Fyrstu konur í bæjarstjórnum

askorun1908

Áfangar í kosningarétti kvenna í sveitarstjórnum

 • 1882 Ekkjur og aðrar ógiftar konur er standa fyrir búi eða eiga á annan hátt með sig sjálfar fá kosningarétt á sömu forsendum og karlmenn: Þær þurfa að vera 25 ára, hafa átt fast aðsetur í hreppnum/bænum og hafa goldið skatt, mega ekki skulda sveitastyrk, vera fjár síns ráðandi og ekki öðrum háðar sem hjú, þ.e. ekki vinnukonur. 
 • 1886 Sömu konur og að ofan greinir fá kosningarétt við prestskosningar. 
 • 1902 Sömu konur og að ofan greinir fá kjörgengi. 
 • 1907 Kosningarréttur og kjörgengi nær til fleirri kvenna í Reykjavík og Hafnarfirði. Hann nær nú einnig til giftra kvenna, auk þess sem krafan um greiðslu í bæjarsjóð var lækkuð.
 • 1909 Konur í öðrum sveitarfélögum fá sama rétt til kosninga og kjörgengis og konur í Reykjavík og Hafnarfirði. Hjú fá kosningarétt en ekki kjörgengi. 
 • 1917-1924 Hjú fá kjörgengi í Reykjavík, á Akureyri og á Ísafirði. 
 • 1926 Hjú fá kjörgengi í öllum bæjar- og sveitarfélögum. Samræmd löggjöf um land allt. Ákvæði um að konum sé heimilt að skorast undan kosningu er fellt niður.

Sjá nánar: Sigríður Th. Erlendsdóttir, Breytingar á réttarstöðu íslenskra kvenna á 20. öld: erindi flutt í Félagi áhugamanna um réttarsögu 17. febrúar 1987Reykjavík, 1987, bls. 6.


Kvennaframboð í Reykjavík 1908-1918

Fyrstu konurnar sem settust í bæjarstjórn á Íslandi voru kjörnar af kvennalista í Reykjavík í janúar árið 1908. Listinn fékk flest atkvæðin í kosningunum og fjóra fulltrúa af þeim 15 sem um var kosið.

Kosningin 1908

24. janúar 1908 fóru fram kosningar til bæjarstjórnar í Reykjavík og átti að kjósa 15 fulltrúa. Kosningin fór fram í Barnaskólanum (gamla Miðbæjarskólanum) kl. 11-17. Á kjörskrá voru 2.838 en bæjarbúar voru alls 11.016. Konur á kjörskrá voru 1.209 og karlar 1.629. Atkvæðisréttar neyttu 593 konur (49%) og 1.027 karlar (63%) eða 57% kjósenda og hafði þátttakan aldrei verið meiri.

Í kosningunum voru bornir fram 18 listar, hvorki fleiri né færri. Kvenfélögin í bænum báru fram sérstakan lista og fékk hann bókstafinn F.

Konurnar unnu geysivel fyrir kosninguna. Þær efndu til fyrirlestra um lagalega stöðu kvenna, um nýju kosningalögin og um bæjar- og sveitarstjórnarmál. Þær skiptu bænum í níu hverfi og kusu nefndir sem höfðu það hlutverk að heimsækja hverja einustu konu með kosningarétt og hvetja hana til að kjósa. Þær opnuðu kosningaskrifstofu og gáfu út kosningastefnuskrá. Í stuttu máli má segja að þær hafi verið upphafsmenn að skipulögðum kosningaáróðri i Reykjavík.

Listi kvenfélaganna fékk langflest atkvæðin, eða 345 að tölu og voru það 21,8% greiddra atkvæða. Hann kom öllum sínum fjórum fulltrúum að. (Sá listi sem næstur var að atkvæðatölu fékk 235 atkvæði).

1908 var kosið um 15 fulltrúa en síðan átti að draga út 5 fulltrúa á 2ja ára fresti og kjósa aðra 5 í þeirra stað. Það voru því kosningar annað hvert ár. Kvenfélög í Reykjavík buðu fram lista í öllum kosningum fram til ársins 1918 að þau buðu fram með karlmönnum í fyrsta sinn. Konur sem kjörnar voru af kvennalista eða fyrir kvenfélögin sátu í bæjarstjórn til ársins 1922.

Fylgi kvennalistanna 1908-1916:
1908: 21,8%
1910: 21,3%
1912: 21,8%
1914: 14,5%
1916: 10,2%

Heimild:
Auður Styrkársdóttir, Barátta um vald. Konur í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908-1922. Reykjavík, 1994, bls. 48-49 og 32.
Sjá einnig:
Auður Styrkársdóttir, „„Vel byrjar það!“ Konur í bæjarstjórn í 100 ár“, Morgunblaðið 2. febrúar 2008, bls. 3.


Fyrstu konurnar í bæjarstjórn

Bríet Bjarnhéðinsdóttir átti hugmyndina að því að kvenfélögin í Reykjavík bæru fram sérstakan kvennalista árið 1908. Kvenfélögin sem stóðu að baki listanum voru fimm að tölu: Kvenréttindafélag Íslands, Hið íslenska kvenfélag, Thorvaldsensfélagið, Hvítabandið og Kvenfélagið Hringurinn (öll starfa þessi félög enn þann dag í dag nema Hið íslenska kvenfélag).

Efst á listanum var Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, í öðru sæti var Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins, í því þriðja Bríet Bjarnhéðinsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands og í því fjórða Guðrún Björnsdóttir, sem var félagi í Kvenréttindafélagi Íslands. Hér eru stutt æviágrip þeirra og annarra kvenna sem kjörnar voru í bæjarstjórn af kvennalistunum gömlu:

katrinskuladottirmagnussonrunn JónassenBríet BjarnhéðinsdóttirGuðrún Björnsdóttir 1853-1936Guðrún Lárusdóttir alþingi.isInga Lára Lárusdóttir

 


Kvennalistar á Akureyri og á Seyðisfirði

Akureyri

 • 1910 Kvennalisti borinn fram í fyrsta sinn þegar giftar konur (þ.e. konur kjósenda) voru komnar með kosningarétt. Í eina sæti listans var Halldóra Bjarnadóttir, skólastýra Barnaskólans. Listinn hlaut aðeins 33 atkvæði af þeim 411 sem greidd voru.
  Heimild: Norðurland, 6. janúar 1910, bls. 1.
 • 1911 Kvennalistinn hlaut 79 atkvæði af 472 (16,7%) og Kristín Eggertsdóttir, sjúkrahússtýra, var kjörin í bæjarstjórn, fyrst kvenna á Akureyri.
  Heimild: Norðurland, 7. janúar 1911, bls. 5.
 • 1914 Kristín Eggertsdóttir var efst á einum listanum við kosningarnar 1914 en sennilega var það ekki kvennalisti. Listinn hlaut aðeins 30 atkvæði og kom engum að.
  Heimild: Norðurland, 5. janúar 1914, bls. 1.
 • 1921 Halldóra Bjarnadóttir var í efsta sæti B-listans og Kristín Eggertsdóttir í öðru sæti. Listinn hlaut 161 atkvæði af þeim 550 sem greidd voru (29%) og Halldóra kjörin.
  Heimild: Íslendingur, 18. janúar 1921.
 • 1923 Kristín Eggertsdóttir, veitingakona, skipaði fyrsta sæti C-listans og Anna Magnúsdóttir, kennslukona, annað sætið. Listinn hlaut 68 atkvæði af 822 (8.3%) og náði Kristín ekki kjöri.
  Heimild: Íslendingur, 3. janúar 1923.

Kristin Egg. Halldóra B


Seyðisfjörður

Konur buðu fram sérstakan lista á Seyðisfirði árið 1910, B-listann. Á honum voru Solveig Jónsdóttir frá Múla og Margrét Björnsdóttir. Listinn hlaut 81 atkvæði af þeim 223 sem greidd voru (36,3%) og hlaut Solveig kosningu.
Heimild: Austri, 8. janúar 1910, bls. 3.

sólveig jónsdóttirSolveig Jónsdóttir (1884-?)


Konur kjörnar í sveitarstjórnarkosningum

Um 44% fulltrúanna sem kjörnir voru í sveitarfélögunum árið 2014 eru konur. Það er nokkur aukning frá kosningunum 2010, en þá voru konur tæp 40% fulltrúa sem kjörnir voru.

Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum 1950-2014
1950: 1%
1954: 0,4%
1958: 1%
1962: 1%
1966: 2%
1970: 2%
1974: 4%
1978: 6%
1982: 12%
1986: 19%
1990: 22%
1994: 25%
1998: 28%
2002: 31%
2006: 36%
2010: 40%
2014: 44%


Bæjarstýrur

Eftir kosningarnar 2006 voru konur kjörnar eða ráðnar bæjarstjórar í 5 af 24 bæjarstjórastöðum á landinu, eða 21%.

Þessar konur hafa gegnt eða gegna starfi bæjarstjóra, kjörnar 1957-2008:

 • Hulda Jakobsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi 1957-1962
 • Auður Auðuns, borgarstjóri í Reykjavík 1959-1960
 • Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri í Reykjavík 1994-2003
 • Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundafjarðarbæ 1995-2006
 • Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ 2000-2005
 • Stefanía Traustadóttir, bæjarstjóri í Ólafsfirði 2002-2006
 • Jóna Fanney Friðriksdóttir, bæjarstjóri í Blönduósbæ 2002-
 • Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerðisbæ 2002-
 • Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ 2002-2007
 • Hansína Ásta Björgvinsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi 2004-2005
 • Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri Reykjavík 2004-2007
 • Erla Friðriksdóttir, bæjarstjóri í Stykkishólmsbæ 2005-2010
 • Stefanía Katrín Karlsdóttir, bæjarstjóri í Árborg 2006-2006
 • Oddný G. Harðardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs 2006-
 • Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri í Árborg 2006-2009
 • Helga Jónsdóttir, bæjarstýra Fjarðarbyggðar 2006-2010
 • Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar 2006-2014
 • Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, 2007-2009
 • Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík 2008-2010

* Fyrst birt árið 2008
* Síðast uppfært janúar 2022