Feb 2, 2024

Kjörgripur mánaðarins: Póesíbók Kristínar Vídalín Jacobson


Nú í febrúar eru liðin 160 ár frá fæðingu Kristínar Vídalín Jacobson (1864–1943), stofnanda og fyrsta formanns Hringsins sem fagnaði einmitt 120 ára stofnafmæli sínu í janúar síðastliðnum. Þá átti hún hlut í stofnun Bandalags kvenna í Reykjavík 1917 og sat um tíma í stjórn þess.

Kristín var lærð myndlistarkona en hún var við Kvennakademíuna í Kaupmannahöfn 1893-1894 og er jafnan talin vera fyrsta íslenska konan sem stundaði akademískt myndlistarnám. 

Ekki eru til mörg skjöl tengd Kristínu á skjalasöfnum landsins svo vitað sé, en þó er varðveitt einstaklega falleg póesíbók hennar á handritasafni sem var afhent þangað 15. desember 1975 af dóttur Kristínar, Helgu Jónsdóttur Potter. Forsíða bókarinnar skartar handsaumuðum blómum og í hana rituðu ýmsar þjóðkunnar persónur á árunum 1893 til 1937, meðal annars þær Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Jarþrúður Jónsdóttir og Ingibjörg Brands (Lbs 4714 4to). Bókin er kjörgripur mánaðarins á Landsbókasafni og hefur verið gerð aðgengileg á vefnum handrit.is af því tilefni.

Skjalasafn eiginmanns Kristínar, Jóns Jacobson, landsbókavarðar og alþingismanns, er varðveitt á handritasafni (Lbs 43 NF). Eins er skjalasafn Hringsins varðveitt á Kvennasögusafni (KSS 9) og er töluvert af því ritað með hendi Kristínar. Þá er skjalasafn Bandalags kvenna einnig á Kvennasögusafni (KSS 2018/20). 

Texti: Rakel Adolphsdóttir. Heimild: Björg Einarsdóttir, Hringurinn í Reykjavík. Stofnaður 1904 – Starfssaga, Reykjavík 2002. 

Hringurinn

Lbs47144toSkjamynd.jpg