Alþjóðabaráttan fyrir kosningarétti

Sjá nánar: Auður Styrkársdóttir, „„Mér fannst eg finna sjálfa mig undireins og eg var laus við landann“ Kvennabaráttan á Íslandi og alþjóðlegt samstarf“, Saga 50:1 (2012), bls. 35-77.


Kvenréttindafélag Íslands var stofnað í beinu framhaldi af för Bríetar Bjarnhéðinsdóttur til Norðurlandanna árið 1904, en þar komst hún í kynni við helstu kvenréttindakonur þeirra landa.

Alþjóðakosningaréttarsamtökin The International Woman Suffrage Alliance (IWSA) voru stofnuð í Washington árið 1902. Frumkvæðið átti Carrie Chapman Catt og var hún kjörin formaður samtakanna á fyrsta þingi þeirra í Berlín árið 1904. Frá árinu 1906 gáfu samtökin út blaðið Jus Suffragii.

Ísland gengur í samtökin 

Sumarið 1904 var Bríet Bjarnhéðinsdóttir á ferðalagi um Danmörku, Noreg og Svíþjóð. Þar komst hún í kynni við kvenréttindakonur sem héldu sambandi við Bríeti eftir að hún kom heim. Carrie Chapman Catt frétti af Bríeti gegnum samtök sín og hóf bréfaskriftir til hennar með áeggjan um að stofna kosningaréttarfélag kvenna á Íslandi. Carrie bauð Bríeti einnig að sækja þing samtakanna í Kaupmannahöfn árið 1906 [nánar um þingin sem Bríet og Laufey sóttu] sem fulltrúi Íslands, jafnvel þótt ekkert kosningafélag kvenna væri starfandi á Íslandi. Bríet fór á fundinn sem fulltrúi Íslands og flutti þar erindi um hagi og réttarfarslega stöðu íslenskra kvenna.
     Bríet var að flestu leyti vel til þess fallin að hafa forgöngu um stofnun kosningaréttarfélags á Íslandi. Hún hafði nokkra reynslu af félagsmálum, hafði flutt opinberan fyrirlestur í Reykjavík og var gagnkunnug baráttu kynsystra sinna á Norðurlöndunum og þekkti persónulega margar af forystukonum hreyfingarinnar. Það sem þó vóg þyngst og gerði hana hæfari en flestar samtíðarkonur hennar hér á landi til að gegna forystu í slíku félagi var Kvennablaðið og sambönd hennar við fjölda fólks út um allt land vegna þeirrar útgáfu, en blað hennar var eitt útbreiddasta blað landsins um þær mundir.

Kvenréttindafélag Íslands stofnað
Haustið 1906 hafði Bríet tal af ýmsum konum í Reykjavík sem virtust hafa áhuga á stofnun kosningaréttarfélags kvenna. Sunnudaginn 27. janúar 1907 komu saman 15 konur að Þingholtsstræti 18 í Reykjavík, heimili Bríetar. Samþykkt var af öllum fundarkonum að stofna félag, Kvenréttindafélag Íslands. 
     Markmið félagsins var eins og segir í 1. grein laga þess: „að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir.“ Með stofnun félagsins urðu þáttaskil; skipulögð barátta kvenna fyrir kosningarétti var hafin hér á landi. 
     Eitt fyrsta viðfangsefni Kvenréttindafélags Íslands var að beita sér fyrir framboði kvenna við bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík 24. janúar 1908. Konur kjósenda í bænum höfðu þá fengið kosningarétt og bættust í hóp fyrri kvenkjósenda sem voru ekkjur og ógiftar konur er stóðu fyrir búi eða áttu með sig sjálfar. Kvenfélög í bænum buðu fram sérstakan kvennalista í kosningunum 1908 og unnu mikinn sigur; fjórar konur settust í bæjarstjórn. Félög kvenna buðu fram til bæjarstjórnar til ársins 1918 og fulltrúar þeirra komu mörgu til leiðar.

Alþjóðanet kvenna 
International Woman Suffrage Alliance átti beinan þátt í stofnun Kvenréttindafélags Íslands, sem og fjölda annarra kvenréttindafélaga um veröld alla. Forystukonum var falið að kynna boðskapinn og setja sig í samband við líklegar fylgiskonur við málstaðinn. Þing samtakanna voru að jafnaði haldin annað hvert ár og stóðu gjarnan í heila viku. Mikið var gert til þess að skemmta þingfulltrúum og skapa náin kynni þeirra í millum. Milli þinganna fóru konurnar í fyrirlestrarferðir og notuðu þá gjarnan tækifærið til heimsókna hver hjá annarri. Þannig byggðu samtökin upp alþjóðlegt stuðnings- og baráttunet kvenna. 
     Bríet Bjarnhéðinsdóttir sótti þingin 1906, 1913 og 1929. Dóttir hennar, Laufey Valdimarsdóttir sótti einnig nokkur þing, ýmist ein eða með Bríeti. Blað Bríetar, Kvennablaðið, flutti fréttir af gangi mála hjá systurfélögunum. Bríet þýddi einnig greinar úr blöðum systurfélaganna og kynnti útlenskar baráttukonur fyrir kynsystrum sínum á Íslandi.

Heimildir:
Auður Styrkársdóttir. 1994. Barátta um vald. Háskólaútgáfan. Einkum bls. 17-24.
Sigríður Th. Erlendsdóttir. 1993. Veröld sem ég vil. Kvenréttindafélag Íslands. Einkum bls. 53-69.
Rupp, Leila J. 1997. Worlds of Women. The Making of an International Women´s Movement. Princeton University Press.


Þing International Woman Suffrage Alliance (IWSA) sem Bríet og Laufey sóttu:

Kaupmannahöfn 1906 - Bríet Bjarnhéðinsdóttir sótti þingið
AnthonyogBB

Frásögn af þinginu í Kvennablaðinu  - Kvennablaðið 9. september 1906

Alþjóða-kvennafundurinn í Kaupmannahöfn 7.-11. ágúst

Mrs. Chapman Catt setti fundinn. Þar var saman kominn fjöldi kvenna frá 14 löndum. Þar af voru 9 lönd, sem höfðu gengið inn í alþjóðasambandið. Rússland var tekið upp í fundarbyrjun, með því að þar eru komin á fót mjög fjölmenn kosningaréttarfélög kvenna, sem starfa mikið að því, að koma þessu máli á dagskrá Dumunnar. Finnland, sem nú hefur fengið fullan politískan atkvæðisrjett og kjörgengi kvenna til jafns við karlmenn, var og talið með sem einskonar heiðursmeðlimur. Á fundinum mætti og 1 kona fyrir Ítalíu, sem ekki var enn þá upp tekin í fjelagið, en hafði þó komið á fót pólitískum atkvæðisréttarfélögum. Ísland, sem engin slík félög hafði, og því hefði ekki haft rétt til að hafa neinn fulltrúa, fékk og alveg sömu réttindi og hin löndin, að því undanskyldu, að bæði Ítalía og Ísland gáfu sínar skýrslur síðast. Þó var Ísland látið ganga fyrir. Sömul. vildi mrs. Chapman Catt, að jafn-oft væri tekið til máls fyrir Ísland og hin löndin, og bað mig því að tala um íslenzk kvenfélög á einum fundinum, þar sem Norðurlandakonurnar skyldu að eins tala á sínum málum. Eg ein varð að eins að tala á öðru máli, því enginn skildi íslenzkuna.
Mrs. Chapman Catt hafði beðið dr. Jón Stefánsson að stýra þessum fundi í virðingarskyni við Ísland. En honum fórst það mjög illa, og þótti Íslendingum ilt. En það, sem mér þótti lakast var það, að hann kvað íslenzkar konur í fornöld hafa haft pólitísku réttindin, sem þær vildu nú vinna aftur. En svo segir „Pólitíkin“ að ég hafi sagt þetta, og þannig fékk eg þessa sögulegu villu á mína könnu. — Nú set eg ræðuna orðrétt þýdda hér í blaðið, svo menn sjái, að eg hefi ekki sagt þetta.
Á síðasta fundi voru ákveðnar reglur samþykktar fyrir því, hvaða félög yrðu tekin inn í alheimssambandið, og var ákveðið, að hvert kosningaréttar-landsfélag kvenna yrði að vera sett saman af konum frá fleiri en einum bæ eða sveit, ef það ætti að álítast gilt. Einnig gerði mrs. Chapmann Catt fyrirspurn um, hvort Ísland mundi vera óánægt með að ganga inn í félagið af því það væri ekki fullkomlega stjórnarfarslega sjálfstætt land. Eg svaraði: Ef Ísland getur gengið inn í Alheimsfélagið sem sjálfstæð félagsdeild og með sömu réttindum og hvert af hinum sjálfstæðu löndum, þá verður það ekki til fyrirstöðu, þótt það sé ekki alveg stjórnarfarslega sjálfstætt. Síðan var þetta tekið til umræðu, og samþykt með öllum atkvæðum, að þegar við hefðum stofnað löglega kosningaréttar-félagsdeild, þá skyldum við hafa rétt til upptöku í félagið með sömu réttindum og hvert hinna sjálfstæðu landanna.
Loks var tekið til umræðu að stofna nýtt alsherjar mánaðarrit fyrir konur, í líku formi og „Sunnanfari“, sem skyldi gefið út í Lundúnum, á ensku, þýsku og frönsku, með skýrslum um pólitísk atkvæðisréttarmál kvenna víðsvegar um heiminn.
Hátíðahöld voru ýmiskonar fyrir okkur. Fyrir fundina vorum við flestar boðnar til kvöldverðar hjá kommandörfrú Munter. Vorum við þar um 100 gestir, og höfðum alls konar dýrlegan fagnað. Síðan bauð bæjarstjórn Kaupmannahafnar oss upp í hátíðasal ráðhússins, og fengum við þar te, kökur, ýmsa kalda smárétti og vín. Þar voru haldnar ræður og tekin mynd af öllum hópnum.
Á fimtudaginn vorum við allar boðnar af frk. Albertí upp í híbýli lestrarfélags kvenna í Kaupm.höfn og fengum þar te, ís og kökur o.s.frv. Föstudaginn vorum við boðnar til miðdegisverðar úti í Maríulyst, fyrir utan Helsingjaeyri, og flutti sérstök eimlest oss, með niðursettu verði. Og á laugardagskvöldið 11. ágúst hélt landskosningafélag danskra kvenna okkur skilnaðarveizlu á Skydebanen. Var þar fyrst sungið, spilað og lesin upp kvæði, svo dönsuðu börn ýmsa norræna þjóðdansa. Þá var gengið til borðs, sem skreytt var á allan hátt, bæði með blómum og flestra þjóða fánum. Síðan héldu danskar konur ógrynni af löngum ræðum, en milli þess var leikið á horn þjóðlög allra þeirra landa, sem áttu fulltrúa á fundinum, þar á meðal Íslands: „Þið þekkið fold með blíðri brá“, og stóðu allir upp meðan lögin voru leikin. Síðan kallaði forstöðukona landskosninga-félags kvenna fram hvert land, sem hafði fulltrúa, til að halda ræður, sem auðvitað hljóðuðu allar um, að þakka fyrir sig, og höfðu þær flestar ræðurnar skrifaðar við hendina. Eg hafði ekki hugsað, að aðrir yrðu kallaðir fram en reglulegir fulltrúar. En svo var Ísland kallað fram, og stóð eg þá upp og þakkaði í nafni sjálfrar mín, en sér í lagi þakkaði eg í nafni íslenzkra kvenna og í nafni Íslands fyrir alla þá sæmd, sem bæði danskar konur, og allur stórfundurinn, og einkum forstöðukonan, Chapmann Catt, hefði sýnt okkur, með því að taka mig þannig með sem reglulegan fulltrúa, þótt við hvorki hefðum heima neitt kosningaréttarfélag, eða eg hefði verið kosin heiman að til fulltrúa. Eg vissi, að það var Ísland og hin íslenzka þjóð, sem fundurinn hefði viljað heiðra á þennan hátt, en ekki eg persónulega, og þess meira virði væri mjer það.
Eg var í skautbúningi og tóku allir honum vel, og létu, sem sér findist mikið um hann. Eg var fegin að hafa hann, innan um allar þessar afarskrautbúnu konur. En óþægilegt er þó, að standa þannig sem sýningarmunur, heilt kvöld, bæði fyrir veislugestunum og þjónunum, sem glápa á mann.
Veizlunni lauk kl. 1½ um nóttina, en ekkert vín var þar á borðum. Bæði á sunnud. og í dag hafa þá verið haldnir fundir hjá mrs. Chapmann. En nú er þá loks öllu lokið og allir fara að hverfa heim.
Eg á að heilsa Íslandi frá finskum og norskum konum.
Eg tók upp hjá mjer að flytja finskum konum kveðju og hamingjuósk íslenzkra kvenna, og vona, að þær séu því samþykkar.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir.

Skýrsla Bríetar Bjarnhéðinsdóttur á fundi IWSA í Kaupmannahöfn 7.-11. ágúst

Report of Second and Third Conferences of the International Woman Suffrage Alliance. Copenhagen, 1906.
Iceland
Report prepared and read by Mrs. Briet Asmundsson. Editor of Kvennabladid

I have been asked to give the International Woman Suffrage Alliance an account of the progress of the woman question in Iceland, and chiefly to state how Icelandic women secured the franchise and eligibility to all local and municipal offices. But before I proceed to my main subject, I take the liberty to give in a few words, a description of the condition of Icelandic women before and after the middle of the nineteenth century.
During the former half of the nineteenth century, Icelandic women had, strictly speaking, no particular civil rights. Brothers were entitled to an inheritance twice as large as that of their sisters; women were denied the right of attending schools, except the most elementary ones; they were excluded from all employments except those of the household. But as early as the year 1850, the condition of women underwent a great improvement. During the session of the Althing (the Icelandic Parliament) for the year 1847, a bill was brought in containing a proposal for altering the law of succession. In the year 1850, it became a law. According to this law, daughters may succeed to an equal inheritance with sons. It was seven years later before a similar bill became a law in Denmark. This important improvement in the condition of women, was brought about by men, without any appeal from women. From this time, women rapidly awoke to a sense of their grievances. The political enthusiasm that animated the nation during all the latter half of the last century, but especially in the years before and after 1870, could not fail to arouse women to greater interest and activity in behalf of their own cause. The first thing that engaged their attention was education. They felt keenly that as long as they were denied the right of attending schools, and in this way debarred from the advantages of education, they would always continue to be inferior to men. Consequently, twenty-five ladies in Reykjavik joined in starting a subscription for the purpose of founding in Reykjavik a school for young women. In the year 1874, sufficient money was procured, and the school was established on the 1st of Octber of that year. Now there are three such schools in Iceland.
This was indeed a great improvement, but much remained still to be done. After the establishment of the schools, there existed only three paid posts open to women, viz: school-mistress, housekeeper, and maidservant. A large amount of money was granted every year by the government to the grammar school in Reykjavik, to which only men were admitted. The pupils had to pay nothing for the instruction; and free lodgings in the schoolhouse were granted to those who deserved it. In addition to this, the poorer students were granted an annual pecuniary assistance, varying from 25 to 200 Kroner. As most pupils, having attended the grammar school for six years, spent another six years or so at the University, it is easy to perceive that much more money was expended upon the education of men than women. Girls did not attend the women's schools for more than a year; very seldom two years. During the first year after the establishment of the women's schools no pecuniary aid was granted them by the government, and the pupils received no pecuniary assistance. Women were denied the right of attending higher schools, and were refused admittance to all public offices. Men teachers received more than twice as much pay as women teachers. Daughters were often forced to work as simple servants in the houses of their fathers, while every possible farthing was expended in the education of their brothers. Widows and other independent women (viz: women who were householders) had, of course, to perform the same duties and pay the same taxes as men householders, but they had not the same rights. Rich women were often married to poorer men, who squandered their money in wanton excesses; but in no way could the wife's property be secured to her.
These conditions excited the resentment of women, and also of men who were favorably disposed to the woman's cause. Consequently, in the year 1881, the Althing passed a bill containing the provision that all widows and unmarried women, who were householders or maintained a family, or lived entirely by their own employment, should have the right of voting for parish councils, town councils, district boards and vestries, when they had completed their twenty-fifth year and in other respects fulfilled the conditions fixed by the bill. On the 12th of May, 1882, this bill became a law. A short time after, women were by law admitted to the middle class shools and the grammar school; they were also allowed to attend lectures at the medical school, and to pass the examination by physicians; but they were not admitted to public offices.
In the year 1895, "Icelandic Woman's Alliance" was founded the program of which was the discussion of, and active influence upon all matters concerning the condition of women, and chiefly woman suffrage. The Althing was to sit in the summer of 1895. The Alliance, therefore, in the spring of that year, collected signatures in all parts of the country, to a petition to the Althing, in which the members were earnestly entreated to enter upon a discussion of woman suffrage, and the right of married women to manage their own property. This petition was signed by 3000 women, but the petition was ignored.
The petition and the establisment of two women's papers were not without effect. Woman's rights became more and more a subject of discussion, and especially married women's right to manage their own property. This matter was chiefly advocated by "Pjodviljinn", a political paper, the editor of which, Skuli Thoroddsen, was a member of the Icelandic Parliament. During the session of the Althing for the year 1899, he brought in a bill on married women's management of their own property, which passed. According to this Act, married women have the same right to administer and dispose of their property as unmarried women. It was made easier for them to fix the property status of the married couple by contract; and on the whole, the financial interests of wives were secured. It gave the wife a right to have exclusive possession and to manage according to her own will, everything she earned by private occupation. It limits, to some extent, the husband's exclusive right to superintend the joint estate. It grants to the married couple, especially to the wife, a right to dissolve the partnership in property, although divorce might not be desired. Lastly, it secures the wife's property against the husband's creditors.
In the year 1902, the Althing passed a bill granting the eligibility of all independent women, to all offices for which they already had the franchise. The bill was brought in by Skuli Thoroddsen, the editor. Doubtless, he was greatly influenced by his wife, who is a very talented lady.
The main points of the law are:
Widows and unmarried women, who hold houses or live by their occupation, are eligible for parish councils, distict boards, vestries, and town councils, when they in all other respects fulfil the conditions fixed for men in the law of elections. The last point was introduced into the bill by the conservative members.
Now, how have women made use of this law? Unfortunately, I have no accurate reports from all parts of the country, but the reports I have are very satisfying. In Reykjavik, the population increases yearly, and the number of eligible women, of course, increases too; especially since the last law of elections, which reduced the property qualifications considerably, came into force. Unfortunately, the elections for town council were finished three weeks before the law of elections became valid, so that it was impossible to get any woman returned. But a great number of women made use of their franchise. Miss Thorbjorg Sveinsdottir was for a long time member of the vestry in Reykjavik, but no women have been elected to town councils.
"Kvennabladid" has constantly since the new law of elections came into force, been urging women to make use of their rights. But it is very difficult to bring about an effective co-operation of all women in Iceland. The distances are great, and the thin population of the country makes communication difficult and expensive. The best way, it seems to me, would be to found here a Woman Suffrage Alliance, in connection with the "International Woman Suffrage Alliance."

Fyrirlestur frú Bríetar Bjarnhéðinsdóttur á alþjóðakvennafundinum í Kaupmannahöfn 7.-11. ágúst (Þýðing)

Kvennablaðið, 9. september, 1906
Þau eru tiltölulega ung, íslenzku kvenfélögin. Aðeins þrjú þeirra eru komin af bernskuskeiði.
Elzt þeirra er Thorvaldsensfélagið, stofnað 1874. Er það því búið að ná föstu skipulagi.
Það lætur sér sérstaklega ant um heimilisiðnaðinn og hefur sett á fót sölubúð, honum til eflingar, án þess að fá nokkurn opinberan styrk. Því hefur viljað það til, að það hefir frá fyrstu haft ötula forstöðukonu, þar sem er landlæknisfrú Þórunn Jónassen. Nú á það hús í miðhluta Reykjavíkurbæjar, þar sem það hefir sölubúð sína. Árið sem leið seldi það vörur fyrir hér um bil 20 þús. krónur. Félagskonur annast sjálfar um útsöluna ókeypis, svo að félagið fær þó nokkrar tekjur, þótt sölulaunin séu ekki nema 10 af hundraði hverju.
     Í vetur sem leið var samþykt á fjelagsfundi að stofna sjóð af tekjuafganginum við útsöluna, efla hann smámsaman, og þegar nægilegt fé væri fengið, að koma upp uppeldisstofnun fyrir börn.
Þá kemur næst Íslenzka kvenfélagið, stofnað 1895 af Þorbjörgu Sveinsdóttur. Það var fjölmennt félag. Í Reykjavík einni voru þannig í byrjun félagskonur nokkur hundruð að tölu. Auk þess átti að stofna undirdeildir víðsvegar um landið og áttu þær allar að hafa sama aðalmarkmið eins og Reykjavíkurdeildin, en máttu þó og að vísu starfa jafnframt fyrir sínum eigin hagsmunum. Gjalda áttu undirdeildirnar til aðaldeildarinnar í Reykjavík, en jafnframt var þá meðlimum þeirra heimilt að koma á fundi þar og greiða atkvæði.
     Bróðir Þorbjargar Sveinsdóttur, hinn frjálslyndi stjórnmálaforingi og alþingismaður, Benedikt Sveinsson, barðist af alefli fyrir því, að í Reykjavík yrði settur á stofn lögfræðiskóli og að svo yrði stofnaður úr honum og hinum tveimur æðri menntastofnunum landsins, prestaskólanum og læknaskólanum, sameiginleg mentastofnun eða háskóli. Bæði Þorbjörg Sveinsdóttir, sem í raun og veru var lífið og sálin í félaginu, forsetinn, Sigþrúður Pétursson háyfirdómarafrú og ýmsar fleiri í stjórn félagsins studdu af kappi þetta mál. Enda var háskólamálið eitt af aðalmálunum í stefnuskrá félagsins við stofnun þess. Félagið gaf 2000 kr. til háskólans. En í gjafabréfinu var ákveðið, að stofna skyldi með þessu sjóð til styrktar fyrir konur, er stunduðu nám við hinn fyrirhugaða háskóla.
     En í lögum félagsins, sem samþykt voru 26. jan. 1895 var það fast ákveðið að tilgangur félagsins væri fyrst og fremst að efla réttindi kvenna.
     Í fyrstu grein laganna stendur, að markmið þess sje að berjast fyrir auknum réttindum íslenzkra kvenna og með samvinnu að efla þekkingu þeirra og fróðleik að öllu leyti. Auk þess vill félagið styrkja kvenfólkið í fjárhagslegu tilliti og styðja öll þau mál, sem efst eru á dagskrá þjóðarinnar.
Eins og eg hefi getið um í skýrsu minni, var það einmitt íslenzka kvenfélagið, sem sendi áskorun til alþingis um að taka upp kosningarétt kvenna á stefnuskrá sína sumarið 1895.
     Undir þessa áskorun skrifuðu 3500 konur, og voru þó ekki nema tveir mánuðir til að safna undirskriftum. Það var ekki okkur að kenna, að alþingið gaf áskoruninni engan gaum, og eg tel oss það sóma, að við höfum orðið fyrstar til þess af Norðurlandakonum að senda löggjafarþinginu svona áskorun.
     Þriðja stærsta kvenfélagið er Hvítabandið. Það var og stofnað fyrir eitthvað 10 árum. Gerði það Þorbjörg Sveinsdóttir og fósturdóttir hennar, ungfrú Ólafía Jóhannsdóttir, með tilstyrk ungfrú Ackermann frá Ameríku. Félagið er all-fjölmennt, einkum í kaupstöðunum, enda veitti alþjóðafélag Hvítabandsins nokkurt fé til ferðakostnaðar við fyrirlestrahöld hingað og þangað á landinu, og þannig tókst að stofna margar félagsdeildir. Hinar íslenzku konur vinna mjög að bindindismálum og stofna, í félagsskap með karlmönnum, margar Goodtemplarstúkur víðsvegar um land alt.
Auk þessara þriggja stærstu kvenfélaga, hafa núna síðustu árin mörg kvenfélög verið stofnuð, bæði í Reykjavík og öðrum stærstu kaupstöðum landsins. Einnig eru kvenfélög víðast í sveitum, einkum á Norðurlandi. En ennþá hafa þau eigi mikið barist fyrir kosningarrétti kvenna. Flest þeirra fást við ýms mannúðarfyrirtæki.
     En nú kunnið þér að spyrja: Er þá engin hreyfing núna orðið meðal kvennþjóðarinnar íslenzku til þess að efla rjettindi hennar. Jú, að vísu. En við höfum hingað til verið að vonast eftir foringja meðal hinna göfugustu mentakvenna landsins, foringja, sem notuðu stöðu sína, álit, gáfur og þekkingu til að hrinda kvenréttindamálum okkar áfram.
     En nú er það svo, að þessar konur lifa oft of góðu lífi til þess að finna, hvar skórinn kreppir að, njóta ylsins af góðu heimili og álits af virðingarstöðu manna sinna og feðra. Þeim finst því lítil ástæða til að berjast fyrir auknum réttindum systra sinna, þar sem hinsvegar má búast við, að þær fái hlátur og hæðni fjöldans í launaskyni — að minsta kosti til að byrja með. Við verðum því að líta í aðra átt, til almennings, til kvennanna, sem vinna sjálfar fyrir sér. Til allrar hamingju er hjer hvorki skríll eða reglulegur höfðingjaflokkur. Mismunurinn verður því eigi sérlega mikill. Það eru til jafn-gáfaðar konur í bænda-, iðnaðarmanna- og verkmannastéttinni í sveitum og kaupstöðum eins og í æðri stöðum. Að vísu hafa þær minni þekkingu og almenna mentun, en þær verða þá að reyna að afla sér þekkingarinnar. En þá fá þær að finna til erfiðleikans og haftanna. Í baráttunni verður þeim ljósara og ljósara, að til þess að geta notað krafta sína fullkomlega verða þær að hafa áhrif á löggjöfina.
Ef vér sameinum okkur allar og komum með réttarkröfur vorar til þingsins, verður okkur vafalaust veitt áheyrn. Íslenzku þingmennirnir hafa vanalega tekið vel í málaleitanir vorar. Þeir ætlast að eins til, að vjer gerum sjálfar eitthvað, enda er það hið minsta, sem af oss er heimtandi. 


Stokkhólmur 1911 - Laufey Valdimarsdóttir og Inga Lára Lárusdóttir sóttu þingið

BrietogLaufeyIngaLaraLarusd

Frásögn af þinginu í Kvennablaðinu  10. ágúst og 31. ágúst 1911

Kvenna Stórþingið í Stockhólmi
I.
Eins og lesendur »Kvennabl.« vita, skyldi haldið hið 6. stórþing Alþjóða Kosningarréttarfélags kvenna í Stockhólmi í vor, dagana 11.-17. júní síðastl. Tveir fulltrúar voru kosnir af Kvenréttindafél. Ísl. til að mæta fyrir Íslands hönd, sem nú er upptekið í Alþjóða Sambandið. Þær voru frk. Laufey Valdimarsdóttir stud. mag. og frk. Inga L. Lárusdóttir, báðar við nám í Kaupmannah. Auðvitað var Kvenrfél. Ísl. svo fátækt, að það gat ekki kostað þær að neinu leyti, og Alþingi veitti heldur ekki neinn ferðastyrk, af því þar áttu konur í hlut, þótt það veitti einmitt ríflegan ferðastyrk handa tveimur karlmönnum til Frakklands, á líkt mót, og handa Bókmentafélaginu samskonar styrk til að mæta á fundi í Kristjaníu í sumar.
      Fundurinn hófst ekki reglulega fyr en 12. júní. En 11. júní flutti kvenpresturinn, hin fræga kvenréttindakona, miss Anna H. Shaw, prédikun í Gustafs Vasakirkjunni í Stockhólmi, sem var alveg troðfull af fólki. Svíar voru það frjálslyndari en Norðmenn, að þeir leyfðu henni kirkjuna. En í prédikunarstólnum mátti hún ekki standa, heldur við blómskreytt borð fyrir framan altarið. Hún lagði útaf því, að guð hefði gefið sitt orð í heiminn, og það hefðu verið konur, sem fyrstar hefðu meðtekið það og flutt boðskapinn út. Benti á fjöldamargar konur í biblíunni, einkum nýja testamentinu, sem það hefðu gert. Kristur hefði hvergi gert mun á körlum og konum; það hefði kirkjan gert, en hann ekki. - -
     Á mánudagsmorguninn var Stórþingið opnað kl. 10 í stóra salnum í veglegasta hótelli borgarinnar, Grand Hotel. Alt leiksviðið var skreytt með pálmum og blómum. Þar uppi sat stjórn Alþj.Samb., Mrs. Catt í miðju, og hinar stjórnarkonurnar beggja vegna við hana. Á bak við þær var heiðursgesturinn, skáldkonan Selma Lagerlöf; fulltrúi norsku stjórnarinnar, frk. Kristin Bonnevie, frk. Helena Westermark frá Finnlandi, fyrverandi þingmaður, og form. Kvenréttindalandsfélagsins sænska. Niðri í salnum sátu svo fulltrúar þessara 22 landa sem í Sambandinu eru, og aðrir þátttakendur fundarins, hvert land út af fyrir sig og einkendi flaggið fyrir framan stólaröðina frá hvaða landi hverar voru. Í instu röð voru: Ungverjaland, Austurríki, Ísland og Rússland. Framan við Ísland var að eins tvílitt merki: blátt og hvítt.
Þegar fundurinn var settur, ritarar komnir og ýmsir aðrir starfsmenn, afhenti Amerísk kona, ein af fulltrúunum, Mrs. Catt formannskylfuna frá Washingtonríkinu, sem nú í vetur veitti konum sínum kosningarrétt. Hún var silfurbúin og letrað á hana dagurinn og ártalið, þegar konurnar í Washington fengu kosningarrétt.
     Þá voru allir fulltrúarnir lesnir upp. Þegar nafn kvenprestsins Miss Önnu Shaw var lesið, þá stóðu allir upp, til að votta henni virðingu sína, fyrir alla hennar prestlegu og félagslegu starfsemi og mælsku í kvenréttindamálinu.
     Síðar um daginn var þingið opnað á hátíðlegan hátt í »Musikalísa« háskólanum. Leiksviðið var skreytt með pálmum, flöggum og blómum. Þar uppi sátu stjórnarkonur og ýmsar helztu konur fundarins, sömuleiðis allar þær, sem áttu að tala þetta sinn. Inst, bak við gestina, stóð söngflokkur Elsu Steinhammers. Þar bauð form. sænska landsfélagsins gestina velkomna.
     Meðal tilheyrenda á instu bekkjunum var utanríkisráðherrann Taube greifi.
     Ýmsir töluðu þarna. En þegar hæst stóð fundi, var fáni Alþj. Samb. borinn inn af tólf kvenstúdentum. Hann var úr hvítum silkidúk og saumaður með gullvír. Í honum stóð nafnið: »The International Women´s Suffrage Alliance« með gullnum saumuðum bókstöfum og í kring um þá sólin, sem var að koma upp. Gömul, sænsk kona, Lotten von Kræmer, hafði gefið féð fyrir flaggið. Þær staðnæmdust með fánann framan við leiksviðið. Öll flögg í salnum voru þá dregin niður og veifað og svo heyrðist alt í einu brúsandi hljóðfærasláttur og söngur. Það var kvennasöngflokkurinn frá Gautaborg, sem undir stjórn Elsu Steinhammers söng kvenréttindamarsinn eftir Alven, með texta eftir Ossian Nilsson. Að því búnu stóð Anna Kleman upp, formaður Stockhólms Kvenfél. og afhenti fánann. Mrs. Catt þakkaði öllum, sem þar áttu hlut að máli.
     Ýmsar konur töluðu og svo var þessi hluti af þingsetningarhátíðinni búinn. Um kvöldið var veisla á Hotel Royal, sem er áfast við Grand Hotel og var líka notað fyrir þingið.
     Tillögur og ályktanir á Stórþinginu voru margar. Skal hér getið þeirra helstu.
     Lagt til og samþykt að stækka »Jus Suffragii«, blað sambandsins, sem gefið er út í Rotterdam á ensku, og stjórnað er af Miss Martinu Kramer. Það hefir nú um 940 kaupendur í 27 löndum. — Ekki er það nú mikið.
     Þá kom fram fyrirspurn og tillaga um hvernig þau lönd, sem fengið hafa kosningarrétt og kjörgengi geti veitt hinum ríkjunum betri hjálp í baráttunni. Eftir að þetta hafði verið lengi rætt, voru eftirfylgjandi reglur teknar, sem verður að reyna fyrst um sinn:
     Útbreiða ummæli merkra karlmanna um konur og kvenréttindamálin.
Mjög æskilegt að þýða á hvert mál þingsályktun þá, sem Sambandsþingið í Ástralíu samþykti í vetur sem leið, og símaði til forsætisráðherra Englands, og útbreiða hana sem mest. — Noregur hélt því fram að mjög væri nauðsynlegt að fá prestana til þess að gefa gaum að þessu máli, og taka það með á dagskrá sína.
     Að fá blöðin til að vera málinu meðmælt. Í sambandi við umræðurnar um blöðin var rætt um allar þær öfgar og ósannindafregnir um konur og kvennamálin, sem árlega kæmu fram í fjölda blaðanna, og breytt væri út af mótstöðumönnum þeirra.
     Samþykt var að konur í hverju landi skyldu standa á verði til að reka öll slík ósannindi aftur, og leiðrétta allar missagnir í þeim efnum strax og færi gæfist. Ef efni sakarinnar væru ókunn yrði sambandsstjórnir Kvenréttindalandsfélaganna að setja sig í samband við þau landsfélög sem væru rægð, eða vissar konur úr þeim, og fá sér þannig áreiðanlegar upplýsingar til að láta svo í þau blöð og fl. sem flutt hafa missagnirnar.
     Byrjað var á því að mótmæla ýmsum þeim upplýsingum, sem prófessor Reuterskjöld hafði gefið í skýrslu sinni til sænsku stjórnarinnar, um áhrif af kosningarétti kvenna í ýmsum löndum. Finnland og ýms fleiri lönd mótmæltu þeim upplýsingum, sem hann hafði gefið þaðan um kvenréttindahreyfinguna og afskifti kvenna af landsmálum. Sömuleiðis fékk bæði sænska stjórnin, og prófessorinn, bréf frá stórþinginu með óánægju yfirlýsingu þess, yfir aðförum stjórnarinnar og prófessorsins.
     Mótmælt var að nefna það »Almennarn kosningarétt«, þótt allir fulltíða karlmenn hefðu kosningarétt, ef konur hefðu hann ekki líka.
     Ákvörðun var ger um það að skora á öll kvenfélög, sem vinni að pólitískum kosningarrétti kvenna, að taka höndum saman við kvenréttindafélögin í hverju landi, þegar kosningarréttarmálið liggi fyrir, eða sé sérstaklega á dagskrá þjóðanna (eins og t.d. hjá okkur Ísl. í haust og vetur).
     Tillaga kom fram um að láta semja skýrslur í hverju landi um alla stöðu kvenna þar, bæði í þjóðfélagslegu og fjárhagslegu tilliti. Nefnd var kosin. Í henni voru verksmiðju-umsjónarmennirnir, þær Vera Hjelt frá Finnlandi, Betzy Kjelsberg frá Noregi og Mrs. Cobden Sanderson frá Englandi.
     Tillaga kom fram um að láta semja yfirlit yfir réttarfarslega stöðu kvenna í ýmsum löndum.
Sérstaklega voru eftirtektaverðar skýrslurnar frá þeim löndum, sem veitt hafa konum pólitísk réttindi: Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Finnlandi, Noregi og 5 af Bandaríkjunum í Ameríku. (Síðar mun ýmislegt tekið upp úr þeim í Kvbl. til að sanna konum með dæmum og tölum að munnmæli ýmsra mótstöðumanna vorra séu öldungis rakalaus.
     Þá var rætt um afstöðu kvenréttindafélaganna í hverju landi gagnvart stjórnmálaflokkunum þar, og urðu um það brennandi umræður. Þó var mikill meiri hluti með því að ráða til að þau héldu sér algerlega utan við flokkana, þangað til konur fá pólitísk réttindi, þá geta þær tekið að ganga inn í þá flokka, sem þeim séu geðfeldastir og styðja þá, ekki fyrri. Einkum tóku enskar konur það mjög ákveðið fram, að þær konur, sem hefðu gengið inn í pólitíska flokka, hefðu verið stór þröskuldur í veginum fyrir framförum í kosningarréttarmálinu, og unnið því mikið ógagn, af því þær hefðu litið á málið eftir hagsmunum flokksins.
     Þá buðu bæði Austurríki og Ungverjaland að næsta Stórþing kvenna yrði haldið hjá sér, og var samþykt að það skyldi haldast eftir tvö ár í Budapest.
     Ýms símskeyti voru send, þar á meðal eitt til háskólans í Reykjavík 17. júní. Það hljóðar svo:
»Convention of International Woman's Suffrage Alliance in Stockholm sends heartly congratulation to new Iceland University upon giving women equal rights and opportunities with men«.
     Á íslenzku:
     »Þing »International Women's Suffrage Alliance« í Stockhólmi, sendir hjartanlega hamingjuósk til nýja íslenzka háskólans, sem gefur konum jafnan rétt og möguleika sem körlum«.
     Síðar verður nákvæmar minst á fundinn.II.
Þing þetta sáu um 1200 manns, þar af um 500-600 fulltrúar bæði reglulega kjörnir fulltrúar sambandslanda, og sérstakir systrafulltrúar, sem hafa sama rétt til að sitja þingið og taka þátt í umræðum, en hafa hvorki atkvæðisrétt né tillögurétt. Fáeinir karlmenn voru, þar af 8-9 fulltrúar frá kvenréttindafélögum karlmanna. Frá Íslandi voru tveir fulltrúar frá Kvenréttindafélagi Íslands, þær frk. Laufey Valdimarsdóttir og frk. Inga Lára Lárusdóttir, prests frá Selárdal, sem báðar voru í Kaupmannahöfn.
     Móttökunefndin í Stockhólmi hafði látið það boð út ganga að tveir fulltrúar frá hverju landi yrðu teknir frítt, sem gestir inn á heimli í Stockhólmi, meðan þingið stæði yfir.
En þegar hún frétti að til stæði að þriðji fulltrúinn mundi koma héðan að heiman, þá ritaði hún hinum fulltrúunum frá Íslandi og sagði að frá Íslandi væru velkomnir þótt það væru 3 eða 4 fulltrúar, til að verða gestir þeirra. Því miður fórst það fyrir, að þessi kona héðan að heiman, sem þó fór um sömu mundir til Svíþjóðar, og kjörin hafði verið til að mæta á fundinum, gæti verið þar viðstödd.
Öllum ber saman um gestrisni, rausn og höfðingsskap sænsku kvennanna. Dagskráin hafði áður verið send hverju landi, og á henni stóðu allar þær skemtanir, veislur og skemtiferðir, sem gestunum var ætlað að taka þátt í. Ætlast var til að formenn landsfélaganna í hverju landi væru sjálfsagðir á fundinum, og voru ýms boð, sem þeim einum var boðið í með Sambandsstjórninni sjálfri. Kæmu þeir ekki, áttu þeir að setja einhvern staðgengil fyrir sig.
     Þegar fulltrúarnir komu var tekið á móti þeim á járnbrautarstöðinni, og þeim fylgt þangað, sem þeir áttu að búa. En allir þeir, sem frítt bjuggu, fengu aðgöngumiða til að éta morgunverð og miðdagsverð á Hotel Grand, fínasta hóteli borgarinnar. — Ekkert var tilsparað.
     Veizlur voru allmargar, og voru ýmsir af fulltrúunum í þeim öllum. En þar af voru fjölmennastar fyrsta veizlan á Hótel Grand Royal og skilnaðarveizlurnar á Hasselbacken og Saltsjöbaden. Ýmsar sænskar konur héldu og stórveizlur fyrir marga af fulltrúunum. Auk þess voru þeir boðnir skemtiferðir út til hinnar frægu miðaldaborgar Visby, af forstöðukonu kvenréttindafélagsins þar, sem kostaði alla ferðina. Þangað var eiginlega ekki boðið nema stjórn Alþjóða-Sambandsins, formönnum landsfélaganna, ef þeir voru á þinginu, og örfáum öðrum, alls 34 konum, enda er það dýr ferð, kostar venjulega farið með skipum fram og aftur 15 krónur pr. mann. Til merkis um hvað íslenzku fulltrúunum var allstaðar þar tekið vel, má geta þess að þeir voru báðir boðnir með, og var það hin fróðlegasta ferð og ágætasta skemtun. Þar voru gestirnir heilan dag, og var sýnt alt hið merkilegasta af gömlum miðaldaleifum, kirkju og klaustrarústum m.m.
     Þá bauð kvenréttindafélagið í Uppsölum fulltrúunum þangað og hélt þeim þar miðdagsveizlu. Þótti öllum, og ekki sízt íslensku fulltrúunum merkilegt að sjá hinn gamla fræga sögubæ, sem vér þekkjum svo vel frá gömlu sögunum okkar. Var þar skoðaður háskólinn og hin gamla veglega gotneska dómkirkja, sem geymir bæði marga af merkustu konungum Svía, t.d. Gustav Vasa og Gustav Adolf og ýmsa frægustu hershöfðingja og þjóðmálaskörunga Svíþjóðar, fána úr stríðum þeim, sem Svíar hafa átt í t.d. úr 30 ára stríðinu, og krýningargersimar Svíakonungs. Margir töldu þennan dag ekki sístan af öllum þingfagnaðinum.
     Öllum ber og saman um það, að þetta þing væri samsett af flestum ágætustu konum heimsins, sem frægar eru margar hverjar fyrir mentun, lærdóm og dugnað í ýmsum greinum. Þar hélt hin fræga skáldkona Selma Lagerlöf langa ræðu, fyrir troðfullri konunglegu sönghöllinni af áheyrendum.
Við íslenzku konurnar megum vera þakklátar fyrir þær viðtökur, sem fulltrúarnir okkar fengu, ekki einungis fyrir þá persónulegu vinsemi, sem þeim var sýnd, heldur þá óvanalegu viðurkenningu sem Íslandi var hvervetna sýnd fyrir þeirra hönd. Í fyrirlestri þeim, sem Laufey Valdimarsdóttir hélt hér um fundinn, sagði hún að við hvert tækifæri hefði Ísland verið talið með, sem hið fimta af Norðurlöndum. Í einni ræðunni var Norðurlöndum líkt við stjúpmóðurblómið með sínum fimm mismunandi stóru blöðum. Því eigum við ekki að venjast, Íslendingar. Þegar menn telja Norðurlönd, þá vita þeir aldrei af Íslandi, sem þó eitt hefir varðveitt tungu þeirra og sögu til fulls.
     Á fundi þessum var stofnað alþjóða sambandsfélag karlmanna til að berjast fyrir kosningarrétti kvenna.
     Næsta stórþing Alþjóðasambandsins verður haldið í Buda-Pest 1913. Kvenréttindafélagið þar tekur til á hvaða tíma árs það verður.

Líklegt var að Alþingi hefði veitt einhvern ferðastyrk til þessara ferðar, ekki síður en það kostaði tvo menn á Norðmandíhátíð Frakka, og einn á háskólahátíð Norðmanna frá Bókmentafélaginu. Auðvitað mátti það sjálfsagt heita, að taka því boði, einkum þar sem jafnþektur vísindamaður var til fararinnar valinn og prófessor Björn M. Olsen. En sjá mættu þingmenn það, einkum þeir sem mest vilja útbreiða þekkingu um Ísland, að ekki er þýðingarlaust að Ísland hafi fulltrúa á slíkum allsherjar kvennafundum.
Kvenréttindafélag Íslands hefir gert sitt til að gera land vort kunnugt í útlöndum og löggjöf þess. Frá því, eða meðlimum þess, hafa verið sendar skýrslur á slík allsherjar kvennaþing, sem haldin hafa verið í Kaupmh. 1906, í Amsterdam 1908, í Lundúnum 1909 og í Stockhólmi 1911. Þessar skýrslur hafa verið prentaðar með öðrum skýrslum í þingtíðindunum, og þær útbreiddar og lesnar því nær um allan hinn mentaða heim. Menn hafa þannig fengið að vita að Íslendingar væru sérstök þjóð, með sérstakri löggjöf, því að eins þær sérstöku þjóðir, sem hafa löggjafandi þing, hafa rétt til að vera í Sambandinu.
Auk þess hafa menn kynnst mentunarástandi og löggjöf vorri í gegn um skýrslur þessar í ýmsum efnum. Og þar er óhætt að fullyrða að sú þekking hafi aukið á virðingu fyrir þessari litlu þjóð.
Það er mikið efamál hvort þeir fulltrúar, sem sendir hafa verið út í heiminn af Alþingi, og kostaðir af almennafé hafa kynt land vort með meira eða gert því meiri sæmd, en Kvenrétt.fél. Íslands hefir gert bæði með skýrslum sínum og sambandi við erlend kvenfélög á ýmsan hátt. Auðvitað mætti gera það betur ef fé væri meira fyrir hendi.
Einhvermtíma kom fram sú tillaga á Alþingi, gott ef ekki var frá Jóni Ólafssyni ritstjóra, að veita fé handa einhverjum til að rita í útlend blöð og tímarit um Ísland og kynna það þannig, Á því er auðséð að jafnvel alkunnir menn, sem víða hafa farið og þekkja til, álíta að slíkar ritgerðir séu þess verðar, að þær séu borgaðar af landsfé.

Skýrsla KRFÍ - IWSA þingtíðindi, Report of sixth Congress. London, 1911, bls. 111-113

NATIONAL WOMEN'S RIGHTS ASSOCIATION
Briet Asmundsson, President

As we mentioned in our last report, 1909, we have obtained universal communal suffrage and eligibility for all people eligible. Since then the number of women elected to town councils and to several municipal boards continually increases, although this is not so common as desirable.
     In the last year Iceland's National Women's Rights Association has not expanded much, because it lacked money to send a lecturer around the country. Travelling about is very difficult and expensive in Iceland, and scarcely possible except in summer. Yet one new association has been formed, and has joined the national organisation. It is the first country W.R.A. The other branches are in the towns.
     To show the change of public opinion concerning women it is noteworthy that a woman has become mistress of the communal school in Akureyri, one of the greatest communal schools in Iceland, although many men applied for the position. She gets the same salary as men in an equal position. Another significant fact is that the mass-book has been revised, and every word that could hurt women omitted.
     Before the meeting of the Althing, which took place on the 15th of February this year, the N.W.R.A. had directed the Association on all the electoral districts to agitate for Woman Suffrage in all the meetings of electors. According to this programme, in almost every meeting a resolution was passed demanding political rights for women on the same terms as men, eligibility to all State offices, and the same right as men to get education and scholarships in the higher schools.
     When the Althing assembled, in conformity with these resolutions, a Bill which gave women the right to higher education, scholarships, and to all State offices, was introduced by H. Hafstein, the former Minister, and was passed. It is the first time, I believe, in any country with a Lutheran State Church, that women have got admission to the clerical offices. The Bishop of Iceland mentioned this new Bill in the Churchpaper, and said that if St. Paul had lived in our times he would have been the first to consent to this Bill.
     As no government Bill for the revision of the constitution was introduced, two party Bills were introduced. The difference between them was that the one proposed to give universal suffage to all men 21 years of age, while to women the suffrage might be given later by a special law, so that a revision of the constitution should not be needed to give women suffrage. The other Bill proposed to give universal suffrage to all men and women 21 years old, but to limit the election to the first Chamber to some degree. These Bills were debated. It was moved that at first only women at the age of 40 should get the vote, and then yearly put down the limit of age, so that in 15 or 19 years all women 25 or 21 years old might get it. In the second reading it was moved by H. Hafstein to give all women as well as men, 25 years old, universal suffrage, and this was carried with the amendment that the vote to the first Chamber should be given only to voters of the age of 30 and upwards. The members of the first Chamber should be elected by the proportional system of election for twelve years. This was the chief point at issue.
     On the 6th of May the constitution was passed. Then the Althing was dissolved, and new elections will take place in the autumn. In the extraordinary assembly of the Althing in 1912 the constitution will be discussed a second time, and if it then passes unaltered it only needs the assent of the King of Denmark to become law.
     Again the Althing will be dissolved so that the new voters may be allowed to use their vote, and we have reason to hope that in the Congress of the I.W.S.A., 1913, we can come as political voters from Iceland.
     The N.W.R.A. has tried its best to awaken the interest of the members of the Althing in the cause. Kvennablaðið (the women's paper) has agitated for it.
     It is characteristic of Icelandic conservatism, that one of the most conservative of the members of the Althing said that although in his opinion women should have waited some years yet, still their voices had become so loud that they ought to be listened to. The Althing received an address of thanks from the Central Board of N.W.R.A., and also from several other women's associations. The Chief President of Althing, Skúli Thóroddsen, read these addresses at the dissolution. The women of Iceland have reason to be thankful to the liberal-minded Althing, and especially to Skúli Thóroddsen, who for many years has been an ardent suffragist, and to Hannes Hafstein, who fought bravely for our cause in this Althing. We are very proud of the Icelandic men.

Lýsing á íslensku fulltrúunum á þinginu  - Úr bókinni Journey towards Freedom. Written for the Golden Jubilee of the International Alliance of Women. By Adele Schreiber and Margaret Mathieson. International Alliance of Women. Copenhagen, 1955, bls. 16.

Iceland and Serbia were the two countries to join the Alliance at Stockholm. This time Mrs Asmundsson sent her daughter, Laufey, and Miss Inga Benedictsson [Inga Lára Lárusdóttir] as delegates. And again they received a special welcome as they appeared wearing the national costume with the golden crowns and white veils over their long hair.
Mrs Asmundsson's report was read by her daughter, and told of several suffrage bills coming before Parliament, one with the strange proviso that the vote should be given to women of forty, and that yearly the limit should be reduced by a year, so that in nineteen years women of twenty-one could vote. Women were hopeful owning to the favourable change in public opinion, and the Lutheran Bishop of Iceland had announced the admission of women to the clerical offices. Even one of the most Conservative members of parliament had admitted that as women's voices had become so loud they ought to be listened to. The President of Iceland was himself an ardent suffragist, "and so", the report concluded, "we are very proud of our men."


Búdapest 1913
BrietogLauefyogBoyleBúdapest 1913, Lögrétta 160813
Frásögn af þinginu í Kvennablaðinu  - Kvennablaðið júní, 30. júlí, 30. ágúst og 30. september

Kvenréttindaþingið í Buda-pest

Eins og lesendum Kvbl. er kunnugt, þá var ákveðið að halda stóra tveggja daga fundi á leiðinni til Buda-Pest, þar sem þeir fulltrúarnir, sem gætu mætt, væru boðnir og velkomnir. Fundarstaðirnir voru: Berlin 5-6. júní, Dresden 7-8., Prag 9-10. og Wien 11-12. Á öllum þessum stöðum var óskað eftir, að sem flestir af fulltrúunum yrðu með. Og frá Wien hafði öllum verið sent sérstakt prenað heimboð, með tilboði um »inkvartering«, fyrir þá sem það vildu.
     Hvorki eg, né Laufey dóttir mín, sem líka átti að vera fulltrúi frá Kvenréttindafélagi Íslands, gátum komið því við að fara á alla þessa fundi. En til Wínar, hinnar gömlu frægu höfuðborgar Austurríkis vildum við þó koma. Þaðan höfðum við líka fengið sérlega vingjarnleg bréf. Þar vissum við af íslenzkri konu. barónessu Ástu v. Jaden, sem við þektum dálítið frá Reykjavík, og vildum gjarnan finna, og síðast en ekki sízt, þar vissum við að var svo margt að sjá og heyra, borgin svo fögur og umhverfið, listaverk og söfn — að fram hjá henni máttum við ekki fara.
     Við lögðum af stað frá Khöfn með hraðlest kl. 11 árd. þann 10. júní, og áttum eftir áætluninni að vera komnar til Wínarborgar kl. 12 og 25 mín. daginn eftir. Þá um kvöldið átti að vera veizla, sem kvenréttindanefndin þar hafði boðið öllum fulltrúunum til. Daginn eftir átti að keyra okkur allar í bifreiðum og vögnum um borgina til að sýna okkur hana. Kl. 4 voru allir landsformennirnir og margir fleiri boðnir í samkvæmi sem »Wien Mode« hélt fyrir okkur í Stadtparken. Um kvöldið átti að vera stór fundur, þar sem margar helztu ræðukonurnar áttu að tala. — Svona hljóðaði dagskráin. — Við mæðgurnar höfðum fengið bréf til Hafnar frá skozkri konu, búsettri þar í borginni, sem bauð okkur að búa hjá sér, og ætlaðu hún að sækja okkur á brautarstöðvarnar. Útlitið fyrir okkur var því alt hið bezta. —
     Lestin, sem við vorum með, gekk beina leið yfir Berlin — Dresden — Prag til Wien, en stóð hvergi við, sem talist gat, nema 1½ tíma í Berlin. Þaðan fórum við um kvöldið kl. 11 og áttum að halda áfram um nóttina. Þótti okkur skaði að geta ekki farið um hina »saxneski Sviss«, um hádaginn, þar sem landslagið þar með Saxelfunni er af öllum sagt svo fagurt.
     En á ferðum með eimlestum sofa menn ekki sem reglulegast, svo við gátum notið talsverðs af fegurðinni.
     Þegar til Wínar kom fundum við engan fyrir á járbrautarstöðvunum til að sækja okkur, og keyrðum við því beina leið í bifreið þangað sem við áttum að búa. Var frúin þá úti að leita að okkur. Hafði og ekki hugkvæmst að grenslast eftir á hvaða brautarstöðvar við kæmum, og fórumst við því á mis.
En öll slík smáóhöpp krydda bara ferðalagið.
     Við höfðum langa leið að keyra yfir borgina endilanga, með því við áttum að búa úti við Schönbrunn í fallegu »villu«-hverfi. En svo þreyttar vorum við, eftir þessa 28 stunda járnbrautarferð, að við tókum varla eftir neinu slíku. Að eins hús það, sem við áttum að búa í, vakti sérstaka eftirtekt okkar. Það var stórt hvítt steinhús með stórum trjám báðum megin við innganginn og alveg óvanalega skrautlegt af prívathúsi að vera. — Það fór heldur en ekki að hýrna yfir okkur.
     Og viðtökurnar sem við fengum voru eftir því. Það var ekki eins og verið væri að taka á móti ókunnum útlendingum, heldur gömlum og góðum vinum. Slík alúð og umhyggja hafði verið borin fyrir okkur. Ekkert það, sem okkur gat verið til þæginda, vantaði í hið stóra og skrautlega herbergi, sem okkur var fylgt inn í. Jafnvel nálar, tvinni, tölur og bendlar voru þar. Alt slíkt sem konum oft kemur vel að geta náð í á ferðalagi. Engu slíku hafði húsmóðirin gleymt.
     Heimboðsmiðarnir í veizluna um kvöldið fyrir okkur, voru þar hjá húsmóðrinni, sem sjálf var í móttökunefndinni, og vagn með tveim hestum fyrir, og vagnstjóri stóð okkur til boða, hvert sem við vildum fara. En við vorum svo þreyttar að við vildum helzt hvíla okkur. Auk þess hafði það óhapp komið fyrir að ferðakoffort mitt kom ekki fyrir og taldi stöðvarstjórinn sjálfsagt, að það kæmi með lestinni um kvöldið, enda fekk eg það heim til mín þá kl. 8½. En veizlan byrjaði kl. 8, og við vildum ekki mæta þar í rykugum ferðafötum, þótt menn segðu, að slíkt gæti vel gengið. En Wínarkonur eru taldar skrautkonur miklar, og vissum við því, að gestirnir mundu tjalda því sem þeir hefðu bezt til á ferðalaginu. Enda þóttist eg vita að mínum kæru vinkonum í Reykjavík, sem svo mikla umhyggju höfðu borið fyrir ferð minni, mundi ekki verða létt um hjartað ef þær vissu, að eg væri þar í gráum ferðafötum. Við sátum því heima og hvíldum okkur um kvöldið.
     Daginn eftir lá fyrir okkur boð að keyra um bæinn. En með því það var á sama tíma og boðið hjá »Wínar Mode«, þá gátum við ekki notað okkur það. Veðrið var líka leiðinlegt, regn og stormur, og við ætluðum að standa við þar í borginni á heimleiðinni, svo við létum það sitja fyrir að fara í samkvæmið sem byrja átti kl. 4 síðd. í »Kursalonen i Stadtparken« þar í borginni, sem er mjög skrautlegur. Var fyrst til skemtunar fjórraddaður kvennakór, af helztu söngkonum borgarinnar. Lögin voru eftir Schubert og Lanner. Undirspilið lék einn af helztu píanóleikurum bæjarins. Síðast las ein alþekt listakona bæjarins upp, kvæði og óbundið mál.
     Meðan á þessu stóð sátum við gestirnir við mörg borð og voru allskonar hressingar og góðgæti á boðstólum. Voru þarna saman komnir formenn flestra landsfélaga þeirra, sem eru í Alþjóðasambandinu, og ýmsir aðrir helztu fulltrúar þeirra, auk ýmsra listakvenna borgarinnar, rithöfunda o.s.frv.
     Varð okkur gestunum einkum starsýnt á Wínarkonurnar, sem svo mikið er látið af fyrir háttprýði og framgöngu. Mátti þar sjá margar fríðar og skrautklæddar konur, og myndi ýmsum ungu tízkudömunum okkar heima, hafa þótt miklu máli skifta að sjá, að þótt allar telji þessar konur sig með kvenrétindamálunum, þá fyrirlíta þær hvorki fagra búninga eða nýja tízku.
     Þegar við höfðum etið og drukkið, þá komu ljósmyndarar »Wínar Mode« og báðu ýmsar okkar að vera svo vænar að standa í hópum á tröppunum sem liggja út í hinn fagra skemtigarð borgarinnar. Myndirnar áttu síðan eflaust að koma út í »Wínar Mode«.
     Um kvöldið kl. 7 hófst hinn stóri fundur, þar töluðu margar helztu ræðukonurnar, t.d. frú Heinez, sem er fyrir kvenréttindahreyfingunni í Austurríki, ungrú A. Shaw, kvenpresturinn ameríski, frú M. Shitt, frá Berlín, sem ég sá hér í fyrsta sinni. Stendur hún fyrir kvenréttindafélaginu í Þýskalandi, og gefur út kvennablað þeirra. Á fundinn hafði komið símskeyti, með þær gleðifréttir að nú hefði Stórþing Norðmanna þá daga, veitt norskum konum fullkominn almennan kosningarrétt, eins og karlmönnum Var þá kallað hvað eftir annað í norsku fulltrúana, einkum hina gömlu frú Qvam, sem var stjórnarfulltrúi. En hún var ekki á fundinum. Var þessari fregn tekið með dynjandi lófaklappi.Júní.

Við höfðum um daginn heilsað í flýti upp á baronessu Ástu v. Jaden, og hafði hún boðið okkur af fundinum að koma með þeim hjónunum inn á hótel þar skamt frá. Skyldi hún mæta okkur á fundinum.
Þaðan fórum við svo um kvöldið yfir í hótelið. Var þar fallegur matsölu og kaffistaður í kjallaranum, og hafði allur salurinn verið pantaður áður um kvöldið handa kongressgestunum til kvöldmatar. Uppi var alt ákaflega fínt og dýrt, enda var sagt, að þar stæði alt autt og tómt venjulega, þótt fullt væri niðri, líklega af því að niðri væri ódýrara.
     Um kvöldið eftir fundinn komu svo allir gestirnir þangað, og auðvitað móttökunefndin með. Var þar glaumur og gleði, ræður og músik til kl. 12 um kvöldið.
Veitti þá ekki af að flýta sér heim, með því við áttum að vera komnar ofan á skip á Dóná kl. 8 um morguninn. Urðum við því að fara á fætur kl. 5½, því fyrst varð að borða og taka sig upp, og svo klukkustundar keyrsla frá okkur, yfir endilanga borgina ofan að skipinu.
     Veðrið var suðrænt, sólskin, logn og hiti. Var fagurt mjög að litast um frá skipinu til borgarinnar. Þegar frá dó komu blómleg lönd á báðar hendur, en lengra í burtu gnæfði við loft hinn fagri „Wienerwald“, með snjó á hæstu kollunum, og þótti okkur það ekki alllítil prýði. Sumstaðar sást fólk við heyskap, eða víngarðar upp í brekkunum hingað og þangað.
     Áin sjálf braust áfram þung og straummikil niðri, en lygn að sjá ofan á. Ekki fanst mér hún eins breið og ég hafði búist við. Miklu mjórri en sumar stærstu árnar okkar. En auðvitað greiðari yfirferðar skipum, þar sem botninn virtist vera góður, og engar flúðir eða fossar gerðu vart við sig.
     Á skipinu hitti eg ýmsa gamla kunningja, og voru þó sumir komnir á undan til Buda-Pest og sumir ókomnir enn. Við vorum á að gizka um 500 þarna á skipinu. Varð varla stigið fæti niður á þilfarinu milli stólanna. Sátu þar magar konur með vasabækur sínar og skrifuðu af kappi ferðasögur sínar í blöðin heima, sem þær ætluðu að senda strax um kvöldið. Annar salurinn uppi á þilfari var einmitt ætlaður fyrir skrifstofu handa fréttariturunum. Niðri var borðsalurinn og dálitlar svalir utan með.
     Ekki er eg viss um að öllum hafi orðið mikið úr skriftunum. Svo margt bar fyrir augun. Fagurt hæðótt og frjótt land, með borgum og bæjum á báðar hendur. Sumstaðar gnæfðu gamlar hallir og kastalarústir við loft. — Hingað og þangað lagðist skipið að landi, og þá bættust fáeinir farþegar við. En hvergi var unt fyrir okkur að koma á land.
     Báðu megin árinnar sáum við til þjótandi eimlesta, sem liðuðust áfram eins og geysimiklir höggormar, sem hvæstu reyk og eldi út úr sér. Þessar eimlestir eru líka skjótari í ferðum en skipin, því þær fara á 4½ tíma, það sem við vorum að stritast við í 13—14 kl.stundir.
     Það var ekki lítil gleði á ferðum, þegar við sáum ljósið í hinni fyrirheitnu borg. Og ekki þótti okkur heldur ónýtt, þegar við komum að fyrstu brúnni á ánni, og strompurinn á skipinu hallaðist alt í einu hægt út af niður að þilfari með við sigldum undir brúna. —
     Kl. 9½ lögðum við að landi. Komu þá þegar ýmsar konur úr móttökunefndinni út á skip. Þar á meðal okkar allra óþreytandi forsjón þar við kongressinn, frk. Rosíka Schwimmer. Potturinn og pannan í öllum undirbúningnum; lífið og sálin í hinu unga, fjöruga kvenréttindafélagi í Budapest.
     Bryggjan sem við áttum að ganga upp, var öll lögð rauðum dúkum, og alt í kring skreytt með flöggum og fánum. Í bryggjuhúsinu, þar sem farangur okkar var fluttur í, biðu okkar ungar ljósklæddar konur, með hvíta og gula borða um hægri handlegginn. Það voru túlkar okkar og fylgdarkonur um borgina. Fylgdu þær okkur heim til hótellanna, útveguðu okkar vagna og sáu um, að farangur okkar kæmi til skila, og höfðu auga á hverjum fingri fyrir okkur, og skildu ekki við okkur fyr en við vorum komnar með heilu og höldnu heim á hótelherbergi okkar.
     Við dóttir mín áttum að búa í spánýju hótelli, „Britanía”. Höfðum við þegar fengið þar ágætt hrbergi og urðum fegnar hvíldinni, þótt lítið hefðum við haft að gera um daginn. En svo margt hafði borið fyrir augu og eyru okkar, að við vorum dauðþreyttar. — Þegar inn kom fórum við að yfirlíta dagskrána. Fundurinn átti að byrja þ. 15. júní. En ekki var þó til setu boðið þann 14. júní. Kl. 9 átti eg að vera komin ofan í Kongressbygginguna á fund með öllum formönnum landsfélaganna, til að skrifa undir beiðni okkar til Mrs. Catt, að halda áfram, að vera formaður okkar. Kl. 3—6 átti öllum fulltrúunum að vera fylgt um bæinn í vögnum, til að sýna þeim alt hið merkasta í borginni. En við veslings langsfélaga-formennirnir áttum að mæta kl. 4 á fundi hjá mrs. Catt, til að koma okkur saman um ýms mál, sem Kongressinn átti að taka fyrir. Um kvöldið kl. 8½ áttum við að vera í veislu með stjórn Alliancen's og móttökunefndinni í Budapest.

30. júlí

Aldrei hafa alþjóða-kvenréttindaþingin verið jafnfjölsótt eins og þetta þing í Budapest. Þegar það var sett, sunnudaginn 15. júní, þá höfðu þegar 2800 þátttakendur gefið sig fram og síðustu dagna var sagt að þátttakendur væru orðnir um 4000. Reglulegir fulltrúar frá sambandsfélögum voru um 250, og boðnir systrafulltrúar frá ýmsum löndum, ásamt konum, sem eru prívat-meðlimir í Alþjóða-Sambandinu (og borga sama gjald og hvert sambandsland 1 pd. sterl. sem ekki hefir yfir 2500 meðlimi) og systrafélagar allir, voru líka um 250, en flestir hinir þátttakendurnir voru að eins áhorfendur, auk nokkurra heiðursgesta.
     Sunnudaginn 15. júní var þingið byrjað með guðsþjónustu í lútersku kirkjunni í Ofen. Kvenpresturinn dr. Anna Shaw hélt ræðuna. Kirkjan er lítil enda komst ekki helmingurinn inn af öllum þeim, sem ætluðu sér að vera þar viðstaddir.
     Hin opinbera þingsetning fór fram kl. 4 sd. 15. júní í hinum fagra hátíðasal í „musik“-háskólanum, sem var alveg troðfullur. Enda var ekkert undarlegt að svo væri, þar sem svo margt hátíðlegt var á dagskránni. Fyrst og fremst lék hinn frægi hljóðfæra-söngflokkur þjóðleikhússins í Budapest hátíðasöng, sem gerður var fyrir þetta tækifæri af dr. Olador Rényi, og það eitt hefði eflaust nægt til þess að fá hina söngelsku Ungverja til að fjölmenna við þetta tækifæri. En þar var fleira á dagskránni. Kvæði ort fyrir þetta tækifæri af Emil Ásbányi, flutt á ungversku af leikkonunni Maríu Jázai frá þjóðleikhúsinu, en lesið upp á ensku af leikkonunni Erzsi Paulai frá þjóðleikhúsinu. Þá buðu gestina velkomna þær greifafrú Teleki formaður í móttökunefndinni og Vilma Gluklich, formaður í kvenréttindafélaginu í Ungverjalandi. Þá skyldi dr. Bèle de Jankovics fræðslumálaráðherra bjóða okkur velkomnar fyrir stjórnarinnar hönd og dr. Stephan de Bàrezy, borgarstjóri í Budapest, fyrir hönd borgarinnar. Frú Anna Lindemann, 3ji vararitari í Alþjóða-sambandinu skyldi þakka fyrir þess hönd og svo skyldi Mrs. Catt halda sína stóru forseta yfirlitsræðu.
     Dagskránni var auðvitað fylgt. Hljóðfæraflokkurinn lék af mestu snild og leikkonurnar lásu upp kvæðið. Okkur var sagt, að Maria Jaszai, sem las það upp á ungversku, væri einhver hin frægasta leikkona við þjóðleikhúsið í Budapest. Hún var í gömlum ungverskum hefðarkvennaþjóðbúningi úr dökkrauðu flaueli og mjög gullsaumuðum. Var hann að fegurð líkastur íslenzka þjóðbúningnum að því leyti, hve smekklegur og tignarlegur hann var og laus við þann grímubúningsblæ, sem svo oft fylgir þjóðbúningum.
     Nú skyldi samkvæmt dagskránni formenn móttökunefndarinnar og kvenréttindafélagsins í Budapest halda velkomnunarræður sínar. En — í stað þess ganga inn á hápallinn heil fylking hvítklæddra barna, bæði telpur og drengir, með stóra rósavendi í hendi. Fremsta telpan 10-12 ára smámey, hélt á blómskreyttum staf. Þau ganga öll tvö og tvö saman fram fyrir Mrs. Carrie Chapmann Catt, hneigðu sig og lögðu blómvendi sína við fætur hennar. Litla stúlka sem fyrst gekk nam svo staðar og hélt stutta ræðu og þakkaði mrs. Catt alt það erfiði, sem hún hefði fyrir að búa þeim ungu betri lífskjör, kvað þau skilja það, þótt ung væru, og hét að þau vildu jafnan halda hennar störfum áfram þegar þau kæmu til vits og ára. — Þessi hylling barnanna fór svo fallega og eðlilega fram, svo laust við alla tilgerð, að flestir fengu tár í augu. Sjálf tók mrs. Catt við blómum og hyllingu barnanna brosandi, með tárvot augu og kvaðst aldrei hafa fengið áður svo fallega kveðju.
     Þá kom að því að fræðslumálaráðherrann byði okkur velkomnar og þótti það mörgum hátíðlegt augnablik að sjá og heyra bæði hann fyrir landstjórnarinnar hönd og borgarstjórarnn bjóða sambandsþing kvenréttindakvenna frá öllum heiminum, velkomið. Slíku höfum við ekki hingað til vanist, að landsstjórnir og stórborgastjórnar sýndu okkur þá virðingu. Er það eitt af því marga, sem sýnir hvernig skoðanirnar á þessum málum eru að breytast í heiminum.
     Þá hélt mrs. Catt forsetaræðu sína með yfirliti yfir það, sem gerst hefði í heiminum síðan á stórþinginu í Stockhólmi 1911. Ísland taldi hún með allra frjálslyndustu löndum og tók það fram, að það hefði ekki verið kosningaréttur kvenna, sem staðið hefði stjórnarskrármálinu í vegi 1912 heldur það að ýms önnur mál hefðu fléttast þar saman við. „Stjórnarskránni hefði því verið heiðarlega frestað“.
Sem merki um það hvað íslenzka stjórnin og þjóðin væri jafnréttismálum vorum kvenna vinveitt, taldi hún fjárveitinguna til Kvenréttindafélagsins handa fulltrúa þess. En þá þótti okkur íslenzku fulltrúunum koma furðulegar fréttir, þegar hún sagði, að „af því að ekkert fé hefði verið fyrir hendi, þá hefði þessi styrkur verið veittur af póstfé Íslands, svo þetta ár hefði Ísland einni póstferð færra“. — Okkur varð hverft við. Fyrir framan hápallinn, þar sem mrs. Catt stóð á, sátu blaðamenn og féttaritarar frá nær því öllum löndum heimsins og svo færu þeir að flytja þessa dómadags vitleysu! Að taka fram í var ekki hægt við svona hátíðlegt tækifæri, sjálfa þingsetninguna, það hefði verið stórhneyxli. En eftir fundinn kom ein af fundarkonunum og spurði hvort við hefðum tekið eftir þessu. Og þegar við furðuðum okkur á þessu, þá sagði hún, að eitthvað líkt þessu hefði verið skrifað héðan frá Reykjavík, og vísaði okkur á konuna sem bréfið hefði fengið. Hjá henni fengum við svo að heyra hvernig á þessu stóð og skildist mér hún leið yfir því að hafa flutt bréf þetta til formanns móttökunefndarinnar í Budapest. Því hún gerði það, veit ég ekki. Þótt það liggi nærri að ímynda sér, að hún hafi beinlínis gert það að undirlagi bréfritarans, til þess að leitast við að hafa áhrif á skoðanir manna um íslenzka fulltrúann. En til allrar hamingju hafði þetta bréf alveg gagnstæð áhrif við það, sem tilgangur þess auðsjáanlega var.
     Auðvitað fórum við þegar til mrs. Catt og komum henni í skilning um hvernig féð hefði verið veitt og skildi hún það fljótt, með því svo væri jafnan alstaðar annarsstaðar, þegar einhver útgjöld bæru að hendi, sem ekki væri ráð fyrir gert á fjárlögum. Sömuleiðis komum við leiðréttingu til flesta fulltrúanna og blaðamannaskrifstofunnar. Þessi misskilningur kom því hvergi fram í nokkrum blöðum, sem við vissum til, þar suðurfrá.
     Um kvöldið kl. 8 voru svo allir þingfulltrúarnir beðnir í konunglega leikhúsið og þeim gefin beztu sætin. Leikurinn var „Kvennabúrið“ eða „Lausn úr kvennabúrinu“ og sýndi stúlku, sem var uppáhaldsambátt í kvennabúri einhvers höfðingja. Hún var ástfangin í öðrum manni og hann í henni. En húsbóndi hennar komst að því og fór mjög illa með hana. Við sáum hana skríðandi á hnjánum fyrir fótum hans og hann kasta henni til og frá. En að lokum gaf hann henni frelsi og hún fékk unnusta sinn. Leikurinn var ágætlega leikinn, en auðvitað skildum við ekki nokkurt orð, því alt var talað og sungið á ungversku. Á eftir var leikinn stuttur söngdansleikur (ballett). Við komum ekki heim fyr en kl. 1 um nóttina.
     Þann 16. hófst þingið fyrir alvöru kl. 9 árd. Voru þá öll sambandslöndin kölluð upp og tala og nöfn fulltrúa þeirra. Síðan bar Sambandsstjórnin upp svo hljóðandi tillögu, sem var samþykt: „Ekkert land skal hafa leyfi til að fylla fulltrúatölu sína með ferðamönnum frá öðrum löndum“. Mrs. Catt gaf sem ástæðu fyrir þessari tillögu, að tvö lönd hefðu óskað einmitt eftir að fylla fulltrúatölu sína á þenna hátt. En tillagan var samþykt með öllum atkvæðum.
     Þá bar þriggja kvenna nefnd sú, sem rannsaka átti kjörbréf fulltrúanna, fram skýrslu sína um að þau væru öll gild og lögum samkvæm. Dr. Anna Shaw gerði fyrirspurn um eftir hvaða reglum systrafulltrúum væri leyfð aðganga að fundinum. Formaður svaraði, að þeim hefði verið boðið á þingið eftir meðmælum kvenréttindalandsfélaganna, en þeim væri ekki ætlaður tími á dagskránni fyr en nöfn þeirra yrðu samþykt. Um hluttöku þeirra urðu svo langar umræður, sem enduðu með því að samþykt var að engum félögum, sem ekki væru í sambandinu væri leyft að kjósa systrafulltrúa á kvenréttindasambandsþingin, nema landsfélagstjórnirnar í hverju landi hafi samþykt valið. En ef þær neiti um sitt samþykki, þá megi þó áfrýja þeim dómi til Alþjóðasambandssstjórnarinnar, sem þá skeri úr málinu.
     Síðan var samþykt tillaga frá Svíþjóð og Bretlandi um það, að vegna hins mikla fjölda af systrafélögum, þá skuli lagt á vald formanns þingsins hverir leyfi fái til að tala.
     Þá voru þessi lönd tekin inn í sambandið: Belgía, Galizia, Rúmenía, Portúgal, Kína og Suður-Afríka.
Út af ýmsum áskorunum, sem þinginu bárust um að láta álit sitt í ljósi með eða móti bardagaaðferðum kvenna á Englandi til að ná kosningarrétti sínum, þá var svo látandi þingsályktun samþykt:
     „Með því að lög Alþjóða-kvenréttindasambandsins fyrirskipa því stranglega hlutleysi í öllum þeim málum, sem snerta pólitík eða pólitískar aðferðir (tactics) hvers landsfél. til þess að ná takmarki sínu, þá banna þau Sambandinu, hvort heldur sem væri að fyrirdæma eða mæla með nokkurum sérstökum aðferðum. En með því uppreistir stjórnarbyltingar og óspektir hafa aldrei verið notaðar sem ástæður gegn kosningarrétti karlmanna, þá mótmælum vér því að óvinir kosningarréttar kvenna, þýði þessa bardagaaðferð lítils minni hluta kvenna í einu landi, sem ástæðu og afsökun þess, að kosningarréttinum sé haldið fyrir konum í öllum heiminum“.
     Þá afhenti dr. Allette Jakobs frá Hollandi Sambandinu fagran, rauðan silkifána, fyrir hönd kínverska landskvenréttindafélagsins. Það var skreytt alt um kring gullnu kögri og á það var saumað með kínversku letri og hvítu silki þessi orð: „Hið sameiginlega hjálparfélag, til Alþjóða-sambandsins. — Hjálpið hver öðrum, allir samhuga“.

30. ágúst

Tvö önnur silkiflögg voru afhent Alþjóða Sambandinu: Frá Galiziu og Rúmeníu, og voru þau meðtekin með miku lófaklappi og ánægju.
     Sérstaklega mikið var rætt um það, hvort stofna skyldi sérstaka fregna-skrifstofu, sem skyldi hafa á hendi, að útvega allar upplýsingar um þau mál, sem snertu konur og réttindi þeirra, leiðrétta missagnir viðvíkjandi kvenréttindamálum í blöðunum, og útbreiða þekkingu í þessum efnum, og agitation fyrir kosningarrétti kvenna. Tillaga var borin upp af Stóra-Bretlandi og var rædd á 3 fundum. Eftir tillögunni áttu Sambandslöndin að tífalda ársgjald sitt, þannig, að þau lönd, sem áður greiddu 1 pd. sterl. í ársgjald, greiddu eftir þessari tillögu 10 pd. sterl., en þau sem hefðu greitt 2, greiddu þá 20. Móti tillögunni voru öll Norðurlöndin, Þýzkaland, Frakkland og fleiri. En með sérstaklega England, Bandaríkin, Canada og Australía. Að lokum var tillagan feld, mjög á móti vilja formannsins, Mrs. Catt.
Þá bar dr. Thekla Hulten frá Finnlandi upp þá tillögu, að stofna skyldi sérstaka fasta kosningarréttarnefnd frá þeim löndum, sem veitt hefðu konum pólitískan kosningarrétt, þannig, að allir Samb.þing-fulltrúarnir frá hverju því landi, ættu í sameiningu að velja tvo sérstaka fulltrúa frá sínu landi, og skyldi annar þeirra ætíð vera fregnritari þaðan. Nefndin skyldi svo velja sér formann og ritara, sem stæði í stöðugu bréfa-sambandi við fregnritarana frá hverju af þeim löndum, sem kosið hefðu í nefndina. Öll nefndin skyldi koma saman eftir hvert Alþjóða-kvenréttindaþing, til þess að bera saman ráð sín. Þessi tillaga var samþykt.
     Þá lagði Mrs. Catt það til, að „Jus Suffragii“, blað Alþjóða kosningaréttar Sambandsins (I.W.S.A.), sem gefið var út í Rotterdam í Hollandi, væri flutt til Lundúna og gefið þar út, stækkað og hækkað í verði. Og þar yrðu aðalstöðvar Sambandsins. Um þetta urðu heitar umræður, og fylgdu franskar og þýskar konur þeim hollensku, sem vilja hafa það kyrt í Hollandi og frk. Marinu Kramers áfram fyrir ritstjóra, en ensku-mælandi konurnar urðu hlutskarpari, og var það samþykt, að flytja blaðið til Lundúna, og skyldi Sambandsstjórnin velja ritstjórann.
     Frk. Martina Kramers hafði sagt af sér ritstjórn, og einnig stjórnarstörfum í Sambandinu, þar sem hún var ritari. Tillaga var þá borin upp frá Íslandi af B. Bjarnhéðinsd. að Martinu Kramers skyldi sent þakkarávarp frá þinginu fyrir hennar miklu starfsemi í þessum málum, með þeirri von, að nafn hennar gleymist aldrei í Alþjóðakosningarréttar-Sambandi kvenna, og að hún verði jafnan álitin, sem stofnandi „Jus Suffragii“. Tillagan var samþykt af öllum standandi, með lófaklappi yfir allan salinn.
Þá kom til umræðu kostnaðurinn við blaðið, og ýmsar aðrar prentanir og framkvæmdir félagsins, t.d. prentun Þingtíðindanna o.fl. Skýrði gjaldkeri þá frá efnahag þess og las upp ársreikningana. Sýndi hún fram á, að mikilla peninga þyrfti með. Talaði Mrs. Catt þá og lagði til, að fundarkonur skytu saman í tveggja ára tillag, bæði með framlögum, og með því, að einstakir meðlimir gengu í félagið (þeir borga 18 kr. árstillag). Hét hún sjálf að gefa félaginu 100 pd. sterl. á ári í 2 ár. Þessu var tekið með dynjandi lófaklappi, og margar konur komu nú og fylgdu dæmi hennar. 4 konur aðrar gáfu 100 pd. sterling, nokkrar 50 o.s.frv. — Sömul. stóðu fulltrúar flestra landanna upp og lofuðu meiru eða minna fyrir sitt land. Á þenna hátt söfnuðust á fáum mínútum 45,000 króna á ári í tvö ár.
     Á þenna hátt var ráðið fram úr fjármálavandræðunum fyrst um sinn.
     Einn af merkustu fundum þeim, sem almenningi var leyft að vera á, var fundur sá sem aðallega ræddi hvíta mannsalið. Aðalræðumaður í því máli var Mrs. Catt. Skýrði hún þar frá mörgum átakanlegum dæmum, sem hún hefði séð og heyrt á ferð sinni í Austurlöndum, einkum Kína, og hvernig fátækari konurnar væru þar hrein og bein verzlunarvara feðranna, eða annara vandamanna og húsbænda sinna. María Vernon, hin franski hæstaréttar-málaflutningsmaður talaði um tvenns konar siðferði, karla og kvenna.
     Svolátandi tillaga frá Mrs. Catt var samþykt í einu hljóði: „Að Alþjóða-kosningarréttar-Samband kvenna skyldi skora á stjórnir allra þeirra landa, sem eru í Sambandinu, að gangast fyrir alþjóða ransókn viðvíkjandi útbreiðslu þessarar svívirðilegu verzlunar, og fyrirkomulagi hennar. Sömuleiðis, að hvert kosningarréttarfélag skyldi sækja um það, að landsstjórnir þeirra léti hefja slíka ransókn í sínu landi, og á sama hátt, og að konur væru skipaðar líka í þá nefnd, sem ætti að fjalla um þetta.“
Ýmsum þótti þetta undarleg ákvörðun, með því að Alþjóða-Sambandið á eftir lögum sínum einungis að fjalla um kosningarréttarmál.
     Samhliða þessu þingi okkar, hélt Alþjóðafélag karlmanna, sem berst fyrir kosningarrétti kvenna Sambandsþing sitt líka. — Fyrsti fundur þeirra var haldinn þ. 18. júní. Formaður eða fundarstjóri var Georg de Lukca fyrv. ráðherra Ungverja. Ræðumenn voru þeir dr. Charles V. Drysdale frá Englandi, dr. Alexander Giesswein, preláti og þingmaður í Budapest, dr. André de Mâday Ungverjal. og ofursti C. V. Manfeldt Hollandi.
     Ýmsir karlmenn töluðu á kvennaþinginu, þar á meðal Keir Hardie hinn alþekti enski jafnaðarmannaforingi og þingmaður.
     Margir opinberir fundir voru haldnir í sambandi við Kvennaþingið, þar sem ýmsir af fulltrúunum og ýmsum frægum konum og körlum töluðu. Eitt af þeim var hinn fyrrnefndi fundur um hvíta mannsalið. Þá var fundur fyrir unga fólkið, 17. júní. Þeim fundi stjórnaði Vilma Glucklich, formaður Kvenréttindafélagsins í Ungverjalandi. Hún er ung kona eins og flestar kvenréttindakonur þar í landi — allar ungar og fagrar, gáfaðar og skemtilegar. Svo voru þær, sem við kyntumst. — Á þessum fundi töluðu meðal annara þau Keir Hardie, dr. Charlotte Perkens Gilman frá Bandaríkjunum, heimsfrægur rithöfundur. Þar talaði líka Laufey Valdimarsdóttir ræðu þá, sem hin danska kona frú Pallene Bagger hefir hneykslast svo á. Sú ræða var eiginlega um unga fólkið á Íslandi, mentunarástand þess framfarir og áhugamál. Til skilningsauka fyrir áheyrendurna sagði hún fyrst örlítinn útdrátt úr sögu Íslands, af því hún vissi, að flestir þeirra þektu Ísland varla með nafni.
     Fáeinar breytingar voru gerðar á lögum félagsins. Ný stjórn var kosin og urðu allar þær sömu kosnar, sem áður höfðu verið, og enn gáfu kost á sér og 5 nýjum bætt við. Mrs. Catt hafði sagt af sér. En með því að allir lands-kvenréttinda-félaga-formennirnir sendu henni bæn sína, að vera áfram formaður þeirra, þá lét hún um síðir tilleiðast með það, svo með henni eru 11 í stjórninni.
Ýms önnur mál voru rædd og samþyktir gerðar. En það yrði oflangt upp að telja.

30. septbr.


Frásögn af þinginu í Lögrjettu - Lögrjetta 16. júlí og 16. ágúst

Kvenna-stórþingið í Budapest

Lögrjetta, 16. júlí og 16. ágúst 1913
[Ath. þar sem stendur maí hér að neðan er misritun Lögrjettu og á að vera júní]


14. maí 1913

Þá er nú loks hingað komið. Jeg hafði heitið Lögr. fáum línum hjeðan, og verð að halda það. En eiginlega upplögð til skrifta er jeg ekki. Svo margt ber fyrir augu og eyru hjer. Við, fulltrúarnir að norðan, komum víst flestir hingað með skipi frá Wien, sem gekk eftir Dóná til Budapest. Við vorum á tveggja daga fundi í Wien. Fyrri daginn, 11. maí, um kvöldið í veislu hjá kvenrjettindafjelagsnefndinni. Mátti þar líta margar fagrar og skrautklæddar konur, sem kunnu að skemta sjer og spjalla saman eftir venjulegum siðum, þrátt fyrir kvenrjettindaáhuga þeirra. Konurnar í Wien voru þær elskulegustu veitingakonur heim að sækja, og unnu hjörtu allra gestanna á skömmum tíma. Var þar til skemtunar fjórraddaður kvennasöngur, einsöngur og kvæðaupplestur, — „deklamation“. Síðan voru alskonar kræsingar á borð bornar, ræður haldnar, og að lokum kom ljósmyndari frá „Wiener Mode“, svo nú máttu ýmsar okkar nauðugar viljugar raða sjer upp í smáhópa úti á tröppunum við garðinn. Um kvöldið kl. 8 var fjölmennur fundur í húsi „Musik“ fjelagsins. Töluðu þar ýmsar frægustu ræðukonur kvenrejttindafjelaganna, einkum þær þýsku. R.d. M. Stritt A. Lindemann og frú Heinze, sem er ein af frægustu konum í Wien og stendur hjer bæði fyrir „Kvennaráðinu“ og hefur myndað kvenrjettindafjelagið hjer, sem konur eru í frá ýmsum borgum í Austurríki, og er þá aðeins kallað kvenrjettindanefnd, sem á þann hátt gat aðeins orðið með í „Alliancen“ í fyrstu.
     Við dóttir mín höfðum um daginn heilsað upp á landa okkar hjer, barónessu v. Jaden. Hún tók okkur tveim höndum og mælti sjer mót við okkur á fundinn; vorum við síðan saman alt kvöldið. Hún hefur sama sólskinsandlitið og viðmótið hjer og heima. Á heimili hennar er alt gert til að minna á Ísland: Heilir skápar með íslenskum bókum, íslenskur útskurður, íslenskur útsaumur, íslenski búningurinn og íslenski fáninn. Alt minnir á að húsmóðirin er íslensk og telur sjer sæmd að vera það.
     Daginn eftir, kl. 8 árd., lögðum við af stað með einu af Dónárskipunum upp til Budapest. Við vorum saman mörg hundruð konur, frá flestum eða öllum löndum Norðurálfunnar, og víðsvegar frá annarstaðar, svo það var mjög „kosmopólitískur“ fjelagsskapur. Veðrið var ákjósanlegt, lítil gola og geislandi sólskin. Á báðar hendur má sjá hið fegursta landslag, skógi vaxnar hæðir og hryggi, blómlegar borgir með æfagamlar byggingar, bláa, lága fjallshryggi í fjarska, sem oft urðu að skógi vöxnum ásum, með dálitlu beru grjóti utan í þegar maður færðist nær. Sumstaðar báru gamlar hallarústir eða kastalarústir við loft. Og þegar við svo leituðum upplýsinga hjá einhverri konu úr „kongress“nefndinni í Budapest, sem var með til að leiðbeina okkur, þá fengum við að heyra örlítið brot úr sögu Ungverjalands. — Uppi yfir okkur var hinn blái, suðræni himinn. Við fætur okkar fjell Dóná hvítmórauð, eins og jökulárnar á Íslandi, straumþung og svipmikil, eins og lífæð alls landsins. Hún getur fleytt stórum skipum alla leið til sjávar, og er þó víðast miklu mjórri en stóru árnar heima á Íslandi. En hjer eru hvergi fossar eða flúðir. Og vatnsmagnið er langtum meira en heima. — Nei, jeg get ekki lýst þessari ferð eftir Dóná. Lýsingin verður svo litlaus í samanburði við virkileikann. Það var æfintýrið sjálft fyrir mig. Jeg gat varla trúað að það væri jeg sjálf, sem sæti þarna og væri með í allri þessari iðandi, sólglitrandi, spjallandi og hlæjandi kvennaþröng.
     Kl. 9 síðdegis lagði skipið að bryggjunni í Budapest rjett fyrir neðan Hótel Hungaria og Hótel Burtal, þar sem margar okkar áttu að búa. Það var óviðjafnanleg sjón, að sigla upp ána og sjá borgina blasa við okkur alla upplýsta af ljósum. Öll brúin af skipinu upp að tollhúsinu var lögð rauðum dúkum, og lítil flögg blöktu til beggja handa til virðingar við gestina. Móttökunefndin kom sjálf og ótal „guidar“, ungar, hvítklæddar konur, með gul og hvít bönd um hægri handlegginn, sem áttu að fylgja okkur þangað sem við áttum að búa. Allar voru þær ungar og fagrar, svarthærðar og ljósbrúnleitar, hlýjar á svip og brosandi, eins og hin suðræna náttúra sjálf.
     Jeg og margir fleiri af fulltrúunum lenti á Hótel Britannia, sem var aðeins tveggja mánaða gamalt, og ljómaði því af hreinleika í hólf og gólf. En þegar við loks komumst þangað kl. 10-11 um kvöldið, þá lá fyrir mjer skeyti þar, að jeg ætti að mæta á fundi með formönnum hinna landsfjelaganna kl. 9 árd. þ. 14. (í dag) og á fundi hjá Mrs. Catt á Hótel Hungaria aftur saman með þeim kl. 4 síðd. — svo ekki var að sjá að okkur yrði ætlaður mikill tími til hvíldar eftir ferðavolkið.

Bríet Bjarnhjeðinsdóttir
16. júlí

 Þegar hjer er komið sögunni, verður líklega rjettast að byrja strax á aðalatriðinu, þinginu sjálfu, hversu mikið sem mig kynni að langa til að taka mér ýmsa útúrdúra: tala um borgina, landslagið, byggingarnar, fólkið, viðtökurnar og útlendu gestina. — En látum oss byrja á byrjuninni. Aukaatriðin og athugasemdirnar koma síðar.
     Sunnudaginn 15. júní kl. 12 á hádegi hófst eiginlega alþjóðaþingið, með messugerð í lúthersku kirkjunni í Ofen. Þar prjedikaði kvenpresturinn dr. Anna Shaw frá Ameríku og Rev. Spencer frá Ástralíu. Kirkjan var svo troðfull, að ekki varð stungið niður fæti og fjöldi varð frá að hverfa. Eftir messuna fóru allir fundargestirnir með litlum gufubátum yfir Dóná að þinghúsinu, því þar uppi á hinum fögru, víðsýnu þinghússvölum var okkur búinn morgunverður. Borðin voru öll prýdd með rósum, og við hvern disk lá pappírsveifa — með áletruðum auglýsingum, auðsjáanlega með þeim tvöfalda tilgangi, að fundarkonurnar gætu, ef ekki væri öðru betra að veifa, notað þær til að kæla sjer, og um leið láta þær verða að lesa auglýsingarnar.
     Kl. 4 síðd. skyldi hin hátíðlega þingsetning fara fram í hinum fagra sal tónlistaháskólans, sem var alveg troðfullur. Leiksviðið, eða pallurinn, þar sem hljóðfæraflokkurinn stóð, fór smáhækkandi, var hæðstur aftast. Fremst sátu stjórnarkonur alþjóðafjelagsins. Dr. Aladin Rényi (frægt tónskáld Ungverja), hafði samið lagið, sem hljóðfæraflokkur þjóðleikhússins í Búdapest ljek af mestu snild. Kvæðaflokkur var einnig ortur fyrir þetta tækifæri, sem tvær ungverskar leikkonur lásu upp, önnur á ungversku, og var hún í mjög skrautlegum, gömlum ungverskum aðalskvenna þjóðbúningi, úr dökkrauðu flaueli og mjög gullsaumuðum, en hin leikkonan las það upp á ensku. Hún var í venjulegum kjólbúningi.
     Þegar upplestrinum var lokið, fengum við óvænta viðbót á dagskrána: Stór fylking hvítklæddra barna kom inn, tvö og tvö samhliða, bæði stúlkur og drengir frá 5-12 ára gömul, öll með stóra og fagra rósavendi í höndunum. Þau gengu öll í röðum framfyrir formann alþjóðakvenfjel., mrs. Carrie Chapmann Catt, hneigðu sig og lögðu blómvendina fyrir fætur hennar. Fremsta telpan, sem bar blómskreyttan staf, nam staðar og hjelt stutta ræðu, þar sem hún þakkaði mrs. Catt fyrir alt hennar erfiði og fyrirhöfn fyrir velferð allra þeirra ungu, og hjet því, að þegar þau kæmu til vits og ára, þá skyldu þau halda verkinu áfram og notfæra sjer það, sem fengist hafði. — Börnin voru svo indæl, saklaus og eslkueg, að margir fengu tár í augun, eins og mrs. Catt, þegar hún þakkaði þeim smábrosandi þessa fallegu hyllingu.
Greifafrú Teleki, formaður móttökunefndarinnar, sem er rithöfundur og þó ung kona, hjelt nú kveðjuræðuna og bauð gestina velkomna, og sömuleiðis kenslukona við stúdentaskólann þar, fr. Vilma Glücklick, sem er formaður í „Feministák Egyesülete“. Og svo kom það hátíðlega augnablik, þegar kenslumálaráðherra Ungverja, dr. Bela v. Jankovich, fyrir hönd ungversku stjórnarinnar, bauð fundargestina velkomna; og borgarstjórinn, dr. Stephan v. Barezy, í Búdapest gerði það sama, fyrir hönd höfuðstaðar ríkisins og aðsetur stjórnarinnar. 
     Þá stóð mrs. Chapmann Catt upp og hjelt smá „hátíðar“ræðu. Var hún meistaralega samin bæði að efni og formi. Var það yfirlit yfir það, hvað kvenrejttindamálunum hefði þokað áfram á þessum síðustu tveimur árum, síðan á alþjóðaþinginu í Stokkhólmi 1911. Þjóðir og stjórnir tækju vaxandi tillit til þeirra, ýms lönd hefðu veitt konum kosningarrjett síðan, og hjer væru nú 11 fulltrúar frá ýmsum löndum, er allir hefðu opinberan styrk. Fjórir þeirra, eða fleiri, væru stjórnarfulltrúar.
     Um kvöldið vorum við allar boðnar í þjóðleikhúsið, þar sem frægustu leikarar Ungverja ljeku „Úr kvennabúrinu“ og lítinn dansleik á eftir. Orðin skildum við ekki, en leikinn sáum við, og söngur og dans er alþjóðaeign, sem allir skilja meira eða minna í.
     Daginn áður, eða þ. 14. hafði verið nokkurs konar hátíðahald. Þá var sem sje útfarardagur hinnar ensku suffragettu Emily Davis. Hin enska fræga suffragetta mrs. Cobden-Sanderson, dóttir Cobdens, hins nafnkunna verkamannaþingmanns Breta, ljet þá kl. 3. s.d. halda sorgarsamkomu í minningu miss Davis. Spencer prestur hjelt þar ræðu og mrs. Cobden-Sanderson, sem fáiri gátu hlustað óklökkir á. Hún lýsti því, hvernig hin dána kona hefði lagt alt í sölurnar fyrir það mál, sem hún hefði álitið mesta og besta mál nútíðarinnar.
     Þingfundirnir byrjuðu þann 16. júní. Eitt af fyrstu málum á dagskránni, sem tekið var til umræðu, var um aðferðir ensku suffragettanna. Stjórn Alliances höfðu borist svo margar áskoranir, ýmist um að fordæma rit suffragettanna, eða gefa þeim hluttekningarvott með fundarsamþykt. Stjórnin þóttist því ekki mega sitja hjá, án þess að gera eitthvað. En með því að lög Alþjóðakvenrjfel. fyrirbjóða konum að skifta sjer nokkuð af aðferðum hverrar þjóðar til að ná kosningarrjettartakmarkinu, þá áleit stjórnin sambandsþingið ekki hafa rjett til að gera neitt í þessu máli, og vildi því taka fyrir allan misskilning, sem sprottið gæti út af því. Svolátandi stjórnartillaga var því borin upp í þessu mál:
     „Með því að alþjóða-kosningarsamband kvenna er skyldugt samkvæmt lögum sínum, til að vera stranglega hlutlaust í öllum málum, sem snerta stjórnmál hinna ólíku landa, sem í Sambandinu eru, og aðferðir þær, sem konur nota þar til að ná markmiði sínu, þá getur þetta þing ekkert álit látið í ljósi, sem sje með eða móti aðgerðum suffragettanna.
     Sömuleiðis: Með því að pólitísk upphlaup, stjórnarbyltingar og allskonar uppreistir, sem karlmenn hafa gert, hafa aldrei verið notaðar sem ástæða gegn kosningarrjetti karlmanna, þá mótmælum vjer því, að óvinir kosningarrjettar kvenna noti þær bardaga-aðferðir, sem mikill minni hluti kvenna í einu landi hefur gripið til, sem ástæðu til að neita konum í öllum öðrum löndum heimsins um pólitískan kosningarrjett“.
     Um þetta mál urðu nokkrar umræður. En tillaga stjórnarinnar var svo skynsamleg og lögum Sambandsins samkvæmt, að hún var samþykt með yfirleitt öllum atkvæðum.
     Þar næst kom til umræðu, hvaða stöðu systrafulltrúar („fraternal delegates“) frá hinum ýmsu fjelögum, sem ekki væru í Sambandinu (Alliancen), skyldu hafa á fundinum. Áður hafði einn slíkur fulltrúi frá hverju landsfjelagi, sem ekki var í Sambandinu, fengið umræðurjett á fundum, en auðvitað ekki tillögurjett. Nú var hluttaka óviðkomandi fjelags og prívatmanna svo mikil, að þegar fundurinn var settur, voru þátttakendur 2800. Af þeim voru aðalfulltrúar líkl. ekki mikið yfir 250-300. Þegar svo þar við bættist miklu meiri fjöldi af systra-fulltrúum, sem allir vildu fá að taka þátt í umræðunum, þá má nærri geta, að tími sá, sem fundinum var ætlaður til að ljúka málum sínum, var alt of stuttur að margt yrði þá óafgert. Umræðurnar um þetta mál tóku yfir 3 fundi, og varð þó aldrei til fulls afgreitt. Á þessum fundum vildu ýmsir , að systrafulltrúar fengju að tala, en næsta alþjóðaþingi yrði falið að afgera þetta mál. Rev. Anna Shaw frá Ameríku hjelt því fram, að systrafulltrúar fengju umræðuleyfi, ef „delegationen“ frá því landi gæfu þeim meðmæli sín, og virtust flestir vera á því máli. 
     Á mánud.kvöldið 16. júní voru svo fundarfulltrúarnir og fleiri af gestunum boðnir í nokkurs konar veislu hjá bæjarstjórninni, sem haldin var í hinni gömlu kastala- eða virkisbyggingu, „Ficher Bastion“, sem stendur uppi á hæðinni fyrir ofan Ofen. Voru þar hermenn í einkennisbúningi við innganginn. Þar voru ræður ahldnar af fultrúum 10-12 landa. Hin löndin áttu á halda sínar ræður í skilnaðarveislunni þ. 20. júní.

16. ágúst

Skýrsla KRFÍ - IWSA, þingtíðindi

KVENNRJETTINDAFJELAG ISLANDS
Mrs. Briet Asmundsson, President

International Woman Suffrage Alliance, Report of Seventh Congress. Manchester, 1913, bls. 137-139

I regret to say that I have no good news to report this time. The Amendment to the Constitution which was passed by the Althing in 1911 obtained then a large majority of the votes. Consequently we felt very confident that it would also pass the Special Session in 1912, but our hopes failed. The Bill was thrown out, and is not likely to be taken up for discussion in the Althing of 1913.
     The evil fate of the Amendment Bill is by no means to be ascribed to the sections therein containing the provisions for Women´s Suffrage; the majority of the members would have voted in favour of these. The chief point at issue was the proposed alteration in the composition of the First Chamber. According to the Bill it was to consist of members elected on the proportional system by the whole body of electors of the country for a period of 12 years, franchise being restricted to persons above 30 years of age. The members of the Lower House were to be elected by a simple majority vote, two in each constituency, the right of voting being enjoyed by persons over 25 years. But the chief reason why the Amendment to the Constitution did not pass is, however, to be sought elsewhere. In the beginning of the Session of 1912 a new political party was formed. The object of the party was to take up again the negotiations with Denmark about the political connection between the two countries, which were dropped in 1909. The new minister, H. Hafstein, was to be entrusted with the mission of trying to obtain some amendment to the arrangement proposed by the Danish Government in 1908. In case he succeeded, the new party intended to bring the Danish-Icelandic question before the Althing, 1913. But a settlement of that question, and therefore the Althing of 1912 postponed the Amendment Bill. At the same time we were assured, both by the Minister and by several leading members of the Althing, that a proposal for the Amendment of the Constitution containing the same provisions for Women´s Suffrage as the Bill of 1911 would be brought before the Althing (1913), although the negotiations with Denmark should prove fruitless.
     The Central Board of the Kvennrjettindafjelag Islands held a meeting on June 5th and 26th, 1912, immediately before the opening of the Althing. The meeting resolved that an address to the Althing should in the following winter be sent out for signatures all over the country in case the Amendment of the Constitution should not pass. As soon as it became known that the Bill would not be brought before the Althing by the Minister (it was some days later brought in unaltered by some members of the opposition), the Reykjavik Branch of the K.R.F.I. (Kvennrjettindafjelag Islands) held a meeting (on July 18th), to which all members of the Althing were invited. Several of them attended. Many women addressed the meeting, and a resolution calling upon the Althing to pass the Amendment of the Constitution unaltered, or, in any case, to pass unaltered sec. 11 and sec. 12, which contained the provisions for franchise and eligibility for the Althing, was carried unanimously. Another motion was made for calling upon the Althing to abolish the right of women to decline election for municipal offices. This motion was also carried unanimously. Meanwhile, it is almost certain that the Government will not introduce any proposal for Amendment of the Constitution next summer. The Danish-Icelandic question will hardly be discussed by the Althing (1913). Very few of the leading newspapers are satisfied with the result of the renewed negotiations, and many members of the Althing are opposed to it.
     But in spite of these delays, the K.R.F.I. does everything in its power to agitate for the cause. "Kvennabladid" has constantly articles on this subject, and the collection of signatures to the Address to the Althing seems to be making good progress.
     The object of our agitation is to have the Constitution amended as soon as possible. The K.R.F.I. has members in every constituency, who will do everything in their power to persuade the electors earnestly to request their representatives in the Althing to oppose any further postponement of the revision of the Constitution. The chief difficultry of getting an Amendment of the Constitution carried by two successive Althings is to be found in the fact that neither the Minister nor the members in power are willing to risk their seats till they are obliged to do so at the end of the Parliamentary term. We must explain that in order to become law an Amendment Bill of the Constitution must pass in two successive Althings, for the latter of which a new election must have taken place.
     However, we hope we shall not have to wait long for the granting of our claims. The newspapers are on the whole well disposed towards our cause, and three of them are even strong supporters of it.
Many circumstances tend to show that women are awakening to a better understanding of what they want, and are attempting to improve their conditions. Many parents set their daughters to learn some trade by which they may earn their livelihood, not only the less well-to-do people, but also the Government functionaries, who by no means lag behind in this reespect. The education of women is on the whole progressing. Hitherto we have had very few highly educated women, which is much to be regretted. Now we have two female students at universities, who both intend to take their degrees. One of them, Miss Laufey Asmundsson, is a student of languages at the Copenhagen University, and the other, Miss Kristin Olafsdottir, studies medicine at the newly established University in Reykjavik. There are at present 19 girl pupils at the Grammar school in Reykjavik, among whom are a daughter of the Minister and a daughter of one of the professors at the Icelandic University.
     Working women are also beginning to wake up to a sense of their insufferable condition. In seaside places they are chiefly engaged in fish-curing. Their wages for this kind of work are less than half of what men get. Last year the working women in a small trading place near Reykjavik made a strike for higher wages. This is the first strike made in Iceland , and the end of it was that they obtained the increase of wages which they demanded. Women are not admitted into the Workmen's Association in Reykjavik, and there is no working-woman here who is able to organise an association satisfactorly, and so they have hitherto not been in a postion to improve their conditions. The K.R.F.I. has therefore resolved to take the matter in hand, and is purposing to call a meeting of all work-women in this place in order to help them to form an association, and on the whole assist them in their struggle to get their now deplorable wages increased.


Genf 1920
Genf1920

Skýrsla KRFÍ - IWSA, þingtíðindi
Iceland
Kvenrettindafelag Islands
Briet Asmundsson, President International Woman Suffrage Alliance, Report of Eighth Congress. Manchester, 1920, bls. 167-172


A. The present postition of Icelandic women, with indications of the progress made since 1913.
     Seven years have passed since the last Congress of the I.W.S.A. in Budapest, in 1913. During that time the state of the world has been entirely changed.
     The women of Iceland have known little of the terrors of the war. Except for the prohibition of communications with some countries, the difficulties of intercourse, and the resulting high prices of necessaries, we have lived in the shelter of an absolute neutrality and peace in our little far-away country, which for three hundred years has enjoyed the blessings of peace, and where the use of arms has been unknown and forbidden since about 1600. In recent years Iceland has obtained full political freedom through a peaceful agreement with the Danes, and has been recognised as a free and sovereign State, with its own flag. All this has been done in conformity with the principle of acknowledging the right of the Icelandic people to decide for themselves, and was finally settled by plebicite. In this, Denmark and little Iceland set an example worthy of imitation by larger nations.
     At the time of the Congress in Budapest in 1913 there were no prospects of obtaining full political suffrage for women in the near future. But this turned out quite differently.
     The Government was compelled to introduce a Bill proposing an amendment of the constitution, which all parties combined in making as liberal as possible. By this amendment, all women over twenty-five were granted full political equality with men; but on the second reading a compromise was reached with the conservatives, which resulted in fixing the age limit of the new voters, women and men-servants, to forty, this limit to be lowered annually during the next fifteen years, until all men and women over twenty-five were in possession of equal suffrage and eligibility. With this amendment the Bill was carried.
     The Althing had then to be dissolved, and new elections took place. The former Minister, H. Hafstein, lost his majority and retired. His opponents were restored to power, and Mr. Sig. Eggerz became minister. The Bill was passed a second time in the following Althing of 1914 and was ready for submission to the King for his sanction. Sig. Eggerz declined to submit the Bill in the usual way.
The party of H. Hafstein held a meeting of protest. The opposition from all sides became so vigourous that Mr. Eggerz had to withdraw, and another member of his party, Professor E. Arnorsson, went in as minister. He submitted the Bill for the sanction of the King on June 19, 1915. On the same day the law granting Iceland a special flag came into force.
     In order to celebrate this memorable event the W.R.A. invited the various women's associations in Reykjavik to a meeting, and it was decided to have a festival, with a procession through the town.
At the committee meetings which preceded this festival, it was moved that Icelandic women should unite in working for some great cause, in order to show the spirit in which they wanted to use their new rights. After some discussion it was decided that this Committee, consisting of members from all women's associations in Reykjavik, should collect money to establish a fund for a national hospital, and start propaganda for that cause.
     A motion of Mrs. Asmundsson was carried to the effect that June 19 should be celebrated each year as the festival day of women. Miss Ingibjorg Bjarnason, the President of this Hospital Committee, was the next speaker.
Women's participation in the elections
According to the new constitution new elections were to take place in November, 1916, to give the new voters the opportunity of using their vote. The number of women electors was 12,199, and that of men 16,330. The elections were divided into: (1) Proportional representation of six deputies for the Upper House, to take place in August, all over the country, and (2) the restricted elections of one or two candidates in each constituency, to take place in October. All former voters over thirty-five, and new voters over forty, including women, were entitled to vote for the Upper House, which made 12,050 women electors, and 12,139 men electors in the elections, the result of the elections beind that only 10 per cent. of women voted, but 38 per cent. of men.
     There were two chief reasons for this small participation of women in the election: (1) The only woman candidate, Mrs. Briet Asmundsson, had been placed as No. 4 on the list, although the party had promised her the third seat. Nobody believed that this list would get four candidates, and Mrs. Asmundsson only allowed the use of her name in proof of the loyalty of the party. (2) Another reason for the absence of many women from the elections was the fact that they took place in the busiest time of the year. Iceland is very sparsely populated, and as the journey to the polling places and back again often takes a day, the farmers cannot easily spare all their household, particularly the women, from the daily work. Neither could everybody get horses, the only means of conveyance in the country.
The result of the elections was that the list with Mrs. Asmundsson's name got three candidates. Consequently, she was only the second alternative candidate. As the first alternative entered Parliament, Mrs. Asmundsson has now stepped into his place, but there is hardly any chance of her getting into the Althing during this electoral period.
     The Elections of 34 members of Parliament in the autumn were attended by 30.2 per cent. of women voters, and 69.1 per cent. of men. There was no woman candidate, as there is little hope of getting a woman elected without proportional representation.

The plebiscite on the Act of Confederation in 1918
In the summer of 1917 Danish and Icelandic deputies drew up a Bill, which was carried in the parliaments of both peoples. According to this agreement, Iceland was to be a free and sovereign State, in personal union with Denmark. This Act was placed before all political voters in Iceland by a referendum: 24.6 per cent. of 13,673 women voters gave their vote, and 69.3 per cent. of 17,468 men.

A new amenment of the constitution
Owing to this change in the position of Iceland, the constitution had to be revised. The W.R.A. presented an address from their association, asking the Government to repeal the difference in the limit of age of voters, and to introduce a Bill granting political suffrage on the same conditions as to men.
     In 1919 the constitution was passed with this amendment. The Althing was dissolved, and new elections took place on November 15, 1919, when for the last time the age limit for women was different from that of men. The public records of women voters was 14,212, and that of men 17,629. At the extraordinary assembly of the Althing in 1920 the amendments of the constitution were passed unaltered a second time, and became law.

B. The position of Icelandic women and the work and aims of the Kvenrettindafelag Islands
     What public offices are open to women by law?
     (1) According to the law of 1911 women were admitted to all schools in the country with the same rights as men, and all public offices are open to them, with the same pay as men.
     (2) They have full local government suffrage and eligibility, and they are admitted to municipal services on the same terms as men, but they are unfortunately privileged to decline all such elections, which the men are not. According to the laws of 1915 and 1920, they have full political suffrage and eligibility on the same terms as men.

Marriage makes no difference to employed women
No offices are prohibited to women by law. They can be ministers, bishops, judges of the High Court of Justice, professors of the university, provided they are qualified for these offices. As far as the law goes they may be promoted to higher posts, and may retain their posts after marriage.

C. The work of the W.R.F.I. since 1913
     Since its formation in 1907 the W.R.F.I. has held the leadership in the agitation for women's political and civil rights. In 1913 it took the initiative in organising working women in Reykjavik, who up to that time had been quite unorganised. Two public meetings for working women were held, which resulted in the formation of an association for women labourers. The association was at first unpolitical, but has now joined the Labour Party. Its chief aim was to raise the wages of working (fisher) women, who did not get more than 15 aura (twopence) per hour, with extra payment for night and holiday work, the men getting 35-60 aura per hour. Now the women get 85 aura per hour and 1 kr. 25 aura for night and holiday work. Men employed in the same kind of work, the curing of fish, still get 1.25-2.00. (Night work for women is not prohibited by law.).
     Since the enfranchisement of women, in 1915, the W.R.A. has tried to rouse the women to use their rights, and to prepare themselves for the new offices and posts opened to them by law.
     A great many women are employed as teachers, shopkeepers, bank and shop assistants, and clerks, telegraphists, and telehponists. But in spite of their equality with men before the law, women seldom or never get the best private posts, and are rarely promoted to higher posts in public services.
     Owing to numerous difficulties during the war, the work of the W.R.A. has been considerably reduced.  In addition to the work for the hospital fund, which it shared with other women's associations, it has been at the head of the agitation before the municipal elections, up to 1915, when women joined the political parties. Further, it has worked for the political education of women by lecturing on such subjects as the marriage law, legislation regarding children, life insurance, mothers' insurance, etc. It has arranged cooking courses for working women, and provided the children of Reykjavík with a good playground, which has been placed under the superintendence of the Town Council.
     In the summer of 1917, just before the opening of the Althing, the W.R.A. held a big public meeting and carried a resolution urging a revision of the marriage law, which was put forward in the Althing, and carried unanimously.
     In the Althing of 1919 three Bills were introduced by the government: —
     1. On the postition of marriage and divorce.
     2. On the position of illegitimate children.
     3. On the position of legitimate children.
     These Bills were referred to a committee, but will be brought forward in the next Althing unaltered, and it is to be hoped that they will be passed in spite of the latent opposition to this great reform, which grants almost the same rights to illegitimate as to legitimate children.
     We are sorry to have to report that since 1915 the branches of the W.R.A. have either ceased to exist or have united with other associations, saying that their aim was achieved. The W.R.A. in Reykjavik did not share this view, and has continued its work. On the occasion of the twenty-five years' jubilee of the Kvennabladid, which from 1905 to 1917 was the only suffrage paper in Iceland, the association decided to grant the paper a yearly allowance of 500 kroner, and 1,000 kroner for the last year, the need of an organ being intensely felt by them. Still, it is uncertain whether the editor, who has always edited the paper at her own cost, will be able to continue its publication in these difficult times. In a way it has fulfilled its task, as it jubilee, on February 22, happened to be just at the time when Icelandic women obtained their full political freedom, according to the amendment of the constitution.
     The position of Icelandic women seems to be improving in may ways. The political parties, and the Althing, are taking more notice of them. For instance, the Althing granted a sum of 2,000 kroner for the travelling expenses of an Icelandic delegate to the Congress of the International Council of Woman Suffragists, in Christiania, this autumn, and 2,500 kroner for a delegate to this Congress, and in accordance with the wishes of many women in Reykjavik, the Althing presented Mrs. Asmundsson with the sum of 2,000 kroner, in recognition for her work for women during the last twenty-five years.
     The future platform of the K.R.F.I. will be the same as before:—
     I. To work for the education of Icelandic women, in order that they may fully appreciate the rights and duties of good citizens.
     II. To work for the full equality of men and women in the legislation and enactment of the law, in the home as well as in the community.
     III. To work for educational reforms. Professional education to every woman, as well as special preparation for their position as mothers of the race. To demand equal pay for equal work, and keep a watchful eye on all new laws concerning these matters.


París 1926

SKÝRSLA KRFÍ - IWSA Þingtíðindi

Iceland
Kvenréttindafélag Islands
President: Briet Bjarnhédinsdóttir Ásmundsson, Reykjavík
Secretary: Laufey Valdimarsdóttir Ásmundsson, Reykjavík(International Woman Suffrage Alliance, Report of Tenth Congress. The London Caledonian Press, bls. 239-243)

PARLIAMENTARY FRANCHISEParis1926  Úr bókinni Journey towards Freedom


In 1915 Icelandic women got their political suffrage, subject to an age limit which was gradually to be lowered, but in 1918 they got universal suffrage on the same terms as men. There is one woman member of the Upper House. She was elected in 1922 on a non-partisan women´s list.LOCAL GOVERNMENT AND OTHER FRANCHISE
Since 1908 women have exercised municipal franchise on the same terms as men. Before women got the political suffrage several women councillors were elected on non-partisan lists supported by women's organisations. When the parliamentary vote was gained it was resolved that the women should join the political parties and try the co-operation with the men. At the first elections after that two women councillors were elected in Reykjavík, one socialist and one supported by the conservatives. But they were not accepted as candidates at the next elections and now the outcome of the co-operation with the men is the fact that at present we have no woman councillors nor any women serving on the muncipal bodies, except a few poor-law guardians in Reykjavík.

DOMESTIC RIGHTS
In 1917 a resolution carried in a big public meeting of women, held by the W.R.A., demanding the revision of the entire family legislation, was put forward in the Althing and carried unanimously, In the Althing of 1919 the government introduced the following bills:

On the contracting and dissolving of marriage.
On the position of legitimate children.
On the position of illegitimate children.

These bills were referred to a committee and passed by the Althing of 1921.
     As the women were waiting for a revision of the marriage law, the National Council of women presented a petition to the Althing urging that a bill dealing with this subject should be rpepared. In 1923 the new Marriage law was passed by the Althing. According to this law all marriage duties and rights are mutual. Husband and wife have to contribute according to their ability to the maintenance of the household, the family, and the special needs of the other party—either in money or by work in the home. Should the husband neglect his duty in this respect the wife has a right to demand a fair contribution and can have the sum paid to her out of his income, but she has not the right to a fixed proportion of his income. If the marriage is dissolved by death or divorce she has the right to the half property of both. Her personal earnings and property are at her own disposal. If she assists her husband in his occupation she can demand a reasonable salary.
     By this law the tutelage of the husband over his wife is fully abolished. The wife can make contracts regarding the household, children or her own needs, and does not require the consent of her husband except in such cases where he would require hers, i.e. for disposing of a house or estate where the family lives or which is used for their livelihood, furniture belonging to their home, instruments used for the work of the other part or any property used for the needs of the children. Both parties have right to object should the other mismanage their fortune to the detriment of the family.
     By a law passed last year on family names it was prohibited to take new family names and only such names allowed as had been legalised before 1913, when a law on new family names was passed. This measure is to protect the old Icelandic custom that each individual of the family uses his christian name and is simply called son or daughter of his father. The wife keeps her own maiden name after the marriage and according to this new law she could not legally take her husband's name unless he had a legalised family name when the law became valid, but such names are not common in Iceland.

INHERITANCE LAW
We have had equal inheritance laws since 1850.

GURADIANSHIP OF CHILDREN
Accoring to the law of 1921 both parents are joint guardians of their children. In cases of disagreement regarding the education of the children or other dispositions requiring money, the decisions of that parent preponderates who is willing to pay the expenses out of his personal property, or who chiefly maintains the family.
     Widows of state employees get a very small maintenance, for other widows there is no support except poor relief, which deprives them of their vote. How great is the necessity of a reform in this respect will be seen by the fact that during the last eleven years Iceland with its 100,000 inhabitants has lost 700 men at sea.

DIVORCE
The reasons for divorce are the same for both sexes. Such grounds are infidelity, desertion, bigamy, cruelty, drunkenness, bad behaviour towards the children, knowingly exposing the other to veneral disease without his knowledge, sentence of imprisonment for a period of two years, incurable mental disease. These grounds suffice for immediate divorce.
     If a married couple agree to part and send an application to the authority , separation for one year is granted. After that divorce shall be given if both demand it; after the lapse of two years either may demand divorce. It depends upon the circumstances whether a spouse may claim and get maintainance from the other or not, the guilty part gets no alimony. The children are given to the parent considered most fit to take care of them.

EDUCATIONAL RIGHTS
All schools are equally accessible to both sexes, and since 1911 all professions are open to women, including all judicial functions and the state church. As yet no woman has studied theology, but we have got our first woman district-physician, who braves the hardships of Icelandic travelling, on horseback and in open boats, as well as any of her masculine colleagues.
     Icelandic women are constantly demanding improved instruction in housekeeping. In 1927 a new school is to be opened for rual housekeeping, partly supported by gifts and partly by the state. Now our woman Member of Parliament has introduced a bill proposing that two private schools for girls shall become state schools. One of these has been altered from an ordinary girl's institute to a school for housekeeping and handicrafts. The bill is likely to be passed.

ECONOMIC RIGHTS
It may be mentioned that the telephone girls who are state employees obtained in 1923 better wages, although they are still badly paid. Until last year they have had to pay annually a considerable amount to the Widows and Old Age Pensions of the Telephone Assistants, without getting any benefits, because only very few of them are likely to remain in the service for twenty-five years. They belong to the telegraphists' union, and the men leaders there had solved the question for them by proposing a bill which was to be brought forward in Parliament that girls leaving the telephone service within a limit of eight years should have refunded to them the money they had paid to the widow's pensions, but those who left the service after more than eight years should not get anything.
     The girls did not appreciate this ingenious solution, and applied to the Parliament themselves through one of the most energetic Members and after a systematic lobbying in which they all took part their request was carried unanimously. Now each girl on leaving the telephone service gets the total sum she has paid to the Widow's Pensions. This year also the Midwives have had a bill prepared and introduced in Parliament, by which their wages are considerably heightened.

WORK OF THE W.R.A. AND OTHER WOMEN'S ACTIVITIES
In 1915 various women's associations in Reykjavík agreed to start the propaganda for the erection of a state hospital in Reykjavík, and celebrate each year, June 19, the day they got the vote, when money should be collected for a fund for the hospital. Miss Bjarnason, M.P., has always been the president of this hospital committee. Our association has taken part in this work together with seven other women's associations in Reykjavík. Now ca. 280,000 Icel. krónur have been collected by gifts and the yearly festivals, and ca. 106,000 Icel. krónur in a special fund collected by selling sympathy cards which are sent instead of flowers to funerals. As year by year the building of the hospital was delayed, the women decided to offer to give their fund of 280,000 to the state on the condition that the parliament granted the necessary money to finish the building before 1930, when we are going to celebrate the unique event of the 1,000 years' anniversary of our parliament. This offer was accepted, the foundation of the hospital will be laid this summer, and it is hoped that it will be finished next year. In the same way the women's associations of Northern Iceland have fought for the erection of a sanatorium for tuberculosis. In a few years they have collected 80,000 krónur for that purpose, 170,000 in addition are being collected by a special committee of men and women, the parliament has granted the same amount, 250,000, and now the sanatorium is going to be built. All over Iceland the women are collecting money for building different homes, or houses for their meetings or clubs, in the little place of Seyðisfjörður a women's association with twenty-three members has had a church built and has already collected 60,000 krónur for that purpose (£1=22 Icel. krónur 15 aurar).
     The W.R.A. which is affiliated to the National Council of Women is working together with the council for the erection of a clubhouse for women in Reykjavík which is to receive women from all parts of the country. A limited company has been founded and we are now collecting shares.
     In 1923 the W.R.A. invited women from all parts of the country to the first women's congress in Iceland. It was a great success and now in the spring the second one is to be held in Akureyri and we, together with the Women's Association of Northern Iceland, are making preparations for this congress, which we hope will further the ends of the Alliance.
     And last, but not least, we are preparing a campaign for the election to the Upper House this summer. We are going to have a non-partisan women's list with our president Mrs. Bríet Ásmundsson as No. 1. It is not likely that we shall win, but at any rate we shall make ourselves heard all over the country, and even if we do not this time get a woman M.P. elected we know that our efforts will not be fruitless. All the parties are of course taking stand against us, but they are already paying such attention to their woman voters as in preceding years we have been looking for in vain.


Berlín 1929

Berlin1929

Ræða Bríetar Bjarnhéðinsdóttir á þinginu
Bríet og dóttir hennar Laufey Valdimarsdóttir sóttu þing International Women Suffrage Alliance í Berlín í júní árið 1929. Varðveist hefur handritsbútur af ræðu er Bríet flutti á íslensku á þinginu og Laufey þýddi á ensku fyrir þingfulltrúa, sjá nánar:  KSS 6. Kvenréttindafélag Íslands. Askja 1.

Háttvirta samkoma (Herrar mínir og dömur).
      Það er víst ekki venjulegt að sjá fólk standa upp á fjölmennum samkomum og halda ræður á tungumáli sem enginn skilur nema sjálfur ræðumaðurinn. En íslenskur gamall málsháttur segir „syngur hver með sínu nefi“. Og af því að ég er svo óheppin að vera fædd hjá smáþjóð, sem enginn útlendingur skilur, nema ef til vill Íslandsvinafélagið þýska, þá fannst mér að ég geta ekki stillt mig um þetta tækifæri að sýna stjórþjóðum heimsins einusinni hversu ómetanlegir yfirburðir eru lagðir þeim í hendur frá fæðingunni með því að þær eiga tungu sem þær hvarvetna geta komist áfram með þótt þær kunni ekki meira en sitt eigið móðurmál, því í öllum löndum eru þá að minsta kosti flestir mentamennirnir nú á tímum sem læra eitt eða fleiri af þeim þremur tungum, sem til þeirra tíma teljast höfuðtungur heimsins. Og um leið vildi ég einnig sýna hvað notaleg(?) aðstaða smáþjóðanna er í þessu efni þgar þær fara að kynna sér það sem fram fer í heiminum. En til að bæta dálítið úr þessari dyrfsku minni og ókurteisi hefir dóttir mín tekið að sér að þýða fyrir yður ræðu mína á ensku, sem ég ekkki bjóst við að þér skilduð úr mínum munni betur en íslenskuna mína.
     Við höldum hér 25 ára afmælishátíð í dag. Það er afmælishátíð einnar mikilvægustu stjórnmálahreyfingar þessara tíma, kvenréttindahreyfingarinnar. - Að vísu var hún byrjuð löngu áður. Hingað og þangað í heiminum voru konur komar fram sem á meira og minna ákveðinn hátt heimtuðu breytingu á högum kvenna. En engin samtök voru á milli þeirri. Þessi nýja frelsisalda barst einhvernveginn ósjálfrátt í loftinu, án þess nokkurt band væri milli kvennanna, annað en kynferðið. - Það er eftirtektarvert að á flestum eða öllum Norðurlöndum voru stofnuð ný kvennablöð á sömu árunum, 1894-5, sem öll áttu að fjalla um helsta áhugamál kvenna. En þessi nýja hugsun: að draga konurnar saman í eina heild, sem takmarkaði sig um eitt einasta mál - eina frumhugsun: jafnrétti karla og kvenna - það var ný hugsun. Og að byrja á því að þessi nýi félagskapur takmarkaði sig um eitt einasta atriði kvenréttindamálsins: pólitískan kosningarrrétt og kjörgengi kvenna, sem væri lykillinn að öllum öðrum réttindum: það var „genialt“ pólitísk víðsýni, og algerlega ný aðferð. En hún byggðist á margra ára reynslu um það að því víðtækari sem stefnuskráin er því hættara er við villigötum frá aðalmálefninu.
     Ég veit ekki betur en að það væri fyrrverandi formaður þessa kvenréttindabandalags og núverandi heiðursformaður okkar Mrs. Carrie Chapman Catt sem fyrst kom þessari hugsun til okkar norðurálfukvennanna. Og hún og fleiri af hinum sterku kvenréttindakonum Ameríku stofnuðu þetta samband hér í Berlín fyrir 25 árum. Ef til vill hefir þessi hugmynd verið frá Susan B. Anthony. En Mrs Catt kom henni í framkvæmd með aðstoð flestra frjálslyndustu kvennanna í öllum þeim löndum sem gengið hafa í þetta samband hingað til að meira eða minna leyti. Og síðan að hún varð að leggja frá sér forystuna hafa aðrar konur tekið að sér að halda henni áfram og í þeim tilgangi höldum við þetta alþjóða sambandsþing vort.
     En hvað vakti þá fyrir okkur fyrstu konunum í hverju landi, sem kröfðumst meiri aukinna réttinda, fyrst og fremst sjtórnmálalegra réttinda?
     Það var þessi takmörkun sem hefir unnið sigrana í þeim löndum, sem veitt hafa konum flest réttindin. Konurnar sjálfar áttu þann áhuga og hugsjóna auð sem kveikti eld í sálum þeirra, svo þær þreyttust aldrei á að berja þetta mál málanna inní alla sem þær náðu til. Sannfæring [hér endar handritið]

skop1929

Skýrsla KRFÍ - International Woman Suffrage Alliance. Report of the eleventh Congress. Berlin, June 17th to 22d, 1929, bls. 410-412

It was mentioned in the last report that the W.R.A. had taken the initiative to invite women from all parts of Iceland to the first national conference of women, which took place in Reykjavík in 1923 and was a great success. In 1926, at the same time as the Paris Congress, a second conference organised by our Association and the Union of Women's Associations of Northern Iceland, took place in Akureyri.  The women of this little town with its 3,000 inhabitants offered hospitality for a fortnight to 60 delegates.  
     Owing to unsuitable sailings of the steamers only 40 were able to attend, but the hall was filled with men and women who took lively interest in the discussions. The matters discussed by the conference were the following:
     The participation of women in politics. The Education laws of Iceland. The special training of women as mothers and housewives. Schools for domestic science. The women's house in Reykjavik. Prohibition. Handicrafts, (national exhibition in 1930, a permanent sale centre, a school in handicrafts and a book with national designs). Gardening. Charitable work.
     To deal with these points standing committees were set up, some of which have done valuable work, e.g. the committees on gardening and domestic training. The president of the latter has been appointed by the Agricultural Society to sit on a committee which was to make proposals for systemizing the domestic education of Icelandic women. The proposals contained in an interesting report issued by the committee were on the lines suggested by the resolutions of the last women's conference. The delegates to the conference found the gathering most inspiring and it was agreed that the next conference should be held in 1930.
     In 1926 elections to the Upper House took place and our association organised a campaign and nominated a candidate, its president, Mrs. Bríet Bjarnhéðinsdóttir Ásmundsson. Owing to a serious illness she was unable to take part in the final struggle and was not elected although she received 800 signatures from all parts of the country to support her nomination.
     In 1927 and 1928 our association organised cooking courses for hose-wives in Reykjavík. The arrangement of the courses, which was new, proved so successful that since then such courses have become permanent although the W.R.A. only organised the first ones.
     Every spring the W.R.A. takes part in the work of the joint committee of women's associations in Reykjavík which has the aim of celebrating June 19th the day when Icelandic women got their vote and to collect funds for the national hospital. (As the hospital is to be opened next year the activities of this committee will probably be changed). Another work shared with other women's organisations is the collecting of shares for a limited company which is to build a clubhouse for women. The company has obtained ground as a gift from the state. At the last General Meeting the paid-up capital amounted to kr. 41000.00. The executive committee of the company is now making a great effort to secure capital to have the house erected next year.
     The only progress in legislation secured for women since 1926 through the agency of our association is the law giving to married women the right to retain their nationality as long as they do not leave the country. On the initiative of our association the woman M.P., Miss Bjarnason, introduced this bill in Parliament in 1926, in 1927 it became law.
     We have in vain applied to the mayor who has the power of appointing the three paid poor law officers asking him to appoint a woman to the thid vacant post. We have also made a futile appeal to the Government who were to decide according to the advice received from municipal bodies the minimum amount of alimony for a three-yearly period. In our letter we stated very clearly how absurd was the amount offered for the maintenance of children. Public opinion was aroused but unfortunately too late.
     Last winter we started a vigorous campaign for widows and destitute mothers. A pamphlet, letters and questionnaires were sent to about 130 women's associations and as many individuals all over the country. In Reykjavík we succeeded in obtaining the co-operation of 15 women's associations to form a joint committee to work for this end. Owing to the influenza epidemic this winter our campaign in Reykjavík has been delayed, but last Sunday we held a meeting in the second largest hall in the town (holding 500 persons), which was crowded with women, some of whom carried infants in their arms. Six speeches were given, and resolutions were passed expressing the satisfaction of the women that this campaign had been started, promising their support and authorizing the committee to have a bill brought before the next parliament. The meeting also vigorously protested against the stipulation of the existing Poor Law according to which the woman has to belong to the same commune as her husband, so that a widow revceiving aid under the Poor Law frequently is sent to an unknown district while her home is broken up and the children boarded out. The meeting was the most impressive women's meeting ever held in Reykjavík. A centre has been opened for receiving information about the status of widows and destitute mothers.
     A second task before our association is to organise the 3rd women's Conference which is to take place in Reykjavík next year, 1930, just before the celebration of the millennium of the Icelandic Parliament. Although this congress is attended by delegates from women's organisations all over the country they have not yet united in a federation, but the W.R.A. which started the conferences has been given the charge of organising them and calling them together. The Parliament has granted small sums both to these conferences and to the activities of the W.R.A.
     Our meetings usually take place once a month but this winter they have been fortnightly. Lectures are often given on various subjects.
     Our aim is to secure real equality of the sexes and to educate women to citizenship. This end we think best attained by uniting them to work for issuses of special interest to women understood by the average woman voter.