Góðir gestir. Til hamingju með daginn.
Þegar þær fregnir bárust til landsins 19. júní 1915 að Kristján konungur X hefði undirritað lögin sem veittu konum kosningarétt og kjörgengi til Alþingis braust út mikill fögnuður. Að vísu var sá ljóður á lögunum að það voru eingungis konur sem orðnar voru 40 ára og eldri sem máttu kjósa. Það var krafist mun meiri þroska af konum en körlum til að mega kjósa til þings og til að bjóða sig fram. Kvenréttindakonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir sagði að Íslendingar yrðu að athlægi um allan heim vegna þessa ákvæðis. Samt var þetta stóráfangi í kvenréttindabaráttunni, sigur sem varð að fagna.
Árum saman höfðu íslenskar konur krafist kosningaréttar, stofnað félög, haldið fundi, safnað undirskriftum, gengið á fund þingmanna og gefið út blöð. Þær höfðu t.d. sótt baráttufundi á Þingvöllum til að leita stuðnings við réttindabaráttu sína. Síðast en ekki síst buðu þær fram sérlista kvenna til að sýna og sanna að þær ættu erindi inn á svið stjórnmálanna. Kvenréttindakonur töldu sig hafa annarri reynslu að miðla en karlar, þær hefðu aðra sýn á samfélagið, þær sæu ýmislegt það sem karlar sæu ekki eða vildu ekki sjá. Þar áttu þær við hið veika, fátæka og smáa, þá þegna þjóðfélagsins sem þurftu aðstoð og vernd. „Konurnar eiga að vera nýr kraftur í þjóðfélagsstarfseminni. Þær eiga að koma þangað með hreinni hvatir, sterkari siðgæðistilfinningu, meiri mannúð og næmari skilning á þjóðfélagsmeinunum en karlmennirnir, sem orðnir eru þeim svo vanir að þeir sjá þau ekki”, skrifaði Bríet Bjarnhéðinsdóttir árið 1911. Kvenréttindakonur vildu gefa þessum velferðarmálum rödd og verða viðurkenndar sem löglegir borgarar þjóðfélagsins svo ég vitni aftur í Bríeti.
Eftir að fréttin um kosningaréttinn barst til landsins var kallað til fundar, nú varð að fagna. Ákveðið var að halda hátíð þegar þing kæmi saman 7. júlí og jafnframt að stofna sjóð og hefja söfnun fjár fyrir landspítala. Konurnar vildu reisa kosningaréttinum minnisvarða. Það var einmitt í þeirra anda að beita kröftum sínum í þágu allrar þjóðarinnar ekki síst hinna sjúku. Eftir 1915 var efnt til hátíðarhalda 19. júni ár hvert til að safna fé í sjóðinn sem á endanum lagði stóran skerf til hins nýja spítala. Í lok þessa árs verða liðin 75 ár frá því að Landspítalinn tók til starfa.
Þegar við lítum yfir þau 90 ár sem liðin eru síðan kosningarétturinn fékkst, sjáum við að mikið vatn er til sjávar runnið. Kvennahreyfingin sem starfað hefur öll þessi ár, þótt stundum hafi borið lítið á henni, hefur náð árangri á mörgum sviðum. Staða okkar er gjörólík stöðu kvennanna sem fögnuðu kosningaréttinum 1915. Þeirra barátta skilaði okkur áleiðis og fyrir það bera okkur að þakka þeim. Miklar þjóðfélagsbreytingar upp úr miðri síðustu öld kölluðu konur til starfa í mun ríkara mæli en áður úti í þjóðfélaginu en þegar út kom ráku konur sig á misháa veggi kynjamisréttis. Eftir 1970 hófst ný bylgja kvennabaráttu sem enn stendur. Konur vöknuðu til vitundar um misréttið sem þær voru beittar og að þær stóðu nánast alfarið utan valdakerfisins. Þær tóku að beita sér fyrir aðgerðum, úrbótum og rannsóknum. Fjölskyldurnar breyttust og feður tóku að sinna börnum sínum í mun ríkara mæli en áður. Íslenskar konur hafa menntað sig í stórum stíl og atvinnuþátttaka þeirra er einhver hin mesta í heimi. Íslenskar konur eru mjög sýnilegar, en þó ekki alls staðar. Konum hefur fjölgað til muna á Alþingi og í sveitarstjórnum með þeim árangri að tekið hefur verið á mörgum brýnum hagsmunamálum kvenna og fjölskyldnanna t.d. dagvistun barna. Við höfum fengið jafnréttisákvæði inn i stjórnarskrána, jafnréttislög, lög sem tryggja rétt barna, fæðingarorlof o.fl. Nú síðast náðist sá árangur að umskurður á stúlkubörnum er afdráttarlaust bannaður með lögum sem gefur skýr skilaboð um að við ætlum ekki að líða slíkar aðgerðir hér á landi ef á reynir. Margir sigrar hafa unnist og marg sinnis hafa íslenskar konur komist í heimsfréttirnar fyrir aðgerðir sínar og samstöðu, allt frá kvennafrídeginum 1975 og kjöri Vigdísar Finnbogadóttur fyrir 25 árum til þess að kona var kjörin til embættis rektors Háskóla Íslands.
Staða kvenna er þó langt í frá viðunandi og reyndar höfum við séð bakslag á ýmsum sviðum. Launamisréttið er enn til staðar. Hlutur kvenna í valdastofnunum þjóðfélagsins er ekki nema um 30%, hlutur kvenna í fjölmiðlum er líka um 30%. Konur voru aðeins 24% viðmælenda í spjallþáttum fyrir síðustu alþingiskosningar, ofbeldi gegn konum og börnum er því miður afar dulið en ógnvænlegt og skortur er á afgerandi löggjöf til að taka á því. Ekkert bendir til að það sé minna hér en í öðrum löndum. Akademían er mjög karlstýrð og konur mjög fáséðar í æðstu stöðum, hvort sem það er í stjórnkerfinu eða atvinnulífinu. Karlveldið á Íslandi hefur gefið eftir um 30% af valdi sínu á nokkrum sviðum, annars staðar lítið sem ekkert.
Náms- og starfsval er afar kynbundið og vinnumarkaðurinn mjög kynskiptur, sem er eitt af sérkennum Norðurlanda. Konur eru enn mikill meirihluti þeirra sem vinna þjónustu- og láglaunastörf, nú síðast erlendar konur. Konum fjölgar ört í röðum öryrkja sem er mikið áhyggjuefni og verðugt rannsóknarefni. Klámvæðing í opinbera rýminu og myndir sem hlutgera konur, niðurlægja þær og sýna sem kynlífsleikföng dembast yfir okkur sem aldrei fyrr. Landlæknir kallaði nýlega á feminista landsins til baráttu gegn hópnauðgunum og þvingunum í kynlífi hjá ungu fólki. Margt bendir til þess að kvenfyrirlitning sé að aukast að nýju.
Hið ævaforna kynjakerfi sem byggist á aðgreiningu kynjanna, t.d. á vinnumarkaði og því að karlar eru viðmiðið, hið rétta, mallar áfram og heldur völdum í höndum karla. Að mínum dómi er alltof lítill vilji til aðgerða hér á landi og því er svarað til að þetta sé allt að koma og muni breytast af sjálfu sér vegna þess hve menntun kvenna sé að aukast.
Sagan sýnir okkur að svo er ekki. Það skiptast á skin og skúrir og það þarf hugarfarsbyltingu til þess að tryggja jafna stöðu kvenna og karla. Hvernig breytum við þessu kerfi, hvernig náum við til róta þess valds sem viðheldur kynjakerfinu?
Rannsóknir á Norðurlöndum sýna að þau tæki sem hafa skilað konum mestum og bestum árangri hingað til er samstaða, samvinna og markvissar aðgerðir. Árangur krefst rannsókna, þekkingar, skilnings, pólitísks vilja, aðgerða og baráttu. Kvennahreyfingar á Íslandi hafa langa reynslu af samvinnu og samstöðu líkt og við sjáum hér í dag. Við eigum að nýta hana til nýrra ávinninga, nýrra sigra.
Á norrænni ráðstefnu um kyn og ofbeldi sem ég sótti fyrir rúmri viku var mikið rætt um vaxandi andstöðu við baráttu kvenna í Svíþjóð ekki síst á sviði kynbundins ofbeldis. Kvennaathvörf og fræðikonur sem hafa rannsakað ofbeldi gegn konum og börnum hafa sætt harðvítugum árásum í fjölmiðlum. Sú spurning vaknar hvort þau gríðarlegu peningaöfl sem standa á bak við klámiðnaðinn, þar með talið vændi og mansal séu á bak við þessar árásir, en í Svíþjóð hefur náðst áþreifanlegur árangur í baráttu við vændi og klám. Það er reyndar tilfinning kvennahreyfinga um heim allan að andstaðan við mannréttindabaráttu kvenna sé að aukast.
Það kom glögglega í ljós á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í byrjun mars þar sem rætt var um stöðu kvenna í heiminum 10 árum eftir kvennaráðstefnuna í Peking árið 1995. Á þessum fundi var háð varnarbarátta. Það var verið að verjast breytingum til hins verra á samþykktum Sameinuðu þjóðanna í málefnum kvenna. Að þessu sinni voru það ekki Vatikanið og íslömsku ríkin sem þurfti að glíma við eins og 1995, heldur Bandaríkin sem hafa tekið að sér forystu íhaldsaflanna. Það er grafalvarlegt mál.
Þær niðurstöður sem lagðar voru fram í New York sýndu að það gengur löturhægt að bæta stöðu kvenna í heiminum og sumsstaðar hefur hún versnað, ekki síst á stríðshrjáðum svæðum. Við erum enn að glíma við aldagamlar hugmyndir um konur og meint eðli þeirra, samfélagskerfi þar sem konur eru til færri fiska metnar en karlar.
Hvað er til ráða? Í Svíþjóð er hópur feminista að undirbúa sérstakt kvennaframboð. Kannski er það sú nýja hreyfing sem á mestan þátt í þeim árásum sem kvennahreyfingar sæta þar í landi. Hún ógnar valdakerfinu. Það er afar athyglisvert að hugmyndin um kvennaframboð skuli komin á dagskrá í Svíþjóð, því ríki sem býr við mest og best jafnrétti kynjanna samkvæmt öllum þeim mælitækjum sem nú er beitt til að meta stöðu kynjanna.
Þessum hópi feminista í Svíþjóð sem nú stefnir á sérframboð finnst þær alls staðar komnar að veggjum hins ósýnilega valds, þess valds sem er svo erfitt að skilgreina en gegnsýrir menningu okkar. Nú þarf að grípa til nýrra ráða til að komast áfram. Sænsku feministarnir ætla að taka sér vald og frelsi til aðgerða. Það verður slegist um atkvæði kvenna í Svíþjóð.
En - hvað um okkur? Er komið að ögurstund í sögu kvennabaráttunnar á Íslandi? Eftir að Kvennalistinn leið undir lok, liðu nokkur ár óvissu og undiröldu en svo reis ný feministahreyfing upp – Feministafélag Íslands sem hefur hleypt nýju fjöri í umræðuna. Það er töluvert líf í íslenskum kvennahreyfingum. Loksins eru karlanir að mæta til leiks í kynjaumræðunni og farið er að rannsaka karlmennskuna. Við verðum nefnilega að skoða kyn og völd í samhengi og ræða saman. Það er líka athyglisvert hve mikil samstaða hefur skapast um þau mál sem taka þarf á eins og sjá má í þeirri kröfugerð sem kynnt verður hér á eftir.
Spurningin er eftir sem áður: Hvaða leið ætlum við að velja til að komast áfram? Leið samvinnu, samstöðu og markvissra aðgerða eða að þokast áfram með hraða snigilsins, bíða af því að „þetta er allt að koma“, jafnvel að láta ýta okkur til baka? Leiðin liggur annað hvort áfram og upp á við eða aftur á bak. Sýnum samstöðu og nýtum þennan Þingvallafund til að treysta vor heit og blása nýjum krafti í baráttuna fyrir þjóðfélagi jafnréttis og jöfnuðar, lýðræðisríki þar sem mannréttindi kvenna eru að fullu virt.
Takk fyrir.