Jan 18, 2025

Vigdís á safninu


Við getum varla beðið eftir lokaþættinum um Vigdísi Finnbogadóttur sem verður frumsýndur á sunnudagskvöld kl. 19:45 á RÚV.

Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá Perlu Fáfnisdóttur í upphafi þriðja þáttar ásamt ýmsu efni sem er varðveitt á Kvennasögusafni á bækistöðum Rauðsokkahreyfingarinnar. Það var mikill heiður að fá framleiðslulið þáttarins í rannsóknarheimsóknir á safnið.

Til að fræðast meira um lagabreytingar sem hreyfingin náði í gegn, oft í samstarfi við t.d. aðrar kvenna- og verkalýðshreyfingar með sterkum stuðningi frá Svövu Jakobsdóttur þingkonu - en einnig þrátt fyrir oft mikinn mótvind - bendum við á upplýsinga- og skjalavef okkar. Þar má líka skoða ljósmyndir hreyfingarinnar, veggspjöld hennar og myndbönd frá starfseminni.

En hvar eru heimildir um Vigdísi Finnbogadóttur að finna á Kvennasögusafni? Hér er lítill leiðarvísir:

Fyrir það fyrsta að þá gaf Vigdís sjálf safninu ýmislegt úr sínum fórum í tengslum við forsetaframboð sitt. Þá eru varðveittar þrjár stórar úrklippubækur um framboð hennar á safninu. Vigdís var þá í boði á safninu sem var staðsett á fjórðu hæð í blokk í vesturbænum, heima hjá einum stofnanda þess Önnu Sigurðardóttur.

Vigdís hefur stutt Kvennasögusafn í gegnum tíðina og sendi til að mynda heillaskeyti þegar Kvennasögusafn opnaði á Landsbókasafni. Hér má lesa nánar um þær gjafir.

Þá hafa ratað til okkur ýmis skjöl í gegnum tíðina sem tengjast Vigdísi með einum eða öðrum hætti:

  • KSS 4. Anna Sigurðardóttir. Einkaskjalasafn.
    • Sex bréf frá Vigdísi til Kvennasögusafns / Önnu, 1984-1996
  • KSS 51. Kvennaslóðir, útgáfa. Einkaskjalasafn.
    • Skrif Vigdísar í bókina
  • KSS 63. Rauðsokkahreyfingin. Einkaskjalasafn.
    • Askja 8, örk 3
  • KSS 114. „Áður fyrr á árunum“. Einkaskjalasafn.
    • Útvarpsþáttur um Reykjavík bernsku minnar í umsjón Guðjóns Friðrikssonar: Vigdís Finnbogadóttir forseti 17. júní 1984. Kasetta.
  • KSS 152, 44
  • KSS 170. Friðarhreyfing íslenskra kvenna. Einkaskjalasafn.
    • Símskeyti frá Vigdísi Finnbogadóttur 27. maí 1983
  • KSS 2023/20. Þórunn Hulda Sveinbjarnardóttir. Einkaskjalasafn.
    • Ljósmyndir „íslenskt já takk“ og frá heimsókn ASÍ

Auk þess eru fleiri skjöl tengd Vigísi í söfnum sem á annars vegar eftir að skrá ítarlega og hins vegar eru í lokuðum aðgangi í bili.

Aðgengilegt á vefnum:

Þá vekjum við sérstaka athygli á sérvef um Vigdísi Finnbogadóttur sem stofnun hennar heldur út og Kvennasögusafn aðstoðaði við heimildaöflun á sínum tíma. 

Anna Sigurðar & Vigdis Finnboga Anna Sigurðardóttir-úrklippubækurVigdísar opnun_simskeyti_Vigdis_Finnboga VigdisKvennasögusafn2016 kss38 kss170 VigdisAlthydubladid_02061981 kss38_1

Vigdis&Anna.jpg