Kvennafrí 2005

Kvennafrídagur 24. október 2005

bordi2005

Þann 24. október 2005 lögðu íslenskar konur niður vinnu kl. 14:08 en það var áætlaður sá tími er konur væru búnar að vinna fyrir launum sínum—miðað við hlutfallsleg laun kvenna af launum karlmanna. Frá Skólavörðuholti var lagt af stað í kröfugöngu niður á Ingólfstorg kl. 15:00 undir slagorðinu „Konur höfum hátt“. Svo mikil var þá mannþröngin orðin á holtinu og Skólavörðustíg, í Bankastræti og Austurstræti að gangan varð að brjóta sér leið niður á Ingólfstorg. Þar hófst útifundur kl. 16:00. Dagskrá fundarins var eftirfarandi:

14:08 Konur leggja niður störf
15:00 Kröfuganga frá Skólavörðuholti á Ingólfstorg undir yfirskriftinni "Konur höfum hátt"
16:00 Baráttufundur á Ingólfstorgi:

Léttsveit Reykjavíkur
Hljómsveitin Heimilistónar
Valgerður Bjarnadóttir flytur barátturæðu
Vitjun gyðjunnar — samræðuþáttur milli nútíðar og fortíðar eftir Kristínu Ómarsdóttur
Amal Tamini flytur barátturæðu
Karla Dögg flytur gjörning
Kór Kvennakirkjunnar
Fulltrúar heildarsamtaka launþega: Kristrún Björg Loftsdóttir og Marín Þórsdóttir
Hljómsveitin „Áfram stelpur“ flytur baráttusöngva kvenna
Katrín Anna Guðmundsdóttir flytur barátturæðu
Steinunn Jóhannesdóttir og fleiri leikkonur kynna endurútgáfu á „Áfram stelpur“og taka lagið

Fundarstýra: Edda Björgvinsdóttir leikkona
Sviðsstýra: María Heba Þorkelsdóttir

Talið er að allt að 50.000 manns hafi verið í miðbænum meðan fundurinn stóð yfir, mestmegnis konur. Það er þriðjungur allra kvenna á landinu. Þetta er stærsti fundur Íslandssögunnar. Fundir voru einnig haldnir víða um land sem tókust með miklum ágætum.

Fjölmiðlar sýndu Kvennafrídeginum mikla athygli og dagblöð daginn eftir voru full af myndum og fréttum. Sjónvarpið var með beina útsendingu nær allan fundartímann. Hann vakti athygli langt utan landsteinana og fréttir birtust í mörgum erlendum fjölmiðlum.

Til fundarins var boðað til að minnast 30 ára afmælis Kvennafrídagsins 24. október 1975 en ekki síður til að leggja áherslu á óánægju íslenskra kvenna með stöðu sína, sérstaklega þó lægri launa en karlmenn.

Að fundinum stóðu: Alþýðusamband Íslands, BHM, BSRB, Femínistafélag Íslands, Kennarasamband Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Kvennasögusafn Íslands, Kvennakirkjan, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við H.Í., Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um kvennaathvarf, Stígamót og Unifem á Íslandi.

Gögn kvennafrídagsins eru varðveitt á Kvennasögusafni, sjá skjalaskrá.

siv

*Fyrst birt árið 2005