Clara Zetkin

Zetkin_luxemburg1910-litilClara Eiβner fæddist 5. júlí árið 1857 í litlu þorpi í Saxlandi.  Faðir hennar, fátækur bóndasonur, var kennari og organleikari.  Móðir hennar var dóttir fransks liðforingja sem hafði eftir byltinguna í Frakklandi árið 1848 orðið prófessor við háskólann í Leipzig.  Hún tók nokkurn þátt í að skipuleggja fyrstu kvennahreyfinguna í Þýskalandi.  Clara ólst upp á þeim tímamótum þegar hið borgaralega lýðræði var að taka við af lénsskipulagi miðaldanna.  Hún var alin upp við borgaralegt víðsýni í skoðunum og setti reynsla æskuáranna mark sitt á skoðanir hennar æ síðan.  Sem gömul kona sagði hún frá þeirri miklu neyð sem bæði iðnaðar- og landbúnaðarverkafólk bjó við á æskuárum hennar. Árið 1851 setti prússneska keisaradæmið, sem meirihluti Þýskalands tilheyrði, lög er bönnuðu konum að vera í stjórnmálasamtökum og skipuleggja fundi.  Þessu banni var ekki aflétt fyrr en árið 1908 og mótaði mjög þróun kvennahreyfinga í Þýskalandi sem urðu að starfa leynilega eða í skjóli karlmanna.

Clara nam í skóla Ágústu Schmidt sem var þekktasti kvennaskóli Þýskalands.  Þar hlaut hún ágæta almenna menntun auk sérmenntunar á sviði kennslufræða og útskrifaðist með hæstu einkunnir í sínum árgangi. Konum var þá ekki leyfður aðgangur að háskólum í Þýskalandi og efnahagur foreldra hennar leyfði ekki að Clara lærði erlendis, t.d. í Sviss.  Clara tók að sér kennslustörf eftir námið en sá alla tíð mjög eftir því að hafa ekki átt þess kost að læra meira.

Um 1880 voru öll umbótaöfl í Þýskalandi ofsótt og um það leyti fór Clara að taka virkan þátt í þjóðmálum, einkum innan Þýska sósíaldemókrataflokksins þótt hún gæti ekki lögum samkvæmt orðið meðlimur.  Árið 1882 hélt hún til Parísar með manninum sem hún elskaði, rússneskum, landflótta byltingarsinna, Ossip Zetkin að nafni, en honum var þá vísað frá Þýskalandi.  Þau giftust árið 1883 eignuðust tvo syni, Kostja og Maxim.  Clara tók af eldmóði þátt í hinni frönsku og þýsku verkalýðshreyfingu.  Auk þess stundaði hún nám í þjóðfélagsfræði, sögu, hagfræði og heimspeki. 

Ossip dó úr berklum í París árið 1889.  Um svipað leyti var Clöru boðið að flytja ræðu á stofnþingi Annars Alþjóðsambands verkamanna sem haldið var í París árið 1889. Orðstír hennar fór við það vaxandi innan verkalýðshreyfingar Evrópu.  Árið 1890 neitaði þýska þingið að staðfesta lög Bismarcks um bann við starfsemi sósíalista og Clara gat snúið til Þýskalands á nýjan leik.  Árið 1891 tók hún að sér forstöðu hins rótttæka kvennablaðs Die Gleichheit (Jafnréttið).  Hún ritstýrði blaðinu í 25 ár og gegndi þá jafnframt forystuhutverki í þýskri og alþjóðlegri kvennahreyfingu.  Hún rakti undirokun kvenna til þess að þær væru fjárhagslega háðar eiginmönnum og hefðu ekki sama aðgang að atvinnu og þeir.

Clara Zetkin giftist aftur árið 1899 listamanninum Friedrich Zundel.  Þau voru barnlaus.

Clara vann ötullega að skipulagningu kvennafélaga í Þýskalandi.  Hún komst smátt og smátt á þá skoðun að konur yrðu að stofna félög án karlmanna til þess að öðlast kjark og reynslu í ræðumennsku.  Ungu, sósíalísku kvennasamtökin sem blómguðust vel undir forystu Clöru Zetkin urðu brátt fyrir ofsóknum yfirvalda.  Fundir þeirra sem annarra kenna voru bannaðir um mestallt Þýskaland, ræðukonum var varpað í fangelsi og kvennasamtökin leyst upp.

Þegar banninu á stjórnmálaþátttöku kvenna var aflétt árið 1908 hófst Clara Zetkin þegar í stað handa við að byggja upp kvennadeild í Þýska sósíalistaflokknum.  Hún beitti sér fyrir því að konur innan flokksins héldu sérstök flokksþing og að sérstök skrifstofa var stofnuð hjá Alþjóðasambandi verkamanna sem hafði það hlutverk að samræma störf kvennafélaga og miðla upplýsingum.

Clara Zetkin beitti sér einnig fyrir því að konur sameinuðust í hugsjóninni gegn styrjöldum.  Árið 1915 skipulagði hún í Bern alþjóðlegt kvennaþing gegn stríði.  Clara Zetkin var einlægur sósíalisti og vildi lítt blanda geði við ,,borgarlegar“ konur því henni fannst þær ekki skilja hlutskipti verkafólks.  En frá þessu þingi voru sendar systurlegar kveðjur til þings kvenna fyrir friði og frelsi sem haldið var í Hag.

Clara Zetkin dvaldi langdvölum í Sovétríkjunum eftir byltinguna.  Hún sat í framkvæmdaráði Komintern á árunum 1921-1933 og var um tíma forseti Rauðu hjálparinnar.  Hún var afar áberandi innan hinnar alþjóðlegu kommúnistahreyfingar og studdi málstað Sovétríkjanna í flestu.  Þó sagði hún sig úr framkvæmdaráði Komintern um tíma í mótmælaskyni við ákvarðanir sem höfðu verið teknar er vörðuðu ítalska kommúnistaflokkinn.  Á okkar tímum er Clara Zetkin þó þekktari fyrir kvenfrelsishugsjónir en pólitíska baráttu.  Kenning hennar tók um flest mið af vinnumarkaði og efnahagsstöðu og hún snerti ekki á efnum eins og kynferðismálum.  Þó er vitað að hún talaði fyrir einkvæni og var á móti fóstureyðingum og getnaðarvörnum, eins og svo margir sósíalistar þeirra tíma.

Síðustu æviárin lifði Clara Zetkin við heilsuleysi og missti að mestu sjónina.  Þegar Þýskaland gekk nasismanum á hönd hóf hún þó enn einu sinni upp raust sína.  Hún hafði verið kjörin á þing fyrir kommúnista fyrst árið 1920 og var nú aldursforseti þýska Ríkisdagsins.  Í síðustu ræðunni sem hún hélt þar 30. ágúst 1932 skoraði hún á allt friðelskandi fólk í Þýskalandi og heiminum öllum að sameinast gegn þeirri vá sem steðjaði að.  Clara Zetkin lést í Moskvu í júní 1933.  Keri með ösku hennar var komið fyrir í Kremlarmúrnum á Rauða torginu.

 

Heimildir:

Mallachow, Lore, 1960.  Clara Zetkin.  Ihr Leben in bildern.  Verlag Enzyklopädie Leipzig.

Dornemann, Luise, 1957.  Clara Zetkin.  Ein Lebensbild.  Dietz Verlag Berlin.

Slaughter, Jane & Robert Kern (ritstj.), 1981.  European Women on the Left.  Socialism, Feminism and the Problems Faced by Political Women.

 *Auður Styrkársdóttir tók saman árið 2002