Anna Sigurðardóttir fæddist 5. desember 1908. Hún stofnaði Kvennasögusafn heima hjá sér, ásamt Elsu Miu Einarsdóttur og Svanlaugu Baldursdóttur. Safnið opnaði svo formlega á Landsbókasafni 5. desember 1996, skömmu eftir andlát Önnu.
Við höldum áfram að heiðra minningu hennar sem og allra þeirra sem komu að stofnun og framgangi Kvennasögusafns með því að halda á lofti framlagi kvenna til samfélagsins í gegnum aldirnar.
Þá þökkum við þeim sérstaklega sem hafa á árinu, sem og undanfarin 49 ár, gefið okkur þær heimildir sem þarf til að minni kvenna lifi með þjóðinni. Hvert sendibréf, hver fundargerðabók, ljósmynd, vegabréf, heimilisbókhald sem okkur er treyst fyrir að varðveita um ókomna tíð er dýrmætt fyrir okkur.
„Það, sem óprentað er í fórum fólks heima hjá sér, stundum kannski bara í kassa uppi á háalofti, er í yfirvofandi hættu. Þeir, sem það eiga eða hafa varðveitt kannski frá því náinn ættingi lést, geta sjálfir fallið frá áður en varir, og lítið hirðusamir afkomendur vilja ekki líta við þessu drasli, og henda því í ruslatunnuna eða setja það á bál. ... kvennasögusafnið í London sem nú hefur húspláss á fjórum hæðum, byrjaði aðeins með tvær hillur af bókum. ... Kvennasögusafn Íslands beinir þeim tilmælum til allra, sem eiga í fórum sínum einhvers konar fróðleik um konur lífs og liðnar, að sjá um að sú vitneskja fari ekki í glatkistuna. Skiptir ekki máli, hvort þau gögn verða geymd í héraðsskjalasafni, opinberu bókasafni eða Kvennasögusafni Íslands, aðalatriðið er að heimildum sé haldið til haga. Safna þarf og varðveita bréf og dagbækur kvenna, ýmiskonar prentað og óprentað efni (ljóð og vísur, sögur og ritgerðir), ljósmyndir, prjóna- og hannyrðamunstur, mataruppskriftir og ótal margt fleira.“ Anna Sigurðardóttir í ræðu 1975, líklega hjá Húsmæðrafélaginu
(Tilvísun tilvitnunar: KSS 4, askja 36. Tilvísun ljósmyndar: KSS 3, ljósmynd 15, ljósmyndari ónafngreindur en er líklega Ari Kárason fyrir Þjóðviljann)