Kvennasöguslóðir

Gönguleið um söguslóðir kvenna í miðbæ Reykjavíkur sem Kvennasögusafn Íslands setti saman annars vegar árið 2002 og hins vegar árið 2006.

Borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, ávarpaði gesti og forstöðumaður safnsins opnaði gönguleiðina.  Ríflega 100 manns mættu til þessarar athafnar og gengu síðan undir leiðsögn Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings.  Þessi viðburður var unninn í samvinnu við Kvenréttindafélag Íslands sem bauð göngufólki til kaffisamsætis og fagnaði þannig 95 ára afmæli sínu. 

Hér má nálgast bæklinginn á ensku og íslensku.

Gengið um Kvosina

Hvers vegna kvennasöguslóðir? Þurfum við að ganga til að finna sögu kvenna? Getum við ekki fundið hana í bókum eða sjóvarpsþáttum eða á Netinu?
     Víða erlendis eiga kvennasöguslóðir langa sögu. Eftirfarandi er haft eftir bandarískri konu, Sarah Orne Jewett, þegar hún hafði heimsótt heimili systranna Charlotte og Jane Bronte á heiðum Jórvíkurskíris: „ Það kynnist þeim enginn nema hafa komið á heimili þeirra. Þarna komst ég nálægt sálu þeirra og sá himin þeirra og jörð.“
     Án framlags kvenna væri margt öðru vísi í Reykjavík. Kvennasöguslóðir í Kvosinni opna að einhverju leyti heim genginna kvenna af öllum stigum þjóðlífsins. Kvosin verður tæplega söm á eftir.
     Gangan getur tekið hálftíma eða þrjá klukkutíma, allt eftir áhuga göngumanns. Njótið heil.
     Auður Styrkársdóttir
     forstöðukona Kvennasögusafns Íslands 2001-2016

1. RÁÐHÚS REYKJAVÍKUR
Fyrstu konurnar sem kjörnar voru bæjarfulltrúar voru Bríet Bjarnhéðindóttir, Guðrún Björnsdóttir, Katrín Magnússon og Þórunn Jónassen, allar kjörnar af lista sem kvenfélög bæjarins buðu fram 1908. Auður Auðuns (1911-1999) gegndi embætti borgarstjóra fyrst kvenna 1959-1960 (ásamt Geir Hallgrímssyni). Næsta kona til að gegna embætti borgarstjóra var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, 1994-2003. Síðan hafa Steinunn Valdís Óskardóttir gegnt stöðu borgarstjóra (2004-2006) og Hanna Birna Kristjánsdóttir (2008-2010). Borgarstjórn kýs borgarstjórann. Í maí 2010 voru kjörnar 7 konur og 8 karlmenn í borgarstjórn og var hlutur kvenna því 47%.

2. TJARNARGATA 12
Ráðhús Reykjavíkur frá 1914-1929 og slökkvistöð 1913-1966. Hér bjó einnig Elka Björnsdóttir (1881-1924) frá 1917-1922 en hún var ráðin til að ræsta á skrifstofum borgarstjóra og slökkvistöðinni og fékk herbergi til íbúðar í húsinu. Elka varð snemma námsfús en átti litla möguleika á að hljóta formlega menntun. Henni tókst þó að afla sér staðgóðrar þekkingar með því að lesa bækur og tímaritsgreinar og sækja fyrirlestra í Reykjavík, en þangað réði hún sig í vist þegar hún flutti að heiman 1906. Hún var vinnukona í fimm ár og gerðist síðan lausakona og starfaði m.a.við saltfiskverkun, síldarsöltun, þvotta og heimilishjálp þar til hún fékk fasta stöðu hjá bænum. Hún þvoði öll gólf í húsinu og kveikti eld í öllum ofnum og sá um að bursta þá og hreinsa. Hún varð sjálf að sækja eldsmat í kolageymsluna og bera að eldstæðum og flytja síðan öskuna í burtu. Moldargötur réðu víðast ríkjum í Reykjavík á þessum tíma og því var baráttan við óhreinindin mun harðari en nú.

3. VONARSTRÆTI 12
Heimili Theódóru Guðmundsdóttur Thoroddsen skáldkonu (1863-1954) frá  árinu 1908-1930. Hún fæddist að Kvennabrekku í Dölum og lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík (sjá nr. 21 og 35). Theódóra giftist Skúla Thoroddsen og eignuðust þau 13 börn, þar af náðu tólf fullorðinsaldri. Theódóra var virk í menningar- og bókmenntalífi Reykjavíkur og hafði mikinn áhuga á þjóðmálum, einkum þeim er lutu að kvenréttindum. Hún fór ekki að sinna ritstörfum fyrr en á miðjum aldri og þekktust er hún fyrir þulur sínar, m.a. Tunglið, tunglið taktu mig.

4. TJARNARGATA 4
Kristine Brún, ekkja Sigvards Bruun tugthúsmeistara, stundaði hér garðrækt og hlaut verðlaun Danska landbúnaðarfélagsins 1792, en það var í fyrsta sinn sem slík verðlaun voru veitt til Reykjavíkur. Kálgörðum fjölgaði mjög í bænum eftir þessa verðlaunaveitingu.

5. AÐALSTRÆTI 14-16
Hér hafa fundist mannvistarleifar frá landnámstíma og telja margir Reykvíkingar að bær Ingólfs Arnarsonar og Hallveigar Fróðadóttur hafi staðið hér. Ingólfs er minnst með Ingólfstorgi og styttu á Arnarhóli. Við Hallveigu er kenndur lítill stígur í Þingholtunum (sjá þó nr. 7) 
     Margrethe Angel átti hús er hér stóð 1791-1796. Hún rak veitingasölu og ræktaði lóðina kringum húsið, m.a. garðávexti sem hún seldi, en slíkt var ekki algengt í Reykjavík á þeim tíma. Hún hlaut verðlaun Danska landbúnaðarfélagsins 1792 fyrir garðrækt ásamt Kristine Brún (sjá nr. 4).
     Fyrsti barnaskóli Reykvíkinga var hér til húsa 1831-1848. Hólmfríður Þorvaldsdóttir, eiginkona Jóns Guðmundssonar ritstjóra, hóf matsölu um 1853 og seldi aðallega skólapiltum, þingmönnum, menntamönnum og listamönnum. Matsalan var rekin til 1876.

6. AÐALSTRÆTI 12
Augusta Svendsen (1835-1924) rak hér verslun frá 1897 til dánardags og eftir það dótturdóttir hennar Sigríður Björnsdóttir. Augusta var fyrsta kaupkonan í Reykjavík og á öllu landinu. Í verslun hennar fengust slifsi og svuntur, sessur, lampaskermar, mynstur og efni. Einnig var seldur ýmis kvenfatnaður.
     Handan götunnar er Prentsmiðjubrunnurinn, aðalbrunnur Reykvíkinga þar til vatnsveita var lögð í bæinn 1909. Áður sótti fólk allt vatn í brunna. Það var hlutskipti margra einstæðinga á gamalsaldri að hafa þann starfa að bera vatn í fötum til bæjarbúa. Meðal þeirra voru konurnar Gunnsa grallari, Sigga blaðra og Lauga með loddana. Nöfnin endurspegla vel stöðu þeirra í samfélaginu.

7. HALLVEIGARSTAÐIR (Túngata 14)
Kvennaheimilið var vígt 1967 með listsýningu á verkum kvenna og nefnt Hallveigarstaðir í minningu Hallveigar Fróðadóttur. Þar hefur Kvenfélagasamband Íslands aðsetur ásamt Bandalagi kvenna í Reykjavík og Kvenréttindafélagi Íslands. Í húsinu rættist gamall draumur margra kvenna um kvennaheimili í Reykjavík.

8. UNUHÚS (Garðastræti 15)
Una Gísladóttir (1855-1924) leigði út herbergi og hafði kostgangara og Erlendur sonur hennar eftir hennar dag. Una seldi fæði ódýrar og leigði herbergi lægra verði en aðrir hér í bæ. Þess vegna dróst einkum að húsi hennar fólk, sem lítil hafði auraráð eða hvergi átti þak yfir höfuðið. Húsið varð þekkt aðsetur ungra skálda og listamanna á fyrstu áratugum 20. aldar.

9. HLAÐVARPINN (Vesturgata 3b)
Menningar- og félagsmiðstöð kvenna í eigu kvenna um tíma. Hér var rekið Kaffileikhúsið og matsölustaður.

10. REITIR MILLI TRYGGVAGÖTU OG HAFNARSTRÆTIS
Áður voru hér pakkhús og fiskreitir. Margar konur höfðu þann starfa að þvo fiskinn, breiða hann til þerris á reitunum og raða síðan í stafla. Einnig störfuðu konur við að bera kol og annan varning í pakkhúsin. Þetta voru kalsöm og erfið störf. Laun verkakvenna voru helmingur af launum verkamanna. Þegar Verkamannafélagið Dagsbrún var stofnað 1906 var samþykkt að konur hefðu ekki aðgang að félaginu því menn óttuðust samkeppni um vinnu og í launum. Verkakonur stofnuðu eigið félag 1914, Verkakvennafélagið Framsókn. Þessi félög voru sameinuð 1997 og starfa nú saman í Eflingu.

11. TOLLSTÖÐIN (Tryggvagata 19)
Mosaikmynd utan á húsinu er eftir listakonuna Gerði Helgadóttur (1928-1975), sett upp 1973. Gerður ánafnaði Kópavogsbæ mörg verka sinna og þar er nú listasafn kennt við listakonuna, Gerðarsafn.

12. PÓSTHÚSSTRÆTI 3-5
Byggt sem barnaskóli 1883 en varð lögreglustöð þegar nýi barnaskólinn reis við Tjörnina (sjá nr. 36). Í húsinu eru nú skrifstofur.
     Fyrsta lögreglukonan var ráðin Jóhanna Knudsen 1941. Konur fengu þó ekki að klæðast lögreglubúningum fyrr en 1976 og ekki ganga í öll störf fyrr en 1978.

13. HÉRAÐSDÓMUR REYKJAVÍKUR (við Lækjartorg)
Auður Þorbergsdóttir (1933-) var skipuð borgardómari í Reykjavík 1972, fyrst kvenna. Auður er fyrsta konan sem framkvæmdi hjónavígslur hér á landi, frá 1963. Seinni hluta árs 2011 voru borgardómarar 26, þar af 11 konur.

14. LÆKJARTORG
Hér stóð einn brunna bæjarins, Thomsensbrunnur, þar til vatnsveita var lögð í bæinn 1909. (Sjá einnig nr. 6 um Prentsmiðjubrunn).

15. AUSTURSTRÆTI 12 
Margrét Zoega rak Hótel Reykjavík eftir lát manns síns Einars Zoega en hótelið brann 1915 ásamt fleiri húsum. Þegar úrslit lágu ljós fyrir í bæjarstjórnarkosningunum 1908 (sjá nr. 1) héldu konurnar upp á sigurinn hjá Margréti.
     Hér hafði Kristólína Guðmundsdóttir Kragh (1883-1973) hárgreiðslustofu sína um tíma, en hún var fyrsta lærða hárgreiðslukonan á Íslandi. Alls lærðu 35 nemar iðnina hjá henni.

16. AUSTURSTRÆTI 10
Ljósmynda- og ljósprentunarstofa Sigríðar Zoëga & Co. var hér á árunum 1934-1981. Stofuna stofnuðu Sigríður Zoëga (1889-1968) og Steinunn Thorsteinsson (1886-1978). Þær hættu rekstri 1955 og gáfu Þjóðminjasafni Íslands allt plötusafn sitt en Bryndís Jónsdóttir dóttir Sigríðar rak ljósprentunarstofuna til 1981. Ljósmyndasafnið er eitt af merkustu ljósmyndasöfnum sem varðveitt eru á Þjóðminjasafni.

17. AUSTURSTRÆTI 8 (áður Ísafoldarprentsmiðja, nú í Aðalstræti 12)
Kristjana Markúsdóttir (1870-1961) er fyrsta nafngreinda konan sem vann í prentsmiðju. Hún starfaði í Ísafoldarprentsmiðju 1892-1897 og var eina konan sem starfaði í prentsmiðju hér á landi á 19. öld. Hún starfaði síðar í mörg ár í verslun Augustu Svendsen (sjá nr. 6). Einfríður María Guðjónsdóttir (1888-1971) vann hér við bókband fyrst kvenna. Hún hóf störf 1904 og öðlaðist síðar sveinsréttindi. Ófaglærðar stúlkur fengu aðgang að Hinu íslenska prentarafélagi 1932.

18. THORVALDSENSBASAR (Austurstræti 4)
Thorvaldsensfélagið er elsta kvenfélag Reykjavíkur, stofnað 1875. Tildrögin voru þau að ungar stúlkur voru fengnar til að skreyta Austurvöll og undir-búa sölu á veitingum er líkneski af myndhöggvaranum Bertil Thorvaldsen var sett þar upp. Eftir þetta samstarf ákváðu ungu konurnar að halda hópinn og vinna saman að mannúðar- og menningarmálum, stofnuðu félag og kenndu það við myndhöggvarann. Starfsemi Thorvaldsensfélagsins hefur aðallega beinst að líknarmálum, og þá einkum til kvenna og barna. Basarinn hefur verið starfræktur í Austurstræti 4 frá því um aldamótin 1900 og vinna félagskonur þar kauplaust. Allur ágóði rennur til líknarmála.

19. AUSTURSTRÆTI 1 (nú Ingólfstorg)
Guðrún Borgfjörð (1856-1930) bjó á árunum 1872-1877 í húsi er hér stóð og var kallað Veltan. Hún þráði að ganga menntaveginn en fékk ekki og gerðist saumakona í Reykjavík og kenndi einnig stúlkum fatasaum og hannyrðir. Bræður hennar gengu hins vegar menntaveginn og urðu þjóðkunnir menn: Klemens Jónsson landritari og Finnur Jónsson prófessor við Kaupmanna-hafnarháskóla. Guðrún var virk í Thorvaldsensfélaginu (sjá nr. 18) og kjörin heiðursfélagi þess 1929.

20. VALLARSTRÆTI 4
Kristín Björnsdóttir Símonarson rak hér bakarí er kennt var við mann hennar og nefnt Björnsbakarí frá 1901. Sonur Kristínar og Björns tók síðar við rekstrinum. Hann rak hér einnig gistiheimilið Hótel Vík fram yfir 1970. Kvennaframboðið og síðar Kvennalistinn í Reykjavík tóku síðar húsið á leigu fyrir starfsemi sína en konur buðu fram sérlista í Reykjavík á árunum 1982-1994.

21. THORVALDSENSSTRÆTI 2
Þóra og Páll Melsted stofnuðu Kvennaskólann 1874 sem var jafnframt heimili þeirra. Söfnuðu hjónin fé til skólans bæði hérlendis og í Danmörku. Þóra heklaði m.a. marglitt gólfteppi og voru happdrættismiðar fyrir því seldir bæði hér og í Danmörku. Þannig fengust nærri 200 krónur og var það undirstaða kvennaskólasjóðsins. Húsið sem enn stendur byggðu þau á grunni hins gamla 1878 og var kvennaskólinn hér til húsa þar til nýtt hús var byggt við Fríkirkjuveg árið 1909 (sjá nr. 35).

22. KIRKJUSTRÆTI 4
Kristín Þorvaldsdóttir rak fyrstu listaverkaverslun landsins í kringum 1920 í húsi er hér stóð. Gróa Oddsdóttir rak matsölu ásamt dætrum sínum á síðari hluta 19. aldar. Margar ekkjur sáu sér og sínum farborða með þessum hætti enda hvorki til ekknastyrkir né atvinnumöguleikar miklir fyrir konur.

23. KIRKJUSTRÆTI 8b
Sigríður Sigurðardóttir Bruun (-1913) byggði hér hús 1906 og rak veitinga-húsið Skjaldbreið en var áður með matsöluna "Sigríðarstaði" í Kirkjuhvoli (sjá nr. 26). Sigríður lærði matreiðslu í Kaupmannahöfn. Elín Egilsdóttir (1886-1961) keypti Skjaldbreið um 1920 og rak áfram til 1930. Hún kenndi einnig stúlkum matreiðslu og byggði sumarhótelið Þrastarlund í Grímsnesi 1928. Elín tapaði öllum eigum í kreppunni.

24. KIRKJUSTRÆTI 12 (nú á Árbæjarsafni)
Hér var heimili Thoru Friðriksson (1866-1958). Hún var ein af fyrstu kennslukonunum við Barnaskólann og gerði veturinn 1904-1905 tilraun með skóla fyrir ungar stúlkur á heimili sínu. Hún stofnaði ásamt Kristínu Sigurðsson verslunina París 1915, en hún var til húsa í Ingólfshvoli, á mótum Hafnarstrætis og Pósthússtrætis (nú viðbygging Landsbanka Íslands). Thora ritaði mikið í blöð og tímarit.
Berklavarnarstöð Líknar starfaði hér 1941-1956. 
     Hjúkrunarfélagið Líkn stofnuðu nokkrar konur í Reykjavík 1915 og var fyrsti formaður þess Christophine Bjarnhéðinsson hjúkrunarkona (mágkona Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, sjá nr. 1 og 37). Heilbrigðisástandið í bænum var þá mjög slæmt og opinber heilbrigðisþjónusta engin. Líkn réð strax hjúkrunarkonu til að sinna heimahjúkrun, lagði fátæklingum mikið lið, stofnaði berklavarnarstöð í bænum 1919 og hóf ungbarna- og mæðraeftirlit 1927. Nánast öll heilsuverndarstarfsemi í Reykjavík var byggð upp og rekin að frumkvæði Líknar allt fram á fjórða áratug aldarinnar, að undanskildum sóttvörnum. Fyrir Líkn störfuðu m.a. Katrín Thoroddsen læknir og Sigríður Eiríksdóttir hjúkrunarkona (móðir Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrv. forseta) sem tók við formennsku af hendi Christophine 1931 og gegndi til 1956. Þá hafði Reykjavíkurbær byggt Heilsuverndarstöðina við Barónsstíg og yfirtók starfsemi Líknar.

25. ALÞINGISHÚSIР(Kirkjustræti)
Íslenskar konur fengu kosningarétt til Alþingis 1915 - en urðu þá að vera orðnar fertugar að aldri. Þessu var breytt 1920 í kjölfar Sambandslaga Íslendinga og Dana og síðan hafa konur haft jafnrétti við karlmenn á þessu sviði. Fyrsta konan sem tók sæti á Alþingi var Ingibjörg H. Bjarnason (1868-1941) en hún var kjörin á þing af kvennalista 1922. Í kosningunum 2009 urðu konur 43% kjörinna þingmanna, sem þá var þriðja hæsta hlutfall í heimi (á eftir Rwanda og Svíþjóð).

26. KIRKJUTORG 4 (KIRKJUHVOLL)
Sigríður Sigurðardóttir rak hér veitingasölu um tíma (sjá nr. 23). Theódóra Sveinsdóttir (1876-1949) hóf rekstur matsöluhúss í Kirkjuhvoli 1925 eða 1926, hélt vinsæl matreiðslunámskeið fyrir konur og karlmenn og leigði út veislusali. Hún rak einnig Ferstiklu í Borgarfirði á sumrin 1932-1936, gisti- og veitingahús í Reykholti í Borgarfirði 1933-1940 og veitingahús við Hvítárbrú í Borgarfirði 1937-1947. Theódóra var í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur (sjá nr. 36) um tvítugt og síðar á góðum hótelum og við nám í Kaupmannahöfn um tíma.

27. SKÓLABRÚ 2
Þessi áfangastaður er dæmi um líf vinnukvenna í Reykjavík þar sem vistin var jafnframt góður hússtjórnarskóli. Hér var heimili Ólafs Þorsteinssonar læknis og Kristínar Guðmundsdóttur og jafnframt læknastofa hans og síðar sona þeirra á árunum 1912-1984. Í húsinu er nú skjalasafn Alþingis.
     Fjölskyldan hafði ávallt 1-2 vinnukonur. Þær voru yfirleitt ungar stúlkur, oft komnar um langan veg til að sjá sér farborða í Reykjavík sem sogaði til sín sívaxandi mannfjölda frá byrjun 19. aldar. Vinnukonan fór yfirleitt fyrst á fætur, kom börnunum í skólann, hreinsaði eldstæði, bar inn eldivið, kveikti upp, þvoði þvotta, hreinsaði gólf, þvoði upp og fór í sendiferðir. Launin voru lág og frídagar aðeins eftir kl. 2 á fimmtudögum og annar hver sunnudagur frá sama tíma.
     Vinnukonustéttin hvarf á árum heimsstyrjaldarinnar síðari. Atvinnumöguleikar ungra kvenna urðu þá mun fjölbreyttari, en heimilistæki héldu einnig innreið sína og störf á heimilum gjörbreyttust.

28. LÆKJARGATA 8
Heimili Þórunnar Jónassen (1850–1922), sem kjörin var í bæjarstjórn af kvennalista árið 1908 (sjá nr. 1). Þórunn var formaður Thorvaldsensfélagsins (sjá nr. 18) frá stofnun þess 1875 til dauðadags 1922 og fulltrúi þess í Landspítalasjóðsnefndinni sem konur komu á fót 1915. Með byggingu spítalans vildu konur reisa minnisvarða þeirri réttarbót er þær öðluðust 19. júní 1915 (sjá nr. 25).

29. LÆKJARGATA 4 (nú á Árbæjarsafni)
Kristín Bjarnadóttir frá Esjubergi (1812-1891) nam ljósmóðurfræði og var ljósmóðir á Kjalarnesi þar til hún flutti til Reykjavíkur 1871 í hús er hér stóð. Kristín varð ekkja árið 1882. Sama ár samþykkti Alþingi að ekkjur og aðrar ógiftar konur skyldu hafa kosningarétt í sveitarstjórnum, en þó ekki kjörgengi. Kristín neytti atkvæðisréttar síns 1888, fyrst kvenna í Reykjavík.
     Ingibjörg Bjarnadóttir, dóttir Kristínar, bjó hér einnig ásamt manni sínum, Þorláki Johnson kaupmanni. Þau ráku veitingastaðinn Hermes. Þegar Þorlákur lét af kaupmennsku setti Ingibjörg á fót vefnaðarvöruverslun í húsinu og var hún jafnan kennd við hana.

30. MENNTASKÓLINN Í REYKJAVÍK (Lækjargata)
Skólahúsið var reist 1846. Stúlkur höfðu ekki aðgang að skólanum fyrr en 1904, en máttu taka próf frá árinu 1886. Ólafía Jóhannsdóttir lauk 4. bekkjar prófi utanskóla árið 1890. Laufey Valdimarsdóttir, dóttir Bríetar Bjarnhéðinsdóttur (sjá nr. 1 og 37) settist hér á skólabekk fyrst kvenna haustið 1904 og lauk stúdentsprófi þaðan 1910. Áður hafði ein stúlka tekið stúdentspróf utanskóla, Elínborg Jacobsen. Camilla Torfason lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn 1889 og Björg Karitas Þorláksdóttir 1901, en í Danmörku fengu stúlkur aðgang að æðri menntastofnunum þegar árið 1875. Stúlkur voru í minnihluta stúdenta fram til 1970 en eftir 1979 hafa þær verið í meirihluta. Frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands 1980-1996, var nemandi og síðar kennari við skólann. Fyrsta konan til að gegna embætti rektors M.R. var Ragnheiður Torfadóttir, 1995-2001.

31. LÆKJARGATA 12 (nú Íslandsbanki)
Jónína Jónatansdóttir (1869-1946) bjó hér ásamt manni sínum frá um 1920 og mörg ár eftir það. Jónína var hvatamaður að stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar 1914 (sjá nr. 10) og formaður þess frá stofnun til 1934. Hún var einnig einn af stofnendum Alþýðuflokksins og Alþýðusambands Íslands. Jónína sat í bæjarstjórn 1920-1922.

32. LÆKJARGATA 12 B (nú bílastæði)
Anna Teitsdóttir Benediktsson (1874-1963) varð ekkja 1901. Frá þeim tíma rak hún matsölu, fyrst á Ísafirði í tíu ár og síðan til ársins 1929 í húsi er hér stóð en brann 1967.

33. MÓÐURÁST (Lækjargata)
Styttuna gerði listakonan Nína Sæmundsson (Jónína Sæmundsdóttir, 1892-1965) í París 1924 og hlaut hún heiðurssess á Haustsýningunni á Grand Palais það ár. Árið 1928 lét Listvinafélagið kaupa myndina og setja hana upp í almenningsgarði í Reykjavík, Mæðragarðinum, og var hún fyrsta myndin sem sett var upp utan dyra í Reykjavík án þess að vera minnisvarði.

34. BARNASKÓLI REYKJAVÍKUR (Fríkirkjuvegur 1)
Byggður 1898. Konur urðu fljótt margar í kennaraliði skólans og 1919 var komið á launajafnrétti kennara og kennslukvenna. Konurnar sem kjörnar voru í bæjarstjórn 1908 af kvennalista létu sér annt um heilsufar skólabarna. Þær komu því m.a. til leiðar að 1909 var byrjað að gefa fátækum börnum mat í skólanum, að skólinn var þveginn daglega og að ráðinn var fastur læknir.

35. KVENNASKÓLINN Í REYKJAVÍK (Fríkirkjuvegur 9)
Stofnaður 1874 en starfræktur frá árinu 1909 í þessu húsi sem var byggt sérstaklega fyrir hann. Þóra Melsted (1823-1919) stofnaði kvennaskóla 1874 á heimili hennar og Páls Melsted að Thorvaldsensstræti 2 og byggðu þau hjón nýtt hús undir starfsemina og heimili sitt á grunni gamla hússins 1878 (sjá nr. 21). Þóra hafði kennt við skóla fyrir stúlkur í Reykjavík sem systir hennar Ágústa stóð fyrir 1851-1853 í Dillonshúsi við Suðurgötu (nú á Árbæjarsafni). Þóra veitti Kvennaskólanum forstöðu frá 1874-1906 en þá tók við stjórninni Ingibjörg H. Bjarnason. Fram til 1904 áttu íslenskar stúlkur engan raunhæfan kost annan á framhaldsmenntun utan kvennaskóla.

36. IÐNÓ
Hússtjórnarskólinn var hér til húsa 1897-1918. Hann hélt námskeið fyrir verðandi húsmæður og seldi mat til kostgangara. Hvert námskeið stóð í þrjá mánuði. Skólinn var stofnaður af Elínu Briem (1856-1937) og starfrækti hún skólann fyrstu árin ásamt frænku sinni Hólmfríði Gísladóttur.
     Þann 5. júní 1910 héldu ýmsar konur samsæti í Iðnó til heiðurs Ástu Kristínu Árnadóttur (1883-1955), er lauk iðnmeistaraprófi í Kaupmannahöfn sama ár, fyrst Íslendinga. Ásta lauk prófi í málaraiðn aðeins 26 ára gömul og var fyrsta konan sem lauk iðnnámi.
     Stefanía Anna Guðmundsdóttir (1876-1926) var í hópi fyrstu leikara Leikfélags Reykjavíkur sem fékk aðsetur í Iðnó frá árinu 1897. Þær leikkonur eru margar sem hér stigu sín fyrstu spor í leiklistinni.

37. BÍLASTÆÐI ALÞINGIS (Templarasund)
Hér stóð áður Gúttó. Góðtemplarar byggðu það 1887 og var það lengi eitt helsta samkomuhús bæjarbúa en var rifið 1968. Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940) flutti þar fyrsta fyrirlestur kvenmanns á Íslandi 30. desember 1887 og bar hann heitið "Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna".

Heimildir
Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir. Matseljur og kostgangarar í Reykjavík. Lokaritgerð í sagnfræði við H. Í., 1996
Auður Styrkársdóttir. Kvennaframboðin 1908-1926. Félagsvísindadeild H. Í. 
og Örn & Örlygur, 1982
Ármann Halldórsson. Saga barnaskóla í Reykjavík til 1930. Rannsóknastofnun KHÍ í samvinnu við Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, 2001
Björg Einarsdóttir. Úr ævi og starfi íslenskra kvenna. Bókrún. Bindi I, 1984 og bindi II-III, 1986
Bríet Héðinsdóttir. Strá í hreiðrið. Svart á hvítu, 1988
Eggert Þór Bernharðsson. Saga Reykjavíkur. Borgin. Fyrri og síðari hluti. Iðunn, 1998
Erla Hulda Halldórsdóttir og Guðrún Dís Jónatansdóttir (ritstj.). Ártöl og áfangar í sögu íslenskra kvenna. Kvennasögusafn Íslands, 1998
Guðjón Friðriksson. Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar. Fyrri og síðari hluti. Iðunn, 1991
Sami. Iðnó við Tjörnina. Sjómannafélag Reykjavíkur og Verkamannafélagið Dagsbrún, 1997
Sami. Reykjavík bernsku minnar. Setberg, 1985
Guðmundur Ingólfsson, Guðný Gerður Gunnarsdóttir og Hjörleifur Stefánsson. Kvosin. Torfusamtökin, 1987
Inga Lára Baldvinsdóttir. Ljósmyndarar á Íslandi. JPV útgáfa og Þjóðminjasafn Íslands, 2001
Kvennaskólinn í Reykjavík 1874-1974. Almenna bókafélagið, 1974
Margrét Guðmundsdóttir. 'Verðir heilbrigðinnar. Hjúkrunarfélagið Líkn 1915-1935' í Söguspegill. Afmælisrit Árbæjarsafns. Ritstjóri Helgi M. Sigurðsson. Árbæjarsafn og Hið íslenzka bókmenntafélag, 1992
Sama. 'Ræstingakonan í ráðhúsinu við Tjörnina' í Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Kvennasögusafn Íslands, 2001
Sigríður Th. Erlendsdóttir. Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992. Kvenréttindafélag Íslands, 1993
Sigríður Thorlacius. Margar hlýjar hendur. Kvenfélagasamband Íslands, 1981
Sigurður Gylfi Magnússon. Lífshættir í Reykjavík 1930-1940. Menningarsjóður, 1985
Vigfús Guðmundsson. 'Búnaðarmál í Reykjavík' í Þættir úr sögu Reykjavíkur. Félagið Ingólfur, 1936
Þórbergur Þórðarson. Í Unuhúsi. Mál og menning, 1962


Gengið um Þingholtin

Samantekt: Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands, 2006.

Kvennaskólinn í Reykjavík (Fríkirkjuvegur 9) 
Stofnaður árið 1874 en starfræktur frá árinu 1909 í þessu húsi sem var byggt sérstaklega fyrir hann og er meðal fyrstu steinhúsa hérlendis. Þóra Melsted (1823-1919) stofnaði kvennaskóla 1874 á heimili hennar og Páls Melsted að Thorvaldsensstræti 2 og byggðu þau hjón nýtt hús undir starfsemina og heimili sitt á grunni gamla hússins 1878. Þóra hafði kennt við skóla fyrir stúlkur í Reykjavík sem systir hennar Ágústa stóð fyrir 1851-53 í Dillonshúsi við Suðurgötu (nú á Árbæjarsafni). Fram til 1904 áttu íslenskar stúlkur engan raunhæfan kost á framhaldsmenntun utan kvennaskóla. 
Lítil stytta er fyrir framan skólahúsið og er það Stúlka eftir Ólöfu Pálsdóttur. Innan dyra skólans gengur styttan undir nafninu Soffía.

Barnaskólinn (Fríkirkjuvegur 1) 
Byggður 1898. Konur urðu fljótt margar í kennaraliði skólans og 1919 var komið á launajafnrétti kennara og kennslukvenna. Konurnar sem kjörnar voru í bæjarstjórn af kvennalista 1908 létu sér annt um heilsufar skólabarna. Þær komu því m.a. til leiðar að 1909 var byrjað að gefa fátækum börnum mat í skólanum, að skólinn var þveginn daglega og að ráðinn var fastur læknir til að fylgjast með heilsu skólabarna.

Menntaskólinn í Reykjavík (Lækjargata) Skólahúsið var reist árið 1846. Stúlkur höfðu ekki aðgang að skólanum fyrr en 1904, en máttu taka próf frá árinu 1886. Ólafía Jóhannsdóttir lauk 4. bekkjar prófi utanskóla árið 1890. Laufey Valdimarsdóttir, dóttir Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, settist hér á skólabekk fyrst kvenna árið 1904 og lauk stúdentsprófi árið 1910. Áður hafði Elínborg Jacobsen tekið stúdentspróf utanskóla. Camilla Torfason lauk stúdentsprófi í Kaupmannahöfn 1889 og Björg Karitas Þorláksdóttir 1901, en í Danmörku fengu stúlkur aðgang að æðri menntastofnunum þegar árið 1875. Stúlkur voru í minnihluta stúdenta fram til 1970 en eftir 1979 hafa þær verið í meirihluta.

Amtmannsstígur 5 
Vefnaðarvöruverslun Gunnþórunnar Halldórsdóttur (1872-1959) leikkonu og Guðrúnar Jónasson (1877-1958) frá 1905 um langt skeið. Guðrún og Gunnþórunn héldu hér heimili saman og ólu upp þrjú fósturbörn. Báðar voru félagar í KRFÍ nær frá upphafi. 
Gunnþórunn reisti neðri hæð hússins ásamt móður sinni Helgu Jónsdóttur er tók kostgangara eftir að maður hennar, Halldór söðlasmiður Jónatansson, dó en þá var Gunnþórunn barn að aldri. Eftir að Guðrún Jónasson flutti til þeirra létu þær stækka húsið um eina hæð. Gunnþórunn var mikilvirk og afar vinsæl leikkona í Reykjavík. 
Guðrún Jónasson var formaður KRFÍ 1911-12. Hún sat í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1928-46 og sat í barnaverndarnefnd, framfærslunefnd og brunamálanefnd. Hún var einn stofnenda og fyrsti formaður Hvatar, félags Sjálfstæðiskvenna í Reykjavík, 1937, og hafði hana á hendi til 1954. Hún var formaður kvennadeildar Slysavarnarfélags Íslands frá 1930 til dauðadags. 
Síðar var hér Blómaverslun frú Sigríðar Jenssonar um árabil (sjá ennfremur Þingholtsstræti 27).

Þingholtsstræti 9 
Guðrún Daníelsdóttir (1870-1945). 
For.: Daníel Símonarson söðlasmiður í Reykjavík og Sigríður Jónsdóttir. Ógift og barnlaus. Kvsk. Rvík, pr. 1887. Kpr. Flb. 1900. Kennarahásk. Khöfn 1903-04. Kennaranámsk. Hindsgavl., Danmörk, 1923. Hafði heimaskóla í Rvík 1889-98. Heimiliskennari. á Grenjaðarstöðum, S.-Þing., 1900-01, kenn. bsk. Rvík 1901-35. Kenndi síðan meira og minna heima hjá sér. Kenndi að leika á gítar. Einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands.

Þingholtsstræti 9 –Bríetarbrekka
Ríkisstjórnin fól Kvennasögusafni Íslands árið 2004 að sjá til þess að Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og íslenskri kvennabaráttu yrði reistur minnisvarði. Að ákvörðun Reykjavíkurborgar sem studdi verkefnið dyggilega stendur hér minningarreitur um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og íslenska kvennabaráttu. Ólöf Nordal var fengin til þess að útbúa reitinn sem var afhjúpaður 7. nóvember 2007 (Þess má geta að Ólöf er afkomandi Sigríðar Hjaltadóttur Jensson - sjá Þingholtsstræti 27).
Minnisvarðinn er laut með hringlaga granítplötu í miðju, „forum“ eða torg að rómverskri fyrirmynd, að sögn listakonunnar í frásögn Morgunblaðsins 8. nóvember 2007. Hægt sé að ræða málin á þessu torgi, og þá helst kvenfrelsi og réttindabaráttu. Torgið verndar grösugar hæðir, „kvenlegir barmar“, eins og Ólöf kallar þær og hægt er að tylla sér á bekki við torgið. Í því miðju er blómamunstur í gráum og rauðum litum, eftirgerð munsturs sem Ólöf sá á veggklæði sem Bríet gaf dóttur sinni Laufeyju Valdimarsdóttur. Barnabarn Bríetar og vinkona Ólafar, Laufey Sigurðardóttir, á nú þetta klæði. Utan um munstrið hringast vísa eftir Bríeti, einnig fengin af klæðinu. Skilaboð frá baráttukonu til dóttur sinnar og hvatningarorð til allra kvenna um leið: „Stígðu ófeimin stúlka upp og stýrðu klæði, yfir geiminn yfir græði, allan heiminn skoða í næði.“

Þingholtsstræti 13
Jórunn Ragnheiður Guðmundsdóttir (1856-1916). 
Handavinnukennari við Kvennaskólann í Rvk. 1888-91. Fór til Kaupmannahafnar á fimmtugsaldri til að læra fatasaum og kenndi síðan saumaskap og rak verslun með saumavörur við Laugaveg. Einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands. Meðlimur í Hvítabandinu.

Þingholtsstræti14 
Margrét Stefánsdóttir (1873-1940). 
For.: Stefán Magnússon og Ingibjörg Magnúsdóttir. Ógift. Hún ól upp fósturson. 
Kvennask. Ytri-Ey 1894-95. Nám (kjóla- og karlmannafatasaum o.fl.) í Rvík 1896-97. Námsdvöl í Khöfn (saumar, matreiðsla) 1905-06. Kennari í Undirfellssókn í Vatnsdal 1897-1900 (einnig í Blönduóssókn 1987-98 og Bólstaðarhlíðarsókn 1899-1900). Kenn. við kvennaskólann á Blönduósi 1907-10. Kenndi börnum í Staðarsveit eftir 1919. Margrét var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands.

Þingholtsstræti 15
Jónína Jónatansdóttir (1869-1946). 
For.: Jónatan Gíslason og Margrét Ólafsdóttir. Maki: Flosi Sigurðsson trésmiður. Þau ólu upp fósturson. Jónína og Flosi bjuggu hér fram til 1916 en fluttu þá í Lækjargötu 12. 
     Jónína missti ung föður sinn og réðst í vistir eftir fermingu þar til hún giftist. Hún gerðist félagi í Kvenréttindafélagi Íslands skömmu eftir stofnun þess og var jafnframt virk í Góðtemplarareglunni. Jónína var hvatakona að stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar 1914 og formaður þess frá stofnun til 1934. Hún var einnig einn af stofnendum Alþýðuflokksins og Alþýðusambands Íslands. Jónína sat í bæjarstjórn fyrir Alþýðuflokkinn 1920-22.

Þingholtsstræti 16 
Guðrún Björnsdóttir (1853-1936). 
For.: Björn Skúlason, bóndi á Presthólum, og Bergljót Sigurðardóttir. Maki: sr. Lárus Jóhannesson. Þau eignuðust fjórar dætur. 
   Guðrún hóf mjólkursölu í Reykjavík árið 1900 og rak hana af miklum dugnaði. Hún var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands og kjörin af kvennalista í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908 og sat þar til 1914.

Þingholtsstræti 17
Þórunn Pálsdóttir (1877-1966). 
Eiginkona Þorsteins Gíslasonar ritstjóra Lögréttu og Óðins. Þau eignuðust sex börn. Þórunn var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands

Þingholtsstræti 18 
Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940). 
For.: Bjarnhéðinn Sæmundsson og Kolfinna Snæbjarnardóttir. Maki: Valdimar Ásmundsson ritstjóri. Þau eignuðust tvö börn. Bríet og Valdimar keyptu hús er hér stóð árið 1891 og bjuggu þar síðan. Það hús hefur verið rifið. 
     Bríet nam við Kvennaskólann á Laugalandi í Eyjafirði 1880-1881. Hún fékkst við kennslu barna og unglinga í Reykjavík og í S-Þingeyjarsýslu. Árið 1885 birtist grein eftir hana í Fjallkonunni og er fyrsta blaðagrein sem vitað er um eftir íslenska konu. Árið 1887 hélt hún fyrirlestur í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík og var það fyrsti fyrirlestur konur á Íslandi. Bríet hóf útgáfu á Kvennablaðinu 1895 og Barnablaðinu 1897 og var ritstjóri beggja. 
     Valdimar dó árið 1902 og upp úr því hófst sá kafli í lífi Bríetar sem hennar er minnst fyrir. Hún beitti sér fyrir stofnun Kvenréttindafélags Íslands árið 1907 og gerðist ein helsta talskona kvenréttinda á Íslandi.

Þingholtsstræti 27
Sigríður Hjaltadóttir (Jensson) (1860-1950) 
For.: Hjalti O. Thorberg og Guðrún Jóhannesdóttir. Maki: Jón Jensson háyfirdómari. Þau eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu í húsi er hér stóð en var síðar flutt og prýðir nú Þingholtsstræti 28. 
     Sigríður rak lengi blómaverslun að Amtmannsstíg 5. Hún sat í stjórn Thorvaldsensfélagsins og var einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands.

Þingholtsstræti 34 (Bólstaðarhlíð)
Kristín Vídalín Jacobsen (1864-1943). 
For.: Elínborg Kristjánsson og Páll Vídalín (sjá að ofan). Maki: Jón Jacobson landsbókavörður. Þau Kristín og Jón létu reisa þetta hús og fluttu inn í það aldamótaárið 1900. 
Kristín stundaði nám í Kvenna-akademíunni í Kaupmannahöfn 1890-92 og mun vera fyrsta íslenska konan sem stundaði nám í málaralist. Eftir heimkomuna nokkru síðar stundaði hún áfram listastarfsemi sína og kenndi einnig dráttlist. Hún lagði málaralistina síðan alveg á hilluna. 
Kristín stofnaði ásamt nokkrum konum öðrum Kvenfélagið Hringinn árið 1904 og var hún formaður félagins frá stofnun til 1943. Hún átti hlut í stofnun Bandalags kvenna 1917 og sat um tíma í stjórn.

Laufásvegur 5 
Stefanía Guðmundsdóttir (1876-1926) leikkona. 
For.: Guðmundur snikkari Jónsson og Anna Stefánsdóttir. Maki: Borgþór Jósefsson bæjargjaldkeri. Þau eignuðust sjö börn. 
Stefanía lauk prófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1893. Hún byrjaði að leika aðeins 16 ára gömul, kom fyrst fram í leikriti sem sýnt var í Gúttó 1893. Stefanía og maður hennar voru bæði meðal stofnenda Leikfélags Reykjavíkur og varð sviðið í Iðnó aðal starfsvettvangur Stefaníu. Hún var félagi í Hinu íslenska kvenfélagi.
     Húsið er með elstu steinhúsum í Reykjavík. Pétur Pétursson biskup gaf dóttur sinni Þóru það í brúðkaupsgjöf er hún gekk að eiga Þorvald Thoroddsen jarðfræðing árið 1887, en Pétur var talinn ríkasti maður landsins. Álmtréð undir gafli hússins gróðursetti Þorvaldur um það leyti sem þau Þóra fluttust í húsið. Borgþór stækkaði húsið, byggði við það sólstofu og ræktaði garð.

Laufásvegur 7 (Þrúðvangur) 
Margrét Zoëga (1853-1938). 
For.: Tómas Klog. Maki: Einar Zoëga hóteleigandi. Margrét lét reisa húsið árið 1918 og bjó hér ásamt dóttur sinni Valgerði og tengdasyni, Einari Benediktssyni, til ársins 1927. Útidyrahurðin er útskorin af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara. Hlyninn við suðurgafl hússins mun Margrét hafa gróðursett á fyrstu árum hússins. 
     Margrét var eigandi Hótels Reykjavíkur við Austurvöll. Hún lét kvennabaráttuna til sín taka og tók m.a. þátt í að undirbúa kosningarnar 1908 þegar konur buðu fram sérlista til bæjarstjórnar. Þegar úrslitin voru ráðin sátu konurnar málsverð á Hótel Reykjavík, kalt borð og einn heitan rétt, en hótelið var þá nær nýbyggt.

Laufásvegur 12 
Elínborg Kristjánsson (1833-1918). 
For.: Sr. Friðrik Eggerz og Arndís Pétursdóttir. Maki 1: Páll Vídalín. Þau eignuðust sex börn. Maki 2: sr. Benedikt Kristjánsson. Elínborg og sr. Benedikt reistu það hús er hér stendur aldamótaárið 1900. Elínborg var félagi í Hinu íslenska kvenfélagi.

Ingólfsstræti 18 
Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm (1845-1918). 
For.: Sr. Þorsteinn Einarsson og Guðríður Torfadóttir. Maki: Jakob Hólm verslunarstjóri. Þau voru barnlaus. 
     Torfhildur flutti 17 ára gömul til Reykjavíkur og dvaldi þar næstu sex ár við bóknám og hannyrðir. Þá sigldi hún til Kaupmannahafnar og hélt áfram námi. Fluttist þá til Reykjavíkur og kenndi þar ungum stúlkum. Torfhildur giftist Jakobi Hólm er hún var 29 ára gömul. Jokob andaðist ári síðar og ári seinna fluttist Torfhildur til Vesturheims og dvaldi í Kanada næstu 13 ári. Þar lærði hún að mála og byrjaði jafnframt að semja skáldsögur og gefa þær út. Síðustu æviárin átti Torfhildur heima að Ingólfsstræti 18 en það hús erfði hún 1910 eftir Ragnhildi systur sína. 
Torfhildur var brautryðjandi íslenskra kvenna á ritvellinum. Fyrsta saga hennar, Brynjólfur Sveinsson biskup kom út árið 1882 og vakti þegar mikla athygli. Elding, saga frá 10. öld, kom út 1889; er það veigamesta verk hennar. Jón biskup Vídalín (1892-3) og Jón biskup Arason (1902-8) komu báðar út í Draupni, tímariti sem hún gaf út 1891-1908. Dvöl hét annað tímarit, sem hún gaf út og helgaði bókmenntum. Birti hún í því sögur, frumsamdar og þýddar. Ennfremur gaf hún út Sögur og ævintýri, barnasögur o.fl. Sögur Torfhildar urðu vinsælar af alþýðu manna. Hún fékk skáldastyrk úr landsjóði árið 1891, fyrst kvenna.

Ingólfsstræti 14 
Kristín Ólafsdóttir (1889-1971). 
For.: Sr. Ólafur Ólafsson og Ingibjörg Pálsdóttir Maki: Vilmundur Jónsson landlæknir. Þau eignuðust þrjú börn. 
Kristín lauk stúdentsprófi frá Latínuskólanum 1911 og prófi í læknisfræði frá H.Í. 1917, fyrst kvenna. Hún starfaði á sjúkrahúsum í Danmörku og Svíþjóð 1918-1919. Kristín var starfandi læknir á Ísafirði 1917-1931 og aðstoðarlæknir sjúkrahússlæknis þar, síðan starfandi læknir í Reykjavík. Kenndi heilsufræði við húsmæðraskóla kvenfélagsins Óskar á Ísafirði. Í skólanefnd húsmæðraskólans í Reykjavík 1941-46, í barnaverndarnefnd 1946-52. Kristín samdi nokkur rit um mataræði og heilsufar og þýddi nokkur rit.

Ingólfsstræti 9 
Katrín Magnússon (1858-1932). 
For.: Skúli Þorvaldsson Sívertsen, bóndi í Hrappsey, og Hlíf Jónsdóttir. Maki: Guðmundur Magnússon, læknir. Þau voru barnlaus. 
Katrín aðstoðaði mann sinn við alla uppskurði, smáa og stóra. Hún var formaður Hins íslenska kvenfélags um tíma, sat lengi í stjórn Thorvaldsensfélagsins og var í fyrstu stjórn Bandalags kvenna 1917. Katrín var kjörin af kvennalista í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908 og sat þar í átta ár og starfaði þar m.a. í fátækranefnd bæjarins.

Smiðjustígur 6 
Anna Sigríður Pjetursson (1845-1921). 
For.: Vigfús Thorarensen sýslumaður og Ragnheiður Pálsdóttir Melsted. Maki: Pjetur Pjetursson bæjargjaldkeri. Þau eignuðust sex börn. 
Lærði píanóleik hjá Olöfu Finsen og í Kaupmannahöfn og lauk kennaraprófi í tónlist, fyrst Íslendinga. Hún kenndi hljóðfæraslátt í Reykjavík í hálfa öld. Einnig lærði hún í Kaupmannahöfn að sauma prestakraga og „krúsa“, þ.e. að strauja þá með þar til gerði járni. Hún kenndi hannyrðir við Kvennaskólann í Reykjavík 1874-1875. Anna var í fyrstu stjórnarnefnd Hins íslenska kvenfélags 1894 og ennfremur félagi í Hvítabandinu.

Skólavörðustígur 11 og 11a (nú SPRON)
Þorbjörg Sveinsdóttir (1827-1903). 
For.: sr. Sveinn Benediktsson og Kristín Jónsdóttir. Ógift. Ól upp systurdóttur sína, Ólafíu Jóhannsdóttur. 
Þorbjörg nam yfirsetufræði í Kaupmannahöfn og útskrifaðist sem ljósmóðir 1856. Hún stundaði síðan ljósmóðurstörf í Reykjavík til ársins 1902 og var embættisljósmóðir frá árinu 1864. Samhliða störfum hafði Þorbjörg á hendi verklega kennslu ljósmóðurnema. Einn stofnenda Hins íslenska kvenfélags og ein fremsta kvenréttindakona sinnar samtíðar. Þorbjörg keypti steinbæ er hér stóð skömmu eftir að hún kom heim frá Kaupmannahöfn en hann var reistur árið 1858. Árið 1896 reisti Þorbjörg tvílyft timburhús á sömu lóð. 
Ólafía Jóhannsdóttir (1863-1924). 
For.: sr. Jóhann Knútur Benediktsson og Ragnheiður Sveinsdóttir. Ógift og barnlaus. 
Nam við Kvennaskólann í Reykjavík en lauk ekki prófi, nam einnig við Latínuskólann en lauk ekki prófi. Var við kennslu í Flatey á Breiðafirði og við bsk. Rvík. Kennari Kvsk. í Rvík 1891-1892 og 1901-02. Nám við Askov 1892-94. Ritstjóri Ársrits Hins ísl. kvenfélags 1895-1899. Fulltrúi Hins ísl. kvenfélags á Þingvallafundi 1895. Frumkvöðull að stofnun Hvítabandsins 1895 og fyrsti formaður þess. Eftir 1903 starfaði Ólafía erlendis, aðallega í Osló, þar sem hún beitti sér fyrir að komið yrði á fót heimili fyrir utangarðsfólk. 
Hólmfríður Árnadóttir (1873-1955). 
For.: Árni Ásgrímsson og Margrét Þorfinnsdóttir. Ógift og barnlaus. Bjó hér um tíma. 
Kvennaskólinn á Laugalandi 1889-90, nám í Rvík 1894-95, nám í ýmsum greinum við Statens Lærerhøjskole, Khöfn, 1903-06. Sumarskóli í Askov 1906. Námskeið í ensku við hásk. Edinborg 1909. Ýmis námskeið við Columbia-hásk. í New York á árunum 1917-22. Kenn. kvsk. Akureyri 1896-1903, skstj. 1902-03, bsk. Akureyri 1906-08, bsk. og unglsk. Ísafirði 908-10. Hafði skóla fyrir ungar stúlkur í Rvík 1910-17. Kenndi íslensku og dönsku við Columbia-hásk. New York 1918-22. Tungumálakennsla í einkatímum í Rvík 1922-50. Hólmfríður var félagi í Hinu íslenska kvenfélagi og Hvítabandinu. Undirbúningsfundur að Bandalagi kvenna var haldinn á heimili hennar í Iðnskólanum í maí 1917 og því ákveðið nafn. 
Guðrún Pétursdóttir (1878-1963). 
For.: Pétur Kristinsson og Ragnhildur Ólafsdóttir. Maki: Benedikt Sveinsson. Þau eignuðust sjö börn. Benedikt keypti Skólavörðustíg 11a af Ólafíu Jóhannsdóttur árið 1903 og bjuggu þau Guðrún hér alla sína búskapartíð. 
Guðrún gekk í Hið íslenska kvenfélag á stofnfundi þess 1894 aðeins fimmtán ára gömul. Hún var einnig einn stofnenda Kvenréttindafélags Íslands og gegndi margskonar trúnaðarstörfum fyrir félagið, var m.a. formaður Mæðrastyrksnefndar um skeið. Guðrún var lengi í stjórn Bandalags kvenna í Reykjavík og var einn stofnfélaga Kvenfélagasambands Íslands og í stjórn þess frá stofnun til 1947 er hún tók við formennsku og gegndi því starfi til 1959. Þá var Guðrún stofnfélagi í Hvöt, félagi sjálfstæðiskvenna í Reykjavík 1937 og í stjórn félagsins 1938-1961. Guðrún var einnig í Heimilisiðnaðarfélagi Reykjavíkur og formaður þess frá 1927-1949.

Skólavörðustígur 
Sjúkrahús Hvítabandsins var tekið í notkun árið 1933. Hvítabandskonur hugsuðu sér að hér yrði hvíldarheimili fyrir bágstaddar og heilsulausar konur en vegna mikils skorts á sjúkrarými í hinum nýbyggða Landspítala varð það sjúkrahús frá byrjun. Hvítabandið rak spítalann fyrir eigin reikning til 1942 en þá tók Reykjavíkurborg við rekstrinum.

Heimildir 
Björg Einarsdóttir. 2002. Hringurinn í Reykjavík. Stofnaður 1903 – Starfssaga. Hið íslenska bókmenntafélag og Hringurinn. 
Björg Einarsdóttir. 1984, 1986. Úr ævi og starfi íslenskra kvenna I.-III. bindi. Bókrún. 
Embla 
Guðjón Friðriksson. 1995. Indæla Reykjavík. 6 gönguleiðir um Þingholt og sunnanvert Skólavörðuholt. Iðunn. 
Margrét Guðmundsdóttir. 1992. Aldarspor. Skákprent. 
Sigríður Th. Erlendsdóttir. 1993. Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992. Kvenréttindafélag Íslands, 1993.

*síðast uppfært 12. október 2020