Hátíðarhöldin á Austurvelli 1915

Almennur kvennafundur i Reykjavik 7 juli 1915Hátíðin fór fram á Austurvelli 7. júlí 1915 og hófst kl. 5:20 síðdegis með því að fylking kvenna raðaði sér upp í Barnaskólagarðinum og hélt af stað „í skínandi sólskini og stafalogni og gleðibrag á öllum andlitum“, eins og Bríet skrifaði í blað sitt Kvennablaðið. Fremst gengu 200 ljósklæddar smámeyjar með litla íslenska fána í höndum sér en á eftir kom aðalfylkingin og gengu 3 konur samhliða. Fyrir þeim fór hornaflokkur og lék ýmis íslensk lög. Fylkingin gekk eftir Lækjargötu, Austurstræti, Pósthússtræti og Kirkjustræti og inn á Austurvöll sem var allur fánum skreyttur. Sendinefnd kvenna gekk inn í þinghúsið með ávarp frá íslenskum konum á fund sameinaðs þings. Ingibjörg H. Bjarnason las upp skrautritað ávarp til þingsins. Forseti Sameinaðs Alþingis, sr. Kristinn Daníelsson, þakkaði með stuttri ræðu og sömuleiðis ráðherra, Einar Arnórsson. Síðast bað séra Sigurður Gunnarsson konur lengi að lifa og tók þingheimur undir það með þreföldu húrra.

Eftir þessa athöfn í þinghúsinu var tekið til við hátíðahöldin á Austurvelli þar sem söngflokkur kvenna söng kvæði sem Guðmundur Magnússon orti í tilefni dagsins, lesið var upp skeyti til Kristjáns konungs X og drottningar frá kvennafundinum og ávarpið til Alþingis. Síðan fluttu þær Bríet Bjarnhéðinsdóttir og Ingibjörg H. Bjarnason ræður en á milli var sungið kvæði eftir frk. Maríu Jóhannsdóttur. Að lokum var sungin Eldgamla Ísafold. Um kvöldið var svo hátíðarsamkoma í Iðnó og var öllum heimilt að koma sem það vildu og veitt kaffi, te, mjólk og gosdrykkir.

Samkoman var ein sú fjölmennasta sem sést hafði hér á landi, ef ekki sú fjölmennasta – og aldrei höfðu áður sést svo margar og jafn prúðbúnar konur. Þá var þetta í fyrsta sinn sem íslenski fáninn eins og við nú þekkjum hann var hafður uppi á fjölmennri útisamkomu sem viðurkenndur sérfáni Íslands, en Kristján konungur X hafði einnig undirritað frumvarp um sérfána Íslands þann 19. júní. Smámeyjarnar héldu allar á íslenska fánanum, Austurvöllur var fánum skrýddur og sömuleiðis Iðnó þar sem íslensku flöggin og íslensku litirnir voru yfirgnæfandi bæði á borðunum undir veisluföngin og salurinn allur. Minningarhátíðin var því eins ‘íslensk’ og hugsast gat.

Heimild: Kvennablaðið 16. júlí 1915


Félag Wikipedianotenda á Íslandi fékk styrk frá framkvæmdanefnd afmælisársins, m.a. til að fá og birta ljósmyndir sem teknar voru í miðbæ Reykjavíkur þegar konur fögnuðu kosningaréttinum, en það gerðu þær þegar Alþingi var sett 7. júlí 1915. Myndirnar tóku Magnús Ólafsson og Þorleifur Þorleifsson. Sökum aldurs myndanna er enginn höfundarréttur á þeim en sæmdarréttur á enn við. Þjóðminjasafn Íslands varðveitir plötur/filmur. Heimild: Vefur Alþingis

Austurvollur 1915Austurvöllur Hátíðarhöld 7. júlí 1915 Bríet flytur ræðuBarnaskólinn Pk-616Hátíðarhöld 7. júlí 1915 AJ-1728Hátíðarhöld 7. júlí 1915 AJ-1729Hátíðarhöld 7. júlí 1915 AJ-1731Hátíðarhöld 1915 SÍS-6658