Kosningaréttur kvenna

Hátíðarhöld 7. júlí 1915 Bríet flytur ræðu á Austurvelli
Þann 19. júní 1915 fengu íslenskar konur 40 ára og eldri langþráðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Baráttan hafði þá staðið yfir frá árinu 1885 en þá skrifaði Valdimar Ásmundsson grein um stjórnmálaréttindi kvenna í blað sitt Fjallkonuna og sömuleiðis Bríet Bjarnhéðinsdóttir, og Páll Briem hélt opinberan fyrirlestur um kosningarétt og önnur réttindi kvenna.

Árið 1894 var stofnað í Reykjavík Hið íslenska kvenfélag og hafði það jafnrétti kynjanna og þátttöku kvenna í opinberum málum á stefnuskrá sinni. Félagið safnaði 2000 undirskriftum með áskorun til Alþingis um að veita konum kosningarétt árið 1895. Þetta var fyrsta opinbera krafan um kosningarétt kvenna sem skipulögð samtök kvenna lögðu fram.

Sérkennilegur kosningaréttur 1915
Konur þurftu að vera orðnar 40 ára þegar þær fengu kosningarétt á Íslandi árið 1915. Þetta aldursákvæði var einsdæmi í heiminum og Bríet Bjarnhéðinsdóttir kallaði þetta „hinn nafnfræga, íslenska stjórnviskulega búhnykk“ í blaði sínu, Kvennablaðinu. Nánar um aldursákvæðið.

Konur fagna kosningaréttinum 1915
Almennur kvennafundur i Reykjavik 7 juli 1915Þegar tíðindin um að konungur hefði skrifað undir lögin um kosningarétt kvenna bárust með símanum til Íslands ákváðu Kvenréttindafélag Íslands og Hið íslenska kvenfélag að halda minningarhátíð og fengu með sér formenn flestra kvenfélaga í Reykjavík. Setja átti Alþingi þann 7. júlí og konurnar ákváðu að gera sér dagamun þann dag. Nánar um hátíðarhöldin.

Afhverju 19. júní?
„Þann 19. júní 1915 undirritaði Kristján X. konungur lög um breytingu á stjórnarskrá Íslands sem m.a. færðu konum 40 ára og eldri kosningarétt til Alþingis. ... Stjórnskipunarlögin sem færðu konum kosningarrétt voru birt í A-deild Stjórnartíðinda 19. júní 1915 og í B-deild Stjórnartíðinda 27. október 1915 var auglýsing um birtingu þeirra í samræmi við ákvæði laga nr. 11/1877, um birtingu laga og tilskipana. Lögin tóku gildi 19. janúar 1916, þ.e. að liðnum 12 vikum frá birtingu auglýsingarinnar. ... Þegar vitnað er til laga frá fyrri tíð í ritum um sögu Íslands er yfirleitt vitnað til þeirrar dagsetningar þegar konungur staðfesti lögin þó vitað sé að það var ekki dagurinn sem þau tóku gildi. Þetta er iðulega gert enn í dag með tilvísun til númers laga og/eða þeirrar dagsetningar þegar lögin eru birt í Stjórnartíðindum, en ekki hvenær þau taka gildi.“ Fyrstu þingkosningarnar sem konur gátu tekið þátt í fóru fram 5. ágúst 1916 þegar landþingskosningar fóru fram en almennar þingkosningar voru síðar sama ár, þann 21. október 1916. Nánar á vef Alþingis.

Alþjóðabaráttan fyrir kosningarétti kvenna
Alþjóðakosningaréttarsamtökin International Woman Suffrage Alliance (IWSA) átti beinan þátt í stofnun Kvenréttindafélags Íslands, sem og fjölda annarra kvenréttindafélaga um veröld alla. Forystukonum var falið að kynna boðskapinn og setja sig í samband við líklegar fylgiskonur við málstaðinn. Þing samtakanna voru að jafnaði haldin annað hvert ár og stóðu gjarnan í heila viku. Mikið var gert til þess að skemmta þingfulltrúum og skapa náin kynni þeirra í millum. Milli þinganna fóru konurnar í fyrirlestrarferðir og notuðu þá gjarnan tækifærið til heimsókna hver hjá annarri. Þannig byggðu samtökin upp alþjóðlegt stuðnings- og baráttunet kvenna.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir sótti þingin 1906, 1913 og 1929. Dóttir hennar, Laufey Valdimarsdóttir sótti einnig nokkur þing, ýmist ein eða með Bríeti. Blað Bríetar, Kvennablaðið, flutti fréttir af gangi mála hjá systurfélögunum. Bríet þýddi einnig greinar úr blöðum systurfélaganna og kynnti útlenskar baráttukonur fyrir kynsystrum sínum á Íslandi. Nánar um þátttöku íslenskra kvenna á alþjóðaþingunum.

Ártöl og áfangar í sögu kosningaréttar

1863 Vilhelmína Lever (1802-1879) kaus í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri árið 1863 og 1866. Kosningarétt til sveitarstjórna höfðu fullmyndugir menn sem uppfylltu ákveðin skilyrði um eignir. Þessi lög voru ekki talin ná yfir konur. Í manntali er Vilhelmína kölluð verslunarborgarinna, en hún rak verslun og veitingasölu á Akureyri.

1874 Steinunn Jónsdóttir (1820-1878) og Ingibjörg Pálsdóttir (1829-?) ekkjur í Mosvallahreppi í Önundarfirði kusu í sveitarstjórnarkosningum árið 1874. Konur höfðu þó ekki fengið kosningarétt til sveitarstjórna, en kosningarétt í hreppnum hafði „hver búandi maður".

1882 Konur, sem eiga með sig sjálfar, fá kosningarétt, sbr. lög nr. 10,12. maí 1882,3. gr.: Ekkjur og aðrar ógiftar konur, sem standa fyrir búi, eða á einhvern hátt eiga með sig sjálfar, skuli hafa kosningarétt, þegar kjósa á í hreppsnefnd, sýslunefnd, bæjarstjórn og á safnaðarfundum, ef þær eru 25 ára og að öðru leyti fullnægja þeim skilyrðum, sem lög ákveða fyrir þessum réttindum,"

1884 Andrea Guðmundsdóttir (1845-?) saumakona á Ísafirði varð fyrst kvenna, svo vitað sé, til að nýta sér kosningarétt kvenna til sveitastjórna frá 1882 er hún kaus í bæjarstjórnarkosningum 1884.

1886 Konur sem með lögum nr. 10, 12. maí 1882, fengu kosningarétt við hreppsnefnda- og sóknarnefndakjör o. fl., fá nú kosningarétt við prestkosningar.

1888 Kristín Bjarnadóttir (1812-1891) frá Esjubergi varð fyrst reykvískra kvenna til að nýta kosningarétt kvenna til sveitarstjórna frá 1882. Hún kaus til bæjarstjórnar 3. janúar 1888. Kristín rak kaffistofuna Hermes í Lækjargötu.

1888 Þingvallafundurinn. Konur úr Ísafjarðarsýslu og Þingeyjarsýslu sendu áskorun til fundarins þar sem farið var fram á aukin réttindi kvenna. Skúli Thoroddsen og Pétur Jónsson lásu áskoranir kvennanna upp. Fundarmenn samþykktu að skora á Alþingi að „gefa málinu um jafnrétti kvenna við karla, sem mestan gaum". Þingvallafundirnir voru þjóðmálasamkomur á Þingvöllum við Öxará, haldnar með hléum 1848-1907 og eru taldar hafa eflt þjóðernisvitund og samtakamátt Íslendinga á upphafsskeiði þjóðfrelsisbaráttunnar.

1902 Konur sem fengu kosningarétt 1882 fá nú loks kjörgengi til sveitarstjórna og sóknarnefnda.

1907 Kosningarréttur og kjörgengi nær til fleiri kvenna í Reykjavík og Hafnarfirði og nær nú einnig til giftra kvenna, auk þess sem krafan um greiðslu í bæjarsjóð var lækkuð.

1908 Konur setjast í bæjarstjórn í fyrsta sinn á Íslandi. Þetta voru þær Katrín Magnúsdóttir, Þórunn Jónassen, Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Guðrún Björnsdóttir. Þær buðu saman á sérstökum kvennalista í Reykjavík, en að baki honum stóðu Kvenréttindafélag Íslands, Hið íslenska kvenfélag, Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið og Hringurinn. Listinn fékk flest atkvæðin í kosningunum. 

1909 Konur í öðrum sveitarfélögum fá sama rétt til kosninga og kjörgengis og konur í Reykjavík og Hafnarfirði. Hjú fá kosningarétt en ekki kjörgengi. 

1910 Solveig Jónsdóttir frá Múla hlaut kosningu í bæjarstjórn Seyðisfjarðar. Hún hafði boðið fram á lista ásamt Margréti Björnsdóttur og hlaut listi þeirra rúm 36% atkvæða.

1911 Konur bjóða fram á sérlista í annað sinn á Akureyri og fá einn kjörinn fulltrúa, Kristínu Eggertsdóttur sjúkrahússtýru.

1915 íslenskar konur og hjú fá kosningarétt til Alþingis með stjórnskipunarlögum. Er miðað við 40 ára aldur, en skyldi aldursmarkið lækka um eitt ár næstu 15 árin.

1920 Með stjórnarskrá konungsríkisins Ísland, fá íslenskar konur og hjú full pólitísk réttindi 25 ára.

*Fyrst birt árið 2005. Síðast uppfært 2. nóvember 2020