Kæru baráttusystur.
Síðustu dagar hafa verið eins og rússibanaferð hjá mér. Það hefur vakið hjá mér ótrúlega von í brjósti að fylgjast með viðbrögðunum við kvennafríinu og þeirri samstöðu sem við konur erum að sýna. Sameinaðar getum við allt. Sameinaðar getum við náð jafnrétti. Við höfnum slagorðum eins og góðir hlutir gerast hægt og segjum í staðinn: Góðir hlutir gerast strax! Við getum púað á þá sem reyna að sundra samstöðu kvenna með því að segja að konur séu konum verstar og sagt í staðinn: Konur eru konum bestar!
Ég trúi því að þessi dagur marki upphafið að einhverju stærra og meira. Að nú virkjum við hver aðra og leitum logandi ljósi að lausnum til að búa til þá veröld sem við viljum.
En hvernig förum við að því? Við þurfum að segja skoðun okkar upphátt. Við þurfum að finna að við eigum rétt á okkar skoðunum og tilfinningum og við eigum ekki að vera umburðarlynd gagnvart misrétti. Við eigum að agnúast út í öll atriði sem varða jafnrétti, bæði stór og smá, því hér duga hvorki vettlingatök né hænuskref. Við þurfum byltingu. Við þurfum róttækar breytingar og við þurfum að skoða heildarmyndina.
Hvað er það sem veldur því að okkur gengur svona hægt að ná fram jafnrétti? Kynjamisrétti í okkar samfélagi stafar ekki af einni ákveðinni ástæðu heldur mörgum samverkandi þáttum. Til að ná jafnrétti er ekki nóg að skoða bara launamisrétti og fjölda kvenna í áhrifastöðum. Það er heldur ekki nóg að skoða bara ofbeldi, staðalímyndir eða klámvæðingu. Við þurfum að skoða heildarmyndina til að geta leyst málið því þetta hangir allt á sömu spýtunni og vinnur saman í að viðhalda misrétti.
Við búum í markaðsvæddu þjóðfélagi og þar gilda lögmál markaðarins. Innbyggð í þau lögmál eru hvorki siðferði, réttlætiskennd né jafnrétti og því þarf mannlegi þátturinn að koma þar að verki. Það er okkar að sjá til þess að við veljum þá hluti sem uppfylla okkar siðferðis-, réttlætis- og jafnréttiskennd. Það gerir það enginn fyrir okkur og ef við ekki spornum við — ef við ætlum að vera umburðarlynd fyrir öllu — þá erum við ekki að nota frelsið til að velja og hafna.
Sumt gætum við leyst tiltölulega fljótt ef við náum samstöðu um það. Við getum útrýmt launamun fyrir sömu störf strax á morgun með því að afnema launaleynd. Launaleynd er ekki í samræmi við lögmál markaðarins því þau gera ráð fyrir að við höfum allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir hendi til að taka ákvarðanir. Launaleynd stendur því beinlínis fyrir þrifum að við náum launajafnrétti. Launakannanir hafa sýnt að hér ríkir launamisrétti fyrir sömu störf en kannanir hafa líka sýnt að meirihluti kvenna telur að launamisréttið sé á öðrum vinnustöðum en ekki þeirra. Hversu margar konur hér í dag geta sagt með fullri vissu að maðurinn sem vinnur við hliðina á þeim sé ekki með hærri laun en þær? Við getum það ekki ef við vitum ekki hvað hann er með í laun.
En afnám launaleyndar leysir aðeins hluta vandans. Eftir stendur að við þurfum að leysa þann launamun sem er á milli hefðbundinna kvenna- og karlastétta, skiptingu heimilisstarfa og annarra þátta sem hafa áhrif á starfsval kvenna og karla og stöðu kynjanna í samfélaginu.
Við þurfum að skoða kynhlutverkin og hvernig þeim er viðhaldið. Sjálf er ég á þeirri skoðun að markaðsöflin spili stóran þátt í að móta samfélagið. Markaðsöflin eru áhrifaríkt afl því þau spila inn á langanir okkar og þrár en á sama tíma móta þau með öðrum miðlum hvað þykir eftirsóknarvert á hverjum tíma. Og hvað er eftirsóknarvert í fari kvenna í dag? Það þarf ekki að horfa á tónlistarmyndbönd eða skoða auglýsingar lengi til að komast að því í hvaða hlutverk er verið að troða konum. Konur eiga að vera ungar, sætar og sexý — fáklæddar í kynferðislegum stellingum innan um fullklædda karlmenn. Mótsögnin í hlutverkum kynjanna er æpandi og afleiðingarnar skelfilegar. Þetta er ekki sú veröld sem ég vil, hvorki fyrir sjálfa mig né komandi kynslóðir og það sem ég hef áhyggjur af er að þau hlutverk sem við erum að segja ungu kynslóðinni að séu eftirsóknarverð leiði af sér aukið ofbeldi og þverrandi virðingu fyrir hvort öðru. Þess vegna verður ekki jafnrétti nema við snúum vörn í sókn.
Við berum sameiginlega ábyrgð á að setja jafnréttismálin í forgang. Jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér. Ekkert hefur áunnist í jafnréttismálum án baráttu, svo mikið eigum við að læra af sögunni og ef við höldum ekki vöku okkar getum við glatað áunnum réttindum.
Kæru konur.
Ég held að margar okkar viti innst inni hverju þarf að breyta. Lítið í kringum ykkur og sjáið hversu margar við erum hér sem viljum réttlátari heim. Við getum alveg búið hann til en til þess að svo verði þurfum við að hætta að vera hlýðnar og meðfærilegar — hætta að rækta í okkur sætu stelpuna sem vill alltaf gera öllum til geðs og hlustar á þær raddir sem segja að þetta sé nú allt að koma, þetta komi allt með næstu kynslóð, að klámvæðingin sé ekkert til að hafa áhyggjur af og að stelpur eigi bara að vera duglegar í skóla og komast svo áfram á eigin verðleikum. Við vitum alveg að þetta er ekki satt. Þetta er ekki allt að koma. Þess vegna er þörf á okkur. Þess vegna er þörf á því að við gerumst óþægar og hellum okkur út í aðgerðir af fullum krafti. Látum raddir okkar heyrast svo hátt að þær yfirgnæfi þær raddir sem reyna að draga úr okkur kjarkinn. Ekkert getur stöðvað okkur ef við bara stöndum saman. Það er ekkert að óttast — við erum ekki hræddar við jafnrétti!