Svava Jakobsdóttir (1930–2004), rithöfundur og alþingiskona

svava althingi

Svava Jakobsdóttir rithöfundur fæddist þann 4. október 1930. Hún var áttunda konan sem kosin var á Alþingi, árið 1971 fyrir Alþýðubandalagið. Hún sat á þingi til ársins 1979. Svava veitti ómetanlegan stuðning í kvenfrelsisbaráttunni, bæði með skrifum sínum sem og störfum á Alþingi. Sjá nánar um feril Svövu og störf á þinginu á vef Alþingis.svava jakobsdottir mars 1971 ljosmyndasafn reykjavikur

Svava var í nánu sambandandi við Rauðsokkahreyfinguna, sat stundum fundi þeirra og ræddi t.d. frumvarpið um Jafnlaunaráð sem og frumvarp um þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir á Alþingi. 

KSS63_askja_28_orkVilborgSig

Dæmi um mál á Alþingi:

1973 Jafnlaunaráð tók til starfa. Svava Jakobsdóttir var upphafsmaður þess og fyrsti flutningsmaður að frumvarpi til laga. Lögin tóku gildi 24. apríl sama ár: konum og körlum skulu greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og að öðru leyti sambærileg störf og atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. 

1975 Um þungunarrof: „Ég trúi því að kona, sem æskir fóstureyðingar, geri það ekki af léttúð, heldur út úr neyð, og ég trúi því að hún æski þess með það í huga að taka fulla ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni og gerðum sínum.“

1976 „... Að síðustu, herra forseti, hef ég lagt til að Kvennasögusafn Íslands fái fjárveitingu frá Alþ. að upphæð 500 þús. kr. Kvennasögusafn Íslands er heimildarsafn til sögu íslenskra kvenna. Það var stofnað 1. jan. 1975 og á sér hliðstæðu í nágrannalöndunum og er tilgangur sá að stuðla að því að rannsaka sögu kvenna. Sums staðar á Norðurlöndum er þetta orðinn sjálfsagður þáttur í háskólabókasöfnum eða þjóðarbókhlöðum og er ýmist í sérstökum deildum eða á hendi sérstaks bókavarðar. T. d. í Svíþjóð og Danmörku er þessi starfsemi kostuð af opinberu fé. Þetta er þáttur í hinni nýju kvennahreyfingu og mikilvægur þáttur í því sem sumir hafa nefnt vitundarvakningu. Tilgangurinn er kannske fyrst og fremst sá að færa sagnfræðina í rétt horf, fylla í þær eyður sem sagnfræðingar og mannkynsfræðarar hafa vanrækt og þar með viðurkenna að kvenfólk eigi sér sögu og hafi komið við sögu. Kvennasögusafn Íslands er sjálfseignarstofnun. Þetta er framtak þriggja kvenna: Önnu Sigurðardóttur, Elsu Míu Einarsdóttur og Svanlaugar Baldursdóttur, sem hafa allar til að bera þá þekkingu og þann dugnað sem þarf til að stofna og reka slíkt safn, en safnið er rekið í heimahúsi og bókakaup og önnur starfsemi, sem safninu tilheyrir, er vissulega kostnaðarsöm. En ég vil geta þess, að margir sækja safnið heim, m. a. námsmenn við Háskóla Íslands sem leitað hafa til safnsins vegna náms síns. Ég tel, að safnið hafi þegar á þessu fyrsta ári sannað gildi sitt, og legg til. að því verði veittar 500 þús. kr. til rekstrar.“ Ræða á Alþingi: 1. mál, fjárlög 1976

Alþingismannahvatning flutt á kvennafrídaginn 1975:

Svava Jakobsdóttir -kvennafri„Viljum við að konur séu eingöngu vinnuafl í fiskiðnaði, en hafi hvergi bein áhrif á, hvernig þær auðlindir sem atvinna þeirra byggist á, eru hagnýttar? Viljum við að konur sæti tvöföldu vinuálagi en komist ekki í nægilega sterka valdaaðstöðu til þess að framkvæma þær félagslegu úrbætur sem þarf til að afnema það? Viljum við launamisrétti? ... Vinnuframlag kvenna réttlætir þá kröfu að þær ráði þessu þjóðfélagi til jafns við karla.“

„Konur, við höfum kosningarétt
og kunnum því gjarnan að flíka.
En hitt virðist gleymast harla létt,
þótt hömrum við á því jafnt og þétt,
að við knúðum fram kjörgengi líka. ...“

Femínískar bókmenntir

Hvað er í blýhólknum (1970).

„Ingólfur: Ég geri stórfelldar áætlanir fram í tímann.
Inga: Ég skúra, skrúbba og baka tertur.
Ingólfur: Ég hef reiknað út, að ég geti sparað þjóðinni minnst 10 milljónir gjaldeyris á ári.
Inga: Ég hef reiknað út, að lögin geti orðið fjögur.
Ingólfur (lítur spyrjandi á hana).
Inga: Í tertunni.
Ingólfur: Ég tel, að við ættum að geta aflað íslenzkum snyrtivörum markaða erlendis.
Inga: Ég tel, að neðst eigi að vera öskulag.
Ingólfur (lítur undrandi á hana).
Inga: Ég meina . . . möndlulag.
Ingólfur: Að minnsta kosti í Evrópu.
Inga: Þar næst svampur.
Ingólfur: Jafnvel í Ameríku.
Inga: Svo marsípan.
Ingólfur: Eftir 5 ár ætti ég að vera kominn á toppinn.
Inga: Og efst er marengs.
Ingólfur: Hvaða voðalega eyðirðu af peningum. Hvað kostar þessi terta eiginlega?
Inga: Heilt líf, Ingólfur minn, heilt líf.“
(Textinn var fenginn af facebook síðu Þorgerðar Þorvaldsdóttur (1968-2020) sem birti hann árið 2017)

Brot af lesefni um og eftir Svövu

Eftir Svövu:

Bækur

Viðtöl við Svövu:

Tímaritsgreinar:

Óprentaðar lokaritgerðir: 

Svava Jakobsdottir 1982 ljosmyndasafn RVK facebook

*Kvennasögusafn Íslands er skjala- og upplýsingasafn um sögu kvenna. Við tökum við hvers kyns einkaskjölum; bréfum, dagbókum, fundargerðarbókum o.s.frv. Hafið samband til að afhenda slík skjöl.*

*Höfundur: Rakel Adolphsdóttir
*Fyrst birt í september 2020
*Síðast breytt 7. október 2020