May 5, 2017

Fróðleiksmoli: Laufey Valdimarsdóttir og ástandsmálið svokallaða


#áÞessumDegi árið 1945 birtist grein eftir Laufeyju Valdimarsdóttir, þáverandi formanns Mæðrastyrksnefndar og Kvenréttindafélags Íslands, um ástandsmálið svokallaða.

Þar gagnrýnir hún skýrslu um ríflega 500 konur sem áttu að hafa í verið í sambandi við erlenda hermenn, bendir á að einungis væri verið að fylgjast með siðferði kvenna en ekki karla og varar við því að stofna aftur til „betrunarhælis“ fyrir ungar stúlkur „sem ekkert hefðu annað af sér brotið en að lenda í því barnungar að verða ástfangnar“ eins og heimilið á Kleppjárnsreykjum var.

Hún skrifaði:

„Enginn mundi reyna að setja þá karlmenn á betrunarstofnun, sem hefðu verið í kunningsskap við þessar stúlkur og hætt er við því að ekki þætti ástæða til að senda dætur efnaðra manna á slíkt heimili. Þetta yrði því til þess að gera mun á körlum og konum, fátækum og ríkum. ... Forkólfarnir í þessari herför boðuðu ýmsar forustukonur kvenfélaga til fundar við sig og óskuðu eftir samvinnu við þær um þessi mál. En þeim til furðu reyndust konurnar. ekkert ginkeyptar eftir neinni samvinnu við þessa menn, og komu fram raddir um það, að þeim mundi full þörf á að snúa vandlætingu sinni að siðferði síns eigin kyns. Ekki bar þó á því, að þeir fyndu neina köllun til þess.“

Greinina má finna í tímaritinu Vísi 5. maí 1945, bls. 3 og 6. Á handritasafni  Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, eru til skjöl sem varða þetta mál í öskju merktri Laufey Valdimarsdóttur en Jóhanna Knudsen lögreglukona kærði Laufeyju fyrir meiðyrði eftir birtingu greinarinnar.

Árið 2009 opnaði Kvennasögusafn sérvef um Laufeyju Valdimarsdóttur. Hún var um tíma formaður Kvenréttindafélags Íslands (KRFÍ) og stofnaði nokkur kvenfélög t.d. Mæðrastyrksnefndar, Mæðrafélagsins og Kvenstúdentafélags Íslands, en gögn þessara fjögurra félaga eru varðveitt á Kvennasögusafni. 

laufeyvald 003

-Rakel Adolphsdóttir 5. maí 2017, síðast breytt 2. mars 2023

laufeyvald_003_.jpg