Fyrirvinnuhugtakið

Þú ert hér:» Rauðsokkahreyfingin» Fjölskyldan»  Fyrirvinnuhugtakið

KSS63_A48_009a

Fyrirvinnuhugtakið var eitt lykilhugtaka í umræðunni um stöðu fjölskyldunnar, hjónabandið og heimilishald á tímum Rauðsokkahreyfingarinnar. Fyrirvinna var skilgreind sem persóna sem ynni fyrir fjárhagslegum þörfum annarrar persónu annað hvort að hluta eða í heild.

Rauðsokkar litu svo á að hugsunin um karlinn sem fyrirvinnu konunnar og barnanna hindraði konur í baráttunni fyrir jöfnuði í einkalífi, atvinnulífi og samfélaginu öllu.

Húsfyllir var á fundi Rauðsokkahreyfingarinnar um fyrirvinnuhugtakið í október 1973 í Norræna húsinu. Fundarmenn sem tóku til máls voru sammála um að „í skjóli þeirrar hefðbundnu hugsunar að líta fyrst og fremst á karlmanninn sem fyrirvinnu fjölskyldu þrifist margvíslegt óréttlæti á vinnumarkaðinum, heimilum og öðrum vettvangi þjóðlífsins.“ Einn frummælenda, Auður Þorbergsdóttir borgardómari, fór yfir þau svið íslenskrar löggjafar sem snerta fyrirvinnuhugtakið á einhvern hátt. Svava Jakobsdóttir alþingismaður greindi frá umfjöllun á vettvangi Norðurlandaráðs um fyrirvinnuhugtakið á árinu 1972 á grundvelli fyrirliggjandi tillagna nefndar á vegum ráðsins. Tillögurnar náðu talsvert lengra en almenn umræða hér á landi á þessum tíma. Í þeim var mælst til þess við ríkisstjórnir landanna að fram færi athugun á löggjöf þeirra í átt til jafnréttis kynja varðandi framfærsluskyldu og réttindi, að litið yrði á konur og karla sem jafn réttháar fyrirvinnur og framfærsluskyldan yrði þannig tengd börnum og loks að skipulag tryggingakerfa tryggði öllum aðgang að því. Grunntónninn var að fyrirvinnuhugtakið væri úrelt, útivinna kvenna færi sívaxandi og þær yrðu þar með sjálfstæðar og jafn réttháar fyrirvinnur í reynd. Þetta þóttu róttækar áætlanir hér á landi í upphafi áttunda áratugarins. Breytingar næstu árin á hjúskapar- og skattalögum voru skref í þessa átt.

Hjúskaparlög

Allt frá þriðja áratug 20. aldar og fram á daga Rauðsokkahreyfingarinnar giltu hér á landi mismunandi lög um tvo meginþætti hjúskaparréttarins, annars vegar lög um réttindi og skyldur hjóna frá 1923 og hins vegar lög um stofnun og slit hjúskapar frá 1921 (sem lög frá 1972 leystu af hólmi). Lög um réttindi og skyldur hjóna (nokkuð breytt með lögum nr. 10/1962) fjölluðu um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna að einkarétti, framfærsluskyldu gagnvart fjölskyldunni, eignamynstrið í hjúskapnum og skuldaábyrgð hjóna, fjárhagslega stöðu þeirra og fjárslit, einkum við lok hjúskapar. Samkvæmt þeim skyldi forræði eigna hvors um sig vera í höndum þess hjóna er aflaði verðmætis, með öðrum orðum „fyrirvinnunnar“. Reyndar fólst í því gagnger breyting frá lögum nr. 3/1900 er ætluðu bóndanum forræði allra eigna hjóna er töldust til svonefnds fjárfélags þeirra og hlutur eiginkonu var næsta ófrjáls. Að því er framfærsluframlög varðaði lögðu lögin frá 1923 að jöfnu hlut þess sem heima vann og hlut hins er lagði fram peninga til heimilishaldsins. Þannig var framlagi þess sem bundinn var við heimilisstörf, það er húsfreyju, veitt ákveðin viðurkenning – þótt ekki fylgdi forræði eigna. Árið 1962 var hluti þessara laga fluttur í erfðalög.

Lög um stofnun og slit hjúskapar gengu í gildi árið 1973 og fjölluðu fyrst og fremst um hjónavígsluskilyrði (svo sem að giftingaraldur kvenna skyldi vera að lágmarki 18 ár en karla 20 ár, samþykki foreldra þyrfti ef aðili var undir 20 ára, hindranir voru settar vegna veikinda, skyldleika og fleira), hjónavígslur og hjónaskilnaði (svo sem sáttaumleitanir og umgengnisréttur við barn). Þau voru samin að norrænni fyrirmynd og leystu af hólmi um hálfrar aldar gömul lög frá 1923. Þessum lögum var breytt að ákveðnu marki með lögum árin 1979 og 1989. Ofannefnd tvenn lög frá 1923 og 1972 voru í gildi vel fram yfir tíma Rauðsokkahreyfingarinnar.

Forvitin rauð 1. árg, 1. tbl. bls 9Samsköttun - sérsköttun

Gifting og þar með stofnun fjölskyldu varð til þess á þessum árum að konur sem áður höfðu aflað tekna hættu í raun að vera skattgreiðendur. Um langan aldur eða frá því að almennur tekjuskattur var leiddur í lög hér á landi árið 1921 hafði meginreglan verið sú að tekjur hjóna voru lagðar saman og skattgjald reiknað af sameiginlegum tekjum þeirra. Gift kona var því í raun ekki skattgreiðandi. Á árunum um og eftir 1950 var fluttur fjöldi frumvarpa sem meðal annars fólu í sér ákvæði um breytingar á skattlagningu hjóna. Með skattalögum frá 1958 var sú breyting gerð að 50% af tekjum konunnar voru skattfrjáls, ákvæði sem sett var í lögin þegar ljóst varð að hagstæðara var skattalega fyrir sambýlisfólk að vera ekki gift. Eiginmanni bar sem fyrr að telja fram tekjur beggja og standa skil á skattgreiðslu. Bæði eignir og skuldir töldust hjá eiginmanni. Þessi samsköttun hjóna byggði á þeirri hugsun að karlinn væri fyrirvinnan. Samkvæmt þeim misstu konur í raun ákveðin réttindi sín við það að ganga í hjónaband. Fjármálaráðherra kynnti árið 1975 hugmynd um breytingar á skattalögum sem fælust í því að tekjur beggja hjóna væru lagðar saman og síðan væri hvoru hjóna gert að greiða skatt af helmingi þeirra, hvort sem bæði hefðu aflað þeirra eða ekki. Ári síðar var lagt fram á Alþingi frumvarp um tekju- og eignaskatt í þessa veru. Svava Jakobsdóttir andmælti þessum tillögum og skrifaði ítarlegar greinar máli sínu til stuðnings strax á árinu 1975 og aftur eftir að frumvarpið hafði verið lagt fram.

KSS63_A18_51aRauðsokkahreyfingin brást harkalega við frumvarpinu eins og sjá má í bréfi starfshóps um skattamál til fjármálaráðherra og endurskoðunarnefndar skattalaga í febrúar 1974 þar sem lagðar eru til ákveðnar útfærslur. Afrit af bréfinu var sent öllum þingflokkum og fjölmiðlum og ítarleg greinargerð starfshópsins birtist í dagblaði. Þar segir um meginstefnuna: „Rauðsokkahreyfingin hefur frá upphafi barist fyrir sérsköttun hjóna, það er að hver fulltíða maður sé sjálfstæður skattþegn og greiði skatta af eignum sínum og tekjum án tillits til hjúskaparstéttar og njóti jafnframt þess réttar, sem þeim skyldum fylgir.“ Áréttað er að við giftingu glati konan vissum borgaralegum réttindum, þeim réttindum „að vera sjálfstæður skattþegn.“ Dregið var fram að á þessum árum höfðu yfir 60% giftra kvenna einhverjar sjálfstæðar tekjur. Áfram var barist hart á næstu árum gegn hugmyndunum í fyrrnefndu frumvarpi, einkum á árinu 1977, og urðu þær aldrei að veruleika.

Til að sýna óréttlæti gildandi laga er sögu ekkju með börn lýst  í Forvitinni rauðri árið 1976 sem stóð uppi með skuldir af húsnæði og allt of lág laun til að standa undir skuldbindingum eftir að maður hennar, sem hafði haft þokkalegar tekjur, féll frá.

Veruleg breyting varð loks á skattlagningu hjóna með lögum um tekjuskatt og eignaskatt frá 1978 (komu til framkvæmda á árinu 1980) þegar takmörkuð sérsköttun hjóna var loks tekin upp. Nú skyldi hvort hjóna um sig telja fram launatekjur sínar og vera síðan skattlagt eftir sama skattstiga og einstaklingur og persónuafsláttur hvors hjóna vera hinn sami og persónuafsláttur einstaklings. Sá hluti persónuafsláttar sem öðru hjóna nýttist ekki færðist yfir til hins. Heimild til 50% frádráttar af launatekjum eiginkonu í fyrri lögum var felld niður og barnabótum var skipt til helminga milli hjóna. Eignir hjóna skyldu lagðar saman og síðan skipt í tvo jafna hluta sem skattlagðir voru hjá hvoru hjóna um sig. Í endurskoðuðum lögum um tekjuskatt og eignarskatt frá 1981, segir meðal annars í 114. grein: „Hjón ... bera óskipta ábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja.“

Baráttan gegn fyrirvinnuhugtakinu

Torsótt reyndist að berjast gegn þeim viðhorfum að karlinn ætti að vera fyrirvinnan og höfuð fjölskyldunnar og bæri að stjórna og taka ákvarðanir – sem er ein af ástæðum lítillækkandi viðhorfa í garð kvenna. Kynjakerfið sem skipt hefur verið í einkasvið (heimili og fjölskylda) og opinbert svið (svo sem vinnumarkaður og stjórnmál) byggir á aðgreiningu og undirskipun kvenna og þess kvenlega.

 

Sjá nánar: Vinnumarkaður.

Fyrri síða Húsmóðurhlutverkið

Næsta síða Friðhelgi einkalífsins