Minningar frá skólaárunum og „Fyrsta skólastúlkan“

laufeyvald 008

Úr bókinni: Úr blöðum Laufeyjar Valdimarsdóttur. Menningar- og minningarsjóður kvenna, Rvk. 1949

„Nemendur menntaskólans hafa beðið mig að skrifa einhverjar endurminningar frá skólaárum mínum í blaðið þeirra. Mér er ánægja að verða við bón þeirra, þótt ég hefði aldrei hugsað, að mér mundi sjálfri finnast ég nógu gömul til að skrifa endurminningar, fyrr en ég væri orðin sjötug. Þá gæti verið nógu gaman að staldra við og líta til baka og sjá lífið í gegnum öfugan kíki, — allt smátt og fjarlægt, en skýrt. En þó að ég sé ekki komin á þenna heiðríkjunnar tind, þá skal ég láta það eftir ykkur, börnin góð, að skrifa mína fyrstu endurminningar.

Ég hef haft menntaskólahúsið fyrir augum daglega, frá því að ég man eftir mér, því að það blasir við úr glugganum heima hjá mér, og lengra hef ég ekki komizt í lífinu en að ég uni enn á þessum fornu slóðum. Þegar ég fór að stálpast, fór mér að detta í hug, að gaman væri að fara í Latínuskólann, sem skólinn hét þá. Stúlkur höfðu þá ekki leyfi til að vera þar reglulegir nemendur, en árið 1887 var þeim leyft að ganga þar undir próf. Ein stúlka, Elínborg Jacobsen, Færeyingur, hafði þá fengið að sitja í 6. bekk og tók stúdentspróf árið 1897.

Árið 1904 urðu miklar breytingar hér á landi, — þá kom hér fyrst innlend stjórn. — Það ár voru svo miklar óeirðir í Latínuskólanum, að rektor skólans fór frá. Þá var mikið rætt um umbætur á skólanum, og ný reglugerð gekk í gildi um haustið. Samkvæmt henni skyldi skólinn vera samskóli, þegar því yrði við komið, og náminu breytt, grískunám afnumið, en latína fyrst kennd í 4. bekk.

Ég gekk inn í skólann vorið 1904 eftir gamla fyrirkomulaginu, en minn bekkur var fyrsti bekkurinn, þar sem náminu var hagað eftir nýju reglugerðinni. Latínu hafði ég lært um veturinn hjá Þórði Sveinssyni, núverandi prófessor, en þá stúdent, en ekki var krafizt við inntökuprófið, að gerður væri stíll. Að öðru leyti átti kunnátta mín úr barnaskólanum árið áður að duga. Ég var þó ekki sérlega sannfærð um, að þekking mín á námsgreinunum væri djúp, og mér er minnisstætt, að hrædd var ég daginn, sem ég gekk inn í skólann. Mér hafði ekki komið dúr á auga nóttina áður, og í skólanum var þá róstusamt. Piltar voru þá að kveðja rektor, því að það var seinasti dagur hans sem rektors í Latínuskólanum. Þeir fleygðu eldspýtum á gólfið, sem loguðu, þegar á þær var stigið, — og hópur af þessum hávaðasömu unglingum eltu bekk úr bekk þetta sjaldgæfa fyrirbrigði; telpukornið, sem var að taka inntökupróf. En lætin voru svo mikil, að skólanum var lokað og lögreglan sótt. En þótt ég stæðist prófið, var ekki víst að ég fengi að sitja í skólanum. Það var fyrst ákveðið um haustið.

Mér þótti frá byrjun vænt um skólann, húsið sjálft og allar þess minningar heilluðu mig. En þegar ég kom út í fyrstu frímínútunum þá fannst mér óvígur her streyma út úr ótal dyrum út á gangana. Þó var þetta ekki stærri hópur en um hundrað drengir, sem komu út úr einum sex dyrum. Ég man, að ég hljóp heim til mín í fyrstu frímínútunum, — það var svo stutt upp í Þingholtsstrætið. En svo fékk ég einkaleyfi til þess að vera inni í bekk í frímínútum, og man ég, að drengjum þótti mikið "sport" í því að koma inn að heimsækja mig, fóru þeir á handahlaupum yfir borð og bekki, þegar kennararnir ráku þá út.

Áður en ég fór í skólann, hafði ég oft heyrt talað um það, að háskalegt mundi vera fyrir stúlkur að vera í skólanum og mundu þær þá verða ókvenlegar og bíða tjón á sálu sinni. En ekki vissi ég, fyrr en ég kom í skólann, að piltarnir höfðu verið hræddir um að skemmast af samvistunum við stúlkurnar, því að einn af sjöttubekkingunum þá sagði mér, að hann hefði óttazt, að piltarnir hættu að vera riddaralegir, þegar þeir umgengjust stúlkurnar daglega. Ég vil minnast þess með þakklæti, að sjöttubekkingar Latínuskólans gamla fyrir 40 árum voru mér góðir. Þeir tóku að sér að kenna mér allar venjur hins gamla skóla. Þeir munu hafa gengizt fyrir því, að haldinn var skólafundur, þar sem ég var spurð, hvort ég vildi vera dús við skólann. Piltar þúuðu þá allir hver annan, en þéringar voru ólíkt algengari en nú gerist.

Piltar lásu þá inni í skólanum lexíur sínar, og þótt mér gaman að koma inn í stofurnar, þar sem þeir lásu. Létu þeir mig þá oft heyra margt úr skrifuðum blöðum skólans, gömlum og nýjum, sem voru í vörzlu efribekkinganna, en við busarnir höfðum ekki aðgang að. Óspektir áttu sér stundum stað, bæði þegar setið var við lestur í stofum, þar sem einn kennari átti að gæta allra, og á göngum í frímínútum. Svo mikið eimdi eftir af óróanum frá árinu áður. Oft fóru piltar í "bendu" á göngum og í stigum utan um einhvern kennarann, en voru þá vanir að hliðra til og standa eins og hermenn, ef kvenfólk gekk um, t.d. ég og lítið stúlkubarn, sem átti heima í skólanum. Ég held, að drengirnir hafi litið á mig eins og dálítið leikfang, sem ætti að fara varlega með. Þeir hafa áreiðanlega viljað vera riddaralegir við fyrstu stúlkuna, sem var busi í skólanum. Þegar átti að halda árshátíð skólans, samþykktu þeir, að skólinn allur skyldi bjóða mér og ég skyldi verða fyrir þeim heiðri að færa upp ballið með dúxinum í 6. bekk. Dúx 6. bekkjar var ævinlega vanur að færa upp með þeirri stúlku, sem hann bauð. Það má nærri geta, hvort þessum var ljúft að hætta við að færa upp með gullfallegri kærustu sinni og fá í staðinn stelpukrakka, 15 ára, fyrir "dömu". En ekki nóg með það. Skólinn valdi pilt til að sækja mig og annan til að fylgja mér heim, — og svo skyldi ég færa upp dömudansinn með þeim, sem ég kysi sjálf.

Engin ósköp standa lengi. Eftir þessa miklu upphefð verð eg að játa, að vegur minn fór heldur að minnka. Þess skal getið, að bekkjarbræðrum mínum var frá upphafi ljóst, að ég var svo sem enginn blómhnappur, sem bera skyldi yfir erfiðleikana. Við kýttum og sættumst og urðum félagar og vinir. Mig langaði svo til að vera félagi þeirra. Það var æðsta hugsjón skólans, að menn yrðu að vera góðir félagar, og því skyldu stúlkur ekki geta verið það eins og piltar? En eins og ég var alin upp við hugmyndir um jafnrétti karla og kvenna, voru piltarnir aldir upp við andstæðar skoðanir. Og þetta kom fljótt í ljós, undir eins og nýjabrumið fór af því, að stúlka var í skólanum. Ég man ekki hvort það var, þegar ég var í öðrum eða þriðja bekk, að það atvik kom fyrir, sem ég skal nú segja frá.

Í skólanum var barizt um völd eins og annarstaðar, og var mikill metingur milli efri og neðri bekkjanna um kosningu í stjórn Íþöku, bókasafn skólans. Neðribekkingarnir voru mannfleiri, og árið áður höfðu þeir náð völdum í þessari stjórn. Nú átti að kjósa aftur. Efribekkingar gátu þá með einhverjum ráðum komið að einum manni og datt í hug að kjósa stúlku, "stelpu" — til þess að sýna með því algera fyrirlitningu á bókasafnsstjórninni. Ég var svo kosin. Man ég þá, að formaður Íþökustjórnarinnar, sem var bekkjarbróðir minn, sagði við mig á fundinum í hljóði, að ég mundi náttúrlega ekki taka við kosningunni, því ég vissi, í hvaða skyni þetta væri gert. — Ég lét þó sem ég heyrði ekki þessa ráðleggingu, hedur tók til máls og sagði við piltana, að ég ætlaði að taka við þessu starfi í alvötu, þótt þeir hefðu kosið mig í gríni!

Nú kom að því, að ég átti að vera við bókaútlán. Þá söfnuðu þeir liði, þessir piltar, sem alltaf höfðu verið mér svo góðir. Nú ætluðu þeir "að gera at" i mér eins og kennurunum áður. — Þeir köstuðu í mig húfunum sínum, tugum saman virtist mér, og kipptu í pils mitt, þegar ég var að fara upp stigana til þess að ná bókum. Bekkjarbróðir minn, sem með mér var við bókaafhendinguna, lokaði allar húfurnar inni! Næst þegar ég átti að gæta lestrarsalar Íþöku, sem opinn var á sunnudögum, tók ekki betra við. Þá hlupu drengirnir með bækur og stóla út á götu. — En þetta stóð ekki lengi fremur en fyrsta dálætið. Eftir að þetta hafði komið fyrir tvisvar sinnum, nenntu piltarnir ekki að eiga í þessu lengur, urðu mér eins og góðir félagar, ef þess þurfti með.

Nú fer víst að verða búið það rúm, sem mér var ætlað í blaðinu ykkar. Mér þykir verst að geta ekki sagt ykkur frá því, sem gerðist, þegar átti að reka mig úr Framtíðinni, þegar ég var í 5. bekk, því að endirinn varð sögulegur. Þegar fullar sættir voru komnar á, stakk ég upp á því, að reynt skyldi að fá hátíðasal skólans fyrir árshátíð félagsins, og skyldi ég sjá um veitingarnar, kaffi o.s.frv. Vissi ég, að við áttum hauk í horni, þar sem var frú Cathinka, kona Jóhannesar Sigurjónssonar, yfirkennara, sem bjó í skólanum og var ákaflega góð öllum nemendum skólans, sem hún náði til, enda hjálpaði hún í þetta sinn sem oftar. Hátíðir skólans höfðu verið haldnar úti í bæ undanfarin ár, því að salurinn fékkst ekki lánaður. En nú fékkst þetta leyfi, og veit ég ekki betur en að ýmsar hátíðir skólans hafi verið haldnar þar árlega síðan. Svo að þarna gat þó stúlka komið einhverju góðu til leiðar fyrir skólalífið!

Það hefði verið verið gaman að ræða við ykkur um þetta mál: þátttöku stúlknanna í skólalífinu og hvers vegna hún hefur ekki orðið svo mikil sem æskilegt væri. Það tekur langan tíma að vinna á gömlum hleypidómum. Það er ekki að sjá, að þeir, sem skólanum stjórna , hafi áhuga á því að hann sé samskóli, fyrst farið er í kringum reglugerð samskóla með því að búa til sérstaka bekki fyrir pilta og stúlkur.

Ég hef fasta trú á því, að það sé nauðsynlegt til þess að heimurinn batni, að karlar og konur læri að starfa saman á öllum sviðum lífsins. Samskólarnir eru bezti undirbúningurinn til þess. Sjálf er ég þakklát fyrir að hafa fengið að alast upp með drengjum og veit, að ég hef haft af því ómetanlegt gagn. Minningarnar um skólaár mín eru eitt hið bezta, sem ég á í eigu minni. Fölskvalausari kunningsskap hef ég ekki þekkt síðan.“


Lærði skólinn um 1900 Ljósmynd í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur

Lærði skólinn, Prestaskólinn og Læknaskólinn voru algjörlega lokaðir stúlkum fram til ársins 1886, en þá fengu þær að taka 4. bekkjar próf og burfararpróf án þess þó að vera heimiluð skólavist í Lærða skólanum. Árið 1904 var ný reglugerð sett um Lærða skólann. Hann hlaut nafnið Hinn almenni menntaskóli, og þá var stúlkum heimiluð skólavist með sömu skilyrðum og piltum. Árið 1911 var sett í lög að konur fengu sama rétt og karlmenn til að njóta kennslu og ljúka fullnaðarprófi í öllum menntastofnunum landsins. Einnig fengu þær sama rétt og karlmenn til námsstyrkja og embætta. Nánar má lesa um æðri menntun íslenskra kvenna má fá í bókinni Íslenska menntakonan verður til eftir Valborgu Sigurðardóttur. Bókafélagið gaf út árið 2005.


Þorsteinn Þorsteinsson, „Fyrsta skólastúlkan“ úr bókinni Minningar úr menntaskóla. Reykjavík, 1946.

„Þess hefur verið óskað, að ég skrifaði pistil í minningarrit Lærða skólans um bekk okkar, sem urðum stúdentar 1910, og minntist þar sérstaklega fyrstu íslensku skólastúlkunnar, Laufeyjar Valdimarsdóttur. Nú, þegar ég er í sem mestum "önnum dagsins", verður mér óhægra að draga fram myndir frá löngu liðnum tíma en ella. Þó skal hér á nokkra tilraun gera.

Þegar við 11 tilvonandi bekkjarsystkin ætluðum að taka inntökupróf í Lærða skólann vorið 1904, voru veðrabrigði mikil að sjá á lofti, í menntamálum. Gríska skyldi með öllu útlæg ger úr skólanum og nemendum deildur varla hálfur skammtur af latínu við það, sem áður var, en í þess stað koma meiri kennsla í "nýju málunum", handavinnu og fleira. En margt var á reiki um það, er koma skyldi, og supum við bekkjarsystkinin síðar seyðið af því.

Þegar til inntökuprófs kom, varð það að ráði, að við skyldum prófuð í latínu, og vorum við hin síðustu, er þá þraut leystum til þess að komast í 1. bekk. Var um þessar mundir gerð nafnbreyting á Latínuskólanum gamla. Nú skyldi hann ekki lengur heita Lærði skólinn, heldur Hinn almenni menntaskóli. Margt var þá á hverfanda hveli hjá okkur. Haustið fyrsta bættust okkur þrír bekkjarfélagar, allir án latínuprófs. Þrír af þeim, sem tóku próf um vorið, komu ekki aftur, og vorum við því 11 bekkjarsystkinin fyrsta veturinn. Kennarar komu þá nokkrir nýir að skólanum, — tveir fastakennarar og tveir tímakennarar. Kennslubækur átti að velja okkur nýjar, og nýjum aðferðum skyldi beitt við kennsluna. Þetta varð stundum nokkuð fálmkennt í fyrstu, einkum bókavalið, og skipt um aftur. Varð þetta okkur til nokkurs trafala allan skólann. Við vorum þar nokkurs konar „tilraunadýr“ í þágu hinnar nýju skólafræðslu. Skólapiltar þeir sem fyrir voru, töldu okkur öllum busum (fyrstu bekkingum) vesalli, er við ættum enga von til að læra grísku og gætum aldrei orðið menn í latínu. Annars litu jafnan þeir, sem ofar voru í skóla, mjög niður á busana, meira að segja castringar (annarsbekkingar), þótt þeir í efri bekkjunum teldu þá ekki sér jafnsnjalla og þeirra gætti minna að metorðum en hávaða. Langt mál mætti skrifa um hina nýju reglugerð og framkvæmd hennar, en hér skal staðar numið.—

Veturinn áður en við gengum inn í skólann, höfðu þar verið uppþot og ærsl í mesta máta, og kom svo, að rektor skólans, Björn M. Ólsen, hinn mikli fræðimaður og frábæri kennari, varð að sækja um lausn frá því embætti. Mun þar mestu hafa valdið, hversu honum var lítt sýnt um að stjórna ungmennum, er margir fóru saman og allhávaðasamir, en jafnan misjafn sauður í mörgu fé. Skólanum var það óhamingja, að ekki skyldu honum notast meira hinir miklu kennarahæfileikar Björns M. Ólsen.

Þegar við tókum inntökupróf, var Ólsen enn rektor. Ærsl voru þá mikil og hávaði, eldspýtnasprengingar, söngur og fótaspark á skólaganginum og jafnvel í kennslustofum. Heyrðist lítt til okkar, einkum þeirra, sem feimnir voru. Kom að því, að Þorvaldur Björnsson „pólití“ var sóttur til að ryðja bekki og gang skólans, en hann fékk þar litlu áorkað. Halldór Daníelsson bæjarfógeti var þá kallaður. Hann fékk ruddan skólann með Þorvaldi, og voru þá settir dyraverðir við dyr og glugga og engum hleypt inn öðrum en þeim, sem annaðhvort voru ættingjar eða kennarar okkar undir skóla. Tókst að varna skólapiltum inngöngu, þótt fast væri á leitað, enda þá nær lokið prófinu. Mér er það minnisstætt, þegar einkunnir okkar voru lesnar upp þegar að afloknu prófi í kennarastofunni, að brothljóð kvað við, og hrutu rúðubrotin úr stofuglugganum á bakhluta eins kennarans, er við gluggann stóð, en sneri sér frá honum. Honum varð mjög hverft við.

Ég hafði varla áður til Reykjavíkur komið og aldrei séð slíkar aðfarir. Þótti mér nóg um slíkt og meira en það, og velti því mjög fyrir mér, hvort árennilegt væri að halda lengra á námsbrautinni, ef oft slægi í svona brýnur sem þessa í skólanum. Sem betur fór urðu ekki veruleg uppþot í skóla í minni tíð, og hef ég þaðan yfirleitt hina ánægjulegustu minningar.

Það vakti athygli mína þennan inntökuprófsdag, að ung stúlka, fríð sýnum, gekk þar að prófborði ásamt okkur og jafnan mikill flokkur skólapilta á hælum henni, því að prófað var í fleiri kennslustofum, og gengum við busaefnin á milli þeirra, fram og aftur. Stúlka þessi var Laufey Valdimarsdóttir, Ásmundssonar, og Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, og var það fyrsta stúlkan, sem tók inntökupróf í skólann og hafði sett sér það mark að taka þaðan stúdentspróf. Það var því að líkum, að tilvonandi skólabræður hennar vildu fylgjast með, hvernig hin fyrsta ganga þessarar verðandi skólasystur yrði. Mun þeim og hafa verið í huga að virða fyrir sér útlit hinnar fyrstu þokka- eða menntagyðju, er skólanum áskotnaðist og ekki var kaldur málmur eða gips. Þá kom það Laufeyju að góðu haldi, að hún var ekki feimið sveitabarn, því að mjög vel vissi hún, að piltar veittu svörum hennar fyllstu athygli, og búast mátti við, að á loft yrði haldið fjarstæðum, ef sagðar væru. Hún mun og þá þegar hafa verið sér þess vel meðvitandi, að nú hefði það fallið henni í skaut að fara fyrst sinna kynsystra og setast í skóla þennan og þannig ryðja þeim braut, er á eftir kæmu, á leiðinni til hins æðra náms. Var því ærið í húfi, að hún reyndist jafnoki prófbræðra sinna. Raun bar þar um gott vitni. Svaraði hún vel og rösklega, og óttuðust þeir okkar, sem þá fengu hæstar einkunnir, mjög um dúxsætið.

Haustið eftir settist Laufey í 1. bekk, og var hún fyrsta íslenzka stúlkan, er sezt hafði þar á skólabekk. Hún lýsti yfir því, að hún hefði gengið í skólann með þeim ásetningi að hverfa ekki þaðan, fyrr en hún hefði lokið stúdentsprófi. Laufey lét ekki heldur sita við orðin ein. Hún sat alla sex bekki skólans, þar til yfir lauk og tekið var stúdentspróf. Þrjú vorum við bekkjarsystkinin, sem jafnan fylgdumst að gegnum allan skólann, við Laufey og Helgi Guðmundsson frá Reykholti, nú bankastjóri. Hinir aðrir bekkjarbræður okkar lásu einhverja bekkina utan skóla, sumir breyttu um bekk eða hættu námi.

Fyrsta veturinn í skólanum var Laufey frekar einmana, — ekki af því, að skólabræðurnir forðuðust hana. Þvert á móti virtist ýmsum vera hugleikið að ná fundi hennar. Þetta var alger nýjung í skólanum, að þar væri til viðtals ung, fremur lagleg og gáfuð mær, og var því eðlilegt, að piltarnir strunsuðu ekki fram hjá henni eins og daufdumbir eða blindingjar. Busía (1. bekkur) var þá í suðvesturhorni skólans niðri, og voru í þeim enda engar aðrar kennslustofur. Stóðu kennarar þar á verði í tíu mínútunum og hleyptu ógjarnan piltum inn í suðurganginn eða busíu. Laufey hélt sig venjulega inni í bekk í frímínútunum, en skammt var um liðið, er einstöku piltar úr efri bekkjunum fóru að gera kurteisisheimsóknir í bekkinn til þess að sjá og ræða við þennan unga 15 ára fulltrúa hins fríða kyns. Þótti mér, umsjónarmanni bekkjarins, nóg um, er margir komur í einu, því að þá var hætta á, að ýmislegt færi úr lagi á borðum okkar. Voru piltar á verði, er kennarar uggðu ekki að sér, að skjótast gegnum þetta vonarskarð og inn í 1. bekk, en voru stundum sóttir þangað og látnir fara út. Gat orðið úr þessu þref nokkurt milli kennara og pilta, og varð einstaka pilti hált á því. Það skal tekið fram, að ekki virtist mér Laufey sérstaklega sækjast eftir heimsókn þeirra, en hins var von, að ekki væri neitað velboðinni aðstoð eða útskýringu á torskildum stöðum námsgreinanna. Stóðu þannig sakir fram yfir jól. Þá var það, að öðlingurinn Jóhannes Sigfússon, sem þann vetur var settur yfirkennari og hafði íbúð rektors í skólanum, bauð Laufeyju, að hún mætti vera í frímínútunum uppi hjá þeim hjónum, en þyrfti ekki að kúra inni í bekk eða rölta úti við ein síns liðs, — ég meina án stallsystra, því að nægur var kostur stallbræðra. Þá Laufey boð þetta og var þar flestar frístundir. Þótti henni það stórum frjálslegra. Næsta ár kom Guðrún Bjarnardóttir frá Grafarholti, ágæt stúlka, í skólann. Gerðist hún þegar félagi Laufeyjar, og var hún þá ekki lengur einmana sem áður í frímínútunum. Brátt fór þá kvennaliðinu að fjölga í skólanum, en ekki gaf Laufey sig mjög að því. Veit ég ekki, hvorum aðila það var meir að kenna. Virtist svo sem Laufey væri sjálfkjörin til forystu skólameyja, ef hún hefði æskt þess. Síðasta ár Laufeyjar í skólanum var svo komið í busíu, að skólameyjar voru þar litlu færri en skólapiltar, og sagt var, að kvennaráð mættu sín meir en tillögur karlmanna.

Laufey var prýðilega gáfuð. Námið var henni mjög létt nema stærðfræðin. Mun þar hafa mest um valdið skortur á þolinmæði við að skýra þá námsgrein fyrir sér í byrjun og síðan að láta oft aðra leysa fyrir sig hið torráðna í námsgreininni, en einbeita sér ekki við að ráða sjálf fram úr reikningsþrautunum. Hún trúði því líka sjálf, að hún gæti ekki lært stærðfræði.

Frekar var Laufey stopul við nám, en las mikið utan námsgreina og varð fljótlega vel að sér í Norðurlanda- og enskum bókmenntum. Hún las heima hjá móður sinni, og mun það hafa verið fremur ónæðissamt, — gestagangur mikill, umræður um félagsmál kvenna, — í þeim tók Laufey snemma virkan þátt, — snúningar á heimili o.fl.

Ég las með Laufeyju undir vorpróf upp úr 1. bekk, og lásum við þá af töluverðu kappi. Man ég, hversu fljót hún var að nema, jafnvel þótt henni hefði skotizt yfir að lesa ýmsa kafla um veturinn. Gætti gamla konan, frú Bríet, þess að við værum ekki trufluð við lesturinn. Laufey tók þá líka ágætt próf. Yfirleitt var hún með hinum efstu í bekknum. Reyndar töldu kennarar okkar bekk fremur lítinn lærdómsbekk, en við höldum því fram, að einkunnir okkar hefðu orðið hærri, ef hið sífellda hringl með nám okkar, bækur o.fl. hefði ekki verið okkur til trafala.

Það var að mörgu vandasöm staða fyrir Laufeyju í skólanum, piltar gáskafullir og einstaka ódælir. Hún var þar fystu árin eins og undir smásjá. Henni var veitt meiri athygli en öðrum og hent á loft, ef eitthvað fór verr en vel, og strítt á köflum. Var hún stórgeðja, en um leið meyr í skapi. Laufey virtist mér þannig skapi farin: Hún var hreinlynd og trygglynd, og féllu henni þungt allar mótgerðir frá þeim, er hún taldi vini sína, ef þær voru að ófyrirsynju. Hún var drengur góður og stóð jafnan sem bjarg með bekkjarbræðrum sínum gagnvart kennurum, ef í odda skarst. Man ég dæmi þess, að hún lýsti sig samseka bekkjarbræðrum sínum um óhlýðni við einn kennara, þótt hún hefði engan hlut átt, og fékk þess vegna áminningu í einkunnabók sína. Hún lagði stund á það að vera félagi okkar og vinur, og mun það fremur hafa verið okkar sök, að þar var stundum ábótavant. Hún var gestrisin og vildi, að við litum inn til þeirra mæðgna sem oftast, og vorum við þar saman í heimboði hvern vetur í bezta yfirlæti. Högum Laufeyjar var þannig farið heima fyrir, að ekki var rétt að krefjast eins mikil jafnlyndis af henni og okkur. Laufey var listhneigð og á köflum draumlynd, þjóðleg í huga og þjóðleg í máli, eins og hún átti kyn til, — mátti helzt ekkert aumt sjá og vildi jafnan vinna þar bót á. Það var máski mesta yfirsjón hennar í sambúðinni við okkur bekkjarbræður, að hún vildi stundum drottna yfir okkur og það svo, að á bæri. En slíkt var ekki þolað. Þá var það og, að Laufey var eldheitur málsvari kynsystra sinna í kvenréttindamálum öllum og þoldi aldrei, að á þær væri hallað. En ýmsir okkar sögðu sig þar í meiri andstöðu við hana en þeir í raun og veru voru. Ristu oft deilur allharðar út af því, er hún gat ekki stillt sig um að andmæla slíku gemsi okkar.

Ég hef reynt að lýsa Laufeyju eins og hún kom mér fyrir í skóla, en síðan hafa kynni okkar verið minni, einkum hin síðari árin. En mér verða kærastar minningarnar um hana sem skólasystur, þótt ekki félli alltaf vel á með okkur þá, en það veldur sjaldan einn, er tveir deila, og ekki gekk sólin undir yfir okkar reiði.

Nú er hún látin í fjarlægu landi. Hún var orðin fjarlægari okkur bekkjarbræðrunum, — sinnti nú á seinni árum mjög hrjáðum mæðrum og var málsvari þeirra, mun og hafa búið við vanheilsu. Hún er hin síðasta, sem horfin er okkar bekkjarsystkinanna. Næstur á undan henni hné Guðmundur Kamban, veginn í vor. Fallnir eru nú sex af þeim fimmtán, er stúdentar urðu vorið 1910. „Þynnist lið á þeim stað“.“