Fundur settur

Ávarp Guðrúnar Erlendsdóttur á Lækjartorgi 24. okt. 1975

GudrunE-kvennafri-minni
Góðir fundarmenn!

Ég vil leyfa mér að bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til þessa fundar. Tilefni þessa fundar er það að á kvennaráðstefnu, sem haldin var í Reykjavík í sumar, var samþykkt ályktun þess efnis, að íslenskar konur gerðu 24. október að Kvennafrídegi til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags síns. Góð samvinna tókst um þetta mál, og standa að þessum aðgerðum konur á öllu landinu, hvar í flokki sem þær eru og hvaða störf sem þær stunda. Þótt íslenskar konur hafi þegar fengið flest þau réttindi sem kynsystur þeirra eru að berjast fyrir víða um heim, þá er þó enn langt í land til þess að fullu jafnrétti sé komið á í reynd.

Til þess að vekja athygli á þessu og reyna að flýta fyrir jafnréttisþróuninni, var ákveðið að hafa kvennafrí í dag. Það var ekki af tilviljun að dagurinn í dag var valinn til þessa kvennafrís. 24. október er dagur S.Þ. og í ár er Kvennaár S.Þ. Það var fyrst og fremst til stuðnings konum í þróunarlöndunum, sem búa við ótrúlegt misrétti, sem S.Þ. ákváðu að gera árið 1975 að kvennaári. Með því að hafa þessar aðgerðir í dag, viljum við minna á samstöðu okkar við allar konur, hvar í heiminum sem er.

Einkunnarorð Kvennaárs S.Þ. eru „Jafnrétti, framþróun, friður“, og eru ríkisstjórnir allra landa hvattar til að leggja sitt af mörkum til að slíkt takmark náist sem fyrst. Við höfum þá trú, að með þessum aðgerðum hvetjum við allar konur til að standa vörð um réttindi sín og mannréttindi yfirleitt.

Dagskráin sem hér fer á eftir er fjölbreytt, og hafa margir lagt hönd á plóginn til að gera hana vel úr garði. Dagskrárstjóri er Guðrún Ásmundsdóttir leikkona. Hljómsveitin sem lék hér áðan og mun leika í lok fundarins er lúðrasveit kvenna í Kópavogi undir stjórn Þórunnar Björnsdóttur. Á milli atriða mun Guðrún Á. Símonar stjórna fjöldasöng.

Tilvísun: Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Kvennasögusafn Íslands. KSS 1. Kvennafrí 1975. Einkaskjalasafn