Ágæta samkoma, til hamingju með daginn!
Við berum blendnar tilfinningar til dagsins í dag. Annars vegar er stórkostlegt að sjá hversu mikil samstaða er í þjóðfélaginu. Samstaða um að gera betur og leiðrétta þann mismun sem finnst í samfélaginu. Hins vegar eru það vonbrigði að 30 árum eftir Kvennafrídaginn 1975 er enn full ástæða til að fjölmenna á útifundi og benda á þá staðreynd að jafnrétti hefur enn ekki verið náð. Enn í dag þurfum við að leggja niður störf til að vekja athygli á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir atvinnulíf og samfélag.
Árið 2005 stöndum við frammi fyrir þeim veruleika að konur eru aðeins með 72% af launum karla. Við erum að tala um sambærileg störf sem krefjast sambærilegrar menntunar og að baki liggur jafn langur vinnutími. Konur eru ekki metnar að verðleikum og hefðbundin kvennastörf eru enn láglaunastörf.
Launamisréttið er tímaskekkja og smánarblettur á íslensku samfélagi.
Látum þetta ekki viðgangast lengur. Áfram stelpur!
Þrátt fyrir meiri menntasókn kvenna hafa konur ekki sömu atvinnutækifæri og karlar. Enn hefur engin kona gegnt starfi biskups. Í viðskiptalífinu fylla konur hin ýmsu störf, þær eru gjaldkerar, markaðsstjórar og fjármálastjórar, en aldrei hefur kona á Íslandi gegnt starfi bankastjóra. Það sama má segja um Alþingi og ríkisstjórnina. Af 63 þingmönnum er 21 kona og konur eru þrjár af 12 ráðherrum. Kona hefur aldrei gegnt starfi utanríkisráðherra, fjármálaráðherra né forsætisráðherra. Í 100 stærstu fyrirtækjum landsins eru konur 1% forstjóra og 10% stjórnarmanna. Hér er verk að vinna. Sömu atvinnutækifæri fyrir konur! Styðjum við bakið á konum. Förum alla leið.
Stjórnvöld verða að axla meiri ábyrgð á framgangi jafnréttismála. Fleiri konur eru á atvinnuleysisskrá en karlar. Stjórnvöld verða að taka tillit til sjónarmiða og þarfa beggja kynja þegar bregðast skal við samdrætti og atvinnuleysi í byggðum landsins.
Verkalýðshreyfingin hefur ávallt lagt mikla áherslu á mikilvægi samstöðunnar í baráttunni fyrir mannsæmandi lífskjörum, fyrir mannréttindum og fyrir því að geta lifað með reisn í samfélaginu. Jafnrétti snýst um mannréttindi. Það þarf samstöðu allra, kvenna og karla, í baráttunni fyrir jafnrétti. Það er samstöðu og baráttu verkalýðsfélaganna og hinna ýmsu kvennahreyfinga að þakka að við þokumst í rétta átt — þrátt fyrir að hægt miði.
Við hvetjum ungar konur og ungu kynslóðina til að taka virkan þátt í starfi stéttarfélaganna og kvennasamtakanna við að bera kyndil jafnréttisins áfram.
Opinberlega er því haldið fram að tækifærin séu jöfn fyrir alla, óháð kyni. Að góðir hlutir gerist hægt. Að við þurfum bara að bíða eftir að gamlir draugar og gamlar hugmyndir hverfi hægt og hljótt. En við höfum hvorki tíma né þolinmæði til að bíða lengur! Stelpur! Konur! — Höfum hátt!
Við viljum ekki meiri réttindi en karlar, heldur þau sömu. Við viljum framtíð án hindrana, framtíð án kynbundins launamunar, framtíð þar sem hugmyndir um „kvennastörf“ og „karlastörf“ heyra sögunni til, framtíð þar sem konur og karlar standa hlið við hlið án nokkurs mismunar og berjast fyrir sameiginlegum hagsmunamálum, bæði inni á heimilunum og í atvinnulífinu.
Jafnrétti er mál okkar allra!
Krefjumst jafnréttis núna!