Baráttuhátíð á Þingvöllum 19. júní 2005

19juni_svarthvit
Íslensk kvennasamtök gengust fyrir baráttuhátíð á Þingvöllum þann 19. júní 2005 til þess að minnast 90 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Talið er að um 2000 manns, konur og karlar, hafi sótt hátíðina, sem fór fram í rigningu með uppstyttum og hlýindum.

Safnast var saman í Hakinu við Almannagjá kl. 13:00 og gengið niður á efri vellina undir leik kvennalúðrasveitarinnar Kventettsins. Kvennakór Reykjavíkur söng í gjánni og við Drekkingarhyl stóðu hvítklæddar konur sem vörpuðu 18 bleikrauðum rósum í hylinn til þess að minnast þeirra 18 kvenna er þar var drekkt. Á gjábarminum austanmegin stóðu fimm valkyrjur skrýddar íslensku fánalitunum með sérstökum hætti.

Á efri völlum lék Strengjakvartettinn Loki fyrir gesti og álfameyjar dönsuðu undir stjórn Auðar Bjarnadóttur. Kvennakór Reykjavíkur söng ásamt Sigrúnu Hjálmtýsdóttur söngkonu milli hátíðaratriða.

Rósa G. Erlingsdóttir setti baráttuhátíðina kl. 14:00 og fól Rósu Björk Brynjólfsdóttur fundarstjórn. Ávörp fluttu Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur, Kristín Tómasdóttir nemi og Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands. Skáldin Linda Vilhjálmsdóttir og Sigurbjörg Þrastardóttir fluttu ljóð. Gerð Þingvallafundar var lesin upp og afhent Árna Magnússyni, jafnréttisráðherra. Ráðherra flutti fundinum góðar kveðjur og afhenti veggspjald og bréf er hann hefur ritað öllum fyrirtækjum og stofnunum með fleiri en 25 starfsmenn þar sem minnt er á lög um jafnrétti kvenna og karla.

Samband sunnlenskra kvenna sá um kaffi- og veitingasölu á hátíðinni og Feministafélag Íslands sá um sölu á bolum með merki baráttuársins 2005.

*Fyrst birt árið 2005. Síðast uppfært 4. mars 2021