Laufey Valdimarsdóttir (1890-1945) var dóttir Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og tók við formennsku í Kvenréttindafélagi Íslands af henni árið 1927 og gegndi formennskunni til dauðadags. Hún átti frumkvæðið að stofnun nokkurra félaga kvenna, þar á meðal Mæðrastyrksnefndar.
„I
Laufey Valdimarsdóttir fæddist í Reykjavík 1. marz 1890. Foreldrar hennar voru bæði þjóðkunn. Faðir hennar, Valdimar Ásmundsson, var ritstjóri Fjallkonunnar, eins víðlesnasta blaðs þeirra tíma. Hann var frjálslyndur hugsjónamaður, hlédrægur að eðlisfari, en hélt þó djarflega fram skoðunum sínum. Gáfur hans voru fjölhæfar, og hann lagði á margt gjörva hönd. Hann var vel skáldmæltur, þótt hann héldi því lítið á lofti, og Fjallkonan var í hans höndum óvenjulega skemmtilegt og vel skrifað blað. Hann var líka fróðleiksmaður, eignaðist smám saman merkilegt safn íslenzkra bóka og vann með Ritreglum sínum og útgáfu Íslendinga sagna fyrir Sigurð Kristjánsson mikið starf í þágu íslenzkrar alþýðumenntunar.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir, sem síðar varð kona hans, kynntist Valdimar um 1885, og greiddu sameiginleg áhugamál fyrir þeim kynnum. Bríet var þá nýkomin til Reykjavíkur, brennandi af menntaþrá og löngun til að fá tækifæri til þess að vinna að málefnum kvenna, þó henni hafi þá sjálfri ekki verið fyllilega ljóst, á hvern hátt það mætti verða.
Valdimar ritaði snjalla grein í 1. og 2. tbl. Fjallkonunnar 1885, er hann nefndi „Kvenfrelsi“. Greinin var að efni til alger nýjung fyrir íslenzka lesendur og bar vitni um óvenjulegt hleypidómaleysi og réttlætistilfinningu höfundarins. Og einmitt í því blaði kemur svo missiri seinna út fyrsta grein Bríetar um þetta málefni: „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“, og er ritað til skýringar með greininni: „Eftir unga stúlku í Reykjavík“. Var þetta fyrsta blaðagrein, sem prentuð hefur verið á Íslandi eftir konu.
Tveim árum seinna steig Bríet það djarflega spor að halda opinbert erindi í Reykjavík, er hún nefndi: „Fyrirlestur um hagi og réttindi kvenna“. Það er erfitt fyrir nútímafólk að gera sér grein fyrir því, hvaða kjark og þrek þurfti til þess að brjóta svona á móti almennum venjum, í smábæ eins og Reykjavík var þá, þar sem þröngsýni og fastheldni við gamlar venjur ríkti, enda vakti þess að vonum mikla athygli. Húsfyllir var og mjög góður rómur gerður að máli Bríetar. Fyrirlesturinn var röksamlegur og snjall og fluttur af fullri einurð. Hann var síðar prentaður.
Næsta ár giftust þau Bríet og Valdimar.
Þessi fyrstu kynni lýsa þeim báðum talsvert og eru í samræmi við það, sem frú Bríet segir svo snilldarlega frá í Minningum sínum. Þar lýsir hún því, hvernig hún í sambúðinni við mann sinn hafi fengið meira sjálfstraust, vaxið að dómgreind og orðið víðsýnni, „eins og menn verða af að umgangast náið frjálslynda og víðsýna gáfumenn“. Einnig segir hún frá því, að það hafi verið maðurinn sinn, sem fyrst hafi stungið upp á því við hana að gefa út kvennablað, þegar þau voru nýgift, en þá hafi hún ekki treyst sér til þes. En 6 árum seinna stakk hún upp á því sjálf og framkvæmdi það og gaf Kvennablaðið síðan út í 25 ár (1895-1919).
Í þessari frásögn hefur hún reist manni sínum fagran minnisvarða, sem er þeim báðum til sóma.
Þau hjón voru aldrei rík af þessa heims gæðum, en sameiginleg áhugamál hafa gert samlíf þeirra auðugra og sett svip á heimilislífið. Margir helztu gáfumenn bæjarins komu þar, og rætt var um bókmenntir og þjóðfélagsmál. Þau reyndu að fylgjast sem bezt með öllu því, er markvert gerðist, bæði heima og erlendis, og ræddu um það sín á milli.
Valdimar Ásmundsson dó á bezta aldri, árið 1902, en frú Bríet komst á níræðisaldur, og má segja, að hún sé kunn hverju mannsbarni á landinu fyrir baráttu sína í kvenréttindamálum.
Frú Bríet var stórbrotin kona, skýr og rökföst í hugsun, ágætlega ritfær og máli farin, óvenju þrekmikil og lét sér ekki allt fyrir brjósti renna. Veitti henni ekki af dugnaði sínum, því bæði varð hún ung ekkja með tvö börn og barðist ótrauð fyrir málum kvenna í tugi ára, en það var langt frá því að vera vinsælt verk og mætti oft litlum skilningi bæði hjá konum og körlum.
Í þessu umhverfi ólst Laufey upp. Hún var fíngert barn, mjög vel gefin, viðkvæm í lund, jafnvel meyr, en þó skapmikil. Hún var aðeins 12 ára gömul, þegar faðir hennar dó, og saknaði hún hans mjög mikið.
II.
Ekkert hafði frú Bríet þráð meir í æsku en að fá tækifæri til þess að menntast sem bezt, og nú vildi hún reyna að veita börnum sínum það, sem hún hafði þá sjálf orðið að fara á mis við.
Þegar Laufey hafði aldur til, gekk hún inn í Menntaskólann, vorið 1904, með þeim fasta ásetningi að verða stúdent. Voru þá stúlkur nýbúnar að fá réttindi til þess að sækja þann skóla. Varð Laufey fyrsta stúlkan, sem gekk undir inntökupróf þar, og vakti sá atburður að vonum mikla athygli, ekki sízt meðal pilta í skólanum. Flykktust þeir til að hlusta á hana og fylgdu henni bekk úr bekk í fylkingu, svo til vandræða horfði. Það bætti ekki heldur úr skák, að mjög róstusamt var í skólanum þetta vor, og allur skólinn endurómaði af söng og hávaða. En Laufey lét það ekki á sig fá og stóðst prófið með prýði.
En það reyndi fyrst á, þegar í skólann var komið. Eldri piltar tóku þessari nýbreytni ágætlega og höfðu gaman af að ræða við Laufeyju, en jafnaldrar hennar, sem voru á erfiðasta aldri, gátu ekki látið það alveg afskiptalaust að hafa orðið fyrstir til að fá „stelpu“ inn í sitt hefðbundna ríki. Og þó að mörgu leyti færi vel á með bekkjarsystkinunum, gátu þeir ekki stillt sig um að leita eftir snöggu blettunum á Laufeyju. Þegar þeir fundu, að hún var örgeðja og átti erfitt með að þola stríðni, þá gengu þeir stundum á það lagið. Þó Laufeyju sárnaði oft í bili, tók hún þessu með skynsemi og sanngirni og hélt ótrauð áfram á sinni braut. Í dagbók, sem hún skrifar á þessum tíma, er gaman að sjá, hvernig hún bregzt við þessu. Henni sárnar alltaf mest við sjálfa sig að vera ekki nógu hörð, en segir, að þetta sé „nokkuð að kenna uppeldi og óvana pilta að sjá kvenfólk við karlmannsverk“. Þar kemur strax fram sá eiginleiki Laufeyjar að hafa opin augu fyrir sínum eigin veikleikum, en vera mild í dómum sínum um aðra.
Laufey mætti misjafnari meðferð hjá piltum en þær stúlkur, er seinna komu, henni var bæði hampað meir og líka strítt meir.
Það er aldrei létt verk að vera brautryðjandi, en það var Laufey sannarlega, þegar hún fór í Menntaskólann. Hlutverk hennar þarna var erfiðara en margur mundi halda, sjálf var hún á viðkvæmum aldri, og fáir eru hugsunarlausari og miskunnarlausari en hópur drengja 13-15 ára. Laufey tók á móti fyrstu ólgunni, sem þessi nýbreytni vakti, svo þær stúlkur, sem seinna komu, voru í lygnum sjó.
Fyrir hana var fyrsta árið langerfiðast, en batnaði með ári hverju, og varð Laufey mjög vinsæl í skóla. Hún vildi vera góður vinur og félagi skólabræðra sinna og taka fullan þátt í skólalífinu. Hún var framúrskarandi drenglynd og stóð með skólabræðrum sínum í blíðu og stríðu.
Það er mikill skaði að því, að Laufey lifði ekki til að skrifa endurminningar sínar úr skóla á 100 ára afmæli Menntaskólans, það hefði áreiðanlega orðið skemmtilegt plagg.
Ofurlítið sýnishorn af því, hvað það hefði getað orðið, sýnir greinin „Endurminningar úr Menntaskóla.“ En glögga og fallega mynd af því, hvernig bekkjarbræður Laufeyjar hafa hugsað til hennar, má fá í greininni Fyrsta stúlkan eftir Þorstein Þorsteinsson, sýslumann, í Minningum úr Menntaskóla.
Það hefur legið í landi í Menntaskólanum, að stúlkur væru hlédrægar og tækju lítinn sem engan þátt í félagsskap nemenda, nema dansleikjum. Er það illa farið, því að það er ekki síður lærdómsríkt en námið. Margur merkur maðurinn hefur einmitt í félögum skólans fengið fyrstu æfingu í að verja skoðanir sínar í ræðu og riti, skáld ort fyrstu kvæðin eða samið fyrstu söguna.
Laufey hafði sem barn vanizt því heima hjá sér að rökræða um málefni og láta skipulega í ljós skoðanir sínar. Merkur maður, sem var heimagangur á heimili frú Bríetar, hefur sagt mér, að hún hafi haft þann sið að hlusta oft þegjandi á, þegar unga fólkið var að deila um ýmis málefni, en grípa inn í samtalið, ef henni fannst óljóst hugsað, og hefði þetta oft getað verið ótrúlega örvandi.
Laufey vildi engin sérréttindi né hlutdrægni í skólanum, af því hún væri kvenmaður, heldur góðan félagsskap jafningja.
Lítið atvik dettur mér í hug, sem sýnir þetta viðhorf hennar. Árið 1930 var, á Alþingishátíðinni, Stúdentamót Norðurlanda. Fór hópurinn kvöldið fyrir hátíðina austur á Þingvöll og átti að koma sér þar fyrir í tjöldum. Voru þar þægindi af skornum skammti. Foringi dönsku stúdentanna var stúlka, hafði hún allt á hornum sér og fannst aðbúnaðurinn lítt viðundandi. Fór hún svo geyst að til vandræða horfði. Kom Laufey þá til hennar og sagðist ætla að segja henni það, að íslenzku kvenstúdentarnir teldu það skömm að reynast ekki jafnokar karlmanna á ferðalögum. Þær kepptu að því að vera félagar þeirra, sem þeir hefðu ánægju af að vera með, en ekki baggi. Þetta hreif, sú danska sá sitt óvænna og hafði hægt um sig upp frá því.
Í skólanum stóð Laufey sig alltaf ágætlega. Henni var létt um nám, svo að hún hafði tíma til að lesa að auki mikið af útlendum og innlendum bókmenntum. Hún tók stúdentspróf árið 1910 með fyrstu einkunn, sigldi þá til Hafnar til þess að stunda nám við háskólann og las þar frönsku sem aðalgrein, en ensku sem aukagrein. Ekki fékk Laufey Garðstyrk eins og aðrir íslenzkir stúdentar, en á Hagemanns Kollegium bjó hún í 2 ár. Við nám í Höfn var Laufey til ársins 1917. Ekki tók hún neitt fullnaðarpróf, en hún var orðin vel að sér í þeim málum, er hún las. Laufey hafði áhuga fyrir fjölmörgu og neitaði sér ekki um að kynnast því eftir beztu getu, svo hún menntaðist mikið almennt á þessum árum og fylgdist vel með í menningarlífi þess tíma.
III
Þegar heim kom fór Laufey að vinna á skrifstofu, fyrst í Landsverzluninni og síðan Olíuverzlun Íslands, og vann fyrir sér á þann hátt til dauðadags. Það er eitthvað raunalegt við að hugsa um Laufeyju á skrifstofu meginið af lífi sínu, því í raun og veru átti það starf sérlega illa við hana. Vélræn, tilbreytingarlaus vinna, fastur vinnutími og kuldaleg, ópersónuleg skrifstofan, ― allt þetta var svo undarlega ólíkt og fjarri eðli Laufeyjar. En það var ill nauðsyn, því að fyrir þau störf, sem hún seinna af áhuga og óeigingirni fórnaði miklu af kröftum sínum, fékk hún engin laun.
Fyrst eftir að Laufey kom heim var erfitt að finna, hver væru aðaláhugamál hennar. Þótt hún tæki ávallt virkan þátt í baráttunni fyrir jafnrétti kvenna við hlið móður sinnar, var það ekki nema eðlilegt, þar sem hún var alin upp hjá jafnsterkri konu og frú Bríet var og hafði fylgzt með þeirri baráttu frá blautu barnsbeini. Hún skrifaði talsvert um ýmisleg efni, orti dálítið, las mikið, ekki sízt kvæði, lét sér detta margt snjallt í hug, en framkvæmdirnar voru ekki ávallt jafn miklar. Enda sagði hún einu sinni, þegar hin nýju ættarnöfn voru efst á baugi, að nú væri hún búin að finna nafn á sjálfa sig, hún ætlaði að kalla sig ungfrú Ætlon, því hún væri með sífelldar ráðagerðir, sem minna yrði úr.
En þegar frá líður finnur Laufey ýmis verkefni, sem hún hefur áhuga á og beitir sér persónulega fyrir.
Hún kom á stofn Félagi afgreiðslustúlkna í brauð- og mjólkurbúðum og var formaður þess um nokkurra ára skeið. Mun hafa vakað fyrir henni að fá bætt kjör þeirra stúlkna, er lægst voru launaðar í verzlunarstéttinni.
Formaður Kvenréttindafélags Íslands var hún í nær tvo áratugi. Var hún sérstaklega vel til þess fallin, bæði vegna ágætrar menntunar og hins djúpa skilnings síns og þekkingar á málefnum Kvenna. Hafði hún forustu í mörgum þýðingarmiklum málum, sem félagið beitti sér fyrir. M.a. gekkst hún fyrir því, að haldnir væru landsfundir kvenna þar sem konur víðsvegar af landinu kæmu saman, kynntust og ræddu áhugamál sín. Hafa þessir fundir áreiðanlega haft mikla og margvíslega þýðingu fyrir samtök kvenna. Árið 1944, á sjötta landsfundinum, var Kvenréttindafélags Íslands gert að landsfélagi, þannig að hin ýmsu kvenfélög landsins skyldu gerast ábyrgir þátttakendur í því um kvenréttindamál. Gátu konur þannig sameinazt um áhugamál sín án tillits til stjórnmálaflokka og mismunandi skoðana. Varð Laufeyju þetta mikið gleðiefni, því að þessu hafði hún ávallt stefnt.
Árið 1928 stofnaði Laufey Kvenstúdentafélag Íslands og var í raun og veru lífið og sálin í því. Hún naut sín sérstaklega vel á fundum félagsins, hnyttin, gamansöm og fær um að ræða hvaða mál sem var fyrirvaralaust. Hún var hinn sanni stúdent, eins og hún hafði verið hinn ágæti félagi í skólanum. Hún átti þátt í að gefa fundunum sérstæðan hlýleikablæ, og einum var hún glögg á, ef stúdentar sýndu hæfileika til að skemmta á fundum. Mest var gaman að henni, þegar nýju stúdentunum var boðið í fyrsta sinn í rússagildi. Hún var svo hýr og hamingjusöm og horfði á hópinn með hreinasta móðurstolti.
IV
Árið 1928 stofnuðu nokkrar konur, sem voru fulltrúar ýmissa kvenfélaga, nefnd, er hlaut nafnið Mæðrastyrksnefnd, og var Laufey kosin formaður hennar, og það var hún til dauðadags. Hafði hún verið hvatamaður að því, að Kvenréttindafélag Íslands byði stjórnum annarra kvenfélaga á fund til að ræða samvinnu þeirra á milli í baráttunni fyrir almennum ekknastyrk, og hafði árangurinn af þeirri samvinnu orðið stofnun nefndarinnar.
Hlutverk nefndarinnar var í fyrsta lagi að stuðla að því, að bætt væru kjör einstæðings mæðra, hvort heldur þær væru ekkjur, fráskildar eða ógiftar. Þegar nefndin tók til starfa, áttu fyrirvinnulausar mæður ekki rétt á öðrum styrk en sveitarstyrk, en honum fylgdu þau neyðarkjör, að konan var um leið svipt borgaralegum réttindum, svo sem kosningarrétti og kjörgengi. En lokatakmark nefndarinnar var, að öllum konum, sem svo var ástatt fyrir, yrðu greidd mæðralaun, sem nægðu til að tryggja afkomu heimilisins. Því takmarki er að vísu ekki náð, en mikil réttarbót er þegar fengin.
Annað hlutverk nefndarinnar var að leiðbeina einstæðings mæðrum, ekkjum og eiginkonum heilsulausra manna á ýmsan hátt og hjálpa þeim til þess að ná lagalegum rétti sínum. Var opnuð skrifstofa í þessum tilgangi. Gátu konur leitað þangað til þess að fá allar nauðsynlegar upplýsingar og aðstoð. Hefur þetta starf verið hið merkasta og veitt fjölda kvenna, sem engan áttu að og höfðu ekki hugmynd um lagalegan rétt sinn og því síður, hvernig og hvar þær ættu að leita hans, ómetanlega hjálp.
Þar að auki hefur nefndin rekið sumarheimili, þar sem fátækar mæður hafa dvalið með börnum sínum, veitt fátækum konum vikudvöl til hvíldar í sveit, gengizt fyrir söfnun til þess að gleðja fátækar konur um jólin o.fl. Starf nefndarinnar er merkilegt og víðtækt mannúðarmál, er kemur konum, sem hjálp fá, ekki einungis til góða, heldur er ekki hvað sízt mikilvægt fyrir börn þessara kvenna, að þau þurfi ekki að alast upp í sárustu fárækt, fara alls á mis og verða allt of ung að taka þátt í harðri lífsbaráttunni, alveg án tillits til þess, hverjir eru hæfileikar þeirra og geta.
Árið 1935 tók Laufey þátt í stofnun Mæðrafélagsins sem vinnur að hvers konar réttarbótum fyrir mæður og börn. Var hún formaður þess til ársins 1942.
Með stofnun Mæðrastyrksnefndarinnar finnst mér hið eiginlega lífsstarf Laufeyjar byrja, með henni fær hún verkefni í hendur, þar sem hinir miklu mannkostir hennar og margþættu hæfileikar njóta sín til fulls og þroskast, enda fórnaði hún sér svo fullkomlega fyrir þetta starf, að óhætt er að telja, að sjaldgæft sé.Eins og ég hef drepið á, hafði Laufey mörg áhugamál, en þó finnst mér, að framan af ævinni hafi bókmenntir og fagurfræði átt mest hug hennar, og hæfileikar hennar til ritstarfa voru ótvíræðir, hvort heldur var í bundnu eða óbundnu máli, svo hún hefði eflaust komizt langt á þeirri braut, ef hún hefði beitt sér þar af einhug. En það er ekki fyrr en Laufey fer að starfa að því að bæta lífskjör þeirra sem erfiðast eiga og mestir einstæðingar eru í lífinu, sem hún verður heil og óskipt. Hún lét sér oft sína eigin hagsmuni í léttu rúmi liggja. En þegar hún var að verja rétt örþreyttrar móður eða einstæðings stúlku, lét hún einskis ófreistað og hopaði ekki um fet, hversu erfið sem sóknin var, ef neisti af von var að finna um réttarbót eða hjálp. Starf Laufeyjar í Mæðrastyrksnefndinni var svo margbrotið, að erfitt er nema nánustu samstarfsmönnum hennar að gera sér fulla grein fyrir því. Það er undravert, hve miklu hún fékk áorkað, þar sem hún hafði jafnframt á hendi fulla skrifstofuvinnu og var þar að auki orðin mjög heilsutæp.
Laufey gaf sér ótakmarkaðan tíma til þess að tala við þær konur og stúlkur, er leituðu stuðnings nefndarinnar. Þær komu til hennar á hvaða tíma sem var og sögðu henni hiklaust frá erfiðleikum sínum og raunum. Hver sagði sína sögu, og Laufey hlustaði á þær með þolinmæði, skildi þær og fann til með þeim, en dæmdi þær aldrei. Þess vegna var svo auðvelt að tala við hana. En um leið og hún hlustaði á og lét þær finna samúð sína, athugaði hún, hvernig hægt væri að hjálpa þeim á fjárhagslegan eða lagalegan hátt. Laufey var svo vel að sér í þeim lögum, sem snertu starf nefndarinnar og framkvæmd þeirra, að hún gat sjálf flutt mál þeirra, er leituðu aðstoðar hennar, við hlutaðeigandi yfirvöld. Hafði hún það starf á hendi allt frá stofnun nefndarinnar og til ársins 1941, en frá þeim tíma hefur nefndin haft sinn sérstaka lögfræðing, frú Auði Auðuns, cand.jur.
Starf Laufeyjar á þessum vettvangi er stórmerkilegt og fjölþætt. Var hún sífellt á verði, að ekki yrði gengið á rétt kvennanna, og jafnframt vann hún að því ósleitilega að fá löggjöfinni þokað í rétta átt að lokatakmarkinu, nefnilega mæðralaununum, og fagnaði hverju spori, sem stigið var, hversu smátt sem það var. Ekki er nokkur vafi á því, að hinn persónulegi máti Laufeyjar að gera konunum svona létt að koma til sín og tala við sig hefur verið ómetanlegur og margri konunni ógleymanlegur. Vinir Laufeyjar urðu oft varir við, að hún bar þær fyrir brjósti, eins og hún ætti þær sjálf, og átti bágt með að gera sér grein fyrir tómlæti annarra. Einu sinni í samtali við mig sagði hún eitthvað á þessa leið: „Fyrst þegar byrjað var á þessari starfsemi hélt ég, að mesta vinnan yrði fyrstu árin, meðan verið væri að koma henni á laggirnar og konurnar að komast upp á að leita hjálpar, en áður en maður veit af, er svo komið, að maður á ekki sjálfan sig og sinn tíma lengur. Og þó mig langi stundum til að eiga eitthvað fyrir sjálfa mig, þá hvorki get ég né vil það, það er alltaf eitthvað sem kallar að, og það er eins og lífið sjálft í allri sinni tilbreytni.“ Og hún hélt áfram á meðan henni entist líf og heilsa að hjálpa, styrkja og gleðja mæðurnar.
V
Frá því Laufey var rúmlega tvítug fór hún á fjölmarga fulltrúafundi kvenna út um heim. Ég held, að konur hér heima hafi, margar hverjar, ekki gert sér grein fyrir, hvað Laufey var þar góður fulltrúi. Ég veit, að á þessum fundum hefur hún oft notið sín sérstaklega vel. Hún var heimsborgari í eðli sínu og naut þess í ríkum mæli að vera stödd í stórborgum og vera laus við allt smávægilegt dægurþras, en ræða málin í stórum dráttum. Margar gáfuðustu og menntuðustu konurnar urðu tryggir vinir hennar til æviloka. Hún gaf mér einu sinni meðmælabréf til frú Corbett-Ashby, þegar ég var á ferð í Lundúnum. Tók hún mér mjög vel, og um kvöldið borðaði ég miðdag hjá þeim hjónunum. Spurði húsbóndinn mig þá ýtarlega um Laufeyju og hvenær von myndi vera á henni. Sagði hann, að sér hefði fundizt hún svo skemmtileg, að hann myndi varla eftir að hafa fengið heim til sín aðkomugest, sem jafnazt hefði á við hana að gáfum og fyndni.
Frú Corbett-Ashby, forseti Alþjóðasambands kvenna, og ungfrú Bompas, ritari sambandsins, hafa báðar skrifað mér um Laufeyju. Er auðséð að þær hafa bæði skilið hana vel og metið hana mikils. Ungfrú Bompas segir, að hún hafi dáðst mest að skilyrðislausri hreinskilni hennar og hugrekki. „Það var ekkert smásálarlegt við hana, hún var mjög vitur og framsýn,“ segir hún að endingu. Frú Corbett-Ashby rifjar upp margt frá viðkynningu þeirra frá því hún fyrst sá Laufeyju, bjarta, laglega og unga í hvítum kyrtli, og þar til er hún fylgdi henni til grafar í París. Ást og virðing andar úr hverri línu. Hún segir, að tillögur Laufeyjar og skýrleiki í hugsun hafi verið mikils virði. Hún hafi stöðugt hvatt fundarkonur til að vinna að því að tryggja rétt konunnar, sem vinnur á heimilinu, í stað þess að eyða öllum kröftum í að auka rétt kvenna til embætta. Hún minnti þær sífellt á, að atkvæðisréttur er tæki, en ekki takmark í sjálfu sér. Frásögn frúarinnar af samverunni við Laufeyju, þegar þær gátu gefið sér tíma til þess að skoða fagra náttúru eða listaverk, er full af skemmtilegum endurminningum. Hún endar frásögn sína þannig: „Laufey var góður fulltrúi lands síns, og hún kynnti það í mörgum löndum fjöldamörgum mönnum og konum af ólíkustu stéttum og skoðunum. Ég syrgi hana bæði sem vin og mikils metinn samstarfsmann.“
Nokkra hugmynd um hvað Laufeyju var lagið að segja útlendingum frá Íslandi má fá af grein þeirri, er hún ritaði sem ungur stúdent í ársrit Hagemanns Kollegium og prentuð er síðast í þessari bók.
VI
Ef til vill hugsa sér margir, sem ekki þekktu Laufeyju, að hún, sem varð fyrsta stúlkan til þess að brjótast í gegnum endilangan Menntaskólann og var þar að auki kvenréttindakona frá barnæsku, hafi verið „ókvenleg“, en því fór fjarri. Hún hafði þvert á móti einkenni konunnar, með kostum hennar og göllum, styrkleika hennar og veikleika, í óvenju ríkum mæli. Hæfileikarnir voru miklir og ýmsir eðlisþættir og lyndiseinkenni svo margvísleg, að í fljótu bragði virtist þar um algerar mótsetningar að ræða, en þó var persóna hennar í innsta eðli sínu hrein og heilsteypt. Laufey var, eins og áður er sagt, örgeðja og viðkvæm í lund, og var það oft erfitt fyrir hana, þegar hún átti í deilum um málefni, t.d. á fundum, og mætti mótspyrnu og skilningsleysi, enda stóð hún oft fáliðuð uppi með skoðanir, sem öðrum þóttu allt of nýstárlegar. Vafalaust hafa veikindi þau, er hún leið af mörg seinustu ár ævi sinnar, gert henni baráttuna örðugri, og er ómögulegt að vita, hve snemma þau hafa verið farin að há henni. En þrátt fyrir þetta var hún hugrökk og einbeitt að halda á máli sínu og gerði sér far um að mynda sér ávallt sjálfstæða skoðun í hverju máli og láta hvorki menn né flokka binda sig. En í skoðunum sínum var hún mjög frjálslynd og oft róttæk. Bersögli hennar var mikil, hún gat verið óvægin, ef því var að skipta, en svo átti hún líka til að vera allra manna nærfærnust og hafa mestu mætur á mönnum, þó þeir hefðu ólíkar skoðanir.
Allt stíft og kalt var fjarri eðli Laufeyjar. Sumir leggja sína köldu hönd á hlutina, en hún lagði lifandi hönd á allt, sem hún kom nærri. Henni var þörf á að gefa öllu heimilis- og hlýleikablæ, skrifstofunni, fundum og samkomum. Mörgum gat fundizt þetta óþarfa umstang, en ég held, að í endurminningu þeirra skilji þetta meira eftir en þá grunaði og þeir, sem hafa notið þess, vilji gjarnan hafa farið á mis við það. Heimili Laufeyjar var einkennilega notalegt og smekklegt. Hún hefur sjálf lýst í dagbók sinni herbergi sínu í Hagemanns Kollegium á þessa leið, og sýnir það vel, hversu eðlilegt henni var að gera heimilislegt í kringum sig, hvar sem hún var stödd:
„Hérna í stofunni minni kann ég vel við mig. Mér hefur tekizt að gera hana rólega. Litirnir: gult, grænt og dökkgrænt eiga svo vel saman. Myndirnar fara vel á veggjunum, - allreglulega, en þó ekki stíft. Allar bækurnar setja einhvern festusvip á herbergið, og skínandi kaffikannan og ketillinn á kommóðunni minni minna mann á heimilið og angandi kaffi. Það er eitthvað aðlaðandi, sem býður af sér þokka og traust hérna inni. Útsjónin er líka falleg og tilbreytileg, þó ekki sé það nema lítið hús og garður í kringum það og svo dálítið af götunni og trjágöngum hennar. Núna í ljósaskiptunum er fallegt að sjá þennan óljósa dimmbláa blæ skera af hvítum gluggapóstinum. Luktin fyrir utan kastar daufri glætu, svo grillir í blaðlausar greinarnar á trjánum. Inni er allt hlýlegt og gult af lampaljósinu. Ég þekki þennan blett svo vel. Ég veit ekki hvort hann er fallegastur á vorin, þegar trén eru ljósgræn og ég fylgist með því, hvernig þau springa út á hverjum degi, eða á haustin, þegar vindurinn feykir marglitu blöðunum inn til mín – í gamni, stríðni eða af vinsemi? Hver veit? Eða er útsýnin fallegust seint á haustin, þegar öll blöðin eru fallin – á kvöldin í tunglsljósi, þegar greinarnar bera við daufbláan himininn, eins og fínasta svört kniplingaslæða?... „
Gestrisni hennar er aðeins hægt að jafna við beztu íslenzka sveitagestrisni. Hún hafði yndi af að taka á móti gestum, hvort sem það var fyrir lengri eða skemmri tíma. Aldrei gaf hún svo smágjöf, að hugkvæmni hennar kæmi þar ekki fram. Þó ekki væri nema lítill blómvöndur, varð hann mikils virði vegna umhugsunarinnar, sem lá bak við gjöfina. Þegar hún gekk upp í sveit, var hún óvenju skyggn á alla fegurð, litbrigði fjallanna, mýkt mosans, huldukonusteininn með græna balanum, gulbleika haustlitinn á engjunum og vordúninn á grávíðinum. Í raun og veru var Laufey draumlynd, eins og sást af augunum, sem virtust leita svo einkennilega langt, en um leið var hún bæði raunsæ og glöggskyggn.
Laufey var mikill dýravinur, en sérstaklega hélt hún upp á ketti og átti alltaf marga á heimili sínu. Hlúði hún að þeim og hjúkraði þeim eins og bezta móðir börnum sínum. Komu þá oft skopleg atvik fyrir, sem bæði hún og vinir hennar brostu að, eins og þegar hún kom til vinkonu sinnar og sagði, að einn af kettlingunum sínum væri með augnveiki, „en ég er alveg í standandi vandræðum, því jafnótt og ég ber á augun í honum, sleikir mamma hans það af aftur.“
Ekki gat skemmtilegri manneskju að ræða við í ró og næði en Laufeyju, þegar hún var vel fyrir kölluð. Bæði hafði hún frá mörgu að segja og af miklu að miðla. Skilningur hennar á mannlegu eðli var djúpur og kímnigáfa hennar mikil. Gat hún á slíkum stundum oft sagt hluti, sem ekki gleymdust: „Það er vináttan, sem allt þolir, en ástin ekkert, - og hvor þeirra hefur sitt fylgdarlið“, sagði hún einu sinni.
Áreiðanlega geyma bréfin hennar margt skemmtilegt og vel sagt. Í bréfi til vinkonu sinnar skrifar hún: „Þetta smáævintýri, sem ekkert var nema dálítil áning í lífsins eyðimörk, hefur haft á mig mikil áhrif og sýnt mér inn í sjálfa mig.“ Svo talar hún um erfiðleika, sem að henni hafa steðjað, og segir svo aftur: „En þetta litla atvik í sumar sýndi mér sannleikann, ― að manneskjan þarf sólskin, þó hún telji sér trú um að hún geti lifað í skugganum. Ég hef hugsað: forsjónin lét það eftir mér að vera glöð í nokkrar klukkustundir, svo ég gæti safnað þrótti.“ En bréfið endar svona: „Ég þakka þér eins og fyrr allt gott og við þig að skrifa mér fljótt. Ég sé það, að bréfin mín muni ekki græða á ljóðaframtalinu. En sjálf hef ég haft gagn af því og losað sálina og rýmkað um hugsanirnar. Þær urðu svo bráðfjörugar og vildu ólmar skríða út, svo ég hef átt fullt í fangi með að troða þeim inn aftur og setja ofan á þær fargið. Þær eru alltaf að garga eins og óþekkir krakkar, og ein og ein í senn teygir sig út. Það er meira stríðið og ljóta kálið að eiga við slíkt í sálinni, ég vissi ekki, að það væru svona mikil húsnæðisvandræði hjá sjálfri mér...“
VII
Haustið 1945 fór Laufey til Sviss og Parísar til þess að sitja alþjóðaþing kvenna, hið fyrsta, sem háð var eftir ófriðarlok, en jafnframt fór hún til þess að leita sér lækninga hjá beztu sérfræðingum, sem völ var á. Ég man, að mér brá, þegar ég frétti um þetta ferðalag Laufeyjar. Ferðalög til Mið-Evrópu voru þá ótrúlega erfið þeim, sem fullfrískir voru, hvað þá einmana, heilsuveilli konu, en Laufey lét slíkt ekki á sig fá, horfði á takmarkið, en ekki erfiðleikana. Hún sat þing kvenna í Genf og því næst fund í París. Ætlaði hún svo aftur til Sviss og átti þar að gera á henni uppskurð.
Það höfðu komið bréf heim frá henni við og við fram í desember, en skyndilega tók fyrir það. Engan grunaði, hvernig í þessu lá, því vegna slæmra póstsamgangna að stríðinu loknu töfðust bréf oft svo vikum skipti. Gerði Héðinn Valdimarsson, bróðir hennar, ítrekaðar tilraunir til þess að fá fréttir af henni, sem engan árangur báru. En milli jóla og nýárs kom sú fregn, að Laufey hefði látizt í París 9. des. og verið jörðuð þar. Hafði hún dáið af hjartaslagi laust eftir miðnætti á hótelherbergi sínu. Konurnar, sem nýverið höfðu setið með henni Alþjóðafund kvenna, fylgdu henni til grafar. Seinna var líkið brennt og askan send heim. En hér í Reykjavík var, skömmu eftir að fréttist um lát hennar, haldin fjölmenn minningarhátíð í Dómkirkjunni, þar sem m.a. kvenstúdentar söfnuðust saman fyrir framan heimili hennar í Þingholtsstræti 18 og gengu í fylkingu til kirkju. Er ekki að efa, að við lát Laufeyjar hefur mörg konan, sem lítið ber á í þjóðfélaginu, syrgt góðan vin og samstarfskonur félaga og forystumann.
Það er raunalegt að hugsa um Laufeyju deyja einmana á erlendu gistihúsi. En fyrst svo þurfti að vera finnst mér það hafa verið góð forsjón að láta hana skilja við heiminn í París, sem hún dáði mest allra borga. Þegar hún fór í fyrsta sinn til útlanda sá hún á safni í Edinborg undrafögur glös frá Feneyjum og hugsaði, að yndislegt væri að fá að kynnast þeirri suðrænu, fáguðu menningu, sem glösin spegluðu. Árin liðu, án þess að henni yrði að ósk sinni, en þá komst hún til Parísarborgar, og þar fann hún hina glæstu menningu Feneyjaglasanna og þar í borg gleðinnar og æskunnar „sá hún lífið aftur með tvítugum augum“, því slíkir eru töfrar Parísar.
Ef ég hugsa mér lygnan haustdag á Þingvöllum með Maríu-ull í lofti, þegar vatn, fjöll og fell eru vafin í ótal blæbrigði, frá dökkbláu til fölbláma, sem varla er hægt að greina, og sólskin og skúrir skiptast á til fjallanna í fjarska, en maður veit þó, að þrátt fyrir þetta er djúp vatnsins og berg fjallanna óumbreytanlegt í eðli sínu, finnst mér sú mynd minna mig undarlega á Laufeyju Valdimarsdóttur. Svo rík var hún af litbrigðum og sífelldri tilbreytni. En undir og á bak við þetta breytilega yfirborð bjó djúp konusál og óhagganleg drenglund, sem aldrei brást því, sem hún unni og vissi sannast og réttast.“
Þýðingar:
Óútgefið efni eftir Laufeyju eða um hana sem varðveitt er á Kvennasögusafni Íslands:
Æ, ég var að vona,
veika, en sterka kona,
að með nýju ári kæmirðu heim,
Heil á hjarta og taugum,
með hita og ljóma í augum.
Lifnaði margt í ljósi af draumum þeim.
Mörgum varð að vona,
vitra, mikla kona,
að þú kæmir glöð og heilbrigð heim.
Auðgust allra varstu,
ægishjálm þar barstu,
lengst þó sjúk og ein í auði þeim.
Eg er enn að vona,
elskulega kona,
að þú sért nú einmitt komin heim,
að þinn andi svífi
yfir starfi og lífi
lands vors kvenna, hve þú unnir þeim.
Heitt þær vilja vona
verk þín, göfga kona,
áhugi og eldmóðurinn þinn
veg oss alltaf vísi;
viti, er brenni og lýsi,
mynd þín sé og móðurarfurinn.
Bárust harmahróp
úr heimi utan,
voru mannslíf mörg
til moldar runnin;
þó var ófregn ein
öðrum verri:
fjarri fósturjörð
fallin værir þú,
foringinn fljóða.
Oft af fáum studd,
kveikt hafðir þú
kyndil albjartan.
Leiztu lengra fram,
en lýðir sáu.
Varstu þeim vegljós
Er vissu ei ráð né leið.
Mæðranna móðir.
Þeirra er menn og guðir
gleymdu, þú gerðir
greiðfæra leið.
Þær munu þakka
og þinna sigra njóta.
Öldum og óbornum
aldrei muntu gleymd.