Ávarp Árna Magnússonar, félagsmálaráðherra, á Þingvöllum 19. júní 2005

19 juni 53

Ágætu hátíðargestir.

Það er mér ánægja að vera hérna með ykkur í dag á þessum merkisdegi er 90 ár eru liðin frá því konur fengu rétt til að kjósa í Alþingskosningum. Óska ég ykkur konum innilega til hamingju með daginn og þakka fyrir þetta skjal sem ég mun kynna í ríkisstjórn. Ráðuneytið vinnur nú á grundvelli fjögurra ára framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum þar sem tekið er á fjölmörgum atriðum og það gerir ríkisstjórnin öll.

Helstu áherslumál mín sem jafnréttisráðherra er að vinna að útrýmingu munar á launum karla og kvenna. Ég hef í dag 19. júní, ásamt forstöðumanni Jafnréttisstofu undirritað bréf til allra fyrirtækja og stofnana með yfir 25 starfsmenn og verður það ásamt veggspjaldi sent þessum aðilum, en þar er spurt: „Skiptir skeggrótin máli?“

Ágætu hátíðargestir. Aðgerða er þörf. Við eigum ekki að sætta okkur við að lögum eða framkvæmdaáætlunum á sviði jafnréttismála sé ekki fylgt. Ég hef sett mér markmið sem ráðherra jafnréttismála. Ég vil skoða hvers vegna jafnréttislög hafa ekki nægileg áhrif, hvort heldur hjá ríki eða einkamarkaði og bæta þar úr. Veggspjaldið á að minna okkur á - vera táknrænt og því verður fylgt eftir.

Mig langar að nota þetta tækifæri og afhenda afmælishópnum fyrsta eintakið af bréfinu ásamt veggspjaldinu sem því fylgir.

Takk fyrir og enn og aftur til hamingju með daginn.