Bríet Bjarnhéðinsdóttir bæjarstjórn

Bríet Bjarnhéðinsdóttir

1908-1910 og 1914-1920 í bæjarstjórn Reykjavíkur


*27.9. 1856 að Haukagili í Vatnsdal í Húnavatnssýslu   †16.3. 1940 í Reykjavík 

Foreldrar: Bjarnhéðinn Sæmundsson, bóndi, og kona hans Kolfinna Snæbjarnardóttir.

~ 1888 Valdimar Ásmundssyni, ritstjóra


Bríet Bjarnhéðinsdóttir fæddist að Haukagili í Vatnsdal árið 1856 en flutti með foreldrum sínum að Böðvarshólum í Vesturhópi er hún var á 4. ári og ólst þar upp. Móðir hennar var ekki heilsuhraust og kom það í hlut Bríetar sem eldri dóttur að taka við húsmóðurstörfum er hún var tæplega fermd. Þegar Bríet var rúmlega tvítug lést faðir hennar og gerðist Bríet þá vinnukona í Eyjafirði. Hún gekk í Kvennaskólann að Laugalandi í Eyjafirði veturinn 1880-81 en hann var stofnaður árið 1877. Þetta var eina skólagangan sem stúlkum bauðst í landinu á þessum árum því þeim var meinað að ganga í framhaldsskólana, Latínuskólann í Reykjavík, læknaskólann og prestaskólann og gagnfræðaskólann á Mörðuvöllum. Bríet stundaði eftir þetta kennslu barna í Reykjavík og í Þingeyjarsýslu. Hún giftist Valdimar Ásmundssyni, ritstjóra Fjallkonunnar, árið 1888 og bjó alla tið eftir það í Reykjavík. Þau Valdimar keyptu sér hús að Þingholtsstræti 18 árið 1890, sem nú er búið að rífa. Þau eignuðust tvö börn, Laufeyju árið 1890 og Héðinn árið 1892.

Bríet var stofnandi og ritstjóri tveggja blaða, Kvennablaðsins er út kom 1895-1919 og Barnablaðsins er út kom 1898-1903. Bríet missti mann sinn árið 1904 og þá var það ævistarf sem hún er þekktust fyrir allt eftir. Hún sinnti félagsmálum kvenna lítið framanaf, en var þó félagi í Hinu íslenska kvenfélagi. Hún gekkst fyrir stofnun Kvenréttindafélags Íslands árið 1907 og var formaður þess frá upphafi til ársins 1926, að undanskildu árinu 1910-1911. Hún tók þátt í alþjóðabaráttu kvenréttindafélaga fyrir kosningarétti og sótti fundi alþjóðasamtakanna í Kaupmannahöfn árið 1906, Búdapest árið 1913 og Berlín 1929. Hún var einnig virk í norrænum samtökum kvenréttindafélaga og sótti fundi á vegum þeirra.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir var kjörin af kvennalista árið 1908 og sat til ársins 1910 en var þá dregin út (15 bæjarfulltrúar voru kjörnir til 6 ára árið 1908 en annað hvert ár skyldu fimm þeirra dregnir út með hlutkesti og fimm kjörnir í staðinn). Hún var aftur kjörin af kvennalista árið 1914 og sat til ársins 1920. Hún tók mjög virkan þátt í kvennabaráttunni og með störfum sínum og skrifum í og útgáfu Kvennablaðsins átti hún mestan þátt einstakra kvenna í því að bera út boðskap kvenréttinda. 

Kvenréttindafélag Íslands heiðraði minningu Bríetar í júni árið 2007 með því að koma fyrir minnisvarða að Haukagili í Vatnsdal, fæðingarstað hennar. Kvennasamtök, ríki og borg, heiðruðu minningu Bríetar í nóvember 2007 með opnun minningarreitsins Bríetarbrekku í Þingholtsstræti í Reykjavík. Ólöf Nordal hannaði reitinn.


Heimildir:
Björg Einarsdóttir: Úr ævi og starfi íslenskra kvenna. II. bindi. Bókrún. Bls. 224-249. Ljósmynd m.a. á bls. 224.
Sigríður Th. Erlendsdóttir: Veröld sem ég vil. Saga Kvenréttindafélags Íslands 1907-1992. Kvenréttindafélag Íslands. Bls. 30-52.



Stafræn útgáfa © Útgáfuréttur 2008 Kvennasögusafn Íslands