópurinn hittist 27. ágúst og ræddi þá meðal annars hvernig hægt væri að virkja konur út um landið.
     Hinn 2. september höfðu tilkynningar borist um nokkra fulltrúa og þá er rætt um að bíða með fregnir af framtakinu uns fastar verði undir fæti með framkvæmdir, en ljóst er að fjölmiðlar hafa þá þegar haft veður af málatilbúnaðinum. Þann 8. sama mánaðar er rætt um hvernig skilgreina skuli markmiðin með aðgerðinni og koma þeim áleiðis til kvenna og er þar að ég hygg fyrsta kveikjan að dreifibréfi sem síðar var sent í tugþúsunda upplagi og hafði afgerandi áhrif á kynningu frísins. Bráðabirgðastarfshópurinn hittist enn 10. september og gekk frá dagskrá fundar að kvöldi næsta dags með fulltrúum frá félögunum.

Kvennafrí skyldi aðgerðin kallast
Fundurinn 11. september að Hamragörðum var sóttur af fulltrúum 50 til 60 samtaka. Fundarstjóri var Lilja en ritarar Bessí og Þuríður. Af hálfu fundarboðenda var í upphafi fundar gerð grein fyrir tilgangi fundarins, eins og getið var hér fyrr, rakið hvernig hugmyndin um kvennaverkfall hefði þróast, rifjuð upp tillagan frá júní-ráðstefnunni á Loftleiðum, farið orðum um hversu mjög konum sárni að heyra störf sín umtöluð sem hálfgert aukaatriði í íslensku samfélagi (slík umræða var ótrúlega algeng á þessum árum), nauðsyn þess að sýna í eitt skipti fyrir öll gildi þeirra starfa sem konur hefðu með höndum og undirbúa með því framtíðarsókn í launamálum. Markmiðið væri að allar konur á Íslandi gætu tekið þátt í aðgerðinni, hvar í flokki sem þær stæðu, hvort sem þær væru að störfum inni á heimilunum eða á almennum vinnumarkaði, byggju í þéttbýli eða dreifbýli. Síðan var orðið gefið frjálst og fundarmenn beðnir að segja álit sitt á aðgerðinni og hvernig henni skyldi hagað í stórum dráttum.
     Um tuttugu manns tóku til máls, fundurinn stóð lengi kvölds og afstaða var tekin í veigamikum málum. Samþykkt var að efna til aðgerðar af því tagi sem lýst hefur verið; fulltrúarnir sem þarna voru mynduðu samstarfsnefnd sem bakhjarl framkvæmda og tengilið í hin ýmsu félög; kjósa skyldi 10 manna framkvæmdanefnd og átti bráðabirgðahópurinn að leggja fram drög að tillögu um þá nefnd á framhaldsfundi í Norræna húsinu að fjórum dögum liðnum; fulltrúarnir áttu í millitíðinni að kanna hver á sínum vinnustað afstöðu fólks til slíkrar vinnustöðvunar; óheppilegt væri að nefna aðgerðina verkfall því samkvæmt vinnulöggjöfinni eru ákveðnar lögfylgjur með verkfalli og þurfti að sigla fram hjá þeim; þvílíku var ekki til að dreifa þó fólk tæki sér frí frá störfum einn dag af einhverjum tilgreindum ástæðum. Vinnuveitendur gætu snúist öndverðir við verkfalli og körlum yrði óheimilt að ganga í störf kvenna ef þær færu í verkfall. Talið var að verkfall gæti haft hvetjandi áhrif á einhverja en þeir væru sennilega fleiri sem kinokuðu sér við að fara í „verkfall“. Ef allar konur áttu að geta samsamað sig kvennaverkfalli yrði að fara hægt í sakirnar svo enginn fældist frá. Kvennafrí skyldi því aðgerðin kallast þaðan í frá, en lengi eimdi eftir af þessum umræðum og þær hafa skotið upp kolli öðru hvoru síðan.
     Fram kom eindreginn vilji fyrir því að fríið stæði allan daginn. Margar konur væru við þess háttar störf að ógerlegt væri að ganga út frá þeim í miðjum klíðum, til dæmis kennslu, umönnun, fjármunavörslu og mörg önnur. Áhersla var lögð á neyðarvaktir þar sem líf og heilsa annara var í húfi og var þá einkum verið með sjúkrahúsin í huga. 
     Eftir á vekur athygli hversu yfirgripsmiklar umræðurnar á þessum fyrsta fundi voru og markvissar. Konurnar lögðu málið niður fyrir sér af raunsæi enda þótt hugurinn og hrifningin vegna verkefnisins sem framundan var fyndist í öllu. Ákvarðanir sem teknar voru á þessum fundi réðu úrslitum og án efa hefur það gert gæfumuninn um farsæla framkvæmd að frá upphafi var lögð áhersla á þverpólitískt samstarf sem næði til allra kvenna.
     Peningar eru afl þeirra hluta sem gera skal og þarna kvaddi Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir sér hljóðs, mælti kröftuglega með aðgerðinni, hvatti konur til að vera hressar, koma út úr sérhópunum sem þær væru lengst af innilokaðar í og kynnast hver annari. Hún lauk máli sínu með því að færa konum allmyndarlega fjárupphæð frá Starfsstúlknafélaginu Sókn en Aðalheiður var þá nýtekin við formennsku í því félagi. Ég hafði fyrst heyrt í Aðalheiði og séð á áðurnefndri láglaunaráðstefnu í Lindarbæ og hún orðið mér minnisstæð, og enn átti hún eftir að koma við sögu. Gjöfinni var tekið með þökkum og hún átti eftir að draga að sér fleiri álíka frá öðrum stéttarfélögum, ýmsum félögum og einstaklingum.

Þverpólitísk framkvæmdanefnd
Bráðabirgðahópurinn hittist aftur 13. september og gekk frá drögum að tillögu um framkvæmdanefnd og kom þar margt til álita. Hafa varð í huga pólitíska afstöðu kvenna, menntun þeirra og störf og aldur, og auðvitað hæfni til að takast á við þetta viðamikla verkefni sem eins og einn fundarmanna 11. september sagði: „... verður að undirbyggjast vel – ef illa tekst til er það slys.“
     Á fundinum 15. sama mánaðar í Norræna húsinu voru mættir fulltrúar úr nýstofnaðri samstarfsnefnd og margir þeirra gerðu grein fyrir viðbrögðum fólks við kvennafríi. Undirtekningarlítið mæltist það vel fyrir, „flestir væru mjög hrifnir af henni“, aðgerðin mundi þjappa konum saman „og vekja þær til umhugsunar um stöðu sína og mikilvægi“, og einnig „sameina óvirkjaða krafta, sem búa i öllum konum, til starfa um hugsjón“ svo gripið sé niður í minnisblöðum. 
     Í framkvæmdanefndina voru valdar: Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Ásthildur Ólafsdóttir, Gerður Steinþórsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Björk Thomsen, Erna Ragnarsdóttir, Margrét S. Einarsdóttir, Stella Stefánsdóttir og Valborg Bentsdóttir. Upphaflega skyldu vera fimm aðalmenn í framkvæmdanefnd og jafnmargir til vara en reyndin varð sú að þeir störfuðu allir jafnt eftir því sem við varð komið. Eins og sést á þessum nöfnum voru þarna þrjár konur úr bráðabirgðahópnum og var ákveðið að hann starfaði áfram sem bakhópur til stuðnings framkvæmdanefnd auk stóru samstarfsnefndarinnar sem lýst hefur verið. Eftir þennan fund í Norræna húsinu var fréttatilkynning send öllum fjölmiðlum, komst þetta framtak kvenna í hámæli og varð meira og minna á allra vörum.

Verkaskipting – liðsoddar
Fyrsti fundur nýkjörinnar framkvæmdanefndar og brábirgðahópsins var haldinn að Hamragörðum 18. september. Stofnaðir voru fimm starfshópar og tveir framkvæmdanefndarmenn settir sem oddamenn fyrir hvern hóp. Skiptu þeir þannig með sér verkum: fyrir fjölmiðla- og upplýsingahópi voru Gerður Steinþórsdóttir og Margrét S. Einarsdóttir; fundar- og dagskrárhópi Erna Ragnarsdóttir og Valborg Bentsdóttir; landsbyggðarhópi þær Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir og Björk Thomsen, sem einnig ritaði allar fundargerðir framkvæmdanefndar; kynningarhópi Ásthildur Ólafsdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir og fyrir fjáröflunarhópi voru Ásdís Guðmundsdóttir og Stella Stefánsdóttir. 
     Hóparnir voru opnir vikuna sem í hönd fór og mikill fjöldi kvenna skráði sig í þá, á skráningarblöðunum sést að í sumum hópanna voru tugir kvenna. Athyglisvert er hvernig konur dreifðu sér í hópana og var einvala „fagfólk“ í sumum þeirra. Fæstar voru í fjáröflunarhóp, eins og oft vill verða þykir mörgum fjáröflun hvimleið, en þar var skráð Unnur Jóhannesdóttir sem síðar tók að sér að vera gjaldkeri kvennafrísins. Vann hún þar mikið starf þó hljótt hafi farið. 
     Á þessum fundi, 18. september, gerði einn nefndarmanna athugasemd við að fjöldi í framkvæmdanefnd stæði á jafnri tölu, taldi það stríða gegn venju í félagsstarfi og gerði jafnframt tillögu um mig sem oddamann nefndarinnar. Var það samþykkt og má segja að þar festist ég í neti þrotlausra fundarhalda. Framkvæmdanefndin setti sér þá verklagsreglu að greiða ekki atkvæði en leita jafnan samkomulags um málefni. „Við skulum ekki bera hver aðra atkvæðum“, sagði ein úr nefndinni mjög svo viturlega. Mitt starf varð því fyrst og fremst að vera tengiliður hópanna og halda utan um fundi framkvæmdanefndarinnar sem urðu til jafnaðar ekki færri en þrír í viku hverri. Kvenréttindafélag Íslands lét í té starfsaðstöðu á Hallveigarstöðum og aðgag að síma félagsins meðan kvennafríið var í undirbúningi. Var ómetanlegt að hafa þar miðstöð starfsins sem í hönd fór og á öðrum góðum stað í borginni. 
     Þegar hér var komið var engu líkar en ótal hjól tækju að snúast samtímis og með æ meiri hraða uns hápunkti var náð með sjálfu kvennafríinu 24. október og útifundi á Lækjartorgi sem um þrjátíu þúsund manns sótti. Um allt land voru fundahöld, auglýsingar dundu í fjölmiðlum til kvenna að taka þátt í kvennafríi, stuðningsyfirlýsingar frá fjölmennum félagasamtökum og heillaóskir bæði innlendar og erlendar. Sá kraftur sem þarna leystist úr læðingi líktist skriðu sem rennur fram er steinvala losnar, og í þessu tilviki má segja að tillagan frá júní-ráðstefnunni hleypti skriðunni af stað.

Hárnákvæmt og þaulunnið 
Verður hér að fara fljótt yfir sögu. Mér er minnisstætt hveru frábært starfið var í hópunum og styrkur framkvæmdarinnar lá í hárnákvæmu skipulagi og sterkum vilja fjölda margra til að ná árangri. Oddamenn hópa hittust reglulega, gerðu jafnóðum grein fyrir framvindu mála, báru saman bækur sínar, komu nýjum hugmyndum á framfæri og samræmdu allar aðgerðir. Að sjálfsögðu voru skoðanir oft skiptar og ágreiningur gat orðið því hinar pólitísku tilfinningar fólks virðast stundum mun heitari en aðrar. En aldrei misstu konurnar sjónar á því meginmarkmiði að allar gætu átt hlut að kvennafríinu og hin breiða skírskotun út í raðir kvenna var í heiðri höfð. 
     Fjölmiðlar tóku í æ ríkara mæli að fylgjast með því sem var að gerast, umfjöllun um undirbúning kvennafrís varð daglegt brauð á síðum dagblaða, erlendar fréttastofur sendu út fregnir af því sem íslenskar konur aðhöfðust og erlendir fréttamenn hópuðust hingað. Gefið var út dreifibréf í 47 þúsund eintaka upplagi með fyrirskriftinni „Hvers vegna kvennafrí?“ Þar eru tilgreindar tíu ástæður fyrir því að konur vilja færa sönnur á vinnuframlag sitt og síðar segir: „Sameiginleg niðurstaða er sú, að framlag kvenna til samfélagsins sé lítils metið.“ Gerður var límmiði með merki kvennaársins og orðunum „Kvennafrí 24. okt.“ í 25 þúsund eintökum og seldur í fjáröflunarskyni, einnig veggspjöld með mynd Ásmundar Sveinssonar af vatnsberanum, táknræn fyrir störf kvenna fyrr á árum. Undir lokin mátti segja að Reykjavík væri þakin þessum áróðursplöggum og má jafnvel enn áratug síðar sjá á einstaka stað slitur af límmiðanum, því konur settu hann á ólíklegustu staði. Nýr starfshópur kom til sögunnar sem hafði það verkefni að sjá um „opnu húsin“ á nokkrum stöðum í borginni. Í þau gátu konur farið að loknum útifundinum á Lækjartorgi, setið saman yfir veitingum og notið þess að taka sér frí saman. Listamenn fóru í flokkum á milli „opnu húsanna“ og skemmtu með söng, hljóðfæraslætti og upplestri og settu sannarlega hátíðanlegan svip á daginn með þeirri sjálfboðavinnu. 
     Um miðjan október var haft samband við fjölda marga staði út um landið og leitað fregna hvað konur hyggðust gera í tilefni kvennafrísins. Víðast hvar var eitthvað í uppsiglingu og ljóst var að konur um allt land voru í viðbragðsstöðu. Að kvöldi 19. október voru allir starfshóparnir boðaðir til fundar í kaffistofu Norræna hússins til þess sameiginlega að yfirfara allt sem snerti sjálfan kvennafrídaginn, einskis var látið ófreistað til að allt gæti farið vel fram. Dagskrá útifundarins hafði þróast smátt og smátt og var hún „prufukeyrð“ að kvöldi 21. október í salnum í Hreyfilshúsinu undir stjórn Guðrúnar Ásmundsdóttur leikara. Hinn 23. október var allmikill fjöldi erlendra fréttamanna kominn til borgarinnar og var efnt til fundar með þeim á Hallveigarstöðum að kvöldi þess dags, komu þar um 20 fréttamenn. Með hraði var ýmislegt efni varðandi kvennafríið þýtt á nokkur erlend mál og fjölfaldað aðfaranótt 24. okt., allt í sjálfboðavinnu eins og flest sem þennan atburð snerti.

Stemningin flæddi yfir
Kvennafrídagurinn rann upp hlýr og fagur, veðrið var einstakt miðað við árstíma. Gárungar höfðu við orð að framkvæmdanefndin hefði mútað veðurstofunni, og þá minntust menn þess að ein í nefndinni var skrifstofustjóri þeirrar ágætu stofnunar svo heimatökin voru hæg að haga veðri að vild. 
Við hittumst nokkrar tímanlega eftir hádegi á Hallveigarstöðum og gengum í hóp niður Túngötuna og sem leið lá á Lækjartorg. Alls staðar voru fánar við hún og sérstök stemning lá í lofti. Nokkur umferð gangandi fólks var á þessari leið en þó ekki ýkjamargt. Við gátum alls ekki vitað neitt hvernig þátttakan myndi verða og það var ekki fyrr en við komum fyrir hornið á Útvegsbankabyggingunni og sveigðum inn á torgið að ljóst varð að allt var með ágætum. Sviðsvagninn stóð þar tilbúinn með magnarakerfið, umhverfið var fánum prýtt og óslitinn straumur kvenna inn á torgið, sunnan úr Lækjargötu, ofan Bankastræti og Hverfisgötu, um Kalkofnsveg og Hafnarstræti. Manngrúinn var með ólíkindum yfir að horfa og litaskrúðið mikið. Margar konur, starfshópar og félagar höfðu hist fyrir fundinn og komu og fylktu liði á torgið. Þær komu líka með bifreiðum úr nærliggjandi byggðarlögum og með skipi af Vesturlandinu. 
     Þegar vísar torgklukkunnar nálguðust tvö varð alveg hljótt og fólk beið í ofvæni að eitthvað gerðist. Á slaginu tvö hóf Lúðrasveit stúlkna úr Kópavogi, undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur, að leika dúndrandi lag og það mátti næstum heyra hvernig menn drógu andann léttar og stemninginn flæddi yfir. Enn varð dauðaþögn og síðan heyrðist rödd Guðrúnar Erlendsdóttur, sem stjórnaði fundinum og var val hennar í það starf óumdeilt, hún bauð alla hjartanlega velkoma til fundarins, lýsti tilefni hans og fjölbreyttri dagskrá og að þessum aðgerðum á degi S. Þ. stæðu „konur á öllu landinu, hvar í flokki sem þær standa og hvaða störf sem þær stunda.“ Á dagskránni voru þrjú ávörp og fyrsti ræðumaður var Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, djúp og hljómmikil rödd hennar náði inn í æðar allra þegar hún ávarpaði fundarmenn „Kæru baráttusystur“. Hún spurði einnig: „Hvað veldur þessum mikla áhuga á deginum? Án efa það óréttlæti sem mætir konum á vinnumarkaðinum og vanmat á störfum þeirra yfirleitt.“ Síðar sagði hún og vakti kátínu margra:„Ég hef orðið þess vör að sumir karlmenn og karlhollar konur halda að við, þessar konur sem erum að halda fram skoðunum, viljum reka karlmenn út í horn og svipta þá öllum völdum, jafnvel kyrrsetja þá í eldhúsi eða yfir börnum. Ekkert er fjær okkur en að kúga karla. Við viljum jafnrétti. Hvorki meira né minna. Við þurfum að leysa flest ef ekki öll mál í félagi við karla.“ 
     Milli dagskráratriða var fjöldasöngur undir magnaðri stjórn Guðrúnar Á Símonar. Tilfinning mín er sú að í fyrstu töktunum hafi hún náð öllum fjöldanum á torginu með í sönginn og hann var í sannleika voldugur. Fundurinn var ekki tekinn upp á hljóðband og því ekkert sem staðfestir slíka upprifjun, en ég hef heyrt marga segja að fátt hafi þeir upplifað stórkostlegra en söng Guðrúnar, sem er óperusöngvari og hetjusöngvari, og stjórn hennar á mannfjöldanum á kvennafrídaginn.

„Kvennafrí, hvað svo?“
Hér er ekki unnt að fara nánar út í einstaka dagskrárliði, en auk þess sem talið hefur verið var þáttur fluttur af konum á Alþingi og frá Kvenréttindafélagi Íslands og Rauðsokkahreyfingunni, Kvennakrónika í þríliðu, söguleg samantekt þeirra Önnu Sigurðardóttur, Sigríðar Thorlacíus og Valborgar Bentsdóttur, flutt af hópi leikara, þar af einum karlmanni til þess að hafa tegundina með og að sjálfsögðu var hann með barn sitt með sér og lék með það á handleggnum. Herdís Þorvaldsdóttir stjórnaði leikþættinum. 
Í lokaorðum sínum mælti fundarstjóri: „Það er von mín og trú, að með þessu kvennafríi hafi íslenskar konur ekki einungis sýnt fram á mikilvægi vinnuframlags síns, þannig að öllu misrétti verði aflétt sem fyrst, heldur hafi okkur einnig tekist að sýna fram á samstöðu kvenna þannig að til stuðnings geti orðið þeim konum, sem verr eru á vegi staddar en við, svo að tilganginum með kvennaári S. Þ. verði náð sem fyrst, en tilgangurinn er fullt jafnrétti kynjanna í reynd.“
     Fundurinn stóð í fulla tvo klukkutíma og endaði eins og hann byrjaði með leik Lúðrasveitar stúlkna og léku þær nú meðal annars marsinn „Saman við stöndum“ sem þá var mjög þekktur úr kvikmynd um breskar kvenréttindakonur sem hafði verið sýnd í sjónvarpinu. Að kveldi 24. október var alllangur útvarpsþáttur í beinni útsendingu með konum úr framkvæmdanefnd, bráðabirgðahópnum og í forystu kvennasamtaka. Þátturinn var byggður upp eins og kosningaútvarp með beinum viðtölum viðstaddra og sambandi við ýmsa staði um landið þar sem leitað var frétta af viðburðum dagsins. Konur náðu að ræða saman gegnum útvarpið um landið þvert og endilagt. Tel ég ef sá þáttur er til í segulbandsafni útvarpsins gæti verið fróðlegt að heyra hann á ný. Fréttamennirnir Friðrik Páll Jónsson og Ólafur Sigurðsson enduðu með því að varpa fram spurningunni:„Kvennafrí, hvað svo?“ og enn spyrja ýmsir þess sama. 
     Kvennafríið 24. október 1975 tókst til fulls miðað við hvað því var ætlað að leiða í ljós. Mikilvægi starfa kvenna var af þeirri gráðu að þegar þær viku af sínum venjulega stað einn dag lamaðist atvinnulíf landsmanna. Með þessa vitneskju í huga og þá vitundarvakningu sem af henni leiddi fóru konur aftur á sinn daglega vettvang. Konur eru jafnólíkar innbyrðis og karlar og sú órofa samstaða sem náðist á kvennafrídaginn byggðist á fáum atriðum og einföldum og sameginlegum öllum. Fólk getur, jafnt konur sem karlar, átt sameiginleg markmið en greint á um leiðir til að ná þeim. Það kom raunar í ljós að afloknu kvennafríi að jafnvel sá harðskeytti og duglegi hópur sem hafði sameinast um þessa velheppnuðu framkvæmd gat sundrast um jafn jarðbundið atriði og frágang eftir kvennafríið. Ég held því að hversu vakandi og upplagðar sem konur almennt voru eftir kvennafrídaginn þá hafi þær sem stóðu frammi fyrir því að sætta ólík sjónarmið um svo veraldlega hluti ekki fýst að halda hópinn að minnsta kosti í bili.

Helvi Sipilä segir álit sitt
Sumarið 1975 var norrænt lögfræðingaþing háð í Reykjavík. Það sótti meðal annars Helvi Sipilä, finnskur lögfræðingur, sem þá var aðstoðaraðalritari S.Þ. og framkvæmdastjóri fyrir hinu alþjóðlega kvennaári. Að kvöldi 20. ágúst hélt hún fyrirlestur í Norræna húsinu um temað: Bætt staða kvenna - betra þjóðfélag. Henni var kynnt áður bréflega hvaða aðgerðir væru í uppsiglingu hjá íslenskum konum og jafnframt að hún yrði, í almennum umræðum á fundinum, beðin að segja álit sitt á þeim og að álit hennar skipti máli. Þegar hún svo gaf hið umbeðna svar sagðist hún sem lögfræðingur ekki geta mælt með verkfalli, til þess skorti stoð í lögum, en ef slík aðgerð heppnaðist myndu hún vafalaust vekja heimsathygli og verða eitt hið merkasta sem kvennaárið hefði í för með sér. Þetta reyndust orð að sönnu og yfirlýsing þessarar áhrifamiklu konu studdi mjög við framkvæmd kvennafrísins meðan það var í undirbúningi.

24. október 1985 rökrétt framhald 
Samkomulag varð um  að fjárhagslegur afrakstur kvennafrísins, krónur 800 þúsund svo og öll gögn sem til hefðu fallið skyldu afhendast Kvennasögusafni Íslands. Það safn var stofnað 1. janúar af þeim Önnu Sigurðardóttur, Elsu Miu Einardóttur og Svanlaugu Baldursdóttur. Í stofnskrá safnsins segir meðal annars að markmið þess sé ,,að safna og varðveita. . . vitneskju um líf íslenskra kvenna og störf þeirra á ýmsum sviðum þjóðlífsins.“ Á lokafundi samstarfsnefndar bráðabirgðahópsins og framkvæmdanefndar að Hótel Sögu 28 mars 1976 fór afhendingin fram. Í ávarpi sem flutt var af hálfu fundarboðenda var sagt að ,,sagan væri sjóður Íslendinga“ og að á Kvennasögusafninu sé ,,sögusjóður íslenskra kvenna“, því liggi beinast við að afrakstur af sögulegri aðgerð gangi til að efla þann sjóð. Fundurinn var öllum opinn sem höfðu átt hlut að framkvæmd kvennafrísins og sóttu hann á annað hundrað manna. Veitingar voru fram bornar og flutt skemmtidagskrá. Gjaldkera kvennafrísins og tengilið framkvæmdanefndar var falið að halda reikningi kvennafrísins opnum enn um sinn og vera til svara fyrir það sem kynni að vera ófrágengið - að öðru leyti var þarna settur punkturinn aftan við kvennafríið 24. október 1975.
     Allmikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þessir atburðir áttu sér stað. Sókn kvenna á öllum sviðum þjólífsins er augljós og hröð. Konur eiga undir högg að sækja í launamálum og þar eru þær nú að taka á. Ég tel það í fyllsta máta rökrétt framhald af kvennafríinu 1975, þegar staðfest var mikilvægi vinnuframlags kvenna í íslensku samfélagi, að tíu árum síðar skyldi efnt til annars kvennafrís 24. október 1985, með áherslu á bætt kjör og réttlát laun. Var sú aðgerð einnig vel heppnuð. Kvennafríin íslensku eru séríslenskt fyrirfæri, sem ekki hefur tekist að leika eftir í öðrum löndum þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Vel mætti leita svara við því hvaða skilyrði það séu í okkar samfélagi sem gera kleift að staldra við í dagsins önn á svo áhrifaríkan hátt - og er þar efni í aðra grein.