Ávörp Rauðsokka

mynd 3

Ingibjörg Rán Guðmundsdóttir

Á Íslandi eru ekki allir jafnir. Ísland er stéttskipt þjóðfélag. Á vinnumarkaðnum vinna konur verst launuðu og lægst metnu störfin—mikilvægi þeirra ákvarðast af efnahagsþróun hvers tíma. Sumir halda að markmiði jafnréttisbaráttunnar sé náð, ef konur fá laun og réttindi til jafns við karlmenn—innan stéttanna—innan núverandi þjóðfélagsramma.

Slíkt jafnrétti er ekki raunhæft—því það styrkir ríkjandi skipulag er vissulega kúgar stóran hluta þegnanna—etur konu gegn konu—karli gegn karli, í baráttu stéttanna, sem stöðugt harðnar. Að tryggja kynferðislegt jafnrétti er aðeins hálfur sigur—efnahagslegt misrétti væri enn fyrir hendi.

Konur geta staðið saman eins og aðgerðirnar í dag sanna. Látum því ekki blekkjast, gerum okkur grein fyrir því þjóðfélagsmynstri sem karlmenn hafa búið okkur. — Lærum af mistökum þeirra—vöðum ekki hugsunarlaust út í sama fen fordóma og þeir. — Troðum nýjar slóðir, við erum helmingur þjóðarinnar og með sameiginlegu átaki getum við skapað nýtt—betra og réttlátara þjóðfélag sem tryggir öllum þegnum jafnan rétt í stéttlausu þjóðfélagi.

Vilborg Dagbjartsdóttir

Það hefur verið mjög á döfinni á kvennaárinu að kanna stöðu konunnar í þjóðfélaginu. Hver svo sem hún er, höfum við sannað að samstaðan er algjör.

Þó viljum við, baráttuhópur rauðsokka, beina til til ykkar konur, að hver og ein grundi sérstöðu sína. Við erum ekki ein stétt, heldur skiptumst við í hina margvíslegu hagsmunahópa samfélagsins. Jafnréttisbarátta hlýtur um leið að vera stéttabarátta og það að leggja niður vinnu er verkfall, allt eins þótt við köllum það frí. Þegar við stöndum upp frá verki og tökum okkur dagsfrí, erum við að veifa beittasta vopni verkalýðsins og við eigum að beita því markvisst til baráttu fyrir jafnréttisþjóðfélagi.

Sá samtakamáttur, sem við sýnum í dag, er tæki sem við þurfum að læra að nota af fullri alvöru við hlið eiginmanna okkar, sona og bræðra.

ÁFRAM STELPUR, STÖNDUM SAMAN.

Heimild: Morgunblaðið, 8. nóvember 1975, bls. 17.