Kvennasögusafn Íslands tekur til varðveislu skjöl einstaklinga á öllum aldri, af öllum stéttum, svo og gögn félaga og félagasamtaka kvenna.
Meðal þess efnis sem Kvennasögusafn leitar eftir til varðveislu eru bréf, dagbækur, fundargerðarbækur, ræður og erindi, handrit, handskrifaðar matreiðslubækur, heimilisbókhald, glósur, viðurkenningarskjöl og prófskírteini, ljósmyndir og margt fleira. Kvennasögusafn tekur við söfnum af öllum stærðum, allt frá einum launaseðli eða stöku sendibréfi. Þetta ― og ótal margt fleira ― eru heimildir um sögu kvenna sem ber að varðveita fyrir komandi kynslóðir.
Kvennasögusafn varðveitir ekki bækur og tímarit nema í undantekningartilfellum.
Hafðu samband í síma 525-5779 eða sendu tölvupóst á kvennasogusafn@landsbokasafn.is ef þú vilt afhenda Kvennasögusafni efni til varðveislu. Hægt er að takmarka aðgang að skjölunum í allt að 80 ár frá tilurð þeirra, ef gefandi óskar þess.
„Framtíð safnsins byggist að verulegu leyti á skilningi kvenna á því hversu mikilvægt það er að vernda frá glötun ýmis konar heimildir um líf kvenna og störf þeirra á liðnum tíma. Margir eiga í fórum sínum bréf, handrit og önnur gögn, sem mikil saga getur falist í, saga um starf ömmu og jafnvel langömmu. Og svo verður maður að vera einnig minnugur þess, að það sem er að gerast á líðandi stund, verður saga fyrr en varir.“
- Anna Sigurðardóttir, stofnandi Kvennasögusafns Íslands, í ræðu þann 5. desember 1974