1921-1923 í bæjarstjórn Akureyrar
*14.10. 1873 að Ási í Vatnsdal †28.11. 1981 á Blönduósi
Foreldrar: Bjarni Jónasson bóndi og kona hans Björg Jónsdóttir
Ógift og barnlaus.
Halldóra ólst upp að Ási til 9 ára aldurs en þá skildi móðir hennar við mann sinn og fylgdi Halldóra móðurinni til Reykjavíkur þar sem þær áttu heima. Halldóra stundaði heimiliskennslu frá 17-22 ára aldri en hélt til Noregs 1896 og lauk kennaraprófi 1899. Heimkomin hóf hún kennslu við Barnaskólann í Reykjavík, en þegar hún sótti um fasta stöðu eins og þeir tveir kennarar aðrir við skólann sem höfðu próf var henni neitað. Þá fékk Halldóra stöðu við barnaskóla í Noregi og bjó þar til ársins 1908 að hún var skipuð skólastjóri Barnaskólans á Akureyri. Halldóra var skólastjóri 1908-1918 og kom á ýmsum nýjungum, t.d. var handavinna bæði drengja og telpna tekin upp og sömuleiðis tannskoðun og kennsla í tannburstun. Haustið 1922 flutti Halldóra til Reykavíkur og gerðist handavinnukennari við Kennaraskólann. Þar hafði hún mikil og mótandi áhrif á handavinnukennslu í íslenskum barnaskólum í áraraðir.
Halldóra átti stóran hlut að máli í stofnun Sambands norðlenskra kvenna árið 1914 og var fyrsti formaður þess. Hún átti þátt í stofnun fjölda kvenfélaga víðs vegar um landið. Hún var ritstjóri ársritsins Hlín sem Samband norðlenskra kvenna hóf að gefa út 1917 og gegndi því starfi til 1967 en þá hætti ritið að koma út. Hún stofnaði Tóvinnuskólann á Svalbarði við Eyjafjörð 1946 og rak til 1955. Með störfum sínum og félagsmálum átti Halldóra mikilvægan þátt í því að hefja heimilisiðnað kvenna til vegs og virðingar.
Halldóra var í fyrsta og eina sæti kvennalista sem borinn var fram við bæjarstjórnarkosningar á Akureyri árið 1910. Listinn hlaut aðeins 8% atkvæða og Halldóra náði ekki kjöri. Hún var hins vegar kjörin í bæjarstjórn Akureyrar af kvennalista árið 1921 og hlaut þá 29% atkvæða og var þá Kristín Eggertsdóttir í öðru sæti listans. Halldóra sat m.a. í skólanefnd.
Heimildir:
Skjöl Halldóru Bjarnadóttur eru varðveitt á Landsbókasafni-Háskólabókasafni: Kvennasögusafni (KSS 168) og Handritasafn (Lbs 5082, 4to - 5102, 4to) sem og á Héraðsskjalasafni Akureyrar og Hérðasskjalasafni Austur-Húnavatnssýslu.
Stafræn útgáfa © Útgáfuréttur 2008 Kvennasögusafn Íslands