Hátíðarávarp frú Vigdísar Finnbogadóttur á Þingvöllum 19. júní 2005

19 juni 61

Góðir hátíðargestir, konur og karlar.

Gleðilega afmælishátíð á Þingvöllum í tilefni þess að í dag eru 90 ár liðin síðan íslenskar konur hlutu kosningarétt.

„Þori ég, vil ég, get ég, - já, ég þori, get og vil“ sungu íslenskar konur fyrir bráðum 30 árum, á heimsfrægum kvennafrídegi, þegar þær hittust í þúsundavís í öllum byggðum Íslands og tóku sér frí frá störfum á degi Sameinuðu þjóðanna 24. október 1975, sem var fyrsti dagur þess árs sem Sameinuðu þjóðirnar vildu tileinka konum og jafnrétti þeirra í samfélögum heimsins. Kvennaárið varð síðar framlengt í kvennaártug þar sem konum varð lítt ágengt á einu ári við að sanna gildi sitt í ólíkum samfélögum heimsins, -- en íslenskum konum tókst þennan dag að færa sönnur á að þær eru ekki síður en karlar máttarstólpar þjóðfélagsins. - Samfélagið varð óvirkt þegar þær gengu út í sólina á þessu októbersíðdegi fyrir þrjátíu árum til að hittast í borgar-, bæja- og sveitakjörnum, halda ræður um stöðu sína í þjóðfélaginu og stappa stálinu hver í aðra. Framleiðslan stöðvaðist vegna þess að konurnar voru undirstaðan í samfélaginu, á heimilum, í verksmiðjum og þjónustunni.

Og nú má spyrja af hverju þurftu konur fyrir 30 árum að grípa til aðgerða til að sanna sig. Var ekki nýbúið með glæsibrag að halda upp á ellefu hundrað ára afmæli Íslandsbyggðar og flytja Minni kvenna í bundnu máli og tveim árum áður haldið upp á 30 ára afmæli lýðveldis og syngja „Hver á sér fegra föðurland“ með frið og lýðræðishugsjónin í stafni, og það hafði alls ekki i gleymst að geta þess að skáldkonan Hulda hafði ort þetta fallega ljóð og hlotið fyrir verðlaun við stofnun lýðveldisins? Voru ekki 60 ár liðin síðan konur fengu kosningarétt og þjóðin hafði skundað til stöðugt bjartari framtíðar? Af hverju þurftu konur þessarar þjóðar, íslenskar konur, sem allar stundir hafa staðið fyrir því að bjarga aðkallandi velferðarmálum fyrir horn í þjóðarafkomunni, og ættu þó ekki nema væri fyrir það að sitja og standa jafnfætis körlum í landinu, af hverju þurftu þær að senda frá sér skilaboð sem á svipstundu urðu heimsfræg? Þau urðu svo kunn að karlar sem konur um víða veröld stöldruðu við á mannamótum og málþingum og sögðu hvert við annað: Hafiði heyrt það? Konur á Íslandi fóru bara í frí á vinnumarkaðinum til þess að sýna að þær væru ómissandi. Það er naumast að þær halda að þær séu! Það veit nú lengra nefi sínu, kvenfólkið þarna fyrir norðan, sögðu þá fróðir menn: hafiði ekki lesið Íslendingasögurnar? Þær eru sterkar konurnar á Íslandi. Þau eru þarna á þessari eyju úti í Atlantshafinu með bókmenntir á tungumáli sem er meir en 1100 ára gamalt og engar eru þær rolurnar konurnar í þeim.

Heimsfrétt.

Konur taka sér frí á Íslandi, var skrifað með leturgerð allra heimsins tungumála. Hvað var það sem þær vildu? Þær vildu og vilja enn jafna stöðu beggja kynja til reksturs þjóðfélagsins, við stjórnun og ákvarðanatöku í öllu sem lýtur að sameiginlegum hagsmunum samfélagsins frá degi til dags.

Síðan konur fyrir 30 árum létu hressilega í sér heyra, og fyrir þau smástökk sem áttu sér stað í framhaldi kvennafrídagsins er talið annars staðar í heiminum að konur á Íslandi búi við fullkomið jafnrétti og litið til þeirra (og þá auvitað um leið víðsýnna karla) sem sannra fyrirmynda í því sem ætti að vera eðlilegur rekstur samfélags. Þjóðskráin segir að konur séu svo til helmingur þjóðfélags okkar. Þær hafa alla tíð staðið þéttingsfast með körlum samfélagsins, en stundum, og ekki að ósekju, litið hornauga ráðríki þeirra. Þó er ég ekki viss um að velupplýstir karlar nútímans séu alltaf meðvitaðir um hvað frekir þeir eru til plássins og alveg áreiðanlega ráðgast þeir við konur sínar meir en þeir opinberlega vitna til góðra ráða þeirra. Það er viðtekin staðreynd í henni veröld, að eftir því sem völd kvenna aukast og jafnrétti milli kynjanna verður sjálfsagðara, því betur líður körlum. Þeir eru stoltir af öllu því sem konur gera. Þær eru flinkar og hugvitssamar og sáttfúsar, - og feður eru óendanlega hreyknir af dætrum sínum, sem gera það gott, eins og það er nefnt á nútímamáli. Konur eru nefnilega jafnmikið ágætisfólk og karlar og eru svo sannarlega jafningjar þeirra þegar mæld er greindarvísitala.

Þingvellir eru seiðmagnaður staður. Þetta er staðurinn í landinu sem við eigum öll saman, staðurinn sem hefur innsiglað sögu okkar, sögu um fólk sem aldrei gafst upp, gleymdi aldrei tungunni, fornsögunum, minningunum. Hér stendur vagga fjöreggs okkar, lýðveldisins, lýðræðisins.

Og nú er enn runnin upp söguleg stund á Þingvöllum. Íslenskar konur blása í fyrsta sinn til fundar hér. Það væri óskandi að formæður okkar ættu leið hér um og sæju þær sterku konur sem hér eru nú og sem enn leita réttar síns í nútíma samfélagi, þar sem velmegun gerist varla meiri í heiminum. Það er söguleg stund, að geta fagnað hér á Þingvöllum, að 90 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. 90 ár eru ekki langur tími í sögu þjóðar. En þó langur tími frá sjónarhóli einstaklingsins. Auðvitað hefur margt áunnist í sögu kvenna síðastliðin 90 ár, en okkur sem hér erum staddar handan nýliðinna aldamóta finnst þó minna hafa miðað en væntingar stóðu til, líkt og saga kvenna gangi hægar fram en saga karla. Á síðustu árum hefur enn verið talað um bakslag í segl kvennabaráttunnar, enda er það hreint með ólíkindum að framlag kvenna til þjóðfélagins sé ekki enn metið til jafns við karla. Já, hér á Þingvöllum gengu þær um formæður okkar, hnarreistar og stoltar og urðu að merku söguefni, Hallgerður, Þorgerður Egilsdóttir, Helga fagra, Guðrún Ósvífursdóttir og svo auðvitað Hið ljósa man. Þegar Jón Hreggviðsson var spurður í Kaupmannahöfn um þá dulúðugu konu uppi á Íslandi sagði hann:

„Hið ljósa man: Hún er mjó, eins og það tré, reyrstafur, sem er grennst og veikast af öllum trjám. Þesskonar stafur, sem ekki hefur brotnað, heldur réttist úr beygjunni þegar átakinu sleppir og er þá orðinn jafnbeinn og fyrr.“

Þannig má lýsa öllum íslenskum konum, enda Snæfríður Íslandssól samnefnari fyrir þær. Þær bogna ef til vill, en brotna ekki. Við kunnum að bogna um stund þegar við horfumst í augu við ágjafir og afturför á braut sem átti að vera framfarabraut, t.d. þegar konur höfðu notið kosningaréttar í 50 ár og voru enn aðeins örfáar á Alþingi Íslendinga. En alltaf voru þó til konur sem boðuðu nýja tíma og fundu gagnlegar aðferðir í þessari kaldhæðnu jafnréttisbaráttu. Áfangasigrar náðust m.a. fyrir tilstuðlan ungra kvenna eins og Rauðsokkanna og Úanna, og auðvitað hefur brautin verið beinni eftir kvennafrídaginn góða í október 1975.

Við þekkjum beina afleiðingu hans. Íslendingar gerðust svo djarfir að vera fyrstir til að að kjósa konu sem forseta og senda þau skilaboð út um víða veröld að það væri eðlilegt. Í framhaldi af því kom Kvennaframboðið og síðan Kvennalistinn, sem einnig voru skýr skilaboð um að þegar konur sitja ekki við sama borð og karlar megi bregðast við með þessum hætti.

Engum blöðum er um það að fletta að það er heillavænlegast fyrir samfélagið að viðhafa samráð kynjanna í öllum þýðingarmiklum ákvörðunum. Við viljum að samráð kynjanna verði regla í þessu lýðræðisríki, því aðeins þannig er lýðræði í heiðri haft. Við viljum afnema misvægi milli kynjanna þegar ákvarðanir sem snerta landslýð allan eru teknar. Ég er sannfærð um að þannig hefðu formæður okkar viljað hafa það, í hugsun og gjörðum. Engin ástæða er til að viðhalda ójafnvæginu því í raun eru karlar bestu vinir kvenna, og konur bestu vinir karla. Við þurfum að leysa úr læðingi þá vináttu sem karlar bera til kvenna.

En það vill brenna við að körlum finnist (og jafnvel stundum konum líka) að jafnréttismál séu kvennamál og að körlum komi þau ekki við. Til að breyta þessu viðhorfi þeirra þurfum við konur að taka karlana með á alla fundi þar sem jafnrétti kemur við sögu. Aðeins með vináttu vinnum við þá á okkar band, og gerum um leið jafnréttismál að máli þjóðarinnar allrar. Allt sem við viljum er að mannréttindi kvenna séu virt! Að veita völdum til kvenna er besta leiðin til að flýta æskilegri þróun í heiminum, draga úr fátækt og að ná markmiðinu um jafnrétti kynjanna.Okkur er öllum ljóst að jafnréttisbaráttan er spurning um aðferð. Nýleg stórmerk könnun, sem ung kona stóð fyrir, um afstöðu kvenna til sjálfra sín kemst að þeirri niðurstöðu að konur hafi vanmetakennd – (hver okkar kannast nú ekki við það á eigin skinni?) - að konur skorti sjálfstraust og þær séu ekki aldar upp við keppnisskap fótboltans. Getur þetta verið af því að fjölmiðlar hampa ekki eins konum og körlum? Mér finnast þetta ákaflega gamaldags viðhorf kvenna: konur eru allar jafn vel læsar og karlar, konur fylgjast jafn vel með nýungum og karlar. Það er fjöldi tápmikilla kvenna í landinu sem hafa löngu afsannað þetta – lítum til þeirra. Meginaðferðin til jafnréttis er sú að konur ættu ekki að ganga veginn einar og skilja karlana eftir, þær eiga eftir megni að að leggja stund á samráð. Vera ævinlega vakandi á verðinum en leggja áherslu á sameiginlegan kraft.

Þjóðfélagið þarf á því að halda að kynin taki allar þýðingarmiklar ákvarðanir saman, skilji aldrei annað eftir. Og nú er sjálf Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands næsta stóra verkefni okkar kvenna. Við endurskoðun hennar verða konur til jafns við karla að koma að verki. Vinátta og virðing kynjanna er það eina sem getur leitt til fullra mannréttinda. Lýðræði sem útilokar völd kvenna, er ekki fullþroska lýðræði. Konur þurfa að stíga markvisst fram í sviðsljósið og karlar verða að ganga til móts við þær.

Virðulega samkoma, góðu vinir, Hér skulu unnið heit:

Virkja skal karla til að huga að sinni eigin hamingju, sem felst í jafnræði kynjanna. Rödd kvenna skal vera metin til jafns við karla. Aðferðafræði kvenna til jafns við karla. Konur eru seinþreyttari til vandræða og konur vilja leysa málin með sátt og samlyndi. Með stærri hlutdeild kvenna í opinberum ákvarðanatökum þjóðfélagsins yrði þjóðfélagið friðsamlegra. Hér, á Þingvöllum, segja bókmenntir að hafi verið klukka sem talin var eina sameign Íslendinga. Framlag kvenna, ekki síður en karla, er dýrmæt sameign íslensku þjóðarinnar. Við skulum töfra fram samhljóminn í klukkunni góðu, klukku Íslands.

Karlar og konur, strengjum þess heit!

Og ég hylli ykkur karlar, sem hér eruð staddir.

Þið gerið ykkur ljóst hver er staða mála og hvað getur bætt hag þjóðar.