Carrie Chapman Catt

300px-CarrieChapmanCatt

Úr Kvennablaðinu 27. nóvember 1906:

Kvennastórfundurinn í Kaupmannahöfn í sumar

Kvennabl. átti fyrir löngu að flytja myndir af ýmsum helztu konum frá stórfundinum í sumar, því að eg hélt, að mönnum væri forvitni á að sjá hvernig þessar konur líta út, sem ferðast land úr landi til að vekja áhuga kvennanna á manngildi og mannréttindum sínum og berjast fyrir þeim, ekki með oddi og egg, heldur með skýrum og rökfræðilegum sönnunum.
     Ein hin merkasta þeirra, er að allra dómi Mrs. Carrie Chapman Catt, forstöðukonan fyrir Kosningaréttarheimsfélagi kvenna (»The International Woman Suffrage Alliance«). Hún hefir gengið á háskóla í Ameríku og tók þegar í æsku að veita því eftirtekt, hvað verkakonum væri mikill óréttur ger í vinnulaunum og fleiru, gagnvart karlmönnum. Frá því var stutt spor til að rannsaka, hvernig réttindi kvenna væru almennt fyrir borð borin. Og því meira, sem hún hugsaði um þetta, því sannfærðari varð hún um að ræturnar að þessari rangsleitni gagnvart konum, og þroskaleysi þeirra, væri að finna í kúgun þeirra og yrði að eins bætt með því, að veita þeim fullkomin pólitísk réttindi. Hún var ekki fult þrítug, þegar hún byrjaði, og vinnur enn óþreytandi að sama takmarki. Hún var gift Catt, ritstjóra eins af merkustu blöðunum í New-York, og hann hjálpaði henni með ráði og dáð, lagði fram fé til ferðalaga og annara útgjalda. Hann lézt í fyrra vetur, og af því, að hún er barnlaus, bindur hana nú enn þá færra við heimilið.
     Það var fljótlega tekið eftir stjórnarhæfileikum hennar, og hún var í einu hljóði valin til forstöðukonu í nefnd þeirri, sem átti að koma föstu skipulagi á kosningaréttarfélögin, og var hún sett yfir aðalstöðina. Árið 1900, þegar Susan B. Anthony sagði af sér forstöðunni í ameríska landsfélaginu, þá óskaði hún eftir að Mrs. Catt yrði eftirmaður sinn. Hún var þá valin hér um bil í einu hljóði af fulltrúunum frá öllum kosningaréttarfélögunum. 
     Hún hefir ferðast um þvera og endilanga Ameríku í fyrirlestraferðum, og þykir varla eiga sinn líka í mælsku. Hún skýrir málið svo ljóslega og rökstyður svo að ekki verður í móti mælt. Öll framkoma hennar er svo prúð og kvenleg, að hún vinnur málinu, ef til vill, eins mikið gagn með henni og ræðum sínum. Hún talar hátt og snjalt og alvarlega, en hefir þó jafnan ýmsa fyndni á reiðum höndum, sem gerir ræðuna léttari og skemtilegri. Sem fundarstjóri er hún svo óhlutdræg, að sagt var í sumar, að hún væri eins og réttlætisgyðjan, nema að því eina leyti, að hún væri ekki blind. Hún er glögg og gætin og finnur jafnan orðum sínum og fyrirskipunum þann búning, sem bezt á við í hvert sinn. Dómgreind hennar, hagsýni, gætni, óhlutdrægni og prúðmennska eru þeir kostir, sem gera hana flestum færari til að stjórna svo stóru og víðlendu félagi og koma góðri skipun og reglu á hvervetna. Hinn brennandi áhugi hennar og sannfæring um réttmæti þessa máls og trú á heppileg úrslit þess, hrífur alla með, jafnvel þá, sem áður voru efablandnir.