Erindi þetta flutti Sigríður Th. Erlendsdóttir sagnfræðingur á málþingi um Bríeti þann 29. september 2006 sem Kvennasögusafn Íslands og Rannsóknastofa í kvennafræðum stóðu fyrir til að minnast þess að 150 ár voru liðin frá fæðingu Bríetar.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir kvaddi sér hljóðs fyrst íslenskra kvenna á opinberum vettvangi og átti stærstan þátt í að hrinda af stað fyrstu bylgju kvenréttindabaráttunnar hér á landi fyrir lágmarksréttindum, svo sem kosningarétti, kjörgengi og rétti til menntunar og atvinnu. Hún átti frumkvæði að stofnun Kvenréttindafélags Íslands, var formaður félagsins í tvo áratugi og átti mestan þátt í að íslenskar konur urðu hluti af alþjóðlegri kvenréttindabaráttu. Þau tengsl bárust til Íslands með Bríeti og hafa verið ómetanleg í samfelldri sögu kvenréttindabaráttunnar hér á landi.
Bríet fæddist 27. september 1856 að Haukagili í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu, dóttir Kolfinnu Snæbjörnsdóttur og Sæmundar Bjarnhéðinssonar. Nokkrum árum síðar fluttist hún ásamt fjölskyldu sinni að Böðvarshólum í Vesturhópi og ólst þar upp elst fjögurra systkina sem upp komust. Hún mótaðist til þess sem síðar varð og var gædd óvanalegum hæfileikum til forystu, kjarki og viljaþreki.1)
Þegar Bríet var á fermingaraldri missti móðir hennar heilsuna og lá rúmföst árum saman. Eins og nærri má geta féll það í hlut stóru systur að veita heimilinu forstöðu, en það ævimynstur blasti við kynslóð fram af kynslóð. Vafalaust hefur ábyrgðin, sem því fylgdi valdið því hve ung Bríet gerði sér grein fyrir mismunandi uppeldi drengja og stúlkna.
Henni var þegar á æskuárum ljóst misrétti kynjanna og hve greiðari menntavegurinn var drengjum en stúlkum sem voru allir vegir lokaðir í þeim efnum. Á uppvaxtarárum Bríetar áttu stúlkur sjaldan kost á öðru en lestrarnámi þótt þær hafi átt fullt erindi í nám. Strax í æsku reyndi Bríet því misrétti sem þótti sjálfsagt. Valið stóð á milli bræðra á þessum tíma, stúlkur komu því ekki til álita til að ganga menntaveginn.
Sextán ára gömul laumaðist hún til að skrifa í baðstofunni á Böðvarshólum hugleiðingar sínar um mismuninn á möguleikum og kjörum drengja og stúlkna. Þetta varð stofninn að blaðagreininni í Fjallkonunni sumarið 1885. Ekkert bendir til annars en að hún sé fyrsta kona íslensk sem tekur á þessum málum að ráði.
Bríet missti föður sinn rúmlega tvítug og móður sína nokkrum árum síðar. Ári eftir lát föður síns réð Bríet sig í vist til móðurfrænda síns séra Arnljóts Ólafssonar á Bægisá og konu hans Hólmfríðar Þorsteinsdóttur og var þar í tvö ár. Þar komst hún í gott bókasafn og reyndi að notfæra sér það í stopulum frístundum. Við það hefur þrá hennar eftir menntun aukist. Þaðan fór hún á Kvennaskólann á Laugalandi 1877 og var þar í eitt ár, lengri var skólaganga hennar ekki. Hún reyndi alla ævi að auka við menntun sína og tókst að ná góðum árangri í Norðurlandamálum og nokkrum í enskri tungu sem reyndist henni býsna vel. Hana dreymdi um menntun en sá þann draum ekki rætast. Sonardóttir hennar segir að hún hafi aldrei beðið þess bætur.2)
Eftir kvennaskólaárið sótti mismunurinn á kjörum karla og kvenna á hana og skólasystur hennar hvöttu hana til að birta grein um áhugamál sín. Hún byrjaði að skrifa en greinin birtist ekki fyrr en hún var sjálf komin suður. Þangað hélt hún í fyrsta sinn haustið 1884 og var þar um veturinn. Sæmundur bróðir hennar var þá kominn í Lærða skólann en hún stundaði enskunám tilsagnarlítið og hvatti bróður sinn áfram við námið.
Fljótlega eftir komuna til Reykjavíkur kynntist hún Valdimar Ásmundssyni sem þá hafði nýlega stofnað Fjallkonuna. Blaðið opnaði glugga með skrifum sínum um stjórnmál, umbætur í atvinnumálum og kvenréttindi og brátt dró til tíðinda. Í janúar 1885 birtist þar grein eftir ritstjórann undir nafninu „Kvenfrelsi“.3) Í fyrsta sinn sá Bríet skrifað um kvenréttindi í íslensku blaði. Greinin er skrifuð af óvanalegu frjálslyndi, fjallað um kjör og menntun kvenna og réttleysi þeirra fordæmt. Valdimar rakti kvenréttindabaráttuna erlendis og reifaði hugmyndir sínar um alþýðlega skóla fyrir pilta og stúlkur. Nærri má geta að slíkur boðskapur hafi átt hljómgrunn hjá Bríeti.
Hún skrifaði ritstjóranum og bað hann að dæma greinina, „þótt hún sje eptir konu“, eins og hún sagði.4) Greinin birtist um vorið undir nafninu „Nokkur orð um menntun og réttindi kvenna“ undir dulnefninu Æsa.5) Þar fór hún að dæmi margra samtíðarkvenna sinna víða um heim sem oft birtu fyrstu ritsmíðar sínar undir dulnefni. Hún hvatti konur til að berjast við ófrelsi og hleypidóma, sem hingað til hefðu staðið í vegi fyrir öllum framförum þeirra. Þessi grein var vísirinn að þeirri baráttu sem síðar var háð og vakti svo mikla storma.6) Undirtektir voru hins vegar ekki hvetjandi og sumir töldu að hún væri ekki með fullu viti.7)
Talsmaður kvenna kom fram tveimur mánuðum síðar þegar jafnaldri Bríetar, Páll Briem, þá nýútskrifaður lögfræðingur, hélt fyrirlestur í Reykjavík „Um frelsi og menntun kvenna“ 8) þar sem hann rakti sögu kvenréttinda á Vesturlöndum og sagði að konum bæru full pólitísk réttindi, líklega fyrstur Íslendinga. Og einmitt þetta sama sumar komu fram á Alþingi þeir Skúli Thoroddsen og Ólafur Ólafsson sem gerðust skeleggir stuðningsmenn réttinda kvenna.
Vorið 1885 hélt Bríet norður í Suður-Þingeyjarsýslu og dvaldist þar næstu tvö ár við barna- og unglingakennslu og fleiri störf. Hún varð heimiliskennari hjá verslunarstjóra á Húsavík og kenndi sömu námsgreinar og karlkennari og handavinnu að auki en launin voru helmingi lægri en þau sem körlum var boðið. Að auki þurfti hún að sinna heimilisstörfum og saumum. En það var vor í lofti og Bríet kynntist mörgum sem voru í fararbroddi í sveitinni og varð ævivinur margra þeirra. Þarna var mikið rætt um kvenfrelsismál, fáeinar konur voru farnar að huga að stöðu sinni enda þótt ekki bæri á almennum áhuga þeirra enn um sinn.
Haustið 1887 urðu umskipti í lífi Bríetar og hún hélt alfarin suður og stundaði barnakennslu fyrst um sinn. Nú kom kvenréttindakonan Bríet fram í dagsljósið í fyrsta sinn ef frá er talin blaðagreinin í Fjallkonunni. Í desemberlok 1887 réðst hún í að halda opinberan fyrirlestur fyrir fullu húsi, fyrst kvenna. Engin skipulögð hreyfing var að baki, hún tókst á við baráttuna ein á báti. Þjóðskáldin gáfu henni ráð og lásu fyrirlesturinn yfir, skáldið á Bessastöðum, Grímur Thomsen, átti hugmyndina að því að hún birti bæjarbúum hugleiðingar sínar um stöðu kvenna og Hannes Hafstein las fyrirlesturinn yfir sama dag og hún flutti hann. Og breytti engu. Nú hefur hún kynnt sér bók John Stuart Mill um Kúgun kvenna sem kom út í Englandi 1869 og Georg Brandes þýddi sama ár á dönsku því að hún vitnar í þá báða í fyrirlestrinum. Hún fjallaði um það sem hún þekkti best, uppeldi, menntunarleysi og launakjör vinnukvenna og sagði að hugsunarhátturinn þyrfti að breytast. Áhrif Noru í Brúðuheimili Ibsens eru greinileg en hún kom út átta árum áður.9)
Viðtökur við fyrirlestrinum voru góðar og Matthías Jochumsson hrósaði honum í langri grein í Fjallkonunni skömmu síðar. Þáttur skáldanna í kvennabaráttu hér á landi er stórmerkur og þau ortu baráttuljóð og sýndu samstöðu með konum á öllum tímamótum í baráttunni í tíð Bríetar.
Bríet og Valdimar giftust haustið 1888 og hefur hjónaband þeirra verið kallað „fyrsta intellektúella hjónabandið“. Þau eignuðust tvö börn, Laufeyju, f. 1890 og Héðin, f. 1892. Í hjónabandinu með kvenfrelsismanninum Valdimar umgekkst hún náið frjálslynda og víðsýna menn, hafði aðgang að bókum og blöðum og gat borið allt undir hann og „skýrðist þá allt betur“, eins og hún komst að orði.10)
Ungu hjónin leigðu fyrstu árin í Veltusundi en keyptu húsið að Þingholtsstræti 18 vorið 1891. Það var tvílyft timburhús, á neðri hæð voru fjögur herbergi og eldhús og uppi fjögur herbergi og eldhús og tvö herbergi í risi og kjallari. Þau komu sér fyrir á efri hæðinni en eitt herbergi niðri var notað sem skrifstofa Valdimars. Þau höfðu vinnukonu og allar vistarverur í húsinu fylltust af leigjendum, þau leigðu út hvern krók og kima.11) Þetta hús varð starfsvettvangur Bríetar og þar átti hún heima alla ævi. Þaðan stjórnaði hún kvenréttindamálinu, ritstýrði blaði sínu Kvennablaðinu frá 1895 til ársloka 1919. Í húsinu var líka skrifstofa og afgreiðsla Fjallkonunnar og reyndar Barnablaðsins um nokkurra ára skeið. Vinnan við rekstur blaðanna var mikil, efnisöflun, innheimta og auglýsingar og hjónin stóðu í bréfaskriftum við ótrúlega stóran hluta landsmanna. Sjálf skrifuðu þau mest allt lesmálið. Að auki önnuðust þau umfangsmikla fyrirgreiðslu fyrir kaupendurna. Bríet var því ekki með neinum rétti venjuleg húsmóðir í höfuðstaðnum um aldamót og öll störf hjónanna hafa skapað þeim sérstöðu í bænum. Aðeins örfáar konur stunduðu sjálfstæðan atvinnurekstur fyrir aldamót.
Ofan á allt þetta var gestkvæmt á heimilinu. Fjöldinn allur heimsótti þau, menntaðir menn sem ræddu stjórnmál, bókmenntir og listir, þingmenn komu við hjá þeim þegar þeir voru í bænum og Valdimar hvatti alla sveitamenn sem leið áttu í bæinn að líta inn til sín, hann væri vanalega heima að hitta. Allt fór fram inni á heimilinu, matargerð, og matseld, þvottar, þjónustubrögð og fatagerð. Hefðbundin verkaskipting ríkti á heimilinu. Þrátt fyrir frjálslyndi Valdimars taldi hann að uppeldi og kennsla barna féllu undir verksvið kvenna. Bríet var sama sinnis eftir greinum um heimili í Kvennablaðinu á þessum árum að dæma. Lífsskoðun Bríetar var merkileg blanda af hefð og róttækni.12)
Þótt húsfreyjan hafi verið störfum hlaðin flutti hún opinberan fyrirlestur „Sveitalífið og Reykjavíkurlífið“ snemma árs 1894 og lýsir þar samtímanum á gagnrýninn hátt.13) Sama ár var hún einn af stofnendum Hins íslenska kvenfélags sem hafði fyrst félaga kosningarétt og kjörgengi kvenna á stefnuskrá. Þá voru þau Valdimar virkir félagar í Blaðamannafélagi Íslands sem stofnað var um áramótin 1897/8 og buðu oft félagsmönnum heim til sín í kaffi eftir fundi.14)
Fyrsta blað Kvennablaðsins kom út í febrúar 1895. Mánuði áður kom út blaðið Framsókn á Seyðisfirði í ritstjórn mæðgnanna Sigríðar Þorsteinsdóttur og Ingibjargar Skaftadóttur, það var gefið út í nokkur ár. Bríet ritstýrði Kvennablaðinu í aldarfjórðung, til ársloka 1919, en það varð aðalvopnið í höndum hennar við að vekja íslenskar konur til vitundar um réttleysi sitt og hvetja þær til dáða. Blaðið varð vettvang
ur eldheitrar umræðu um réttindamál kvenna og skeleggur málflutningur þess hafði áhrif og flutti með sér nýjan hugsunarhátt og nýja strauma. Bríet skrifaði mest allt í blaðið sem varð strax á fyrsta ári útbreiddasta blað landsins.
Bríet vissi að á brattann var að sækja og vakti því fyrst áhuga kvenna á margvíslegum hagsmunamálum sínum, barnauppeldi, matargerð, handavinnu, garðrækt og heilsugæslu og kom kvenréttindum smám saman að.
Sviplegt fráfall Valdimars vorið 1902, tæplega fimmtugs að aldri, hafði víðtæk áhrif fyrir fjölskylduna. Þau höfðu verið í hjónabandi á fjórtánda ár. Stóð Bríet þá uppi ekkja með tvö börn tíu og tólf ára. Hún var 45 ára og starfið sem hún varð þekktust fyrir enn ekki hafið.
Þáttaskil urðu í lífi Bríetar sumarið 1904 þegar hún lagði land undir fót og hélt í sex mánaða ferð til Norðurlanda. Henni opnaðist nýr heimur við fyrstu kynni af stórborgum og ferðin hafði gríðarleg áhrif á hana. Mest er um vert að þarna kynntist hún skipulagðri kvenréttindabaráttu sem vöktu upp hugsjónir um að stofna baráttusamtök hér heima. Henni var tekið tveimur höndum og mætti vináttu hjá „ókunnugu útlendu fólki“ og kynntist þeim konum sem fremstar stóðu í kvennabaráttunni á Norðurlöndum sem hún hélt sambandi við upp frá því. Það gerðist svo í beinu framhaldi af ferðinni að Carrie Chapman Catt bauð henni að sækja fyrsta alþjóðaþing kvenréttindafélaga í Kaupmannahöfn í júlí 1906. Hún fór utan peningalítil og umboðslaus og kom til baka gallhörð súffragetta og brann í skinninu eftir að efna til samtaka til að berjast fyrir kosningarétti íslenskra kvenna. Þau tengsl sem komust á milli Bríetar og erlendra kvenna, sem ruddu brautina, skiptu miklu máli fyrir þróun kvenréttindabaráttunnar hér á landi á fyrstu áratugum 20. aldar og gera enn. Hún fékk fulltrúaréttindi, málfrelsi og atkvæðisrétt, en aðeins einu sinni áður hafði Ísland hlotið viðurkennda sjálfstæða aðild að alþjóðasamtökum. Það var Hvítabandið 1896.
Stofnun Kvenréttindafélags Íslands er beint framhald af ferð Bríetar sumarið 1906. Stofnendur voru 15 konur, giftar og ógiftar, og komu úr umhverfi þar sem pólitískur áhugi var ríkjandi og fimm dagblöð sem gefin voru út í Reykjavík um þær mundir tengdust þeim. Það er skemmst frá því að segja að fyrstu tveir áratugirnir í sögu félagsins voru blómaskeið í íslenskri kvennabaráttu og sett voru lög sem hlotið hafa sérstakan sess í sögu íslenskra kvenna sem mikilvæg spor á leið til jafnréttis. Ber þar hæst jafnrétti í menntunarmálum 1911 og kosningarétt og kjörgengi til Alþingis 1915. Með stofnun félagsins hófst skipulögð kvenréttindahreyfing hér á landi með Bríeti í broddi fylkingar.
Bríet var í forystu um kvennaframboð við bæjarstjórnakosningarnar í Reykjavík 1908-1916 og sat í bæjarstjórn í áratug og beitti sér fyrir fjölbreyttum málaflokkum. Hvergi náðu kvennaframboð jafn miklum árangri og hér á landi.15)
Kvenréttindafélag Íslands beitti sér fyrir stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar í Reykjavík haustið 1914. Munu þess fá dæmi, ef nokkur, að kvenréttindafélag gangist fyrir stofnun verkakvennafélags því að almennt unnu kvenréttindakonur og verkakonur ekki saman að framgangi hagsmunamála sinna. Hér varð raunin önnur. Hér varð samstarf þvert á allar félagslegar og pólitískar línur sem markaði sérstöðu íslenskrar kvennahreyfingar og gerir enn.
Tvívegis bauð Bríet sig fram til þings. Í fyrra skipið við fyrsta landskjörið á ágúst 1916 og síðara tíu árum síðar, 1926. Í hvorugt skiptið hlaut hún brautargengi.
Síðasti áratugurinn sem Bríet lifði var býsna afdrifaríkur og ólík sjónarmið tókust á sem illa gekk að sætta. Annars vegar var húsmæðrahugmyndafræði sem var áberandi alls staðar á Vesturlöndum á millistríðsárunum og blómatími húsmæðraskólanna gekk í garð. Hins vegar var jafnréttishugmyndafræði sem allar hugsjónir Bríetar byggðust á. Í ljós kom að vonlaust var að vinna að húsmæðrafræðslu og réttindamálum kvenna á einum og sama vettvangi. Málalok urðu þau að Kvenfélagasamband Íslands var stofnað 1930 og sama ár var framtíð KRFÍ ráðin, félagið hélt velli. Upp frá því hefur félagið haldið vöku sinni. Lífsseig viðhorf breyttust seint og flestum fannst vafasamt að giftar konur ættu yfirleitt að hafa rétt til launavinnu.
Sjálf tók Bríet fullan þátt í starfinu. Hún vílaði ekki fyrir sér að fara hringferð um landið til að vinna að aukinni samvinnu kvenfélaga 1932 og hélt 12 opinbera fundi víðs vegar um landið. Eftir stofnun Ríkisútvarpsins 1930 hélt hún erindi í útvarpið að minnsta kosti fimm sinnum, síðast 19. júní 1938. Bríet andaðist 16. mars 1940, 84 ára gömul. Enginn einn Íslendingur átti meiri þátt í því að íslenskar konur fengu lagalegt jafnrétti á við karla. Hún ruddi brautina, mótaði stefnuna og stjórnaði sjálf baráttunni.
Sigríður Th. Erlendsdóttir, sagnfræðingur
Heimildir:
1) Sigríður Th. Erlendsdóttir, Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992. Rv. 1993. Heimildir mínar um ævi og störf Bríetar Bjarnhéðinsdóttur eru að mestu í þeirri bók. Sjá einnig Matthías Viðar Sæmundsson: Héðinn, Bríet, Valdimar og Laufey. Rv. 2004, 79-80.
2) Bríet Héðinsdóttir: Strá í hreiðrið. Bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Rv. 1988, 25.
3) Fjallkonan , 7. og 21. janúar 1885.
4) Matthías Viðar Sæmundsson: Ofangreint rit, 76.
5) Fjallkonan , 5. og 22. júní 1885.
6) Viðtal VSV við Bríeti í Alþýðublaðinu 26. september 1937.
7) Bríet Héðinsdóttir: Ofangreint rit, 43.
8) Páll Briem: Um frelsi og menntun kvenna. Sögulegur fyrirlestur. Rv. 1885.
9) Bríet Bjarnhéðinsdóttir: Fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna. Rv. 1888.
10) Sigríður Th. Erlendsdóttir: Ofangreint rit, 46.
11) Matthías Viðar Sæmundsson: Ofangreint rit, 244-145.
12) Sama rit, 172.
13) Bríet Bjarnhéðinsdóttir: Sveitalífið og Reykjavíkurlífið. Rv. 1894.
14) Vilhjálmur Þ. Gíslason: Blöð og blaðamenn, 188-190.
15) Auður Styrkársdóttir: Barátta um vald. Konur í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908-1922.
Aðalbjörg Sigurðardóttir (1947). „Bríet Bjarnhéðinsdóttir og lífsstarf hennar.“ Í Ingibjörg Benediktsdóttir o.fl. (ritstj.). Kvenréttindafélagið 40 ára: 1907-1947. s. 43-48.
Björg Einarsdóttir (1986). 'Stórveldi í sögu íslenskra kvenna'. Úr ævi og starfi íslenskra kvenna. Reykjavík: Bókrún hf. II. bindi, s. 224-249.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1967). 'Sjálfsævisaga'. Merkir Íslendingar: nýr flokkur. Jón Guðnason bjó til prentunar. Reykjavík: Bókfellsútgáfan. 6. bindi, s. 115-129.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1979). 'Úr sjálfsævisögu'. Mánasilfur. Safn endurminninga. Gils Guðmundsson valdi og sá um útgáfu. Reykjavík: Iðunn. 1. bindi, s. 65-71.
Bríet Héðinsdóttir (1988). Strá í hreiðrið. Bók um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur byggð á bréfum hennar. Reykjavík: Svart á hvítu.
Sigríður Th. Erlendsdóttir (1993). Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992. Reykjavík: Kvenréttindafélag Íslands, einkum bls. 30-52.
Vilhjálmur S. Vilhjálmsson (1964). 'Konan sem lagði fyrst á brattann' (viðtal við Bríeti Bjarnhéðinsdóttur). Grær undan haollri hendi: Tuttugu og átta viðtöl og frásagnir. Reykjavík: Setberg, s. 25-30.
Vilhjálmur Þ. Gíslason (1972). Blöð og blaðamenn 1773-1944. Reykjavík: Almenna bókafélagið, s. 185.
Æviminningabók Menningar- og minningarsjóðs kvenna. I. Reykjavík, 1955, s. 9-16.
Sérvefur um alþjóðaþing kvenna og aþjóðabaráttu fyrir kosningarétti kvenna.
Á ensku: grein eftir Laufeyju Vilhjálmsdóttur í Jus Suffragii, blaði Alþjóðsambands kosningaréttarfélaga árið 1929.
Grein í danska Kvindestemmeretsbladet, nr. 9, 1909, eftir Bríeti sjálfa.
Grein um Bríeti í sænska blaðinu Dagny, nr. 45, 1909.
*Fyrst birt árið 2007. Síðast uppfært 9. júní 2020.