Veggspjald og bréf

Bréf Árna Magnússonar, félagsmálaráðherra,
afhent á Þingvöllum 19. júní 2005

(Bréf þetta var sent forsvarsmönnum fyrirtækja og stofnana og forsvarsmönnum sveitarfélaga, dagsett 19. júní 2005 og undirritað af Árna Magnússyni, félagsmálaráðherra, og Margréti Maríu Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu).

Félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa vilja með bréfi þessu minna yður á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sem fjalla um launajafnrétti kynjanna. Í ákvæði 14. gr. laganna er kveðið á um rétt kvenna og karla til að njóta sömu launa og annarra kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf óháð kynferði. Þar á meðal er skilgreint hvað átt er við með jöfnum launum sem ætlað er að vera atvinnurekendum til leiðbeiningar. Ákvæðið er svohljóðandi:

Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með launum í lögum þessum er átt við almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, beina og óbeina, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti, sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun feli ekki í sér kynjamismunun. Með kjörum í lögum þessum er, auk launa, átt við lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár.

Enn fremur kveða lögin á um bann við mismunun í launum og öðrum starfskjörum á grundvelli kynferðis starfsfólks, sbr. 23. gr. laganna.

Kannanir sýna að kynbundinn launamunur er fyrir hendi á íslenskum vinnumarkaði. Viljum við því vekja athygli yðar á að þér hafið tækifæri sem þátttakandi í íslensku atvinnulífi til að taka virkan þátt í að koma í veg fyrir að vinnuframlag karla og kvenna séu metin á grundvelli ólíkra sjónarmiða. Í ljósi þess er liðsstyrkur yðar mikilvægur hlekkur í baráttunni gegn kynbundnum launamun en við teljum að það sé hagur allra, einstaklinga jafnt sem fyrirtækja og stofnana, að kynbundinn launamunur heyri sögunni til.

Þá ber að líta til fleiri ákvæða í lögunum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla sem sérstaklega varða þátttöku kvenna og karla á vinnumarkaði. Nefna má eftirfarandi:

  • Atvinnurekendur skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.
  • Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Ráðstafanir þær skulu m.a. miða að því að auka sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að tekið sé tillit til þarfa atvinnulífs og fjölskylduaðstæðna starfsmanna.
  • Starf sem laust er skal standa opið jafnt konum og körlum.
  • Atvinnurekendur skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað. Í 17. gr. laganna er að finna skilgreiningu á því hvað telst kynferðisleg áreitni.
  • Sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna og karla til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna eru ekki taldar ganga gegn lögunum.

Vakin er athygli á því að meðal hlutverka Jafnréttisstofu er að veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, einstaklingum og félögum ráðgjöf og fræðslu varðandi jafnrétti kynjanna. Jafnréttislögin og nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Jafnréttisstofu www.jafnretti.is og í síma 460 6200

Virðingarfyllst,

Árni Magnússon
félagsmálaráðherra

Margrét María Sigurðardóttir
framkvæmdastjóri