Dec 7, 2019

5. desember kaffi Kvennasögusafns


Þann 5. desember 2019 hélt Kvennasögusafn Íslands hið tvíárlega morgunkaffi sitt í samvinnu við Kvenréttindafélag Íslands. Fundurinn hófst klukkan átta og fór fram í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðunnar.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir frá Kvennasögusafni Íslands opnaði fundinn.

Arnheiður Steinþórsdóttir, MA-nemi í sagnfræði, kynnti lokaritgerð sína úr grunnnámi: Þegar konur lögðu undir sig útvarpið. Ritgerðin fjallar um útvarpsþætti Kvenréttindafélags Íslands og Kvenfélagasambands Íslands í Ríkisútvarpinu 1945-1954. Fjallað var um tilveru og tilgang þáttanna á dagskrá Ríkisútvarpsins ásamt því að skoða helstu efnistök erindanna sem þar voru flutt. Þá var gripið niður í nokkur þeirra útvarpserinda sem varðveitt eru á Kvennasögusafninu en hvert erindi sem þar leynist er óneitanlega merkilegur hluti af sögu kvenna í Ríkisútvarpinu.

Anna Dröfn Ágústsdóttir, fagstjóri fræða við Hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ, og Lóa Auðunsdóttir, lektor í grafískri hönnun, kynntu rannsóknarverkefnið Ásýnd íslenskrar kvennabaráttu, sjónrænni rannsókn þar sem baráttuefni kvennabaráttu er skoðað, greint og rannsakað út frá sjónrænum einkennum, táknfræði, prent- og framleiðsluaðferðum. Ætlunin er að finna þræði í myndmáli, áhrif frá alþjóðlegum hreyfingum og greina séríslensk sjónræn einkenni. Í fyrsta hluta rannsóknarinnar, sem unninn var á Kvennasögusafni var einblínt á baráttumyndmál Rauðsokkanna. Margrét Aðalheiður Þorgeirsdóttir, útskriftarnemandi frá grafískri hönnun, vann að því verkefni með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, lokaði fundinum.

Fundurinn var vel sóttur og fór vel fram.

Á myndinni frá vinstri: Arnheiður Steinþórsdóttir, Lóa Auðunsdóttir, Anna Dröfn Ágústsdóttir og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir.

5.des.jpg