Fundarlok

Ég vil þakka öllum, sem fram hafa komið í dagskránni og framkvæmdanefndinni, sem hefur haft veg og vanda af þessum degi. Það er von mín og trú, að með þessu kvennafríi hafi íslenskar konur ekki einungis sýnt fram á mikilvægi vinnuframlags síns, þannig að öllu misrétti verði aflétt sem fyrst, heldur hafi okkur einnig tekizt að sýna fram á samstöðu kvenna, þannig að til stuðnings geti orðið þeim konum, sem verr eru á vegi staddar en við, svo að tilganginum með Kvennaári S.Þ. verði náð sem fyrst, en tilgangurinn er: fullt jafnrétti kynjanna í reynd.

Ég vil minna ykkur á opnu húsin, sem eru hér í borginni í dag. Sérstaklega vil ég hvetja konur utan af landi, sem hér eru staddar, að fara í opnu húsin og rabba við reykvískar konur. Opnu húsin eru á eftirtöldum stöðum: Norræna húsið, Félagsheimili húsmæðra, Baldursgötu 9, Sokkholt, húsnæði Rauðsokkahreyfingarinnar, Skólavörðustíg 12, Félagsheimili prentara, Hverfisgötu 21, Lindarbær, Hallveigarstaðir, Hótel Saga, Súlnasalur, Húsnæði Orlofsnefndar húsmæðra, Traðarkotssundi 6. Á flestum þessara staða munu fara fram skemmtiatriði. Ég vil að endingu þakka ykkur öllum fyrir komuna.

Heimild: Kvennasögusafn Íslands. KSS 1. Kvennafrí 1975. Einkaskjalasafn.