Fyrstu verkföll

8077018061_5044cb4296_o

Fyrsta verkfall kvenna 1907

Sumarið 1907 fóru hafnfirskar verkakonur, sem unnu við fiskbreiðslu, í verkfall. Verkfallið stóð stutt yfir, dagsstund eða svo, og uppskáru konurnar launahækkun. Þetta er eftir því sem best er vitað, í fyrsta skipti sem konur fóru í verkfall hér á landi. 

Sigríður Erlendsdóttir (1892–1980) var í forystusveit Verkakvennafélagsins Framtíðarinnar í áratugi og hafði á hendi útbreiðslu Alþýðublaðsins í Hafnarfirði í 40 ár. Hér má lesa viðtal við hana þar sem hún talaði meðal annars um verkfallið 1907: Alþýðublað Hafnarfjarðar, 4. tbl. (19.06.1975), bls. 4:

„Það gerðist hér 1907, þegar Hlíf var stofnuð, en hún var i fyrstu sameiginlegt félag-verkakvenna og verkamanna, eða þar til Framtíðin var stofnuð árið 1925. Ég man vel eftir fyrsta verkfallinu, sem ég tók þátt i skömmu eftir stofnun Hlífar. Það má reyndar mikið vera, ef það var ekki fyrsta verkfall verkakvenna á íslandi. Fiskurinn var breiddur að morgni og svo neituðum við að taka hann saman nema kaunið yrði hækkað. Náttúran var okkur hliðholl, því að það gerði skúr og ekki varð hjá því komist að taka fiskinn saman. Þetta var hitamál i bænum. Það var samið og kaupið hækkað úr tólf og hálfum eyri á klukkustund i 15 aura.“

Annað verkfall kvenna 1912

„Árið 1912 fóru hafnfirskar fiskverkunarkonur í verkfall á ný og stóð það yfir í um mánuð. Bríet Bjarnhéðinsdóttir taldi það vera fyrsta verkfall kvenna þegar hún sagði frá því í Kvennablaðinu. 

Þá fóru fiskverkunarkonur í Hafnarfirði í verkfall í marsmánuði 1912 og stóð það að minnsta kosti í mánuð. Kaupið hafði verið 15 aurar um tímann jafnt í sunnudags- og eftirvinnu sem dagvinnu virka daga. Reyndar höfðu konurnar 18 aura í fiskþvotti, ef ekki var unnið í akkorði. Karlmenn í Hafnarfirði fengu þá 40­–50 aura fyrir tímann í sunnudaga- og eftirvinnu og var það minna en í Reykjavík.

Verkfallinu lauk með því að konurnar fengu kröfur sínar að miklu leyti uppfylltar, þær fengu 18 aura um tímann í dagvinnu virka daga, 5 aura hækkun fyrir eftirvinnu frá klukkan 7 síðdegis til klukkan 11, en 10 aura hækkun eftir þann tíma. Fyrir sunnudagavinnu skyldu þær fá 30 aura um tímann og 10 aura viðbót eftir klukkan 7.

Eftir þetta gengu konurnar inn í Verkamannafélagið Hlíf en félagið hafði stutt þær með ráðum og dáð og jafnvel með peningum á meðan á verkfallinu stóð.“ – Anna Sigurðardóttir, Vinna kvenna í 1100 ár, Reykjavík 1985, bls. 430–431.

Stofnun Verkakvennafélagsins Framsóknar 1914

„Vorið 1913 gekkst Kvenréttindafélag Íslands undir forystu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur fyrir fundi með fiskverkunarkonum í Reykjavík, þar sem ræða skyldi kjör þeirra. Þetta varð upphafið að Verkakvennafélaginu Framsókn, sem stofnað var ári síðar, og þar með stigið fyrsta skrefið í baráttu kverkakvenna fyrir bættum kjörum.“ - Sigríður Th. Erlendsdóttir. „Reykvískar konur í atvinnulífinu 1880-1914“, Reykjavík, miðstöð þjóðlífs. Safn til sögu Reykjavíkur. Reykjavík 1978, bls. 41-61.

Frekara lesefni um kjarabaráttu kvenna.

fiskur 1     fiskur 2 

*Ljósmyndir í eigu Ljósmyndasafns Reykjavíkur og Þjóðminjasafns Íslands