Íslenskar konur fengu að sönnu kosningarétt þann 19. júní 1915 – en aðeins þær sem voru 40 ára og eldri. Samtímis fengu vinnumenn kosningarétt með sömu skilyrðum og konur. Engin önnur þjóð setti viðlíka aldursákvæði um kosningarétt kvenna.*
Aðeins tvær þjóðir settu sérstakt aldurstakmark á kosningarétt kvenna: Ísland og Bretland. Í Bretlandi var markið sett við 30 ára aldur árið 1918 en á Íslandi við 40 ára aldur árið 1915. Aldursmarkið á Íslandi skyldi lækka um eitt ár á ári þannig að árið 1931 stæðu konur og karlar jafnfætis að þessu leyti. Engin fordæmi finnast fyrir viðlíka ákvæði í veröldinni og því hlýtur að vakna sú spurning hvaðan það er sprottið. Hvaðan kom þingmönnum norður í Dumbshafi sú hugmynd að njörva þingskosningarétt kvenna niður við 40 ára aldur - og það tiltölulega skömmu eftir að þeir höfðu samþykkt kosningarétt kvenna í sveitarstjórnum um allt land án allra skilyrða? Það má svo bæta því við að ekki verður betur séð af umræðum á Alþingi en að þingmenn hafi verið býsna vel upplýstir um gang mála úti í heimi um kosningarétt kvenna. Ekki verður því fáfræði kennt um.
Árið 1911 hafði Alþingi samþykkt frumvarp sem gerði ráð fyrir jöfnum atkvæðisrétti karla og kvenna til Alþingis. Í umræðum um frumvarpið lagði Jón Jónsson í Múla fram breytingartillögu þess efnis að konur skyldu fá kosningarétt, en við 40 ára aldur. Rök Jóns voru þau helst að óráðlegt með öllu væri að fjölga kjósendum um 2/3 hluta í einu. „Engin menntuð þjóð hefur þorað að gera þessu líka tilraun“, sagði Jón í Múla, en vitaði hins vegar til Wyoming þar sem konur höfðu haft kosningarétt og kjörgengi um hartnær 40 ára skeið og „hafa bæði blöð og þing þess ríkis verið orðlögð fyrir siðprýði jafnan síðan“.
Breytingatillaga Jóns í Múla var felld í neðri deild Alþingi og þingið samþykkti frumvarpið með jöfnum atkvæðisrétti. Það hlaut hins vegar ekki náð fyrir augum danskra stjórnvalda fremur en önnur stjórnskipunarákvæði þetta árið því sambandsmál Dana og Íslendinga voru í hnút.
Árið 1913 komu þingmenn sér saman um nýtt frumvarp varðandi kosningarétt kvenna og nú sveif andi Jóns í Múla yfir vötnum að honum látnum. Meirihluta nefndar neðri deildar sagði svo í athugasemdum sínum við frumvarpið að varhugavert væri að „fjölga svo kjósendum alt í einu, að núverandi kjósendur sjeu sviftir mest öllu valdi yfir landsins málum.“
Hér bregður fyrir ótta við yfirvofandi breytingar hjá nefndinni. Sams konar ótta má finna í máli Jóns Magnússonar sem sagði í umræðum að hætt yrði við að konur myndu skoða sig sem sérstakan flokk sem aðeins mætti kjósa konur á þing ef þær fengju kosningaréttinn allar í einu. Síðan klykkti hann út: „Að minsta kosti höfum við Reykvíkingar dæmi fyrir okkur í þessu.“
Í Reykjavík höfðu verið bornir fram kvennalistar við bæjarstjórnarkosningar árin 1908. 1910 og 1912 við góðar undirtektir. Kosningastarfið og vinnan í bæjarstjórninni hleypti konum kapp í kinn og sýndu hvers þær voru megnugar er þær stóðu saman. Sennilega er það þetta kapp sem þingmenn voru farnir að óttast er hér var komið sögu. Svo var einnig um fleiri. Í landsmálablöðunum Ísafold og Þjóðólfi fóru að birtast greinar er kom fram á vorið
1911 þar sem beinlínis var ráðist að konum og þær ekki taldar hafa neitt það til mála að leggja sem ætti erindi í stjórnmál. Í kosningafélaginu Fram, félagi Heimastjórnarmanna, hafði Jón Þorláksson borið upp snemma árs 1912 og fengið samþykkta tillögu um að ráða Alþingi frá því að samþykkja rýmkun kosningaréttarins fyrirvaralaust. Hér var nýr tónn sleginn. Kvenréttindabaráttan hafði verið tiltölulega meinlítil hér á landi fram að þessu, en nú urðu eins og kynslóðaskipti í umræðunni og að meinleysisgríman rynni af þeim karlmönnum sem komu nærri stjórn landsins. Fordæmið frá Reykjavík mátti ekki endurtaka sig í landsmálunum.
Eins og áður sagði skyldi aldurstakmark kvenna lækka um eitt ár árlega og því hefði jafn kosningaréttur karla og kvenna náðst árið 1931 – og Ísland hefði þar með lent ansi aftarlega í röðinni hvað þetta varðar. En ákvæðið sem Bríet Bjarnhéðinsdóttir kallaði í háði „hinn nafnfræga, íslenska stjórnviskulega búhnykk” var afmáð með sérstökum hætti. Með sambandslagasamningum milli Dana og Íslendinga fylgi hins vegar ákvæði um að jafna skyldi ríkisborgararéttindi landanna á þann veg að þau réttindi er t.d. Danir nytu í Danmörku skyldu þeir einnig njóta á Íslandi. Í kjölfarið var nokkrum lagaákvæðum breytt á Íslandi, þar á meðal ákvæðum um kosningarétt kvenna og hann færður til jafns við rétt karla árið 1920. Það má því segja að Danir hafi skorið íslenska þingmenn úr þessari sérkennilegu snöru.
* Sú saga hefur farið á kreik og ratað inn í fræðirit að danskar konur hefðu einnig fengið kosningarétt 1915 með sömu takmörkunum og þær íslensku. Þetta er ekki rétt; danskar konur fengu kosningarétt 5. júní 1915 með sömu skilyrðum og karlmenn.