Ræða Valgerðar Bjarnadóttur

Ár var alda
það er ekki var
vara sandur né sær
né svalar unnir

Svo kvað völvan forðum þegar hún horfði til upphafs veraldar. Þegar horft er 30 ár til baka er að sumu leyti eins og ný jörð hafi risið úr sæ.*

Ár var alda
það er ekki var
fæðingarorlof fáheyrt
framtíðin geymdi jafnréttið,
þingkonur gjarna þrjár
þekktist ei kona sem forseti
framboðin kvenna fornu gleymd
fannst enginn Kvennalisti.
athvarf kvenna ekkert var
engin Stígamót
engin Neyðarmóttaka
sögur sagðar af píkum fáar
og svívirtar konur í felum.

Guð ekki gjafmild vinkona enn
og gyðjan mikla í fortíð falin.

Þegar ég gekk niður á Lækjartorg 24. október 1975, 21 árs námsmeyja við Háskólann, gerði ég mér litla grein fyrir mættinum sem í stundinni bjó. Því er það ótrúleg upplifun að fá að standa hér núna og horfa yfir hópinn... og yfir árin... að sjá til fortíðar og framtíðar þar sem ég horfi á ykkur og veit að þekking þessa hóps, okkar styrkur og möguleikar eru svo miklu meiri en þá. Þá stóð ég mitt í þrönginni og sá í raun hvorki fram á við né til baka. Minningin er líkust draumi, óljós, en sterk og djúp — og á eftir þessi vissa sem stundum fylgir draumum — það sem hér var að gerast „vissi á eitthvað.“

Það sem var að gerast var ein birtingarmynd þeirrar máttugu byltingar sem á þeim tíma reis í vestræna heiminum öllum. Og eftir 1975 hefur annars vegar allt breyst og hins vegar ekkert breyst. Annars vegar hafa konur uppgötvað samtakamátt og einstaklingmátt... og hins vegar erum við enn fangar og fulltrúar karlaveldis bæði á vettvangi einkalífsins og hins opinbera atvinnu- og stjórnmálalífs.

Annars vegar hætta konur vinnu átta mínútur yfir tvö vegna vitundar um launamisréttið sem á okkur bitnar, og hins vegar virðast fá tilbúin í þann slag og fórnarkostnað sem fylgir því að jafna laun kvenna og karla í raun.

Annars vegar hafa konur náð að opna eigin augu og annarra fyrir óþolandi ofbeldi sem konur í öllum stéttum og á öllum aldri verða fyrir af hendi sumra karla og karlveldinu, og hins vegar er eins og ekkert nái að stöðva glæpinn.

Síðustu 30 ár hafa tekist á tvö ólík sjónarmið í kvennabaráttunni. Annað miðar að því að konur aðlagist ríkjandi kerfi, læri á verkfæri karlveldisins til þess að öðlast fullgild réttindi. Hitt miðar að því að móta nýtt kerfi sem byggir á því að konur læri að meta og miðla eigin hæfni og þekkingu um leið og við tökum til okkar þann hluta ríkjandi arfs sem er til gagns fyrir okkur öll. Skilgreining reynsluheims kvenna var hluti þessa ferlis og um tíma vorum við iðnar við að breyta. Við hentum brjóstahöldurunum, gengum í rauðum sokkum, gáfum börnum brjóst á fundum, prjónuðum í tímum — settum spurningamerki við flestar viðteknar venjur. Erum við að fjarlægjast þetta sjónarmið um of á síðari árum? Erum við ef til vill orðnar of duglegar við að aðlaga okkur ríkjandi kerfi?

Í leikritinu „Hús Bernhörðu Alba“ er ekkert karlhlutverk. Það fjallar um mæður og dætur, konur sem eru fangar í því húsi og lífi sem karlveldið hefur skipað þeim. Karlar, jafnvel dauðir karlar, stýra þó atburðarásinni frá upphafi til enda. Mér líður á stundum eins og ég sé stödd í húsi Bernhörðu i mínum kvennaheimi, sem i raun er stýrt í einu og öllu af körlum og þeim konum sem hafa tekið að sér hlutverk gæslukvenna karlveldisins.

Á hinn bóginn næ ég æ oftar að finna kraftinn sem býr í hinni frjálsu konu í mér og systrum mínum allt í kring, fjölskrúðugum hópi kvenna úr ólíkum herbergjum samfélagsins — og ekki síst í því frelsi sem býr í jafnvæginu og unaðslegu samspilinu milli okkar og þeirra karla sem hafa uppgötvað dans jafningjanna þar sem kvenlægir og karllægir kraftar leika saman í frjórri sköpun.

Látum kraftinn rísa, konur, finnum þetta frelsi! Frelsi til að njóta, til að stýra, til að tjá okkur og hlusta, vera reiðar, daprar, glaðar, ákafar, elska og vera elskaðar, frelsi til að gefa, til að þiggja og til að taka til okkar það sem við eigum. Tökum það til okkar, tökumst í hendur, dönsum jafningjadansinn og njótum!